Sótt um ferðaleyfi á Eyjafjallajökul

dsc00048.jpg

Almannavarnir ríkisins.

Í ljósi þess að veitt hafa verið leyfi til að fara á Eyjafjallajökul óskar undirritaður eftir að fá ferðaleyfi um jökulinn vestanverðan.

Undirritaður er alvanur fjallamaður og þekkir Eyjafjallajökul afar vel. Hann hefur fara á hann ótal sinnum á síðustu árum, skrifað um hann leiðarlýsingar, gefið út bók um Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökul, ritað lýsingar á eldgosunum á Hálsinum og jöklinum og staðháttum svo eitthvað sé nefnt.

Ætlunin er að fara með þremur til fjórum alvönum fjallamönnum úr ferðafélaginu Útivist. Þeir þekkja jökulinn ekki síður en undirritaður. Saman hafa þeir og undirritaður gengið á flesta jökla landsins og farið á fjölmörg fjöll saman.

Reynsla og þekking undirritaðs og samferðamanna hans á fjallaferðum og náttúru landsins er gríðarlega mikil og ætti þar af leiðandi ekki áhyggjuefni Almannavarna vegna þessa erindis.

Markmiðið er að ganga á fjallaskíðum upp frá Langanesi, skammt vestan við Grýtutind. Haldið verður síðan upp með Skerjunum og að Guðnasteini.

Áætlað er að gangan upp að Guðnasteini taki um þrjár til fjórar klukkustundir. Dvalið verður tiltölulega skamman tíma uppi og farið aftur niður sömu leið eftir myndatökur.

Lagt verður á jökul um leið og veðurspá er trygg fyrir dagsferð. Spáð er til dæmis vestlægum vindum alla næstu viku.

Með kveðju,

Sigurður Sigurðarson

 

Ofangreint bréf var sent fyrr í dag á Almannavarnir ríkisins í ljósi þess að bandarískir sjónvarpsmenn fá að fara á Eyjafjallajökul sem er yfirlýst og háheilagt bannsvæði og þeim sem brjóta gegn banninu munu líklega fá verri útreið en útrásarvíkingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Myndin var tekin á Eyjafjallajökli árið 2007 en ekki þótti þorandi að senda hana með bréfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er ekki verið að reyna að bæta fyrir ótímabærar yfirlýsingar forsetans varðandi eldgosið og mögulegt eldgos í Kötlu?  Jákvæður fréttaflutningur 60 minutes er örugglega meira virði en þessar 300 milljónir sem Ferðamálasamtökin fá í kynningarstarf

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.5.2010 kl. 17:40

2 Smámynd: Þórarinn Baldursson

Það ER fólk á jöklinum og við hann!Drífðu þig af stað Sigurður og láttu reina á þetta.

Þórarinn Baldursson, 1.5.2010 kl. 18:22

3 Smámynd: Hamarinn

Þú ert bjartsýnn. Þú verður að hafa erlent sjónvarpstökulið með þér til að fá leyfið.

Hamarinn, 1.5.2010 kl. 19:35

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sko, ég verð með einn kúlupenna ... eeeeinn skrúfblýant ... vaaasabókina (sem ég hef skrifað doldið mikið í, en nokkrar síður eru þó lausar) ... oooog eina Nikon D80 myndavél með 4 GB korti og svo mitt alkunna góða skap! Þetta ætti nú að vigta slatta upp í sama mikilvægi og eitt stykki útlent sjónvarpstökulið.

Nei, Þórarinn. Valdstjórnin væri vís með að senda lögregluna á eftir mér. Sjáðu bara hvað gert var við krakkana sem sprengdu smábombu í héraðsdómi. Eitt fótspor á jökli gæti þýtt enn stærra og jafnvel varanlegt mark á afturendann.

Mikið er ég nú sammála þér Jóhannes. Setja á smáaura í kynningarstarf erlendis. Þetta er einhvers konar þykjustuleikur, svo hægt sé að segja að „eitthvað“ hafi verið gert. Mikið lifandis skelfingar ósköp á þessi ríkisstjórn erfitt.

Ferðaþjónustan hlær ... ég meina grætur út af þessu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.5.2010 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband