Er hægt að skrúfa fyrir öskuframleiðsluna?

Gríðarlegt efnahagslegt áfall steðjar nú að Evrópu og raunar öllum heiminum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Ástæðan er einfaldlega sprengigosið í toppgígnum sem ógnar flugumferð til og frá Evrópu og getur valdið efnahagslegum vandamálum víða um heim.

Askan verður til vegna þess að jökullinn bráðnar og vatnið kemst í snertingu við glóandi hraun og gríðarlegar sprengingar verða. Einnig getur askan myndast vegna þess hversu mikið gas er í kvikunni þegar hún þeytist upp á yfirborðið með hrauninu og sprengingar verða, hraunið sundrast og við það myndast aska. Gott og vel, tvær skýringar eru þá á öskuframleiðslunni. 

Er ísinn vandamálið? 

Sé ástæðan fyrst og fremst sú fyrrnefnda má velta því fyrir sér hvað gerist ef enginn eða miklu minni jökull er í toppgígnum. Mun þá öskuframleiðslan leggjast af? Verður gosið þá eins og gerðist á Fimmvörðuhálsi, stórt gos án ösku, og áhrifin á flugumferð verði þar af leiðandi hverfandi miðað við stöðuna í dag.

Þegar hraunrennsli ógnaði höfninni í Vestmannaeyjum grunaði skynsömum mönnum að með vatnskælingu væri hægt að draga úr rennslihraða hraunsins og jafnvel bjarga höfninni. Það reyndist rétt hugsað. Kælingin flýtti fyrir kólnuninni, hraunið stirðnaði og myndaði fyrirstöðu móti rennslin, það hlóðst upp eða fékk sér annan farveg.

Með ákveðnum aðgerðum er hægt að eyða ísnum í nágrenni eldsprungunnar í toppgígnum. Til dæmis mætti varpa niður sérstökum sprengjum sem fyrst og fremst sundra og mynda gríðarlegan hita sem bræðir ísinn nægilega mikið til að vatnsframleiðslan hætti og hraun geti runnið. Þar með hætta sprengingarnar.

Tveir óvissuþættir 

Tæknilega séð er þetta mögulegt. Tveir óvissuþættir eru þó í þessu. Annars vegar um vilja stjórnvalda eða landsmanna til aðgerðanna og hins vegar hvort gassprengingarnar séu þess eðlis að öskuframleiðslan haldi áfram þrátt fyrir vatnsleysi í kringum eldsprunguna.

Engu að síður eru afar mikilvægar efnahagslegar forsendur fyrir því að hugleiða þessa lausn. Ella getum við Íslendingar horft fram á langvinnt gos sem hafi alvarlegar afleiðingar á slakan efnahag okkar. Ferðaþjónustan skaðast, markaðir íslenskra útflytjenda tapast, innflutningur dregst saman, matvælaframboð minnkar og fleira má nefna.

Um leið kann þetta að valda meiriháttar vandamálum í heiminum, kreppan dýpkar, framleiðni minnkar, hagvöxtur lækkar og afleiðingin kemur síðast en ekki síst í bakið á okkur. 

Ég er á þeirri skoðun að hugleiða þurfi spurninguna sem er fyrirsögn pistilsins, annað væri tómt rugl. 


mbl.is Bíða gjóskufallið af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband