Hnignun Laugardalslaugar

IMG_2110Laugardalslaug er frekar sóðaleg. Það er ekki starfsmönnum að kenna, miklu frekar borgaryfirvöldum sem virðist vera nákvæmlega sama um laugina, veita ekki nægt fé til viðhalds og þrifa.

Vegna heimsfaraldursins voru sundlaugar landsins lokaðar frá 23. mars til 18. maí. Í Laugardalslaug var tíminn notaður til viðhalds. Sundlaugargestir komu í vel þrifna búningsklefa með nýlökkuðu tréverki og allt ilmaði af hreinlæti og gleði. Sumir stungu sér í laugina en aðrir renndu sér fótskriðu í pottana. Lífið var gott.

Svo tóku ýmsir góðborgarar eftir smáatriðunum sem höfðu gleymst. Rennurnar í lauginni voru óþrifnar, þær eru grænar, þó ekki fagurgrænar. Tröppur upp úr lauginni voru jafn skítugar og fyrr. Við pottana voru tvær efstu tröppurnar svo skítugar að þar áttu smágerð skorkvikindi lífvænlegt landnám. Skíturinn hefur síðan haldið áfram að safnast þar saman og jafnvel á milli potta. Blátt plast sem einhvern tímann var sett á bakka laugarinnar og víðar er sums staðar orðið grænleitt af óþrifum.

IMG_2066Þegar rignir lekur vatn ofan úr stúkunni og ofan í saltpottinn og lekandinn heldur áfram um tíma þó stytt hafi upp.

Má vera að handriðin við pottana hafi verið lökkuð meðan á lokuninni stóð. Það breytir því ekki að þau voru og eru enn kolryðguð. Ryðbrunnið gat er á handriði á austasta heita pottinum og hugsanlega fleirum.

Í svokölluðum nuddpotti eru gráar ólar sem pottagestir geta stungið höndum sínum í. Þær hafa varla nokkru sinni verið þrifnar og eru orðnar dökkar af skít eftir núning þúsunda handa. Eflaust má í þeim greina ótal lífsýni. Skyld'ann Kári vita af'essu?

Fyrir nokkrum dögum var einn góður sundlaugargestur orðinn svo þreyttur á sóðaskapnum að hann greip í sundlaugarvörð og benti honum á nokkur atriði sem hér hefur verið minnst á. Sá kom af fjöllum.

IMG_2114„Næturvaktin sér um þrifin,“ sagði vörðurinn, en lofaði að koma athugasemdum á framfæri. Daginn eftir var búið að þrífa, að minnsta kosti að nafninu til.

Hér hefur ekki verið fjallað um búningsklefana og gesti af báðum kynjum sem fara ekki í sturtu og menga því laugarvatnið fyrir öðrum. Um það má skrifa langan pistil.

Myndirnar sem fylgja voru teknar eftir „þrifin“. Af þeim má ráða að enn er mikið verk óunnið. Sumir myndu orða það þannig að komin sé tími á gagngera endurnýjun á lauginni.

Myndirnar skýra sig sjálfar. Þó má vekja athygli á einni. Greina má að tvær plöntur hafa skotið rótum í tröppum ofan í heitan pott (sjá neðstu myndina). Hugsanlega er þetta smári. Já, það er líf í laugunum, jafnvel eftir lokun.

IMG_2069 bSvo eru það tæknimálin. Fyrir kemur að sturturnar verða sjóðheitar og stundum ískaldar. Sjaldnast eru pottarnir með sama hitastigi frá einum degi til annars. „Þetta er ónýtt drasl,“ sagði sundlaugarvörður þegar kvartað var við hann. Líklega er það rétt, lagnir og stýritæki eru örugglega jafngömul lauginni sem opnuð var árið 1968.

Hversu lengi á að bjóða gestum upp á svona sundlaug? Hvernig stendur á því að Laugardalslaug er ekki lengur besta sundlaugin í Reykjavík?

En ágæti lesandi, ekki spyrja mig hvers vegna ég fer nær daglega í þessa laug.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. september 2020.

Síðan hefur svolítið verið unnið að þrifum. Mikið er ógert. Enn er eftir að þrífa rennur laugarinnar. Bakkarnir eru óásjálegir sem og gamli plastdúkurinn sem settur var fyrir óralöngu á kanta laugarinnar. Niðurstaðan er sú að fyrir löngu er kominn tími á endurnýjun. Betri er ný laug en kattarþvottur.

Kjallari er hringinn í kringum laugina. Mér er sagt að veggir hennar séu stífaðir svo þeir falli ekki inn. Þar að auki munu þeir vera sprungnir og lekir.

Skyld’ann Davíð Dagur vita af’essu?


Fárra daga könnun, náði sér í veiruna og veita styrkveitingar

Orðlof

Bæ, bæ

Smáorðið er kunnugt sem upphrópun í fornu máli og fram í nútímann en notkun þess sem kveðju í merkingunni ’halló’ er naumast eldri en frá síðasta þriðjungi 20. aldar, t.d.:

Hæ (öll); Hæ, manni; Hæ, þú þarna.

Hér gætir áhrifa frá ensku: hi (eftirhermuorð) eða hey. Smáorðið , einnig bæ-bæ, er í nútímamáli einnig notað sem kveðja í merkingunni ’bless’. 

Það er fengið úr e. good-by, good-bye, samandregin mynd úr God be with ye (Klein), sbr. enn fremur e. bye; bye-bye (barnamál) (Klein).

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og …“

Frétt á visir.is.                                   

Athugasemd: Hvar er vettvangur? Orðið er skilgreint svona á málið.is:

vettvangur, véttvang(u)r, ’víttvangur k. ’staður þar sem e-ð gerist, atburðasvið, mótstaður’. Af vétt- ’bardagi, víg’ og vangur ’völlur’. Upphafl. merk. ’vígvöllur, staður þar sem barist er’. Sjá vetfang, vætt- (3), vega (3) og víg.

Þetta er afar fróðlegt. Hins vegar dugar ekki blaðamanni að tala um vettvang án þess að tilgreina hann nánar því þeir eru margir. Blaðamenn og þar með ljósmyndarar fara víða og bera fréttir til lesenda. Í þessu er sannleikurinn fólginn. 

Vettvangur er ábyggilega sá staður sem eitthvað gerist. Þar ég datt á skíðum og meiddi mig lítilsháttar var vettvangur. Ragnar var ekki þar. Vinkonur mínar hittust á kaffihúsi og þar var vettvangur þeirra. Ragnar var ekki þar. Ungir menn börðu á liggjandi manni í Bakarabrekku í Reykjavík. Ragnar var ekki þar. Af þessu má draga að vettvangur þarf ekki að vera þar sem orðið hafa slys eða óhöpp. Ragnar starfar ekki á vettvangi þó hann hafi komið að þeim mörgum.

Tillaga: Ragnar hefur tekið myndir víða í meira en fjörutíu ár og …

2.

Um leið og vél­in lenti tóku marg­ir af sér grím­una um leið.“

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Orðalagið um leið getur merkt strax. Blaðamaðurinn hefur eflaust ekki lesið yfir skrif sín. Hafi hann gert það hefði hann átt að lagfæra. Eða að hann er gjörsamlega óvanur skrifum og margt í fréttinni bendir til að svo sé.

Tillaga: Þegar vél­in lenti tóku marg­ir af sér grím­una.

3.

„Háar upp­hæðir til nets­vindlara.

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Eru upphæðir það sama og fjárhæðir? Líklega er það svo núorðið.

Einhvern tímann heyrði ég þetta haft eftir Bjarna Benediktssyni (1908-1970), forsætisráðherra:

Drottinn allsherjar er í upphæðum, en peningar í fjárhæðum.

Frá því í KFUM í gamla daga man ég eftir að í Biblíunni segir:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Stundum bregst skrifurum bogalistin og vitandi um fjárhæðir skrifa þeir „peningafjárhæðir“ sem er bjánalegt orð. Fer í flokk með orðum eins og  „ákvarðanataka“, „valkostur“, „bílaleigubíll“, „pönnukökupanna“ svo eitthvað sé nefnt.

Tillaga: Svíkja fólk um háar fjárhæðir á netinu.

4.

„Taka verður fárra daga könnunum með gát, en óneitanlega eru sveiflurnar miklar.“

Forystugrein Morgunblaðsins 1.9.20.                                   

Athugasemd: Hvað eru „fárra daga kannanir“? Þarna er fjallað um skoðanakannanir vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Má vera að þetta séu kannanir sem unnar eru á skömmum tíma, nokkrum dögum. Ég veit það ekki því höfundurinn er ekki nógu skýr í orðavali.

Síðar segir í forystugreininni:

Þótt ekki megi draga stórkarlalegar ályktanir af svo skömmu skeiði, er það þó afsakanlegra en þegar horft er til einnar könnunar með mikið frávik.

Þetta er illskiljanlegt. Hvaða ályktanir eru „stórkarlalegar“ og hvað er átt við með „skömmu skeiði“. Halda mætti að höfundurinn hafi þurft að stytta skrif sín og óvart þurrkað út mikilvæg orð eða setningar sem hefðu getað hjálpað lesandanum að skilja samhengið.

Í seinni forystugrein blaðsins segir:

Fyrir utan þær alvarlegu spurningar sem vakna, þegar friðsamir mótmælendur eru beittir ofbeldi, hjálpar ekki til að Bashaga þykir valdamikill í borginni Misrata, og seta hans í ríkisstjórninni hefur verið tengd þeim ítökum sem hann hefur þar. 

Enn er höfundurinn illskiljanlegur. Hvað er átt við með orðalaginu „sem hann hefur þar“?

Höfundurinn skrifar langar málsgreinar og virðist ráða þokkalega við það en hugsunin er stundum frekar óskýr. Hann ætti að láta einhvern lesa yfir skrifin. Oft eru forystugreinarnar Morgunblaðsins skrifaðar af mikilli þekkingu og skilningi á stjórnmálum, innanlands og utan en svo fá aðrir að reyna sig en gengur misjafnlega.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Neymar náði sér í kórónuveiruna á Ibiza.

Fyrirsögn á visir.is.                                   

Athugasemd: Þetta er alrangt. Maðurinn fékk veiruna. Fólk nær í hitt og þetta sem það þarf til handargagns eða næringar, kaffibolla, penna og álíka. Varla nokkur maður veikist með vilja.

Já, það var íþróttablaðamaður sem skrifaði.

Tillaga: Neymar fékk kórónuveiruna á Ibiza.

6.

„Við veitum styrkveitingar“

Auglýsing fyrir hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 4.9.20                                   

Athugasemd: Er hægt að skrifa svona skrif? Má tala svona tal? Má veita veitingar? Orðahnútar sem þessir grípa athygli hlustenda og má vera að það sé markmiðið. Seint verður þetta þó talið gullaldarmál.

Tillaga: Við veitum styrki.


Bloggfærslur 4. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband