Enn geisar galdrafár á Íslandi

Nú var það haustið 1652 að mikill og óhugnalegur faraldur kom upp í Trékyllisvík. Segir Pétur á Ballará svo frá því: „Það haust kom ókyrrleiki og plága af vondum öndum og draugi í Trékyllisvík, með því móti að oft á einum degi og einkum í kirkjunni, þá prédikað var, vissu menn ei betur en að hann hlypi ofan í kverkar á fólki, svo það fékk mikla ropa og síðan ofurfylli, en það létti af, fann það á sér ekkert mein. Fengu það þær kvenpersónur, sem óspilltar píkur voru.“

Þetta varð ekki neitt stundarfyrirbrigði, því að allan þann vetur og næsta sumar geisaði þessi undarlegi faraldur þar. Er svo sagt, að þessi ósköp sækti helst á kvenfólk í kirkjunni, meðan á messu stóð. Féllu þær þar niður hver af annarri „með hljóðum, mási, froðufalli og ofboði, svo oft voru úr kirkjunni út bornar 4, 5, 10, 12 og fleiri á einum helgum degi, hvað skelfilegt var, en miklu skelfilegra á slíkt að horfa og nálægur vera,“ segir í Fitjaannál. Kvað svo rammt að þessu, að Þorvaldur prestur þóttist eigi geta sungið messu fyrir hljóðum þeirra og illum látum. Þótti þetta að vonum ekki einleikið, og gerðust menn sannfærðir um, að hér væri göldrum um að kenna.“

Þegar á þessu hafði gengið í hálft annað ár, þóttist Þorleifur sýslumaður ekki geta hjá setið. Lét hann þá grípa þann mann, er Þórður hét Guðbrandsson og talinn var „mestur galdramaður í Strandasýslu“. Var honum stefnt að Árnesi, og þar skipaði sýslumaður tólf menn í dóm til þess að fjalla um mál hans. ... Vildi Þórður þá ekkert meðganga, og sáu dómendur sér ekki annað fært en að dæma hann til að hreinsa sig með tylftareiði af grun um fordæðu og galdur.

Þessi texti er í Frásögnum eftir Árna Óla um Undrin í Trékyllisvík þar sem fjallað er um galdrafár sem Þorleifur Kortsson taldi ljóst að ákveðnir menn væru ábyrgir fyrir.

Enn geisar galdrafár á Íslandi. Vondir andar og draugar hlaupa ofan í fólk. Þess vegna þarf að finna blóraböggla, ljúga upp á þá sekt og brenna opinberlega á Austurvelli.


mbl.is Þungbær og erfið niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband