Á að verja náttúruna fyrir náttúrunni?
31.3.2010 | 11:35
Bæði er að með spurningunni er krafist ígrundaðs svars um vandann og erfitt er að komast hjá því að það hafi nokkurs konar útlokunaráhrif.
Sá sem er á móti því að verja náttúruna fyrir náttúrunni getur til dæmist horft fram á það að Þingvellir leggist undir hraun. Sá sem er vörnunum hlyntur gæti hins vegar séð fram á meiriháttar rask við að verja til dæmist stað eins og Þingvelli og það rask getur jafnvel verið meira en sá óskundi sem hraunið veldur.
Hér eru tvær myndir sem ég tók af Foldum í Goðalandi og horft til Réttarfells og Valahnúks. Sú efri var tekin árið 2001 og sú seinni 2009.
Greinilegt er að Krossá hefur þarna eyðilagt gríðarlegt landflæmi sem hafði gróið ágætlega upp. Þeir sem hlyntir eru vörnum gegn ágangi náttúrunnar segja áreiðanlega að þessar myndir sýni hversu eyðileggingaröflin eru ágeng. Vilja menn til dæmis að Krossá fái að brjótast alveg inn í Bása og eyðileggi útivistarsvæðið? útivistarmenn eru ekki á þeirri skoðun og nú hefur verið settur grjótgarður sem á að varna frekari ágangi fljótsins.
Sá sem er á móti vörnum getur væntanlega haldið því fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem land grær upp á Krossáreyrum og eyðileggist síðan af sömu öflum og áttu þátt í því að græða það upp - sjálfri náttúrunni.
Svo koma tvær aðrar myndir til samanburðar. Báðar eru teknar af sama stað, rétt fyrir ofan þar sem áður var brú yfir Hrunaá. Horft er yfir Krossáraura til Búðarkletts.
Efri myndin var tekin um 2001 og sú neðri í fyrra sumar.
Munurinn er sláandi. Hrunaá er ólíkindatól. Hún er miklu vatnsmeiri en Krossá og í vætutíð getur hún hlaupið fram og rutt frá sér öllu sem á vegi hennar verður.
Það gerði hún fyrir tveimur árum og eyðilagði brúna og ekki nóg með það, tók af veginn allt frá brúarstæðinu og niður að Strákagili.
Ekki er mikið eftir af gróðrinum sem hafði náð að vaxa og græða upp Krossáraura á þessum slóðum. Sé nánar rýnt í efri myndina sjást þó gamlir og grónir farvegir Hrunaár og Krossár.
Svona gerast nú kaupin á eyrinni eða ætti ég að segja á Krossáraurum.
Nú er komið að stóru spurningunni. Hvað eigum við að gera þegar (eða ætti ég að segja ef) hraunið rennur úr Hrunárgili og fram á Krossáraura. Erum við tilbúinn að láta skeika að sköpuðu og leyfa hrauninu að veltast á milli hlíða, brenna og skemma kunnuglega staði?
Eigum við að leyfa náttúrunni að breyta landinu á þann hátt sem við myndum aldrei leyfa okkur sjálfum að gera.
Á neðstu myndinni, sem ég tók síðasta sumar, sjáum við niður alla Krossáraura, því sem næst frá fjallinu Gelti. Í fjarska sést Réttarfell og fyrir miðri mynd er Valahnúkur.
Þetta er stórkostlegt land, það vita allir sem þarna hafa verið, og það kann að vera í hættu en hversu mikilli veit maður ekki. Ég er ekkert sérstaklega trúaður á þá kenningu að hugsanlegt hraunrennsli haldi sig fyrir miðjum dalnum og láti hlíðarnar beggja vegna í friði. Krossá hagar sér ekki þannig og því skyldi glóandi hraun gera það?
Spurningin er heldur þó gildi sínu: Er réttlætanlegt að verja náttúruvinjar fyrir náttúruöflunum?
Ég hvet alla sem treysta sér í rökræðuna til að skrifa í athugasemdakerfið, rökstyðjum skoðun okkar og forðumst alhæfingar eða sleggjudóma.
Litlar breytingar á skjálftavirkni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst allt í lagi að gera varnargarða til að aftra því að vatnsflóð skemmi fallegar gróðurvinjar. Spurningin hlýtur þó að vera: "Hvað mega varnirnar kosta?"
Varðandi hraunflóðið... þá er auðvitað hægt að hægja á því með vatnsdælingu og hugsanlega að búa til rás fyrir það og beina því þangað sem það veldur minnstu tjóni. En þá erum við líka að tala um "manngerða" náttúru, en margir eru andvígir slíku.
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 11:54
Þarna kemur þú með spurningu sem ákaflega erfitt er að svara með einföldum hætti, en að sama skapi er þetta nokkuð sem ég hef sjálfur velt fyrir mér.
Nú vitum við ekki hvort hraunið nær að renna fram úr Hrunagili, en ef við skoðum aðeins hvaða afleiðnigar það getur haft, eru eftirfarandi möguleikar fyrir hendi:
1. Hraunið rennur niður á aurana og stöðvast þar eða það stöðvast í gilinu sjálfu.
2. Hraunið fer alla leið og lokar fyrir árfarvegi í dalbotninum.
Fari hraunið ekki alla leið er, að mínu mati, ekkert sem ætti að reyna að gera til að sporna við því.
Fari hraunið aftur á móti alla leið yfir dalbotninn gætu afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar, ekki bara fyrir gróður, eða aurana, heldur gæti það orði til þess að stífla árrennslið. Það myndi að sjálfsögðu leiða til þess að þarna myndaðist uppistöðulón, sem enginn veit í raun hvaða áhrif hefði á svæðið. Það náðist að stöðva eða breyta stefnu rennandi hraun í Vestmannaeyjum á sínum tíma með sjókælingu, en þarna er spurning hvort sú aðferð myndi duga; er nóg vatn, hvaða rask yrði af slíkri framkvæmd og hefði það einhver áhrif á hraunrennslið að reyna kælingu ?
Mér hefur hingað til þótt það slæmt inngrip í eðli náttúrunnar að gera einhverja tilraunir til að hafa áhrif á framganginn, en kannski má meta það í hverju tilviki fyrir sig. Þá kemur næsta spurning; hver á að ákveða hvað er gert og hvenær ?
Við sjáum það víða um land hve mikil áhrif við getum haft á náttúruna, til dæmis með landgræðslu, skógrækt osfrv.
Kannski hef ég ekki svarað spurningunni beint en velt upp mínum sjónarmiðum og vonandi lagt eitthvað til málanna.
Kveðja frá Danmörku
Steinmar Gunnarsson, 31.3.2010 kl. 12:21
Hvað gerist þegar móðir jörð byrjar að ygla sig í Kárahnjúkum??? Ekki hef ég hugmyndaflug til að spá í það. Gangi okkur öllum sem best. M.b.kv. Anna
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.4.2010 kl. 00:39
Hvernig getum við vitað að varnirnar muni ekki hindra myndun enn verðmætari og fallegri náttúru en fyrir er?
Hvað ef núverandi "landmynd" hefði verið frá okkur tekin með "vörnum" fyrr á öldum ef slíkt hefði verið mögulegt?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.4.2010 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.