Banki sem gerði meiri kröfur til annarra

Ýmsir eiga harma að hefna gagnvart Landsbankanum sem oft sýndi viðskiptavinum sínum litla linkinda í erfiðleikum þeirra. Bankinn lagði sig í líma við að muna allt, gleyma engu og snýtti aumum sparifjáreigendum hvenær sem hann gat. Landsbankinn var engin „félagsmálastofnun“ eins og stjórnendur þeirra sögðu oft.

Nú er hann kominn að fótum fram. Fáir gleðjast, flestir undrast hvernig komið er fyrir bankanum sem virðist ekki eiga fyrir skuldum. „Góðar líkur séu á að Landsbankinn í Bretlandi muni standa undir stærstum hluta innistæðnanna“, segir í yfirlýsingu forsætisráðherra.

Sé svo hefur bankinn hagað sér þveröfugt við það sem hann prédikaði yfir viðskiptavinum sínum. Það eitt kemur gríðarlega á óvart að Landsbankinn skuli hafa gert meiri kröfur til viðskiptavina sinna en sjálfs sín.

Verst er þó hversu illa Landsbankinn og raunar hinir bankarnir líka hafa leikið orðspor landsins í Bretlandi. Næst verst er sú staðreynd að Landsbankinn taldi okkur trú um að staða hans væri miklu betri en hún hefur reynst vera.


mbl.is Eignir standi undir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað í fjandanum á þetta að þýða?

Almenningur er auðvitað fúll yfir hinni alþjóðlegu fjármálakreppu sem riðið hefur yfir heiminn en það er óhætt að segja að flestir séu ævareiðir yfir hrikalegri stöðu íslensku bankanna.

Einhvern veginn hefur maður staðið í þeirri trú að bankarnir hafi staðið mjög vel. Allar athugasemdir frá erlendum fjármálamönnum hafa í íslenskum fjölmiðlum verið afgreiddar sem öfund og rógur. Og ekki hafa fjölmiðlar dregið úr fréttaflutningi af hinum sigursælu og snjöllu íslensku bankamönnum.

Nú stendur hins vegar forsætisráðherra Stóra-Bretlands upp og segir að Bretar sem eigi sparifé sitt á reikningum Landsbankans eigi að fá það með skilum jafnvel þó íslensk stjórnvöld þurfi að blæða.

Hinir glæstu íslensku útrásavíkingar virðast ekki hafa staðið undir gylliboðum sínum. Fólk er einfaldlega ofsareitt, svekkt vegna ofurlauna, vonsvikið vegna svika og grautfúlt vegna þess að orstír lands og þjóðar hefur beðið gríðarlega hnekki og spyr hvað í fjandanum þetta allt saman eigi að þýða.

Undrar þá einhvern að þeirri skoðun vaxi nú fylgi að ríkisrekstur banka tryggi einfaldlega velferð almennings.


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband