Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ávísun á pólitíska og efnahagslega afturför

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru aðalhönnuðir að endurreisn efnahags heimila og þjóðarbúsins eftir hrun.

Eftir óróa og pólitíska upplausn vinstristjórnarinnar 2009-2013 fann ríkisstjórn Sigmundar Davíðs leið til að forða Íslandi frá erlendum hrægömmum annars vegar og hins vegar að endurreisa fjárhag heimilanna með skuldaleiðréttingunni. Grunnur var lagður að langtímavexti hagkerfisins og pólitískum stöðugleika.

Undir þessum kringumstæðum er tilraun til myndunar smáflokkaríkisstjórnar vinstrimanna ávísun á pólitíska og efnahagslega afturför.

Þetta segir Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggi sínu, sjá hér. Nokkuð mikið til í þessu.

Og hvað hafa litlu vinstri flokkarnir gert. Ekkert, ekkert.

Lesið bara bókina hans Jóns Torfasonar, „Villikettirnir og vegferð VG“. Þar sést best hvers konar ástand var í ríkisstjórn og meirihluta Alþingis frá 2009 til 2013. Afar ógefelld lýsing á ástandinu innanbúðar í Vinstri grænum og Samfylkingunni ásamt meðreiðarfólki þessara flokka. Þetta fólk er enn að svíkja almenning.


Bókin um Gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls

161206 Mbl augl 5vh bókin bls 17Ég auglýsti bókina mína „Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls“ Morgunblaðinu í gær. Þetta er vegleg bók um vinsælustu gönguleið landsins og þar er henni gerð ítarleg skil. Að mínu mati, ódýr og hagnýt jólagjöf fyrir alla aldurshópa.

Landið okkar er stórkostlegt og Fimmvörðuháls einstakleg fallegur og góður til gönguferða.

Ég fór fyrst yfir Fimmvörðuháls í lok júní 1979. Fáir gengu yfir Hálsinn á þeim tíma, aðeins ein eða tvær ferðir á vegum Ferðafélags Íslands. 

Um tuttugu árum síðar tók ég þátt í að byggja Fimmvörðuskála Útivistar efst á Hálsinum, þar sem skáli Fjallamanna stóð, en hann var byggður árið 1940 og var ónýtur. Mikið ævintýri var að byggja skálann enda ekkert áhlaupaverk þarna uppi í eitt þúsund metra hæð.

Ég skrifaði síðan bók um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls og kom hún út árið 2002. Árið 2010 tók náttúran í taumana og breytti landslaginu. Þá gaus svo að segja á gönguleiðinni sem hvarf fljótlega undir hraun. Þá var ekkert um annað að gera en að endursemja hluta bókarinnar.

bls 14-15Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls var vinsæl fyrir gos en eftir það hefur hún tvímælalaust orðið sú vinsælasta af þeim gönguleiðum sem teljast í flokknum drjúgar dagleiðir. 

Fjórir áfangar

bls 30-30Fyrsti áfangi gönguleiðarinnar fjallar um Fossaleiðina meðfram Skógárgljúfri. Þetta er ægifögur leið og fjöldi fossa prýðir landið.

Fyrir ofan svokallað vað á Skógaá (raunar er göngubrú yfir ána) tekur við sérkennilegur áfangi um klettaborgir og lítil dalverpi allt upp að Fimmvörðuhrygg. Þar uppi er Fimmvörðuskáli Útvistar.

Þriðji áfangi leiðarinnar er frá Fimmvörðuskála og að Bröttufönn. Mörgum finnst þessi stutti kafli leiðarinnar sá merkilegasti, að minnsta kosti liggur nú leiðin yfir hraunið sem rann árið 2010 og með gígunum tveimur, Magna og Móða.

Fjórði og síðasti áfanginn er niður frá Bröttufannarfelli, yfir Morinsheiði, Foldir og Kattahryggi og að Básum. Einnig er hægt að fara aðra frábæra leið í Bása en hún liggur um hið stórbrotna Hvannárgil.

Laus kort fylgja bókinni sem henta vel á göngu.

Ódýr en góð jólagjöf

bls 10-11

Bókin um Fimmvörðuháls fæst aðeins í póstverslun hjá mér.

Bókin kostar 1.990 krónur.

Hægt er að greiða fyrir hana með kreditkorti eða millifæra.

Pöntunarsíminn er 864 9010.

Bókin fæst ekki annars staðar.

 

 

 

 

 

 

 


Sló um 360 metra högg á Háagerðisvelli

DSC_0058Lengsta högg sem ég hef átt í golfi var á fimmtu braut á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Brautin er að því er mig minnir rétt um 400 m löng, frekar mjó en bein.

Aldrei þessu vant hitti ég kúluna afar vel og hún fór langleiðina að „gríninu“. Ég mældi um 360 m frá teig og þar sem hún staðnæmdist.

Þetta var stórkostlegt högg og mikill persónulegur árangur og ég þurfti endilega að gorta af árangrinum við góðan vin minn sem er afburða golfari. Við höfðum verið að ræða um högglengd. Hann sagðist slá um 220 m. Ég brosti, þó ekki yfirlætislega, og sagði frá þessu höggi.

- Hvenær ársins var þetta? Spurði hann, og horfði undarlega fast á mig eins og hann grunaði mig um græsku.

Ehhh ... þetta var í október.

- Var kalt úti?

Nei, ekkert sérlega ... bara svona um eitthvað ... þarna frostmark.

- Var frost í jörðu.

DSC_0207Tja ... ekkert óskaplega mikið ... dálítið ... já, eitthvað.

- Sem sagt, grjóthörð jörð og þú slóst ef til vill um 150 m með tré og síðan skoppaði hún um 210 m, ekki satt?

Tja ... það er nú ekkert að marka svona ágiskun. Hef ábyggilega slegið 163 metra og svo skoppaði hún áleiðis að „gríninu“.

- Sem sagt þú hefðir allt eins getað verið á malbikaðri flugbraut. Golfkúla skoppar  næstum jafnmikið á malbiki og á frosinni jörð.

Já, en ég slóð samt um 360 metra. Aðstæður voru bara hagstæðar

- Já, einmitt.

Víst var þetta frábært högg!

- Það er blessuð blíðan ...

Víst ...

Ágætt að taka það fram hér lengi hefur staðið til hjá mér að taka þátt í PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum  en hingað til hef því miður ekki gefið mér tíma til þess.

Myndirnar eru teknar að sumarlagi. Snjall golfari (ekki ég) á fjórðu braut og svo loftmynd af „gríninu“ á sömu braut.


mbl.is Spila golf í jólamánuðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Há álagning hrekur neytendur frá íslenskum verslunum

Hvort við ætlum okkur að segja »Svartur föstudagur« eða »Black Friday« skiptir mig undarlega litlu máli.

Ástæðan er sú að fyrirbærið sjálft truflar mig svo mikið að það skyggir á nafngiftina, og þá ekki bara Svartur föstudagur einn og sér heldur þeir ótal afsláttardagar; Sófadagar, Eldhúsdagar, »virðisaukaskatts-lausar« helgar, miðnæturopnanir, Bombur og Köst. Allir þeir dagar sem verslanir virðast geta leikandi létt gefið 30-50% afslátt af jafnvel nýjum vörum.

Þetta segir blaðamaður Morgunblaðsins, Júlía Margrét Alexandersdóttir, í Pistli dagsins. Hér er vel að orði komist og tekið á alvarlegu máli. Auðvitað er enskuslettur í auglýsingum verslana hrikalega ljótur leikur og engum að gagni nema þeim sjálfum. Hitt er öllu verða að há álagning verslana er stórkostlegt vandamál sem bitnar á þeim sjálfum vegna þess að neytendur eiga ráð til mótvægis.

StaplesMagnafslættir á kosnað okkar hinna

Í gær ræddi ég við smið, góðan vin minn. Að gefnu tilefni benti hann mér á hversu magnkaup væru hagstæðari en að kaupa eitt stykki af hverju. Ég sagðist nú sjaldan þurfa meira en en svona eina eða tvær skrúfur eða álíka sem er líklega það sem flestir þurfa. Skrúfan getur kostað tíu krónur en vinur minn, smiðurinn, sem kaupir eitt þúsund í einu borgar eina krónu fyrir hverja skrúfu í magnkaupum. Sem sagt, það er ég og aðrir venjulegir neytendur sem borga afsláttinn sem smiðurinn fær.

Hversu geðslegt er þetta?

Stundum þarf ég að kaupa „útivistarföt“. Vönduð úlpa kostar til dæmis sjötíu til eitthundrað þúsund krónur, gönguskór eitthvað svipað. 

AmazonSvei mér þá, ég hef eiginlega ekki geð í mér til að greiða tugi þúsunda fyrir vöru sem dóttir mín í Noregi getur keypt fyrir margfalt minna eða ég gæti fengið í póstverslun í Bandaríkjunum eða Kína fyrir enn minna. Væri ég meðlimur í ferðafélagi gæti ég fengið um 20% afslátt í einhverri útivistarversluninni og 70.000 króna úlpan myndi kosta mig „aðeins“ 56.000 krónur. Hver í fjandanum getur með góðri samvisku klæðst 70.000 króna úlpu?

Án þess að blása úr nös

Í íslenskum verslunum tíðkast nú tilboð á „svörtum föstudögum“, „vsk-lausum helgum“ og svo Júlía Margrét nefnir í pistli sínum. Og hún segir:

Vilja neytendur ekki bara minni álagningu alla jafna, alla daga og sleppa við það að þurfa að fylgjast með hvenær hina og þessa afsláttardaga ber upp, eins og atferlisfræðingar í villtri náttúru, svo við missum ekki af því sem getur skipt sköpum fyrir budduna?

Það hlýtur að vera eitthvað mikið að álagningunni ef það er raunverulega hægt að slá svona ótrúlega mikið af vörum, að því er virðist eftir hentugleika, án þess að blása úr nös.

BanggoodFyrir allmörgum árum starfaði ég talsvert innan Neytendasamtakanna og þá komumst við að því að álagning verslana gat verið allt að 100%. Síðan hefur margt breyst, hér hefur verið reynt að lækka eða fella niður tolla ríkisins en svo virðist sem það hafi engin áhrif á verðlagningu verslana - og álagningin er ábyggilega miklu hærri en hún var þegar ég fylgdist með sem fulltrúi neytenda.

 

Póstverslun í stað smygls

Í þá gömlu góðu daga var brugðist við háu verðlagi hér innanlands með því að smygla fatnaði leiköngum og öðru inn í landið. Sá tími er að mestu liðinn en dagar póstverslunarinnar runnir upp. Nú er hægt að versla á allt öðrum „grundvelli“ en áður, þökk sé Aliexpress, e-Bay, Banggood, Amazon, Horizon, Buy now, Saples og þúsundum annarra. Jafnvel er hægt að kaupa áfengi í póstverslun á þokkalegu verði.

AliexpressSkipulagt fjölskyldufólk segir mér að undirbúningur jólanna hefjist í ágúst. Þá eru keyptar jólagjafir, enda stundum langur afgreiðslutími frá löndum eins og Kína. Innkaupin nema oft á annað eða þriðja hundrað þúsund krónur enda getur fólk veitt sér ýmislegt þegar verðlagið er allt, allt annað en hér heima. Vilji svo til að pantanir reynast ekki réttar er einfalt mál að skila en þó vissara að hafa tímann fyrir sér.

Þetta hefst upp úr því þegar verslanir gleyma því að við búum í heimi þar sem hægt er að versla nær hindrunarlaust á milli landa.

Júlía Margrét, blaðamaður Morgunblaðsins, á kollgátuna. Við neytendur vildum frekar hafa lágt verð og sleppa þessum tilboðum.

Við erum að greiða allt of mikið fyrir stærri og smærri þætti heimilisrekstursins, allt frá því að greiða nokkrum milljörðum of mikið í bifreiðaeldsneyti upp í nokkur hundruð prósentum of mikið fyrir legókassann.

Verst er að til er fólk sem er búið að ákveða að þetta henti þjóðarsálinni miklu betur - tilboð hér og þar heldur en að lækka álagninguna árið um kring.

Eða eins og formaður Samtaka verslunar og þjónustu sagði í viðtali fyrir um ári síðan, aðspurður hvort slíkt væri ekki betra:

„Þá þyrfti nú einnig að senda alla neytendur til sálfræðings. Þetta er eitt af því sem virkar á neytendur í öllum heiminum.“ Og að þetta væri þar að auki frábær leið til að fá neytandann til að eyða meiri peningum. 

Hitt er svo allt annað mál og afar þarflegt í umræðunni að verslunin á að vera heima en hún skilur það ekki. Tugþúsundir starfa við verslun, beint og óbeint. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að versla heima. Munum það. Munum jafnframt að verslun hér heima á ekki og má ekki vera á forsendum verslunarinnar einnar. Við neytendur skiptum máli og við sættum okkur ekki við okur.

 


Píratískt bull og tal út í bláinn

Í dag höfum við aðallega bara verið að fara yfir verkferla og reyna að finna út hvernig væri best og ákjósanlegt að vinna áfram þá vinnu sem var komin af stað og komin langt á veg með,“ sagði Smári í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir að málefnalega sé ekki langt á milli flokkanna þó þeir séu vissulega ólíkir og með ólíkar áherslur.

„En það er mikill vilji til þess að ná saman og ég vona að allir flokkarnir leggi sitt af mörkum við að miðla málum og komast að góðri niðurstöðu.

Afsakið orðbragði, en þetta er bara bull, tal út í bláinn, hjá talsmanni Pírata, Smára McCarthy. Svona orðalag er ekki þingmanni sæmandi. Annað hvort er hann að drepa málinu á dreif eða hann segir hreinlega ósatt. Þetta segir hann í viðtali við visir.is, sja hér. 

Hvað þýðir eiginlega „að fara yfir verkferla“?

Svarið er einfaldlega: Ekkert. Verkferlar eru ekki til í þessu samhengi. Það sem skiptir máli er að menn tali saman um málefni. Það hefur verið margoft reynt. Aungvir „verkferlar“  redda hér málum, skófla er nánast hið sama og reka.

Og blaðamaður visir.is gapir bara yfir orðalaginu og spyr einskis. Hvað hefur orðið um sjálfstæða og gagnrýna hugsun blaðamanna?

Píratinn spyr:

Viltu mynda með okkur fimm flokka ríkisstjórn.

Nei, takk, en bestu þakkir fyrir að spyrja.

Svo fer Píratinn afsíðis, hugsar málið og finnur upp betri „verkferla“. Þá spyr hann aftur:

Hvernig væri nú að við mynduðum saman þjóðhagslega hagkvæma ríkisstjórn sem hefði það að markmiði að duga þjóðinni afar vel, skattleggja almenning, ríka fólkið og  sjávarútveginn svo duglega svo við hefðum efni á góðri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi? Ha, hvað segirðu um það?

Jú, auðvitað, fyrst að verkferillinn er svona skýrt orðaður þá erum við alveg tilbúnir. 

Tekið skal fram að ofangreint svar fæst ekki frá Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum vegna þess að þeir eru holdsveikir að mati Pírata.

Svo á eftir að tækla þetta með „ólíka flokka“ og „ólíkar áherslur“. Þeir bitar kunna að standa þversum í hálsi.

 


Þjóðin leysi úr stjórnarkreppunni

Síðustu vikur eru ekki stjórnmálastéttinni til frægðarauka. Henni hefur ekki bara mistekist við myndun ríkisstjórnar heldur hafa yfirlýsingar að óreyndu lokað leiðum, sem verður að halda opnum ef ríkisstjórn á að verða til. Nú ætti tími stórkarlalegra yfirlýsinga þvers og kruss að vera liðinn.
Kjósendur eiga betra skilið en þennan hringlanda. 

Þetta segir Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365 miðla í forystugrein helgarblaðs Fréttablaðsins. Hún hefur rétt fyrir sér. 

Þegar tveir formenn stjórnmálaflokka hafa fengið tækifæri til að mynda ríkisstjórn en ekki tekist er nær útilokað að formaður smáflokksins Pírata takist eitthvað betur upp. Því er hreinlega óskiljanlegt að forsetinn skuli hafa beðið formanni Pírata að mynda stjórn. Ritstjóri Morgunblaðsins kallar þetta af alkunnri hnyttni sinni „rakastarstofuaðferðina. Næsti, gjörið svo vel ...“. 

Ekki neitt bendir til þess að Píratar kunni eitthvað betur til verka en formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og nú á formaður Pírata enn einu sinni að færða við alla þá sem hinir formennirnar hafa rætt við. Hvers konar vitleysisgangur er þetta? Verða allir að fá að vera með til þess að enginn skaðist andlega á að vera skilinn útundan?

Starfsstjórn sinnir nauðsynlegum störfum ríkisstjórnar, enginn gapir á Alþingi og ... það sem mestu skiptir, enginn saknar þingsins. Hér ríkir langþráður friður og allt gengur sinn vanagang. Þetta er svona eins og að allir veðurfræðingar landsins séu í árshátíðarferð í fjarlægri heimsálfu. Samt rignir úti, snjóar eða hvað sem er.

Kristín segir í leiðara Fréttablaðsins:

En með hverri vikunni aukast líkurnar á því að fljótlega verði kosið aftur til Alþingis. Slíkt gerist þó varla fyrr en með vorinu. Á meðan gæti þingið þurft að sætta sig við minnihlutastjórn, sem ekki er hefð fyrir á Íslandi, eða að forseti taki af skarið og myndi utanþingsstjórn. Það yrði sitjandi þingmönnum til vansa því þrátt fyrir allt er bjartara framundan í þjóðarbúskapnum en oft áður og spennandi tækifæri fyrir ríkisstjórn sem vill láta að sér kveða.

Utanþingsstjórn er gamaldags úrræði enda er nú einfaldara og auðveldara en nokkru sinni fyrr að efna til þingkosninga. Þar af leiðir að utanþingsstjórn ætti ekki að vera meðal úrræða forsetans nema þegar þær kringumstæður skapast að ekki sé hægt kjósa.

Hér ríkir stjórnarkreppa. Þeir kostir sem um er að velja eru slæmir fyrir þjóðina: 

  1. Ríkisstjórn með eins manns meirihluta
  2. Fjögurra flokka ríkisstjórn
  3. Fimm flokka ríkisstjórn
  4. Minnihlutastjórn

Skynsamlegast er því að þjóðin fái tækifæri til að taka af skarið og kjósa aftur.


Flækist stefnur ekki fyrir mun formaður Pírata mynda stjórn

Nú gerist eitthvað í stjórnarmyndunarviðræðum. Formaður Pírata, Birgitta Jónsdóttir, fékk umboðið frá forsetanum og með því fylgja að venju guðsblessun og sjóferðarbæn.

Næst á dagskránni er að Birgitta formaður tekur til hendinni og ræðir við þessa:

  1. Formann Vinstri grænna
  2. Formann Bjartrar framtíðar
  3. Formann Samfylkingarinnar
  4. Formann Viðreisnar
  5. Bátsmann Pírata
  6. Loftskeytamann Pírata

... en bíðið við. Var ekki formaður Vinstri grænna búinn að tala við þetta fólk?  Og Bjarni líka?

Jú, en margt hefur breyst, dagar hafa liðið og „vika er langur tími í pólitík“, segja álitsgjafarnir með stjórnmálafræðiprófið.

Höldum þá áfram. Birgitta formaður ætlar ekki:

  • að tala við formann Sjálfstæðisflokksins
  • að tala við formann Framsóknarflokksins

Þá er það á hreinu. Formaður Pírata ætlar að tala reyna að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Ástæðan er einföld:

  1. Vinstri grænir hafa skipt um skoðun síðan síðast
  2. Björt framtíð hefur skipt um skoðun síðan síðast
  3. Samfylkingin hefur skipt um skoðun síðan síðast
  4. Viðreisn hefur skipt um skoðun síðan síðast
  5. Píratar hafa skipt um skoðun síðan síðast

Ef þetta er rétt þá verður mynduð ríkisstjórn. Fólk þarf að átta sig á því að ríkisstjórn verður því aðeins mynduð ef allir flokkar fari að dæmi Vinstri grænna sem höfðu fyrir kosningarnar 2009 þá einörðu afstöðu að ganga ekki inn í ESB og sögðu þetta:

Þá hafnar Vinstri hreyfingin - grænt framboð aðild Íslands að Evrópusambandinu þar eð slík aðild myndi skerða fullveldi Íslands og forræði þjóðarinnar yfir auðlindum lands og sjávar.

Þetta var auðvitað aðeins til heimabrúks enda er stefna er ekki til annars en að breyta henni ef ráðherrasæti eru í boði. Aðrir flokkar sem hafa þetta hugfast komast auðveldlega í ríkisstjórn.

Þess vegna, ágæti lesandi, mun formanni Pírata takast að mynda ríkisstjórn fimm stjórnmálaflokka. Hafi hins vegar enginn skipt um skoðun versnar í því. Þá er það þrautaráð forsetans að biðja formann Samfylkingarinnar að reyna það sem hinir gátu ekki.

 

 

 


mbl.is Birgitta komin með umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarkreppa, ríkisstjórn ABCD eða nýjar kosningar

Stjórnmálamenn sem og allir aðir þurfa að átta sig á einu. Stjórnarkreppa ríkir á Íslandi. Ekki er nokkur leið að mynda ríkisstjórn sem hefur nægan meirihluta. Sú eina stjórn sem er tæknilega möguleg væri ef Sjálfstæðisflokkurinn (21 þingmaður), Björt framtíð (4), Viðreisn (7) og Framsóknarflokkurinn (8) næðu samkomulagi en samanlagt hafa þessir flokkar 40 þingmenn.

Ljóst er að þessi ríkisstjórn yrði ekki framhald þeirrar sem ríkt hefur frá 2013. Ástæðan er einfaldlega sú að hið pólitíska landslag gjörbreyttist í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn styrktist, Viðreisn varð til og Framsóknarflokkurinn tapaði stórt. Þetta yrði því ný ríkisstjórn á nýjum forsendum.

Hins vegar er þetta ekki góð ríkisstjórn. Fjögurra flokka ríkisstjórn þýðir eiginlega að hálft löggjafarþingið verður háð utan veggja Alþingis og á öðrum tímum. Slíkt væri hið mesta hallæri og erfitt í vöfum.

Skynsamlegast er auðvitað að kjósa aftur. Þingið sitji með starfandi ríkisstjórn þangað til kosið verður í febrúar eða mars. 

Ekkert er mælir á móti því að kjósa aftur, með því að leitað til þjóðarinnar og kannað hvernig hún vilja leysa úr stjórnarkreppunni.


mbl.is „Erum nú bara venjulegt fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öld frá strandi Goðafoss við Straumnes í Aðalvík

StraumnesÍ dag er ein öld er liðin síðan Goðafoss strandaði við Straumnes undir samnefndu fjalli yst í Aðalvík. Þar sem flakið liggur núna munar aðeins um sexhundruð metrum að skipið hefði náð fyrir Straumnes. Miðað við það var það ótrúleg óheppni að skipið skuli hafa siglt upp í fjöru.

Skipstjórinn mun hafa gefið fyrsta stýrimanni stefnu til að sigla eftir út úr Aðalvík og hvarf hann svo úr brúnni. Úti var slæmt veður, snjókoma og ekkert skyggni og vissi stýrimaður ekki fyrr til en að skipið steytti á grunni.

Talstöðvar skipsins biluðu í strandinu og útilokað var að senda út hjálparbeiðni. Um borð voru fimmtíu og átta manns, farþegar og áhöfn.

Þegar skipið strandaði drapst á ljósavél og þurfti fólk að bíða í tvo sólarhringa í myrkri. Það var ekki fyrr en stýrimaður og nokkrir hásetar gátu róið á björgunarbát inn að Látrum í Aðalvík að hjálpin barst. Vandamálið var þá að allir bátar stóðu uppi enda hávetur og útræði ekkert. Mikil vinna var að sjósetja báta, senda skilaboð á milli bæja og skipuleggja hjálparstarf.

Aðalvíkingar björguðu áhöfn og farþegum. Má gera sér í hugarlund hversu aðstæður voru erfiðar. Þetta var frækileg björgun, enda veður slæmt og snjór og ís á fjörum og báta heimamanna byggðir til fiskveiða en ekki björgunarstarfa.

Straumnes4Goðafoss var nýtt skip, byggt í Kaupmannahöfn 1915 fyrir Eimskipafélag Ísland sem nefnt var „óskabarn þjóðarinnar, stofnað 17. janúar 1914. Strandið var gríðarlegt áfall fyrir félagið.

Árið 1980 fór ég í fyrsta skipti um Hornstrandir, ferðirnar áttu eftir að verða ótalmargar síðan. Þá gengum við þrír félagar á Straumnesfjall og að herstöðinni gömlu þar uppi. Eftir að hafa skoðað okkur um þar, skildu leiðir, þeir héldu sömu leið til baka en mér lék hugur á að fara niður að hinu sögufræga Straumnesi og ekki síður að Goðafossi.

Þetta var tilkomumikil ganga, niður Straumnesdal og út að vitanum á Straumnesi. Þar fyrir utan mætast hafstraumar og gat verið viðsjálvert fyrir litla báta að fara í röstina sem þar varð oft afar mikil.

Straumnes3Örskammt fyrir innan Straumnes, aðeins um hálfum kílómetra, eins og nefnt var hér í upphafi, liggur flakið af Goðafossi. Þegar ég átti leið þarna um höfðu áratugirnir farið illa með flakið. Aðeins stjórnborðsstefnið var nokkuð heillegt og mastur stóð skáhalt út í Aðalvík rétt eins og bending inn hana, minnisvarði um frækilegt björgunarafrek heimamanna. Skammt frá var stór gufuketill en skipið var knúið gufu.

Ég var einn, veðrið var ákaflega fallegt og stillt og áhrifin voru eins og að koma í kirkjugarð, mér fannst þetta nærri því helgur reitur.

Auðvitað var ekkert heillegt í skipinu. Brim, frost og óveður höfðu fyrir löngu tortímt því sem heimamenn gátu ekki bjargað.

Í Morgunblaði dagsins ritar Matthildur Guðmundsdóttir, Aðalvíkingur, grein þar sem hún fjallar um strand Goðafoss. Í henni segir hún:

Enginn spurði Látramenn hversu miklu eldsneyti þeir hefðu eytt við að flytja fólkið í land og bæta við ferð til Ísafjarðar. Það spurði heldur enginn um hve mikil matföng hefðu farið til að fæða 58 manns, en vetrarforði Látramanna minnkaði að sjálfsögðu við þessa björgun. Björgunarlaun voru engin.

400 olíutunnur voru um borð í Goðafossi og voru Látramenn fengnir til að bjarga þessum tunnum eftir því sem veður leyfði og sem laun fyrir þá vinnu fengu heimamenn ½ tunnu á hvert heimili.

Eitthvað máttu heimamenn nýta úr brotnandi skipsflakinu og til gamans má geta þess að eitt fjósið á staðnum varð frægt fyrir fína hurð sem þar var og á stóð með gylltum stöfum: „Fyrsta farrými.“

Straumnes2Forðum var það þannig að ekki var spurt um laun fyrir að bjarga náunganum í nauð hans. Þannig er það ekki heldur í dag.

Myndir, hægt er að stækka allar myndir:

  1. Loftmynd af Straumnesfjalli. Inn á það hefur strandstaðurinn verið merktur. Látrar eru neðst í hægra horninu. Þangað eru tæplega tíu kílómetra leið, róður á móti hvassviðri.
  2. Mynd af flaki Goðafoss, tekin 1980
  3. Mynd af stefni Goðafoss, tekin 1980
  4. Mynd tekin ofan af Straumnesfjalli 1995
  5. Goðafoss, skip Eimskipafélagsins.

Goðafoss

 


Ríkisstjórn um það sem er mikilvægast

Óli Björn KárasonSvo eru þeir sem eiga sér aðra drauma: Að mynduð verði ríkisstjórn sem tekst á við verkefnin sem mestu skipta: Heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, menntakerfið og fjárfestingu í innviðum, ekki síst samgöngum. Að mynduð verði ríkisstjórn flokka sem eru tilbúnir til að nýta uppsveiflu í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar, án þess að leggja auknar byrðar á heimili og fyrirtæki, sem fyrr fremur en síðar mun draga úr hagsæld.

Svona orðar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skoðun sína sem raunar er stefna flokksins, og er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég og tugþúsundir annarra kjósum hann. Þetta er að finna í grein Óla Björns í Morgunblaði dagsins, hófsöm, fallega orðuð og einlæg.

Þó er skammt er í varnaðarorðin:

Niðurstaða kosninganna í lok október kemur í veg fyrir að hægt sé að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka. Þessa vegna verða að minnsta kosti þrír flokkar að koma að næstu ríkisstjórn. Forystumenn stjórnmálaflokkanna geta leitað að málum sem sundra þjóðinni eða náð saman um þau sem skipta almenning mestu.

Þetta er eiginlega það sem maður fær stundum á tilfinninguna, að hinn pólitíski tilgangur sé ekki sá að vinna landi og þjóð sem best heldur að sundra og jafnvel að bylta því sem áunnist hefur. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef verkefni nýrrar ríkisstjórnar hverju sinni sé að umbylta öllu, draga til baka það sem fyrri ríkisstjórn hefur gert og svo framvegis, leggja ofurskatta á einstaklinga og fyrirtæki svo dæmi sé tekið. 

Óli Björn er ekki sammála þessu. Hann hvetur til þess að stjórnmálaflokkarnir leiti að málum sem sameina, skipta þjóðina mestu.

Hann leggst gegn skattahækkunum, telur að það skerði samkeppnisaðstöðu þjóðarinnar ef skattar séu hærri hér en í nágrannalöndunum, það muni einfaldlega valda því að okkur muni ganga erfiðlega að fá vel menntað fólk heim aftur ef það fær miklu hærri laun í öðrum löndum.

Í niðurlagi greinarinnar bendir hann á mikilvægt atriði:

Í stað þess að takast á um skattahækkanir er skynsamlegra að leggja drög að því að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs. Ef fjármagnskostnaður í hlutfalli af gjöldum hefði verið svipaður á síðasta ári og 2003-2006 hefði ríkið haft 46 milljörðum meira úr að spila. Þetta er næstum jafnmikið og allur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta eitt lítið atriði sem gott er að hafa á minnisblaði og hafa upp á borði við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í meginatriðum hljóta allir að vera sammála því sem Óli Björn Kárason segir í greininni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband