Eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi - myndir
16.6.2010 | 01:06
Nú hafa orðið slíkar breytingar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli að það er engu líkar en allt sem maður hefur hingað til upplifað sé bara einn stór misskilningur.
Var jökull þar sem á kortum er sagður vera Eyjafjallajökull? Þar er allt svart og varla frekar í ljósan díl að sjá frekar en á Skarðsheiði um sumarmál eða á Vatnsdalsfjalli um sláttinn.
Eyjafjallajökull var sagður virkt eldfjall en það var líklega bölvuð vitleysa enda hafði enginn séð þar eldgos, - jæja, fyrr en hann gaus ...
Og Fimmvörðuhálsinn var þakinn sísnævi sem forðum var nefndur Lágjökull, og þar stóðu upp úr tindar og hnúkar sem merki um forna eldvirkni.
Aldrei fyrr hefur nokkur lifandi maður séð eld á Hálsinum og ekkert segir í annálum eða fornum draugasögum um eldgos.
Hins vegar er að finna á Hálsinum fimm fornlegar vörður við litla fellið sem við höfum leyft okkur að kalla Fimmvörðufell og það án leyfis Örnefnanefndar.
Og ekki lýgur Þórður í Skógum sem segir að frá fornu fari hafi menn jafnvel rekið fé yfir Hálsinn til að koma því í sælureitina norðan við hann.
Ég hef tvisvar farið upp á Fimmvörðuháls frá því 22. maí. Gengið einu sinni yfir, frá Skógum og í Bása.
Um síðustu helgi, 12. júní fór ég upp á Háls á jeppa upp með framkvæmdastjóra Útivistar og fleirum til að finna færa gönguleið yfir nýja hraunið. Við ókum rétt upp fyrir Fúkka, sem flestir þekkja. Þangað er nokkuð torleiði, fyrst og fremst fyrir ofan vað.
Nýja hraunið á Hálsinum er mjög torfarið. Það er ójafnt og grjótið óstöðugt. Það má því heita leggjarbrjótur.
Við fundum samt góða leið og þarf nú ekki lengur að troða hraunið. Ég ætla að bíða með að segja frá gönguleiðinni en birti þess í stað myndir af svæðinu.
Ég veit að heitasta ósk margra er að ganga upp á eldfellin tvö. Ástæða er að vara við því.
Bæði er að hraunið og gjóskan í fjallinu er mjög óstöðugt. Víða eru sprungur og gjótur sem geta verið hættulegar.
Mér finnst ekki ólíklegt að fjöllin eigi eftir að breyta talsvert um svip á næstu árum. Raunar sé ég mun á ljósmyndum af fjallinu sem ég tók með þriggja vikna millibili.
Hin ástæðan fyrir því að ég vara við ferðum á fjöllin eru þessar fallegu útfellingar sem víða er að sjá og einnig skrýtin, gráleit skurn sem hylur þau að hluta til. Ég kann ekki að útskýra skurnina neitt frekar en bendi á að hún er víðast þar sem mikill hiti er undir og undir skurinni er smágerð rauðamöl.
Það er engin ástæða til að troða á henni og skemma, betra að horfa á hana tilsýndar.
Ýmislegt þarf að gera á Fimmvörðuhálsi. einna helst þarf að setja upp varúðarskilti svo fólk fari sér ekki að voða inni á gígasvæðinu.
Einnig væri tilvalið að setja upp upplýsingaskilti á Bröttufannarfelli þar sem sér yfir til beggja eldfellanna. Á þeim ætti að vera fróðleikur um þau, til dæmis stærð, eðli eldgíganna, stærð hraunsins og svo framvegis.
Myndirnar
Efsta myndin er nokkuð sérstök. Hún er af stórum kletti í miðju hrauninu, nokkuð neðarlega. Í hrauninu er enn mikill hiti og einhverjar útfellingar fylgja hitaútstreyminu og falla á grjótið. Liturinn er ekta gulur. Grái liturinn er aska úr Eyjafjallajökli.
Á mynd nr. 2 er hrauntröð eða hraunrenna. Þarna hefur myndast einhvers konar renna, hraunið hefur kólnað til beggja hliða en nægur hiti hefur verið í miðjunni til að það hefur runnið nokkra vegalengd.
Mynd nr. 3: Hraunið er furðulegt. Á einum stað hefur það runnið yfir snjó án þess að bræða hann allan. Og undir snjónum er lítill hellir, nógu stór til að hægt sé að skríða inn í hann. Ekki hafði ég áhuga á að kanna lengd hans, fannst tilgangslítið að uppgötva hana en fá í staðinn nokkur tonn í hrygginn. Lái mér hver sem vill.
Mynd nr. 4 er af hitablettum í hrauninu. Þeir þekkjast á litnum og útfellingunum. Þetta er í raun stórkostleg sjón í miðri svart-hvítri sviðsmynd.
Mynd nr. 5: Þarna eru göngufélagar mínir komnir á hraunið skammt frá gígfellinu sem Örnefnanefnd vill að heiti Móði en ég vil nefna eftir fjármálaráðherranum. En það er nú önnur saga þó fróðleg sé.
Mynd nr. 6: Hér erum við komin inn í Móða eða Steingrím. Síðasta eldvirknin í gígnum hefur áreiðanlega verið í strýtunni sem ber í fólkið.
Ég gekk auðvitað að henni og kíkti inn í sprungu sem liggur yfir hana endilanga. Mér brá því við mér blasti gímald og ljóst að ég stóð á ansi hreint veiku hrauni sem gat þá og þegar hrunið.
Þarna er brýnt að fólk fari afar varlega og raunar hætti sér ekki inn í gíginn. Allt er svo ótraust og varhugavert (það er í raun ástæðan fyrir því að ég vil nefna eldfellið eftir fjármálaráðherranum).
Mynd nr. 6 er af gríðarlegu jarðfalli í minni gígnum, Móða/Steingrími. Mér sýnist að þetta sé ekki gígur heldur sé hann aðeins neðar. Hugsanlega hefur kvika tæmst innan í gígnum og valdið þessu hruni. Og það sem meira er, fleiri loft geta verið á þessum slóðum sem geta hrunið á óheppilegustu stundu.
Mynd nr. 6 er einstaklega áhugaverð þó svo að skilningur minn á jarðfræði sé afar takmarkaður. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þarna er eitthvað afar merkilegt.
Hér á undan hef ég nefnt skurnina sem liggur víða á eldfjöllunum tveim og umhverfi þeirra. Þarna sést hún greinileg og undir er smágerð rauðamöl. Mér fróðari menn eru vísir til að skýra þessa mynd sem og aðrar fyrir mér og lesendum. Myndin er tekin ofarlega í minni eldfellinu.
Mynd nr. 7 er af einhvers konar brennisteinsútfellingum á stóra eldfellinu sem Örnefnastofnum vill að heiti Magni en ég vil nefna eftir forsætisráðherr þjóðarinnar af auðskiljanlegum ástæðum, en það er nú önnur saga.
Litirnir eru hreint ótrúlegir og auðvitað magnast þeir upp í umhverfinu sem eiginlega er bara svart.
Mynd nr. 8 er tekin efst af Magna/Jóhönnu. Mér þykir það ákaflega leitt að segja frá því að ég gekk á fjallið. Ég veit það núna að ég hefði ekki átt að gera það og enginn ætti að ganga þangað upp af þeim ástæðum sem ég rakti hér að undan.
Aðalmálið er að mikil umferð fólks mun skemma áferð fjallsins ef ég má taka svo til orða. Skurnin mun brotna og það veðrast mun fyrr en ella.
Ég vil höfða til skynsemi fólks og þeirra tilfinningar sem fólk á að bera í brjósti til landsins. Ekki troða niður fallegar náttúruminjar vegna hégómlegrar tilfinningar. Það er ekki þess virði að hafa gengið á fjallið en um leið eyðilagt það sem þar er að sjá. Ég sé hrikalega eftir því að hafa gengið þarna upp.
Mynd nr. 9: Um leið og ég skrifa þetta birti ég enn eina mynd af toppi stærra eldfellsins (hér til hægri). Sú mynd hefur allt annað yfirbragð en sú hér á undan. Litirnir eru aðrir, grænir og gulir, og í baksýn er sem fyrr svartur Hálsinn.
Mynd nr. 10: Hér sést slóð niður af öxl, austan við stóra eldfellið. Efst rýkur gufa úr slóðinni og þar var engin gufa fyrir. Greinilegt að mikill hiti er undir.
Mynd nr. 11: Og loks er hér mynd af Magna, stóra eldgígnum á Fimmvörðuhálsi. Þarna hefur úfið hraunið skriðið sunnan með fjallinu og ef það hefði haldið áfram hefði það tekið á rás ofan í Suður-Hvannárgil.
Takið eftir gráu flekkunum í fjallinu. Þeir eru þessi umrædda skurn sem ég hef svo oft nefnt.
Til samanburðar birti ég 12 myndina. Hún var tekin 22. maí. Að vísu ekki nákvæmlega á sama stað. Ef þær eru stækkaðar, tvísmellt á þær, má sjá að á þeim er nokkur munur. Talsvert hefur til dæmis hrunið úr fjallinu.
Mynd nr. 13 er líka tekin þann 22. maí. Ég birti hana bara vegna þess að mér þykir hún falleg. Hún er tekin um miðnætti. Horft er til vesturs yfir gufuna sem leggur upp úr hrauninu og í fjarska eru gráar hlíðar Eyjafjallajökuls. Doldið svona mystisk mynd, ekki satt?
Síðasta myndin, sú nr. 14 er af göngufólki sem veður blauta öskuna á Fimmvörðuhálsi. Ef til vill á ég eftir að birta fleiri myndir af öskulögum á Hálsinum. Þær eru ekkert verri en önnur lög ...
Og nú er nóg komið í bili
Líklega slakað á lokun í Þórsmörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta nafni, stórfróðleg samantekt Þú ættir að vera á launum við að kanna og kynna okkur ástandið á jöklinum og á hálsinum. Ef ykkar Ómars Ragnarssonar nyti ekki við vissum við ósköp lítið um ástandið.
Sigurður Ingólfsson, 16.6.2010 kl. 12:54
Bestu þakkir fyrir hlýja kveðju, nafni. Kitlandi að vera borinn saman við Ómar, sem ber höfuð og herðar yfir samtímamenn sína. Ég held áfram að líta upp til hans.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.6.2010 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.