Hvað ef ...? Betri upplýsingar vantar?
11.3.2010 | 10:08
Fyrir nokkrum misserum var samskonar skjálftahrina við Upptyppinga og nú er í Eyjafjallajökli. Þar var jafnvel búist við eldgosi og margir spakir menn kenndu Hálslóni um ósköpin. Þyngd þess hafi valdið breytingum á jaðarskorpunni og því væri eldgos væri óumflýjanlegt.
Nú er minn kæri Eyjafjallajökull kominn í ham og jarðhræringarnar virðast vera svipaðar og forðum við Upptyppinga. Fróðlegt væri nú ef fréttamenn gengu á jarðvísindafólk og öfluðu enn frekari upplýsinga og settu þær í samhengi.
Eftirfarandi leikur mér forvitni á að vita:
- Hvaða máli skipta upptök jarðskjálfta miðað við hugsanlegt eldgos eða staðsetningu þess?
- Á vef Veðurstofunnar eru upptök jarðskjálfta sýnd grafískt á sjálfvirkan hátt. Er mögulegt að sýna samsvarandi grafíska útfærslu á upptökum jarðskjálfta miðað við dýpt þeirra?
- Skjálftarnir eru nú að langmestu leyti í kringum toppgíginn en engu að síður er sagt að kvikuinnskotin, sem valda þeim, geti skotist í Kötlu og hreinlega valdið gosi þar. Er eitthvað til í því?
- Eru einhver líkindi með skjálftavirkninni í Eyjafjallajökli og þeim við Upptyppinga og í Grímsvötnum fyrir eldgos þar?
- Hversu langvinnt getur skjálftavirknin verið í Eyjafjallajökli án þess að til eldgoss komi?
- Miðað við upptök skjálftanna, hvar eru mestu líkur á að eldgos brjótist fram? Er viðkvæmasta svæðið undir toppgígnum, á Fimmvörðuhálsi eða jafnvel í hlíðum jökulsins.
Svo gætu fréttamenn skoðað betur áhættusvæðið í kringum Eyjafjallajökul og fjallað eitthvað um það. til dæmis væri fróðlegt að vita hvaða áhrif eldgos í Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli gæti haft á ferðaþjónustuna í Þórsmörk og Goðalandi.
Einnig væri fróðlegt að vita hvort eldgosi í Eyjafjallajökli gæti fylgt stórflóð með aurburði og grjóti sem hugsanlega gæti stíflað Markarfljót til skamms tíma, hvað þá?
Áfram viðbúnaður almannavarna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Facebook
Athugasemdir
Áhugaverðar pælingar hjá þér, Sigurður
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2010 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.