Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hjáseta Pírata í atkvæðagreiðslum á þingi er furðuleg
26.10.2016 | 14:59
Hvað eru Píratar að gera á þingi ef þeir greiða ekki atkvæði í 33% atkvæðagreiðslna?
Á þinginu 2014 til 15 greiddi Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata ekki atkvæði í 623 skipti af þeim 968 atkvæðagreiðslum sem hann átti að vera viðstaddur. Þar að auki var hann fjarverandi í 174 atkvæðagreiðslum.
Slóðin eftir manninn er þessi:
- Já atkvæði: 138, 17%
- Nei-atkvæði: 33, 4%
- Greiðir ekki: 623, 64%
Vandséð er hvort Jón Þór Ólafsson eigi eitthvað erindi inn á þing en hann býður sig engu að síður fram.
Björn Leví Gunnarsson býður sig einni fram til þings fyrir Pírata. Hann kom inn sem varamaður á síðasta þingi og greiddi atkvæði á þennan hátt í aðeins 29 atkvæðagreiðslum:
- Já atkvæði: 4, 14%
- Nei-atkvæði: 1, 3%
- Greiðir ekki: 24, 83%
Maðurinn er svo illa undirbúinn að hann greiðir ekki atkvæði í 24 af 29 atkvæðagreiðslum. Flest bendir til að maðurinn hafi verið sofandi í þingsalnum. Á svona maður eitthvað erindi á Alþingi Íslendinga?
Í flokki Pírata eru þrír þingmenn. Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Þau greiddu atkvæði á síðasta þingi þennan hátt (að meðaltali):
- Já atkvæði: 658, 61%
- Nei-atkvæði: 38, 4%
- Greiðir ekki: 338, 33%
Þetta er ótrúleg niðurstaða og bendir til þess að Píratar sinni einfaldlega ekki vinnunni sinni eins og þeim er ætlað að gera. Nema auðvitað að þeir geti ekki haldið sér vakandi.
Miðað við þessi vinnubrögð er afar óskynsamlegt að kjósa Pírata.
Stjórnarandstaðan í 97% tilvika sammála meirihlutanum
25.10.2016 | 13:14
Í öllum atkvæðagreiðslum á Alþingi var stjórnarandstaðan sammála stjórnarsinnum í 69% tilvika. Aðeins í 3% tilvika var hún á móti.
Þetta kemur í ljós þegar opinberar upplýsingar frá Alþingi um afstöðu þingmanna eru teknar saman.
Fátt bendir til þess að stjórnarandstaðan sé hörð og óvægin við ríkisstjórnarmeirihlutann.
Nei, hún er lin. Allt annað er bara í nösunum á henni, hún er bara að sýnast. Í stað þess að vera á móti situr hún hjá í 28% tilvika. Þar skilur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Með nokkrum sanni má segja að stjórnarandstaðan sé ekki á móti stjórnarmeirihlutanum í 97% tilvika.
Stjórnarandstaðan tekur við frumvörpum og ályktunum frá ríkisstjórninni og samþykkir þau, ýmist án nokkurra mótmæla.
Í þessum 3% nei-atkvæða er forskrifað leikrit sem eiga að sýna hversu hörð hún er. Þá er hrópað, stappað, svívirðingum ausið og jafnvel er stundað málþóf. Og almenningur heldur að stjórnarandstaðan sé hrikalega töff á þinginu þegar hún er í raun og vera að missa sig út af þessum 3% nei-atkvæða.
Þetta er nú ástæðan fyrir því hversu stjórnarandstæðan nær svona vel saman. Það er nefnilega svo gaman í leikritinu, málþófinu og öllu ómálefnalega kjaftæðinu á Alþingi.
Til viðmiðunar er ágætt að skoða hvernig stjórnarliðið greiðir atkvæði. Hjá þeim er þetta nokkuð klippt og skorið. Nei-atkvæðin eru þó mun tíðari. Líklega gerist það þegar stjórnarandstaðan leggur fram breytingartillögur og þær yfirleitt felldar.
Tekið skal fram að myndirnar byggja á meðaltali greiddra atkvæða, fjarvera og fjarvistir eru ekki reiknaðar mað.
Alþingi hefur á yfirstandandi kjörtímabili safnað saman upplýsingum um atkvæðagreiðslur allra þingmanna, hvernig þeir greiða atkvæði í einstökum málum og fleira. Ofangreindar upplýsingar eru byggðar á þessum gögnum.
Loksins, loksins - formenn VG og Samfylkingar viðurkenna mistök
24.10.2016 | 16:01
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á Alþingi í júní 2009 að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan var einföld. Ríkistjórn sem kennd var við norræna velferð og skjaldborg ætlaði að sækja um aðild að Evrópusambandinu með einfaldri þingsályktunartillögu - að þjóðinni forspurðri.
Oddný G. Harðardóttir og aðrir félagar hennar í skjaldborgarríkisstjórninni hlógu sig máttlausa yfir tillögu Sjálfstæðisflokksins. Fannst hún yfirmáta heimskuleg enda ætluðu þessi sami meirihluta að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningurinn um inngönguna væri ljós. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur ... ekki nema það þó, stundi þáverandi ríkisstjórnarmeirihluti upp á milli hláturkviðanna. Samt vissu þau að enginn samningur væri í boði hjá ESB.
Ætla mætti að þeim væri ekki beinlínis hlátur í huga þessu fólki sem neitaði að spyrja þjóðina. Allt bendir hins vegar til að það telji þessi mistök sín harla léttvæg og skipti litlu. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, viðurkenndi flissandi í útvarpsviðtali að það hafi verið mistök að fara af stað með aðildarumsókn án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Staðan er einfaldlega þannig á Íslandi í dag að við munum ekki fara aftur af stað án þess að spyrja þjóðina. Þannig er bara staðan núna. Þess vegna lofum við því að við munum fara þá leið.
Þetta segir núna formaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir í viðtali við mbl.is.
Loksins tókst að toga þetta út úr báðum flokksformönnunum sem með hroka og yfirlæti höfnuðu á sínum tíma tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Afsakið, en er þessum þessum tveimur flokkum yfirleitt treystandi til að koma að stjórn landsins. Báðir guma af lýðræðisást sinni, gáfulegri stefnuskrá og vilja til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna í stærri málum.
Vinstri grænir samþykktu aðild að ESB þrátt fyrir að hafa hið gagnstæða í stefnuskrá sinni. Þeir seldu sig til að komast í ráðherrastóla.
Er eitthvað fyrirlitlegra en að svíkja stefnu sína og flokksmenn?
Ekki aftur af stað án þjóðaratkvæðis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.6.2018 kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Frábær staða Íslands samkvæmt 70 mælikvörðum
23.10.2016 | 14:59
Er hægt að trúa Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þegar hún segir að allt sé í kalda koli á Íslandi?
Eru þeir trúverðugir þingmenn stjórnarandstöðunnar, það er vinstri flokkanna og Viðreisnar, sem halda þessu sama fram?
Nei, þessir stjórnmálamenn skrökva. Þeir vita að séu ósannindi nógu oft endurtekin eru margir svo barnalegir að trúa þeim, sérstaklega ef þeir sem halda þessu fram eru svo óskaplega vingjarnleg og brosmild.
Hvernig sem litið er á málin þá er staðan glæsileg eftir þriggja ára ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þar með er ekki sagt að við getum ekki gert betur, sinnt eldri borgurum, stutt við bakið á ungu fólki við húsnæðiskaup og svo framvegis.
Grundvallaratriðið er hins vegar þetta: Ríkissjóður hefur ekki nægar tekjur til að gera allt fyrir alla, hvað þá að greiða svokölluð borgaralaun eins og Píratar halda fram. Raunar eitt það vitlausasta af mögum vitleysum sem komið hafa úr þeim herbúðum.
Lítum hins vegar á hvernig hin raunverulega staða er hér á landi.
Davíð Þorláksson, lögfræðingur, lagðist í rannsóknir á fullyrðingum vinstri manna og segir þetta á Facebook síðu sinni:
Flokkarnir sem bjóða sig fram til Alþingis, fyrir utan stjórnarflokkana, eiga það sameiginlegt að þeir telja stöðu mála skelfilega og þeir boða miklar breytingar. Maður hlýtur því að spyrja sig hvort þörf sé á breyttri stefnu eða hvort við séum á réttri leið. Skoðum nokkra mælikvarða sem ættu að gefa glögga mynd af lífsgæðum okkar. Bæði í samanburði við önnur lönd og einnig hvernig þeir hafa þróast hér síðastliðin ár.
Lífsgæði
- Jöfnuður
- Gini stuðullinn er 0,25. Þriðji mesti jöfnuður í OECD, var 0,3 árið 2008 (lægri stuðull þýðir meiri jöfnuður).
- Hamingja
- 9,6 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), önnur hæsta í OECD.
- Lífsfylling
- 7,7 (á skálanum 0-10), þriðja hæsta í OECD, Meðaltalið er 6,8.
- Fólksflutningar
- Á síðustu þremur árum hafa 4.162 fleiri flutt til landsins en frá því. Árin þrjú þar á undan fluttu 3.857 fleiri frá landinu en til þess. Sveiflan er upp á 8.019.
- Velferð og gæði samfélagsinnviða
- 88,45 SPI stig, tíunda hæsta í heimi.
- Eymdarvísitala
- 4 stig, sú lægsta síðan mælingar hófust.
- Gæði stuðningsnets
- 8,8 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), önnur hæsta í OECD.
- Öryggi
- 8,8 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), tíunda hæsta í OECD.
- Öryggisupplifun
- 78%, 12. hæsta í OECD, meðaltalið er 69%.
- Menntunarstig
- 5,9 (á skalanum 1-7), ellefta hæsta í heimi, Singapúr er hæst með 6,3.
- Ljósleiðaranotkun
- 25,9%, 8. hæsta í OECD, meðaltalið er 17,9%.
- Notkun samfélagsmiðla
- 84%, hæsta í OECD.
- Kaupmáttur
- 137,2 stig, aldrei verið hærri, hækkaði um 8,5% sl. 12 mánuði.
- Ráðstöfunartekjur
- Jukust um 9,6% á mann 2014 -2015.
- Fátækt
- 4,6%, sú lægsta í OECD, Meðaltalið er 11,4%.
- Fjárhagsaðstoð
- Árið 2015 fækkaði þiggjendum um 9,7%.
- Vanskil hjá Íbúðalánasjóði
- 4,8% af lánasafni en var 8,6% ári áður.
- Eigin húsnæði
- 78% búa í eign húsnæði, hæsta hlutfall á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð eru það 39%.
- Húsnæðisverð
- Hækkað um 37,2% á kjörtímabilinu á höfuðborgarsvæðinu.
- Eiginfjárstaða
- 76% með jákvætt eigið fé, jókst um 6,9% frá 2014 til 2015.
- Skuldir
- 156% af ráðstöfunartekjum, næst lægstu á Norðurlöndunum.
Eldri borgarar
- Fátækt
- 3%, 4. lægsta í OECD, meðatalið er 12,6%.
- Atvinnustig eldra fólks
- 82%, lang hæst í OECD, meðaltalið er 44%.
- Netnotkun
- 89%, hæsta í OECD, meðaltalið er 49%.
- Fátækt
- 7%, 2. lægsta í OECD, meðaltalið er 14%.
- Atvinnuleysi
- Var 8% þegar samanburður var gerður innan OECD, sú fjórða lægsta í heimi, meðaltal OECD er 14%.
- Fyrstu kaup
- Voru 23% af fjölda kaupsamninga árið 2016, 22% árið 2015, 18% árið 2014 og 17% árið 2013, samanborið við 14% árið 2012, 12% árið 2011, 9% árið 2010, 8% árið 2009 og 9% árið 2008.
- Búa enn í foreldrahúsum
- 52%, sjöunda lægsta í OECD, meðaltalið er 59%, á Ítalíu er það 81%.
- Óvirkni
- 6,2%, lægsta í OECD, meðaltalið er 14,6%.
- Áhugi á stjórnmálum
- 81%, ellefta hæsta á OECD, meðaltalið er 73%.
- Stærðfræðiótti
- 45%, fjórða lægsti í heimi, meðaltal OECD er 59%.
- Aðgangur 6 ára nema að neti
- 47%, sjöunda hæsta í OECD, meðaltalið er 32%.
- Aðgangur 10 ára nema að neti
- 75,5%, sjöunda hæsta í OECD, meðaltalið er 56,7%.
Jafnrétti
- Jafnrétti kynja
- Mest í heimi 7 ár í röð skv. Globa Gender Gap Index World Economic Forum.
- Launamunur
- Munur á meðallaunum karla og kvenna er lægri en í Svíþjóð og lægri en OECD meðatalið sem er 15,6%.
- Starfsumhverfi kvenna
- 82 stig (af 100 í Economist Glass-Ceiling Index), það hæsta í heimi, meðaltal OECD er 58.
- Háskólamenntun kvenna
- 47% ungra kvenna hefur lokið háskólamenntun, sem er yfir meðaltalið OECD, samanborið við 34% karla.
- Konur á þingi
- 41,3%, þriðja hæsta í OECD, meðaltalið er 27,8%.
- Kvennstjórnarmenn
- 44%, hæsta í OECD, meðatalið er 20%.
- Réttur til feðraorlofs
- 13 vikur, lengsta á Norðurlöndunum, sjöunda lengsta í OECD, meðaltalið er 8 vikur.
- Verðbólga
- Hefur verið 1,8% síðustu 12 mánuði, var 1,6% árið 2015 og 2% árið 2014, samanborið við 3,9% árið 2013, 5,2% árið 2012, 4% árið 2011, 5,4% árið 2010, 12% árið 2009 og 12,4% árið 2008.
- Hagvöxtur
- Var 4,2% árið 2015, 1,9% árið 2014 og 4,4% árið 2013, samanborið við 1,2% árið 2012, 2,0% árið 2011, -3,6% árið 2010, -7,9% árið 2009 og 1,5% árið 2008.
- Krónan
- Styrkst um 19,9% á kjörtímabilinu.
- Úrvalsvísitalan
- Hækkað um 49,67% á kjörtímabilinu.
- Lánshæfi ríkisins
- Farið úr BAA3 í A3, upp um 3 stig, hjá Moodys á kjörtímabilinu.
- Viðskiptakjaraáhrif
- 6% 2014-2015, hæsta í OECD, í Noregi voru þau minna en -6%.
- Spilling
- 79 stig (af 100 skv. Corruption Perception Index 2015), sú þrettánda minnsta í heimi.
- Tiltrú á ríkinu
- 46%, sautjánda hæsta í heimi, meðaltal OECD er 42%.
- Traust á dómstólum
- 63%, þrettánda hæsta í OECD, meðaltalið er 54%.
- Ferðamenn
- 19,5% fjölgun að meðaltali 2010-2014, sú hæsta í OECD, Kórea í öðru sæti með 12,7%.
Vinnumarkaður
- Atvinnuleysi á kjörtímabilinu
- Hefur minnkað um 54,31% á kjörtímabilinu, 7.836 voru atvinnulausir í upphafi kjörtímabilsins, en nú eru þeir 3.580.
- Atvinnuleysi í samanburði við önnur lönd
- Var 4,1% þegar samanburður var gerður við önnur lönd árið 2015, fjórða minnsta í heimi, meðaltal OECD var 6,7%.
- Fjöldi starfa
- Voru 174.500 í upphafi kjörtímabilsins en eru nú 199.200, það er fjölgun um 24.700, eða 14,2%.
- Langtímaatvinnuleysi
- 22,2% atvinnulausra, ellefta lægsta í heimi, meðaltal ESB er 48,2%.
- Landsframleiðsla á mann
- 5. hæsta í heimi, árið 2009 var hún sú fjórtánda hæsta.
- Atvinnustig
- 82%, hæsta í OECD, 66% er meðaltalið.
Heilbrigði
- Framlög til heilbrigðismála
- Aukist um 27% á kjörtímabilinu, þar af hafa framlög til sjúkrahúsa aukist um 34%.
- Heilsa
- 85,5 stig (af 100 skv. S.þ.), það hæsta í heimi, meðaltalið er 59,3.
- Heilsa
- 8,6 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), 4. hæsta í OECD.
- Fjöldi lækna
- 3,6 á hverja 1.000 íbúa, 12. hæsta í OECD, meðaltalið er 3,3.
- Fjöldi hjúkrunarfræðinga
- 15,5 á hverja 1.000 íbúa, 4. hæsta í OECD, meðaltalið er 9,1.
- Læknisheimsóknir
- 6,0 á mann á ári, 16. lægsta í OECD, meðaltalið er 6,6.
- Reykingar
- 14% reykja daglega, 6. lægsta hlutfallið í OECD, meðaltalið er 19%.
- Keisaraskurðir
- 15,2%, lægsta í OECD, meðaltalið er 27,6%.
- Lífslíkur eftir brjóstakrabbamein
- 86,7%, 9. hæstu í OECD, meðaltalið er 84,9%.Innlagnir sykursjúkra: 60 á hverja 100.000 íbúa, 4. lægsta í OECD, meðaltalið er 150.
Umhverfismál
- Umhverfisvernd
- 2. umhverfisvænasta þjóð heims skv. EPI staðli.
- Umhverfisgæði
- 9,7 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index), 2. hæsta í OECD.
- Loftmengun
- 20% verða fyrir skaðlegri loftmengun, 6. lægsta í OECD, í helmingi OECD ríkja er hlutfallið hærra en 90%.
- Notkun endurnýjanlegra orkugjafa
- 89%, hæsta í OECD, meðaltalið er 9%.
- Rusl á íbúa
- 350 kg, 5. lægsta í OECD, meðaltalið er 510 kg.
- Endurvinnsla
- 45% sorps endurunnið, 2. hæsta á Norðurlöndunum, 10. hæsta í OECD.
Það er rétt að minna á að þau lönd heims þar sem eru mest lífsgæði eru í OECD. Að vera í hópi þeirra bestu þar þýðir yfirleitt að landið er meðal þeirra bestu í heimi.
Eitt af ofangreindu segir kannski ekki mikið. En allt ofangreint segir okkur hátt og skýrt að við erum á réttri leið.
Væri því ekki rétt að láta af svartagallsrausinu, líta bjartsýn fram á veg og halda áfram að gera Ísland enn betra.
Heimildir: OECD, Economist, Seðlabankinn, Hagstofan o.fl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fjölflokkastjórn og lýðræðisleg hrossakaup
22.10.2016 | 18:44
Fjölflokkastjórn gæti verið áhugaverð fyrir lýðræðið í landinu þar sem fleiri kæmu að ákvarðanatöku og stefnumótun. Verkefnin þyrftu að vera skýr fyrirfram. Síðan gætu flokkarnir búið til samstarfsnefndir allra þessara flokka um verkefni ráðuneytanna sem væru ráðherrum til stuðnings og tryggðu að málin kæmu fram í góðri sátt.
Þessi skoðun er svo ákaflega sannfærandi en við nánari umhugsun er hún arfavitlaus enda höfð eftir Katrínu Júlíusdóttur, fráfarandi þingmanni Samfylkingarinnar.
Aumingjans konan sér að flokkurinn hennar er við það að þurrkast út af þingi. Þess vegna fer hún í fótspor Össurar Skarphéðinssonar, fyrrum utanríkisráðherra og núverandi þingmanns (sem mun líklega falla af þingi eftir viku) en hann gengur á eftir Pírötum með grasið í skónum. Og Katrín vegsamar margra flokka ríkisstjórn.
Samkvæmt skoðanakönnunum virðist Samfylkingin þurrkast út af þingi eða verða smáflokkur hangi hún inni. Sem smáflokkur kemste hún ekki í ríkisstjórn nema í fjöflokkastjórn.
Þá þurfa Píratar að fá minnst 15 þingmenn, Vinsteri grænir minnst tíu þingmenn, Björt framtíð tvo, Samfylkingin tvo og krataflokkurinn Viðreisn hugsanlega fjóra eða fimm þingmenn.
Verði það getur lýðræðið í landinu tekið til kostanna og þá skemmta þingmenn sér við ákvarðanatöku (orð sem er rassbaga) og stefnumótun, eins og Katrín Júlíusdóttir orðar það.
Haldið þið, lesendur góðir, að Samfylkingin myndi velja fjölflokkastjórn ef hún fengi tuttugu þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn tuttugu og fimm? Nei, Kata myndi hlaupa í fangið á íhaldinu áður en talningu atkvæða er lokið.
Staðreyndin er nebbbbnilega sú að fjölflokkastjórnir eru vondar, þungar í vöfum, þar gerast mestu hrossakaupin.
Hvers vegna hefði til dæmis borgarfulltrúi Pírata tekið þátt í borgarstjórnarmeirihlutanum nema vegna þess að hann fékk dúsu. Veit einhver hver hún er?
Lífsgæði Íslendinga hafa aldrei verið betri, samt er öðru logið
21.10.2016 | 22:34
Kosningar verða eftir viku og staða mála hefur aldrei í sögu lýðveldisins verið betri. Aldrei ...
Stjórnarandstæðan og margir fjölmiðlar lýsa samt stöðu landsins eins og allt sé í kalda koli og lóðbeint á leiðinni til helv...
Þetta er ósatt. Hátt í eitthundrað staðreyndir segja allt annað. Hér er hluti þeirra:
- Verbólga er er aðeins 1,8%
Ekki er langt síðan aðalkrafa ASÍ var lækkun verðbólgu. Helstu ávirðingar á ríkisstjórnir undanfarna áratuga tengjast of hárri verðbólgu. Nú er hún ekki nefnd.
- Kaupmáttur launa
Hann hefur hækkað um 8,5% síðustu tólf mánuði sem þýðir einfaldlega að við getum keypt meira fyrir hverja krónu.
ASÍ og stjórnarandstæðan nefnir þetta ekki.
- Ríkissjóður vel rekinn
Afgangur í ríkisfjármálum er 388 milljarðar króna. Samanlagður halli ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna var -346 milljarðar króna.
Stjórnarandstaðan reynir að þegja þetta í hel.
- Fátækt
Sú lægsta í OECD, 4,6%. Meðaltalið þar er 11,4%. Auðvitað getum við gert miklu betur og eigum að gera það.
- Menntunarstig
Ellefta sæti í heiminum, 4,9, Singapúr er hæst með 6,3. Ósanngjörn stjórnarandstaðan gerir lítið úr ágætu menntakerfi.
- Jafnrétti kynja
Mest í heimi í sjö ár í röð. Við getum hins vegar gert miklu betur.
- Spilling
Sú 13. minnsta í heimi og auðvitað eigum við að gera mikið betur.
- Landsframleiðsla á mann
Sú 5. hæsta í heimi, árið 2009 var hún sú 14. hæsta. Þessi árangur næst ekki með því að ofurskattleggja einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.
- Umhverfisvernd
Önnur umhverfisvænsta þjóð heims skv. EPI staðli. Við erum á réttri leið, nýjar kynslóðir hafa önnur viðmið en þær eldri og þess vegna getum við gert miklu betur.
Við getum gert betur
Þetta sýnir svo ekki sé um villst að þjóðin er á réttri leið. Við vitum samt að hægt er að gera miklu betur og við viljum gera það.
Með því að gera lítið úr þeim árangri sem hefur nást er um leið gert lítið úr almenningi, okkur og starfi okkar.
Froðusnakkið
Við greiðum skatta til samfélagsins. Við erum fagleg í störfum okkar, hvort sem við vinnum sem iðnaðarfólk, verkafólk, í heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu, fiskveiðum, iðnaði svo dæmi séu tekin.
Við eigum ekki að láta froðusnakka í stjórnmálum komast upp með að skrökva að okkur, almenningi enda ljóst að staða samfélagsins er góð. Við eigum stóran þátt í þeim árangri sem hefur náðst.
Ég ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur í kosningunum eftir viku. Læt ekki Pírata, Vinstri græna og gamla eða nýja krata segja mér annað.
Tilraunastarf með ríkissjóð
Staðreyndin er einföld. Við getum ekki samþykkt einhverja tilraunastarfsemi með þann árangur sem þegar hefur náðst. Því miður er hætta á að það geti gerst því stjórnarandstaðan gaggar um þessar mundir: Nú getum við ... (af því að staðan er svona góð).
Munum hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór með okkur. Munum líka að Pírötum er ekki treystandi. Þriggja mann þingflokkur þeirra þurfti sálfræðing til að laga friðinn, hvernig verður það ef þeim fjölgar.
Sálfræðingar til hjálpar
Munum líka að annar sálfræðingur þurfti að taka borgarstjórnarmeirihlutann í tíma, Píratar, Samfylkingin, Vinstri grænir og Björt framtíð.
Getur nokkur ímyndað sér hvernig ástandið verður ef þessir flokkar komast í meirihluta í landsmálunum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Er almenningi ekki treystandi?
21.10.2016 | 11:56
Í verslunum hér á landi má einnig finna klaka sem fluttir eru inn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Innflutti klakinn er ódýrari en sá sem er framleiddur hér og getur munað um 40%.
Ofangreint er úr tilfinningaþrunginni frétt á Ríkisútvarpinu þar sem agnúast út í innflutning á ís. Fréttin var langt í frá hlutlaus, framsetninginn og tónninn var að hneykslast og maður fékk það á tilfinninguna að þetta væri aldeilis ómögulegt. Svona er nú oft innrætining.
Hins vegar er eitt að flytja inn klaka til Íslands og bjóða til sölu, annað er að geta selt þennan klaka.
Víkur nú sögunni annað.
Sama er nú í ráði hér samkvæmt ráðagerð Sjálfstæðisflokksins sem er líkari flokki Pútíns , Rússneskri Einingu, en allir aðrir stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum. Í nafni dreifðrar eignaraðildar, frelsis og lýðræðis ætla þessir menn að gefa öllum hlutabréf í bönkunum, þannig að auðvelt verður fyrir íslenska oligarka að ná meirihlutavaldi í íslenskum bönkum fyrir slikk. Þannig er komið aftan að kjósendum, það er kölluð almannavæðing sem er í raun einkavæðing aftan frá.
Þetta segir Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, í pistli á vefnum kjarninn.is. Kveður þarna við sama tón og í fyrri fréttinni. Hvað svo sem hagfræðingurinn segir þá er margt brogað við gagnrýni hans.
Staðreyndin er nefnilega sú að svo óskaplega margir þykjast bera hag almennings fyrir brjósti en þegar upp er staðið er almenningi ekki treyst.
Klakinn í frétt Ríkisútvarpsins myndi ekki seljast nema vegna þess að hann er ódýrari en innlend framleiðsla. Og hverjir kaupa útlenda klakann? Jú, almenningur, þar á meðal ég, vegna þess að klakinn er ódýrari.
Svo segir einhver hagfræðingur að það sé vitlaust að gefa almenningi landsins hlutabréf í íslenskum bönkum af því að almenningur kann ekkert með hlutabréf eða peninga að fara. Að minnsta kosti liggur það í orðum hans.
Allt ber þetta nú að sama brunni. Þrátt fyrir allt er almenningi ekki treystandi og þess vegna þarf eflaust að banna innflutning á klaka. Svo er það ómögulegt að gefa almenningi hlut í bönkum sem eru í eigu ríkisins. Að öðru leyti á fiskurinn í sjónum að vera almenningseign, landið, jöklarnir, arfurinn og tungumálið. Vandamálið er bara að almenningi er ekki treystandi ... að sumra mati
Tónlistarmaðurinn sem ákærir aðra vegna tengsla
20.10.2016 | 17:52
Þetta er með ólíkindum ef maður skoðar hver er eginkona þessa ágæta mans og hverjum hún tengist óháð hvar í pólitík fólk stendur sorglegt dæmi.
Þetta skrifar tónlistamaður sem er afar virkur í athugasemdadálkum óvandaðra vefmiðla. Hann er að tjá sig um frétt á visir.is um trúnaðarbrot starfsmanns Seðlabankans í upphafi hrunsins 2008.
Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þó fólk tjái sig heimskulega um atburði sem það þekkir ekki eða hefur ekki tæmandi vitneskju um. Fjöldi slíkra gerir sig daglega að kjána og öllum er sama.
Svona náungar eins og tónlistamaðurinn og aðrir sem eru verr haldnir af þekkingarleysi og jafnvel heimsku tala ómælt um spillingu. Tónlistarmaðurinn tengir aðra við sökudólginn, jafnvel þá sem ekkert hafa gert af sér nema þekkja og umgangast hann. Á ensku hefur þetta verið kallað guilt by association. Slíkt er eiginlega gleggsta dæmið glataða röksemdafærslu þess sem ekki kann að nota heilasellurnar, hafi hann á annað borð einhverjar.
Ég fór að velta þess fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að vera einstakt nóboddí og langt frá öllum virðingarstöðum í þjóðfélaginu, þá gæti ég verið í hættu staddur vegna ofbeldismanna í stétt kjaftaska, orðháka og rógbera.
Staða mín er markast hugsanlega af eftirfarandi staðreyndum:
- Dóttir næst yngstu systur minnar er gift háttsettum dómara
- Sonur minn stjórnar fyrirtæki sem byggir hús til endursölu
- Ég þekki Gústaf Níelsson sem sagður er vera rasisti
- Kærasta yngri sonar míns er rússnesk og kann vel við Pútín
- Ég er Sjálfstæðimaður
- Tengdadóttir mín starfar hjá Borgun
- Góður vinur minn sat lengi í stjórn útgerðarfélags
- Ég hef nokkrum sinnum spjallað við Davíð Oddsson og kann vel við hann
- Fyrir tveimur árum gleymdi ég að greiða fyrir kexpakka í verslun, hann er enn ógreiddur
- Góður vinur minn færir bókhald
Jæja ... hmmm.
Sjáið nú hvernig hægt er að tvinna saman ávirðingar, gera lítið úr því sem ég er, hef sagt og gert, aðeins með því að skoða þá sem ég tengist.
Tónlistarmanninum sem ég gat um hér í upphafi, verður ekki skotaskuld úr því að gera mig að sorglegu dæmi um spillingu vegna tengingar við hina og þessa. Hann gæti eflaust sagt:
Sjáið hann Sigurð. Sonur hans er braskari, tengdadóttir hans starfar hjá Borgun, hann á kvótagreifa sem vin, annar vinur hans er rasisti, enn annar er bókari og kann prósentureikning sem er reikningsaðferð og jafnan notuð er til að hlunnfara alþýðuna. Svo er hann tengdur dómara og þekkir þrjótinn Davíð Oddsson. Hann stal kexpakka og lögfræðingurinn vinur hans og dómarinn bjarga honum frá fangelsi.
Þetta er nú ljóti maðurinn, hann Sigurður.
Hið síðasta er svo sem alveg rétt, svona útlitslega séð.
Gáum nú hins vegar að því hversu auðvelt er að tengja okkur hingað og þangað, draga af því skelfilega andstyggilega ályktun sem gerir út af við hvert það manngrey sem vekur athygli í fjölmiðlum.
Hvað þá með fólk sem tengist einhverjum sem er eiturlyfjaneytandi, alkóhólisti, hefur setið í fangelsi, hefur lent í umferðaslysi þar sem aðrir hafa meitt sig illa eða jafnvel dáið. Á það fólk að tapa ærunni og hvað þarf það að gera til að fá mannorð sitt hreinsað.
Einhvern tímann í gamla daga var varað við því að sá sem hefði eitthvað á samviskunni gerðist dómari yfir öðrum. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum ... var sagt. Væri mark tekið á svona varúðarorðum myndi tilveran vera um margt bærilegri og mörgum léttbærari.
Þetta hefur ekki haldið aftur af því einstaka sómafólki sem skrifar í athugasemdadálka sumra fjölmiðla. Jafnvel ekki þeim sem þremur árum fyrir hrun seldu útrásarvíkingum sálu sína.
Hver skyldi annars hafa ort þetta ágæta ljóð sem á svo vel við umræðuefnið hér?
Þú deyrð á hverjum degi, sérð nafnið þitt þurrkað út.
Það eina sem varð eftir af þér var fingrafar sem slapp við klút.
Þú glímir við drauga hvern einasta dag, hverja dimma nótt
þú verst með bókinni góðu, úr hverju horni er að þér er sótt.
Inn í þér brennur ofsafenginn eldur, þig langar að skaða þann
sem hvílir sæl við hlið hennar, óttinn í þér óx og brann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.10.2016 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svik Katrínar og Vinstri grænna
19.10.2016 | 17:43
Hún er svört, samviska Katrínar Jakobsdóttur, VG sem og annarra forustumanna flokksins. Á henni hvílir svo ótalmargar ávirðingar eftir fjögurra ára stjórnarsetu. Hefur fólk gleymt því hvað gerðist á ríkisstjórnarárum VG og Samfylkingarinnar?
Rifjum upp nokkur atriði og pælum svo í því hvort VG sé treystandi í ríkisstjórn.
- Icesave I
- Icesave II
- Icesave III
- Móti þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB árið 2009
- Samþykkti aðildarumsókn að ESB árið 2009
- Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar er talin hafa verið 3 milljarðar króna
- Árnapálslögin (nr. 151/2010) til varnar fjármagnseigendum og gegn skuldurum
- Lagðist ekki gegn loftárásum NATO á Líbýu
- Samþykkti leyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu
- Veitti stóriðju á Bakka við Húsavík undanþágu frá skattalögum
- Veitti ríkisábyrgð á Vaðlaheiðagöngum
- Hefndardómsmál í Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra
- Hleypti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn á gafl í stjórnarráði Íslands
- Skattahækkanir á almenning í kjölfar hrunsins
- Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna í kjölfar hrunsins
- Ófrægingarherferðin gegn Ríkisendurskoðun vegna kaupa á bókhaldskerfi fyrir ríkið
- Íslandsbanki gefinn kröfuhöfum
- Arionbanki gefinn kröfuhöfum
- Norðmaður ráðinn í embætti Seðlabankastjóra
- Sparisjóður Keflavíkur, fall hans og endurreisn kostaði almenning 25 milljarða krónur.
Katrín Jakobsdóttir var þingmaður og ráðherra í vinstri stjórninni frá 2009 til 2013 og því ber hún persónulega ábyrgð á ofangreindu. Er henni treystandi í dag? Sé svo, í hverju var endurreisn hennar fólgin? Eða skipta þessi tuttugu atriði engu máli?
Herskáa liðið
Vissulega virðists ásýnd Vinstri grænna miklu betri með Katrínu í forsvari. Í skugganum, fjarri sviðsljósinu vomir enn flokkseigendafélagið, fólk eins og Steingrímur, Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og fleiri herskáir sósíalistar.
Vinstri grænir þóttust hafa vit á að breyta um formann, sá gamli höfðaði ekki lengur til kjósenda en hann er í bakherberginu og stjórnar þar því sem hann vill.
Nú er breytt um skoðun
Þeir sem áður klúðruðu málum þykjast nú ekkert slæmt hafa gert. Nú vilja þeir þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB en neituðu þjóðinni um að greiða atkvæði um aðild að ESB.
Skyndilega eru Vinstri grænir orðnir á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, sem þeir veittu leyfi til þegar þeir voru í ríkisstjórn.
Í ríkisstjórn veittu Vinstri grænir stóriðjunni á Bakka við Húsavík undanþágu frá skattalögum. Nú segjast þeir að vera bæði á móti stóriðjunni og skattaundanþágunni.
Flokkur skattahækkana
Í ríkisstjórn með Samfylkingunni voru skattahækkanir hentug tæki til tekjuöflunar, engu skipti hvernig þær komu við einstaklinga, fjölskyldur eða fyrirtæki. Og það viðhorf hefur ekkert breyst.
Hvers vegna þurfti ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar skattahækkanir? Jú, peningurinn fór meðal annars í endurfjármögnun Sparisjóð Keflavíkur áður en hann fór í þrot. Og hefur nokkur gleymt endurfjármögnun Sjóvár.
VG er ekki treystandi
Nú virðist sem Vinstri grænir hafi náð flugi eftir rasskellinn sem þeir fengu eftir kosningarnar 2013. Munum samt að bak við hið töfrandi bros eru að minnsta kosti tuttugu hrollvekjandi mál. VG hefur svikið bæði stefnu sína og þjóð. Flokkurinn mun svíkja aftur af því að hann hefur hingað til komist upp með það.
Niðurstaðan er einfaldlega sú að Vinstri grænum er ekki treystandi. Hægt er raunar að taka enn dýpra í árinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þefvís stelpa fýlar tjáningarfrelsið
18.10.2016 | 13:22
Hér áður fyrr gerðist ýmislegt sem ekki þótti fréttnæmt. Nú er allt fréttnæmt þó svo að ekkert gerist.
Stúlkukrakka tekst að baka köku og skreyta hana. Einhver rekur augun í stykkið og tekur eftir að skreytingin er hamar og sigð, kennimerki gömlu Sovétríkjanna.
Annar fattar að krakkinn er sér til skemmtunar í stjórnmálafélaginu Vinstri hreyfingin grænt framboð og þá tengja menn.
Nei, nei, nei, hrópar stelpan, og í angist hennar hefur visir.is eftir henni:
Ég er á móti fjöldamorðum, ég er á móti þjóðarmorðum, sagði Una og bætti við: Ég fýla tjáningarfrelsi. Ef það væri ekki fyrir tjáningarfrelsi þá hefði ég aldrei bakað þessa köku.
Annarri konu sem þó er lítið eitt eldri og þroskaðri varð þá að orði: Flestir baka nú kökur án tillits til tjáningarfrelsisins. Má vera að það séu mistök.
Svo er það nú þetta með íslenskukunnáttu meintra blaðamanna. Tjáningarfrelsið virðist lykta úr því að stelpan fýlar það.
Hin konan sagðist hlynnt því sama frelsi þegar hún væri ekki við bakstur, raunar fíla það í botn.
Hverjir eru annars á móti tjáningarfrelsi og hlyntir þjóðarmorðum? Að minnstak kosti ekki kökubakarar. Aðrir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)