Skrýtinn „markaður“ ef fasteignaverð lækkar ekki

Svo virðist sem fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu breytist afar lítið þrátt fyrir fækkun kaupsamninga. Húsnæðisverð lækkar ekki og maður veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvort það sé betra að sitja uppi með dýra og óseljanlega húseign frekar en að lækka verðið.

Getur verið að það séu hagsmunasamtök fasteignasala sem kjafta upp verðið enda þeirra hagur að húsnæðisverðið sé sem hæst? Hvar er svo hin skeleggi formaður Félags Fasteignasala sem ætlaði í fyrra að vaða hreinlega í seðlabnakastjóra fyrir að spá 30% lækkun húsnæðisverðs á þremur árum og jafnvel berja hann. „Agndofa“ sagðist hún vera og hún hafði komist að því að hvorki meira né minna en öll þjóðin væri líka agndofa. Og svo ljómaði hún öll af innblásinni reiði og hneykslan í fjölmörgum fréttatímum sjónvarpsins.

Ég hélt að það vissi á gott ef Félag fasteignasala væri orðið svona neytendavænt. Hins vegar heyrðist fátt frá félaginu þegar fasteignaverð hækkaði þremur árum þar á undan um nærri 100%. Og hver var innstæðan fyrir þessari hækkun. Nákvæmlega engin, en bankarnir höfðu á sama tíma uppgötvað að þeir áttu súpu af erlendu lánsfé sem þeir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við svo þeir ákváðu að endurlána til húsnæðiskaupa innanlands. Vextirnir voru líka svo ansi fínir, aðeins 4,25%. Fyrir vikið greip sturlun fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu og allar fasteignir hækkuðu. Auðvitað tóku þeir sem gátu lán, endurfjármagnaði eignir sínar og brúkaði mismuninn í neyslu, keypti bíla og hjólhýsi, fór til útlanda og jafnvel voru sumir svo klárir að fjárfesta enn meir fyrir aurinn í bankahlutabréfum, peningabréfum og öllum fínu sjóðunum.

Ekki varaði Félag fasteignasala við þessari roslegu hækkun á fasteignaverði. Nei, félagið mátti ekki vera að því að hugsa um markaðinn, það var svo mikið að gera, mikið að selja. Svo þegar ró tók að færast yfir var Ingibjörg Þórðardóttir formaður FF spurð hvort að salan væri ekki að minnka. Nei, nei, sagði hún og hélt áfram að kjafta markaðinn upp rétt eins og forverar hennar höfðu iðkað svo áratugum skipti.

Fasteiganverðið mun lækka. Það er engin „atlaga“ að sparifé landsmanna eins og málum er háttað. Auk þess mun lækkunin seint bitna á landsbyggðinni frekar en að hún hafi notið hækkunarinnar fyrir þremur árum. Þar með er tæpur þriðjungur þjóðarinnar ekki agndofa. Unga fólkið og þeir sem ætla að kaupa sér fasteignir í fyrsta sinn munu að minnsta kosti fagna ef fasteignaverðið lækkar. Líklegast er því helmingur þjóðarinnar bara feginn og ástandið verður „eðlilegra“ hvað sem það svo þýðir á þessum síðustu og verstu tímum.


mbl.is Verulegur samdráttur í fasteignasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara talað í Helsinki - ekkert annað

Fréttir fjölmiðla hafa verið misvísandi. Fyrir fund Norðurlandaráðs var mikið talað um að forsætisráðherrar Norðurlanda ætluðu að funda um efnahagsástandið á Íslandi og mögulega aðstoð. Síðan leið og beið og þegar fundurinn var afstaðinn gerðist hins vegar ekki neitt.

Munum að engin þjóð vildi rétta Íslandi hjálparhönd fyrr en IMF hefði skoðað ástandið hér og samþykkt lán. Samkvæmt fréttum ætlar IMF að taka lánaumsókn Íslands fyrir á þriðjudaginn. Mér finnst ótrúlegt að verið sé að bíða eftir því. Hitt er miklu líklegra að engin ákvörðun hafi verið tekin um þetta efni í Helsinki og málið reki einfaldlega á reiðanum. Að öðrum kosti hefði utanríkisráðherra Noregs ekki verið að tjá sig um þessi mál.

Svo virðist sem Norðmenn skilji betur vanda Íslands. Sumir segja að það sé vegna þess að þeir eigi svo margt undir því að við göngum ekki inn í Evrópusambandið, það myndi vald meiriháttar pólitískum jarðhræringum í Noregi. Aðrir segja að Norðmenn vilji einfaldlega aðstoða Íslendinga vegna þess hve þjóðirnar tvær eru í raun nánar. Ef til vill er hin rétta ástæða einhvers staðar þar á milli.

Uppúr stendur að það er ekkert að gerast hjá hinum Norðurlöndunum og það er miður.


mbl.is Gagnrýnir hin Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband