Hefur einhver misfarið með almannafé?

Jafnaðarmenn í Svíþjóð eru í miklum pólitískum vandræðum. Áður stjórnuðu þeir því landi kjörtímabilum saman, annaðhvort fyrir eigin afli eða vegna hlutleysis lítils flokks vinstra megin við þá. Nú mælist fylgi þeirra aðeins tæplega 28 prósent.
Núverandi formaður Jafnaðarmanna, Mona Sahlin er með nokkuð skrautlegan feril og varð í tvígang að gera hlé á setu í forystusveit krata vegna vandræðamála sem hún flækti sér í.
Annað málið, sem þótti mjög alvarlegt þar í landi, snerist um misnotkun hennar í persónulega þágu á greiðslukorti sem hún hafði til afnota sem ráðherra.
Ýmsir fréttaskýrendur halda því reyndar fram að það erfiða mál sé enn að þvælast fyrir flokksformanninum og sé helsta ástæða þess að hana skorti trúverðugleika.
Fjárhæðirnar sem málið snerist um voru ekki háar, nokkrir tugir eða hundruð þúsunda. En talið var að þar sem ráðherrann var ekki trúr í smáu væri hæpið að treysta honum fyrir þjóðarhagsmunum.
Fróðlegt væri að vita hvort slík mál hefðu komið upp hér á landi og jafnvel í mun stærri stíl en hjá sænska kratanum. Og hvort slíkur aðili yrði talinn geta farið með ráðherradóm.
 
Staksteinar í Morgunblaðinu er eitt áhugaverðasta efnið í gjörvöllu blaðinu. Stundum eru þeir meinlegir, sérstaklega fyrir vinstri stjórnina þó margir aðrir kveinki sér. Og svo kemur fyrir að þeir hafi undirliggjandi meiningu sem vekur athygli. Umfram allt eru þeir yfirleitt afar vel skrifaðir.
 
Í dag birtist þessi pistill sem hér er birtur og í honum eru einhver skilaboð sem mér eru dulin en eflaust er þar verið að benda á einhvern ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem hefur misfarið með almannafé.
 
Spurningin er því þessi: Hver er maðurinn og hversu langt er í að einhver segi af sér áður en allt fer í tóma vitleysu. Nema auðvitað að verið sé að tala um fyrrverandi utanríkisráðherra sem telst mesti „besserwisser“ norðan Alpafjalla.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband