Forkastanleg vinnubrögð Landsbjargar

Fréttin vekur hins vegar þá spurningu hvers vegna Landsbjörg sendir fréttatilkynningu í fjölmiðla þegar svo virðist sem mennirnir séu í engri hættu; þeir eru í símasambandi og í þokkabót eru þetta vanir fjallamenn. Eins og fréttin er skrifuð ættu ættingjar og vinir að þekkja mennina, einn Dana og einn Íslending á ferðalagi saman.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Landsbjörg lætur vaða út fréttatilkynningu um útkall rétt í þann mund sem leitarflokkar eru að fara af stað. Svona vinnubrögð eru forkastanleg og ættu ekki að þekkjast. Þau bera vitni um mikla sjálfselsku og eigingirni. Björgunarsveitir eiga alls ekki að segja frá svona ferðum fyrr en þær eru afstaðnar.

Laust fyrir miðnætti bárust björgunarsveitinni þau skilaboð að mennirnir sæju til blárra blikkandi ljósa björgunarsveitarinnar í Þórsmörk.

Sé þetta rétt sem segir í fréttinni þá eru ferðamennirnir annað hvort komnir af Fimmvörðuhálsi eða þá að engin þoka er á Hálsinum. Líklegra þó að hið fyrrnefnda sé réttara.

Segja má að Fimmvörðuháls takmarkist að norðan af Bröttufannarfelli eða hugsanlega Heljarkambi. Ómögulegt er að segja að Hálsinn nái lengra. Í suðri takmarkast hann af Skógaheiði sem að öllum líkindum nær upp á hrygginn þar sem Fúkki stendur.


mbl.is Tveir týndir á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Hvað eru menn að gera þarna núna þarna á engin að vera á ferð!

Sigurður Haraldsson, 5.7.2010 kl. 00:29

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Svo get ég ekki séð að það sé neitt sem bendir til þess að "Landsbjörg" hafi gefið út þessa fréttatilkynningu...

Það er engin "Björgunarsveitin Landsbjörg" til samkvæmt mínum upplýsingum en það er til nokkuð sem heitir Slysavarnafélagið Landsbjörg. En það er nafnið á heildarsamtökum sem innihalda yfir 100 björgunarsveitir sem heita hinum ýmsu nöfnum.

Félagið heitir svo Slysavarnafélagið Landsbjörg svo því sé haldið til haga og er ég ekki hrifinn af styttingunni niður í "Landsbjörg", enda alinn upp á hreinu svæði Slysavarnafélags Íslands...

Með slysavarnakveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 5.7.2010 kl. 00:35

3 identicon

Tengist þú þessu máli eitthvað sjálfur?

Ég skil stundum ekki alveg hvað moggabloggarar eru að fara, en nú er ég alveg lost. Hvað er slæmt við það að láta vita af því að útkall sé í gangi í þessu tilfelli?

Guðmundur Ólafsson (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 02:15

4 Smámynd: Hjálmar Jónsson

Það grætilegasta af öllu við þetta að þyrlan Gná var líka send af stað í þetta helvítis bull... Engin furða að gæslan sé á hausnum.

Hjálmar Jónsson, 5.7.2010 kl. 02:59

5 Smámynd: Gunnar Kristinn Björgvinsson

Sæll Sigurður.

Þó ég hafi ekki komið að þessu útkalli er málið mér skylt þar sem ég hef starfað í björgunarsveit í um 20 ár og starfað með björgunarsveitarfólki nokkuð lengur. 

Ég man því þá tíma þegar farið var með upplýsingar um leitir eða björgunarstörf eins og mannsmorð, ekkert mátti segja og enginn mátti tjá sig fyrr en eftir að allt var búið.  Þetta varð til þess að alls konar ýkjusögur og ruglusögur komust á kreik sem síðan tók fleiri daga, vikur eða mánuði að leiðrétta.  Sumar þeirra hafa því miður enn haldið lífi og særa bæði aðstandendur viðkomandi jafnt sem björgunarsveitarmenn.

Þessar sögur fara jafnvel enn hraðar af stað nú á dögum internets og sms og allra þeirra boðleiða sem eru í gangi í dag.  Hvort sem Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu líkar betur eða verr verðum við að vera meðvituð um að það að koma réttum upplýsingum á framfæri er betri kostur en að þegja og láta Gróu á Leiti um að segja sögurnar.

Hvort það var rétt að segja að um íslending og dana væri að ræða er ef til vill umdeilanlegt.  Það er rétt að þeir sem vita um ferðir viðkomandi vita nú hverjir óskuðu eftir aðstoð.  En það segir líka þeim sem þekkja einhverja á ferð um hálsinn sem EKKI eru íslendingur og dani að þeir geti andað rólega.  Einnig kemur fram að mennirnir eru í símasambandi við umheiminn og sjá ljósið - og eru því heilir á húfi. Ættingjar og vinir geta því andað léttar.

Að ætla að þegja eitthvað í hel á tímum upplýsingaaldarinnar hefur aldrei gert neitt annað en að koma af stað röngum og misvísandi fréttum.  Þess vegna sendir SL frá sér fréttatilkynningar.  Sama gera Slökkviliðið, Landhelgisgæslan, Lögreglan, Útivist, Ferðafélag Íslands og margir fleiri sem fylgjast með gangi tímans. 

Hvað verðar staðfræðina, sem virðist þér ofarlega í huga, vil ég nefna nokkur atriði. Er enda upp alinn á þessu svæði.

Talað er um að leitað sé á Fimmvörðuhálsi.  Miðað við fréttina voru tvímenningarnir að stefna að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi - er því ekki eðlilegt að reikna með að meginþungi leitarinnar hafi beinst að því svæði? 
Eða jafnvel að því svæði sem í daglegu tali er kallað "gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls" sem nær frá Skógum yfir í Goðaland?  Ég skil ekki þennan æsing yfir þessu atriði.

Annars nær Skógaheiðin bara upp í Landnorðurstungur (Tungur). Skilin eru óljós en ungum var mér sagt að þau væru við gróðrarskil, sem má segja að sé rétt við vaðið svo við tölum um kennileiti sem allir þekkja.

Eins vil ég benda þér á, svo þú getir haft staðreyndir að leiðarljósi, að það er enginn skáli á þessu svæði sem heitir Fúkki.  Maður sem heldur slíku fram getur ekki gagnrýnt aðra fyrir að fara rétt með staðreyndir.

Skálinn heitir Baldvinsskáli, nefndur eftir Baldvini Sigurðarsyni.

Bestu kveðjur;
Gunnar Kr. Björgvinsson,
áhugamaður um útivist, björgunarsveitarmaður, Mýdælingur og fyrrverandi skálavörður í Básum.

Gunnar Kristinn Björgvinsson, 5.7.2010 kl. 03:54

6 Smámynd: Gunnar Kristinn Björgvinsson

Mýrdælingur átti það nú að vera..

Og færslan átti ekki að vera svona löng, en áhuginn ber mann oft um langar vegleysur - líkt og í útivistinni....

kv. GB

Gunnar Kristinn Björgvinsson, 5.7.2010 kl. 03:57

7 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Oft skilur maður ekki hversvegna farið er í fjölmiðla með þessi útköll - nema að um auglýsingamensku sé að ræða.

Mér finnst nægja að björgunarsveitarmenn fái boð um að mæta -

Lögreglan fær ótal útköll á hverjum sólarhring - ef þeim væri öllum gerð skil á fjölmiðlum yrði það mikill lestur/áhorf.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 5.7.2010 kl. 06:28

8 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ólafur Ingi, það er munurinn á lögreglu og björgunarsveitum að ef við í björgunarsveitunum erum að þessu fyrir ekki neitt... Löggan fær borgað fyrir sína vinnu... :)

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 5.7.2010 kl. 07:16

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir athugsemdirnar. Best að taka það fram að ég tengist þessu máli ekki neitt. Veit engu að síður að útköll eru tilkynnt til fjölmiðla því sem næst um leið og útkall á sér stað og skiptir þá engu máli hvort náðs hafi í aðstandendur. Þeir fá í flestum tilvikum að vita um óhappið í fjölmiðlum og þess vegna er fréttin slæm. Þetta er allt hluti af því prótókolli sem Landsbjörg notar.

Hér er ekki verið að æsa sig yfir neinu heldur málefnaleg umræða um verkefni sem eru hvað efst á verkefnalista Landsbjargar vegna útkalla. Landsbjörg notar ÖLL útköll til að hreykja sér af hvort sem þau eru þess eðlis að draga bíl upp úr læk eða eitthvað sem raunverulega er fréttnæmt. Þess vegna skrifaði ég pistilinn. Ekki reyna að halda því fram að t.d. þessi frétt mbl.is hafi ekki komið beinustu leið frá Landsbjörgu.

Fjölmiðlar birta það sem Landsbjörg sendir þeim. Óski Landsbjörg eftir því að ekki verði neitt birt um útkall munu fjölmiðlar áreiðanlega virða það.

Fúkki er nafn á skála sem er ónýtur og hefur verið það í mörg ár. Hann er eigendum sínum til háborinnar skammar og alls góður vitnisburður um á sem byggðu hann og engum greiði gerður með að láta hann heita eftir einhverjum sómamanni. Fúkki heitir hann vegna stækrar fúkkalyktar í honum og Fúkki mun hann heita þangað til hann verður rifinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.7.2010 kl. 08:18

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er löngu liðin tíð að hægt sé að "geyma" fréttir af útköllum og björgunarleiðöngrum. Farsímar og alhliða fjarskipti nútímans gera það að verkum að þetta spyrst út um leið.

Vísa að öðru leyti í blogg mitt í dag um þetta efni. 

Ómar Ragnarsson, 5.7.2010 kl. 08:46

11 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tilgangurinn með fréttatilkynningu Landsbjargar er fyrst og fremst að hreykja sér af útkalli. En félagið þarf þess ekki. Almenningur veit að Landsbjörg vinnur gott starf. Hins vegar er ekki allt fréttaefni. Margt má vinna hljóðlega. Finnst mönnum það í lagi að birta frétt og láta aðstandendur lesa eða heyra um málið í fjölmiðlum? Eflaust er ekki hægt að geyma fréttir en fjölmiðlar vilja oft sýna liðlegheit og sanngirni.

Maður í skemmtiferð féll á vélsleða í sprungu á Vatnajökli fyrir um tíu árum. Sá sem leiddi hópinn í ógöngur var sjálfur björgunarsveitarmaður og átti alfarið sök á að maðurinn féll niður í sprunguna. Sá sagði á staðnum að það væri djöfullegt að ná ekki í hann Ómar Ragnarsson sem var í um 20 km fjarlægð á leið í aðra átt. Þrautaráðið var þá að hringja í útvarpið. Og það gerði hann svikalaust um leið og hann hafði skilað af sér þeim slasaða. Var hópurinn þó þarna í skemmtiferð.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.7.2010 kl. 08:58

12 Smámynd: Gissur Þórður Jóhannesson

Ég ætla ekkert að blanda mér inn í þetta einstaka mál. En vil benda á að björgunarstörf Slysavarnafélagmanna á hálendinu hljóta að vera einn hlutinn af ferðaþjónustinni sem rekin er í landinu.

Gissur Þórður Jóhannesson, 5.7.2010 kl. 09:36

13 Smámynd: Garðar Þór

Bíddu bíddu...

Hvað er að því að Landsbjörg sendi frá sér fréttatilkynningu um að leit sé í gangi?
Hver boðar Landsbjörgu í leit? Mér finnst gott að vita að björgunarsveitirnar eru að störfum og þá er líka hugur minn hjá ættingjum og góðum vinum sem eru í þessu starfi. Einnig hefur það komið fyrir að vinir og tengslamenn þeirra sem leitað er að hafa lesið fréttir um leitina og gátu komið með nytsamar upplýsingar fyrir leitina.

Mér finnst svoldið fyndið og í raun fávitalegt að maður eins og þú Sigurður sem gasprar um allt og ekkert hér á blogginu setjir út á tilkynningar um hvað aðrir eru að gera! Slepptu því bara að lesa fréttir sem þú hefur ekki áhuga á.

Hér eftir kalla ég bloggið þitt Fúkkabloggið! Nafnið hentar vel miðað við lýsingu þína á Baldvinsskála.

Garðar Þór, 5.7.2010 kl. 11:08

14 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Garðar Þór. Þakka þér fyrir skýra og greinargóða athugasemd.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.7.2010 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband