Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jarðskjálfti og léleg landafræðiþekking

DVTrúgirni er neikvætt orð og í eðli sínu slæmt. Hér áður fyrr trúði ég hverju orði sem birtist í dagblöðum en nú er ég gætnari. Til dæmis veit ég hvar Þingvellir eru en blaðamenn DV vita það ekki, því miður.

Þá er spurningin hvernig maður bregst við „frétt“ í DV sem segir að Þingvellir séu sunnan við Þingvallavatn. Mér er eiginlega ekki hlátur í huga heldur miklu frekar harmur. Hvað er raunarlegra en fjölmiðlungur sem þekkir ekki landið sitt og kann ekki að skrifa ... og er svo fljótfær að hann leitar ekki heimilda?

Enginn jarðskjálfti varð í dag á Þingvöllum þó svo að fyrirsögn í vefritinu dv.is haldi því fram. Raunar segir í fréttinni að jarðskjálftinn hafi verið sunnan vatnsins og hefði það eitt átt að geta aðvarað blaðamanninn. Nei, hann tók ekki eftir því. Líklega er hann svo menntaður sem margir aðrir að hann telji að völlurinn sem þingið var forðum háð sé allt í kringum vatnið sem við hann er kennt.

JarðskjálftarNóg um það. Stór jarðskjálfti varð í Grafningi, norðaustan við Hengil og sunnan við Þingvallavatn. Þetta eru um tuttugu km í beinni loftlínu sunnan við Þingvelli. Þeir 

Upptök skjálftanna eru á sniðreksbelti sem kennt er við Reykjanes og er það austasta af sex eldstöðvakerfum og er það kennt við Hengil og hefur sprungustefnu upp í Langjökul. 

Vestan við sprungukerfið færist landið til vesturs en hinum megin til austurs.

Í jarðskjálftahrinunni í morgun urðu þarna um 37 skjálftar, þar af þrír stórir, 2,8 stig, 2,0 stig og loks sá stærsti 3,7 stig.

Litlar líkur benda til þess að um sé að ræða eldivirkni, miklu frekar afleiðing spennu sem hefur myndast við jarðskjálfta á undanförnum misserum í hinum eldstöðvakerfunum Reykjaness. Á þessu svæði er fjöldi sumarhúsa og má búast við að þeir hafi skolfið talsvert.

 


mbl.is Skjálfti upp á 3,8 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilltir hæstaréttardómarar ... eða hvað?

Mér skilst að nokkrir hæstaréttardómarar dragi andann nokkurn veginn án utanaðkomandi aðstoðar. Það er nú meiri andskotinn og bendir til spillingar.

Nokkrir þeirra hafa fengið aðstoð heilbrigðiskerfisins til að koma sér til heilsu eftir veikindi og jafnvel slys. Þetta telst auðvitað til misnotkunar á kerfinu.

Einn hæstaréttardómari er skráður í íþróttafélagið Fram, sem er bara hrikalega ljótt og andstyggilegt og ætti ekki að leyfast.

Svo eiga þeir húsnæði og jafnvel sumarbústaðalóðir. Hvað er eiginlega að gerast? Þetta lið virkar næstum því eins og venjulegt fólk.


mbl.is Lítt skuldugir en félagslyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Presturinn lamdi Hallgrím með sleggju

Ein skemmtilegasta fyrirsögn sem ég hef lengi rekist á er í Fréttablaði dagsins. Þar stendur skýrum stöfum:

Prestur barði Hallgrím.

Í inngangi fréttarinnar segir þetta:

Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, og sonur hans Þórður hringdu inn nýtt ár með handafli. Þeir notuðu sleggju á stærstu kirkjuklukkuna í turni Hallgrímskirkju. Skoteldar gerðu veruna í turninum afar sérstaka.

Auðvitað krossbrá mér. Í nokkur sekúndubrot las ég að gamall vinur minn og nafni hefði barið einhvern Hallgrím. Svo létti mér. Þarna var blaðamaðurinn að leika sér með orð. 

Sigurður Árni sló ásamt syni sínum á klukku í Hallgrímskirkju sem kölluð er Hallgrímur eftir skáldinu góða.

Raunar má fyrirgefa svona fyrirsögn, hún er fyndin. Yfirleitt hringja menn kirkjuklukkum en hver er að pæla í slíku. 

Rithöfundurinn stórmerki Ernst Hemingway ritaði fræga og góða bók sem kom út árið 1940 og  nefnist „Whom The Bells Toll“. Í frábærri þýðingu Halldórs Laxness fékk sagan nafnið „Hverjum klukkan glymur“ og verður að segja að betur er vart hægt að þýða heiti skáldsögunnar.

Kirkjuklukkan Hallgrímur glumdi vegna áramótanna og var það vel til fundið að berja á henni.


Hann sem allt kann miklu betur en allir aðrir

Ónefnt bæjarfélag á SA landiÁgætlega ritfær maður sem ég kannast við skrifaði eitt sinn smásögu sem fjallaði um komu útlendra ferðamanna til ónefnds bæjarfélags á suðausturlandi.

Sagan hefst í Reykjavík og þar bauð Stefnir Jónsson, flugstjóri, farþega velkomna um borð. Eftir lendingu í hinu ónefnda bæjarfélagi kom Stefnir Jónsson með tröppur að flugvélinni. Maður með sama nafn flutti farangurinn inn í flugstöðina. Bílstjórinn sem ók rútunni að hótelinu hét Stefnir Jónsson. Hótelstjórinn, Stefnir Jónsson, tók á móti farþegunum og kokkurinn, Stefnir Jónsson, matreiddi um kvöldið þennan líka dýrindis silung. Um morguninn gekk hópurinn með Stefni Jónssyni, leiðsögumanni, um bæinn og fengur þeir lítinn bækling á ensku sér til glöggvunar á staðháttum. Höfundur hans var Stefnir Jónsson. Um kvöldið var leiksýning í samkomuhúsinu og aðalleikarinn hét Stefnir Jónsson og var góður rómur gerður af frammistöðu hans í hlutverki Hamlets í nýstárlegri uppsetningu. Næsta morgun ók Stefnir Jónsson upp á jökul og þar rúntaði hann í snjóbíl með útlendinganna um jökulinn og var það mikið, mikið gaman. Um kvöldið var gleðistund við barinn á hótelinu og Stefnir Jónsson, barþjónn, kynnti stórfínan kokteil sem bjó til. Skemmtiatriði kvöldsins var fjöldasöngur sem Stefnir Jónsson, stórsöngvari, leiddi og stjórnaði. Daginn eftir var haldið til baka til Reykjavíkur og eftir að hafa kvatt alla farþeganna með handabandi kom lögreglan og flutti Stefni Jónsson aftur á Litla-Hraun þaðan sem hann hafði fengið helgarleyfi vegna andláts ömmu sinnar (í fjórða og síðasta sinn).

Jæja ... þetta datt mér í hug þegar ég las um Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlækni, í Fréttablaði dagsins. Enn einu sinni kemur grein og viðtal við Tómas, enn og aftur. Nú veit ég alltof mikið manninn. Rétt eins og hann Stefnir Jónsson í smásögunni er Tómas maður ekki einhamur. Hann gengur á fjöll, skíðar, veikist af myglusveppi, læknar sig, býr til börn, læknar önnur, sinnir konu sinni, situr í stjórn Ferðafélagsins, er fararstjóri, fer í langar um stuttar gönguferðir með vinahópum og fyrir félagið, læknar með gervibarka, kennir læknanemum, stundar rannsóknir, tekur líffæru úr einum og setur í annan, gengur um stofu sjúkrahússins, skrifar um sjúkdóma, hughreystir sjúklinga, rannsakar teikningar af nýjum há-há-hátæknifræðilegum Landspítala, klappar á koll barna og ábyggilega margt fleira. Honum er greinilega margt til lista lagt. Sem sagt ég veit meira um Tómas en góðu hófi gegnir. Ég veit minna um hann Tyrfing frænda minn og er sá góði maður afar skemmtilegur og kátur maður, spilar golf, les góðar bækur ... og svo veit ég ekki meir. 

Um annan lækni veit ég fátt en þó er hann oft í fjölmiðlum. Hann heitir Kári Stefánsson og er vel máli farinn og hæfileikaríkur skríbent, beitir hvoru tveggja til stuðnings því sem hann trúir á. Hins vegar veit ég ekkert um persónulegar aðstæður Kára, hvort hann skíðar, gengur á fjöll eða lemur iðnaðarmenn meira en góðu hófi gegnir. Það þykir mér gott. Ég vil ekki vita allt um alla.

Svo er það hitt, það er ekki traustvekjandi að vera mellufær í öllu, jafnvel ekki frábær. Sú var nú ástæðan fyrir því að hann Stefnir Jónsson þóttist geta allt - og var meira en góður í flestu. Það er sitt hvað að kunna að taka flugvél á loft en að geta lent henni. Held ég.

Sögunni um Stefni Jónsson týndi ég fyrir löngu, höfundinum til mikillar skapraunar.

Þess ber að geta að fyrirsögn pistilsins á við söguhetjuna.

Myndin er af ónefndu bæjarfélagi á suðausturhorni landsins. Öræfajökull í baksýn.


Ef aðrir myndu menga svona mikið ...

IMG_7919Mengunarvöldunum er oftast næstum því alveg sama þótt þeir skaði umhverfið. Þannig er ástandið um áramót. Mínir flugeldar og blys valda ekki mengun, hvað þá stóru stjörnuljósin og alveg pottþétta ekki brennan sem ég stóð við á gamlaárskvöld. Það voru hinar brennurnar, hinir sem skutu upp rakettum og kveiktu í blysum sem menguðu.

Sama er með nagladekkin. Alveg hrein makalaust hvað margir keyra um á nagladekkjum, alveg frá byrjun október og jafnvel fram í júní. Aldrei er ég með nagladekkin svona lengi undir, í mesta lagi frá nóvember og fram í apríl.

Ef allir hefðu jafn brenglaða hugsun og ég væri mengunin miklu meiri vegna þess að svifryksmengunin eykst með meiri notkun nagladekkja.

Auðvitað er rosalega gaman að skjóta upp rakettum og stemningin er gríðarlega skemmtilegt. Nagladekkin veita manni svo ossalega mikið öryggi þessa þrjá daga sem þeirra er virkilega þörf.

Hvers vegna skjótum við upp flugeldum á gamlaárskvöld og áramót? Er það álíka mikilvægur siður og að höggva niður grenitré á heiðum Jótlands og flytja inn hingað til lands og kalla „jólatré“? Eða er það vegna þess að við erum að styrkja björgunarsveitir landsins?

Björgunarsveitunum vantar fé til reksturs síns, það er óumdeilt. Er það hins vegar ekki dálítið mikið í lagt að kaupa rakettur frá Kína, þar sem rafmagnið er fengið úr orkuverum sem kynnt eru með kolum. Skoteldarnir eru svo fluttir inn með skipum yfir meira en hálfan hnöttinn. Kolefnisfótspor rakettunnar minnar og stóru tertunnar þinnar er því rosalega mikið.

Er ekki ástæða til að hugleiða þetta?

Nagladekk eru gagnslaus í snjó. Það eiga allir ökumenn að vita. Á suðvesturhorninu koma afar sjaldan upp þær aðstæður að nauðsynlegt er að nota þau. Þetta er svipað og að ganga í stígvélum alla daga vegna þess að hugsanlega verður drullupollur á vegi manns. Stígvél eru þarfaþing en oftast hægt að krækja fyrir pollinn. Einnig er hægt að sleppa því að aka í vinnuna þessa þrjá daga á ári sem hugsanlega er þörf á nagladekkjum.

Ég væri til í að sleppa að kaupa rakettur og skottertur um áramótin, láta stjörnuljósin duga og eyða peningunum í að kaupa eitthvað annað af björgunarsveitum landsins, jafnvel afhenda þeim þessar tuttugu og fimmþúsund krónur í seðlum ... 

Í sannleika sagt hef ég ekki notað nagladekk í nærri tuttugu ár og hef ekki í hyggju að gera það. Að vísum komu upp nokkur atvik er ég bjó úti á landi að betra hefði verið að vera með nagla. 

Þeir sem valda mengun eru oft kærulausir um gerðir sínar. Við, borgararnir erum þó haldnir mikilli tvöfeldni.

Hefði eitt eða fleiri fyrirtæki verið völd að því að styrkur svifryks hefði á nýársnótt verið 1.451 míkrógrömm á rúmmetra þá hefði fjandinn orðið laus. Við, hinir sómakæru sem ökum á nagladekkjum, skjótum upp rakettum, kveikjum í brennum og erum með jólatré frá Jótlandi, myndum umsvifalaust kæra þessi fyrirtæki. Jafnvel safna undirskriftum og krefjast að þeim væri lokað.

Sem rökstuðning myndum við benda á að heilsu barnanna okkar væri stefnt í voða.

Myndin er tekin á horni Ægissíðu og Hofsvallagötu í Reykjavík á nýársnótt.


mbl.is Mengun langt yfir heilsuverndarmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlega áhugaverðir atburðir liðins árs

Vefþjóðviljinn tekur jafnan um áramót saman það sem helst hefur borið við á liðnu ári. Hér eru nokkur óborganleg atriði.

  • Enginn ársins: Þingmannafjöldi Samfylkingarinnar úr kjördæmum þar sem eru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes, alls um 160.000 kjósendur.

  • Fjáröflun ársins: Flokkur fólksins fékk engan mann kjörinn á þing en getur fengið um 40 milljóna króna verðlaun úr ríkissjóði fyrir atkvæðin sem hann náði.

  • Stefna ársins: Skoðanakannanir sýndu lítið fylgi Samfylkingarinnar. Oddný Harðardóttir lýsti mikilli furðu á því vegna þess að Samfylkingin hefði „bestu stefnu í heimi“.
  • Endurskoðun ársins: Eftir kosningar sagði Oddný Harðardóttir að Samfylkingin þyrfti að endurskoða stefnu sína. Þá bestu í heimi.

  • Afsagnarskilningur ársins: David Cameron forsætisráðherra Bretlands sagði af sér daginn eftir Brexit-kosninguna. Katrín Jakobsdóttir sagði afsögnina ekki koma á óvart. Sjálf sat Katrín í ríkisstjórn sem tapaði tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Engum ráðherra í þeirri ríkisstjórn datt í hug að segja af sér.

  • Líkur ársins: Birgitta Jónsdóttir sagði að 90% líkur væru á því að hún gæti mynduð yrði fimm flokka vinstristjórn.

  • Þónokkuð ársins: Helgi Hrafn Gunnarsson sagði að Birgitta Jónsdóttir hefði „opinberlega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið“.

  • Þarfleysi ársins: Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsnefndar Reykjavíkur, sagði tilgangslaust að fjölga akreinum á helstu umferðaræðum. Þær myndu bara fyllast einhvern tímann af bílum.

 


Styrkur ríkis og þjóðfélags með orðum forsetans

Fáni í Básum

Það er nefnilega þannig að styrkur ríkis og þjóðfélags er ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Og þótt við fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta eru þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu.

Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd. Í samanburði við mörg önnur ríki og okkar eigin fortíð megum við vel við una. En við getum ætíð gert enn betur.

Þetta sagði forseti lýðveldisins í fyrsta áramótaávarpi sínu þann 1. janúar 2017. Undir það geta flestir tekið hvar í flokki sem þeir standa. Vonandi verður þessi hugsjón rituð framarlega í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem Bjarni Benediktsson er að mynda með Viðreisn og Bjartri framtíð.

Myndin er tekin í Básum á Goðalandi og er horft yfir á Tindafjöll í Þórsmörk.


Það má ekki pissa bakvið hurð ...

Það má ekki pissa bakvið hurð 
og ekki henda grjóti oní skurð 
ekki fara í bæinn 
og kaupa popp og tyggjó 
og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó

DSC_7729Uppeldi okkar er svo ráðandi þáttur í skapgerð flestra að sumir geta hreinlega ekki hætti því að ala mann upp. Þar með verður svo margt til sem er bannað, rétt fram kemur í snjöllu ljóði eftir Sveinbjörn Baldvinsson „Lagið um það sem er bannað“. Flestir þekkja fyrsta erindið.

Svona löngun til að ala mann upp brýst einna helst fram í því að maður má helst ekki hafa aðra skoðun en þá sem „uppeldisfræðingarnir“ telja viðtekna.

Ef til vill er það í tilefni áramótanna að mér flugu í hug það sem ekki má nefna. Viðurlögin við slíku eru oft harkaleg.

Sigmundur

Ekki er gott að sitja í potti og skjóta því inn í þrjátíu og fimm gráðu heitar umræðurnar að svo virtist sem að Sigmundur Davíð hafi lent í fyrirsát í Kastljósinu síðasta vetur. Augnabliksbroti kólnar niður fyrir frostmark í pottinum, tíu andlit snúast á hálsliðu, augu sem áður voru hálflukt verða galopin, hakan fellur með skvettu niður á bringu og kólnandi soðið af fólkinu tekur að sullast inn. Mér fannst þetta svona eins og í Zombie-mynd þegar óværurnar finna lykt af fersku blóði.

Hér skipta rök engu máli, það má ekki taka afstöðu sem túlka má sem stuðning við Sigmundi Davíð. Hér gildir ein og sönn ríkisskoðun, svo vitnað sé til Marteins Ladda Mosfells, og það er sú sem Ríkissjónvarpið hefur opinberað. Ég hrökklaðist virðulega upp úr pottinum og fór í annan fámennari.

Jamm og já ...

DSC_7492 B - Version 2Skoteldar

Ekki misskilja mig, ég hef mikið álit á björgunarsveitum landsins en ... hver segir að þær megi að einoka skoteldamarkaðinn. Ég er bara á móti einokun, hvaða nafni sem hún nefnist og hver svo sem tilgangurinn er. Í þokkabót finnst mér að þeir sem stuðla að mengun í landinu eiga að hugsa sinn gang. Svo er það álitamál hvort að skothríð um áramót sé ekki bara úreltur siður. Miklu gáfulegra væri að fólk fari bara út á svalir eða út í garð og tæki lagið, með eða án undirleiks.

Þetta lét ég út úr mér í strætó um daginn, var á leiðinni niður á Lækjartorg. Heldur lá mér hár rómur og heyrðu aðrir farþegar orð mín og bílstjórinn líka. Þetta var allt í lagi, ég komst gangandi niður á Torg á sjö mínútum.

Nema hvað ...?

DSC_7810 BBrjóst

Fyrir mörgum árum spurði einhver fjölmiðillinn þáverandi fjármálaráðherra að því hvers konar konum hann líkaði best við. Frekar undarlegt að leggja svona spurningu fyrir ráðherrann en hann svaraði því á þá leið að hann legði nú aldrei dóm á fólk fyrr en hann hefði náð að spjalla við það. Þetta þótti mér gáfulegt svar og hljóma sennilega.

Góður vinur minn sem ég þekki hvorki haus né sporð á hneykslaðist á svarinu og óumbeðinn sagðist honum líka best við konur með stór brjóst. Því miður heyrði konan hans þessi orð og var hún ekki eðlilega ekki sátt. Maðurinn fékk fulla sjón á vinstra auga eftir sex vikur og nokkru síðar skildu þau í kjölfarið.

Það er nú það ...

DSC_7832 B - Version 2Davíð

Eitt sinn var ég í ónefndu bæjarfélagi við austanverðan Miðfjörð og var á leið með öðrum manni niður stigagang. Á miðri leið mættum við konu nokkurri sem heilsar hressilega þeim sem með mér gekk. Hún spyr hann hvers konar djö... fífl þessi Davíð Oddsson væri en sá ágæti maður hafði verið skömmu áður í útvarpsfréttum. Hann svaraði nú frekar fáu, þekkti greinilega konuna, og vildi ekki gera henni það til geðs að ræða mikið um forsætisráðherrann. Þar með snéri hún sér að mér og spurði sömu spurningar. Oftast er ég frekar bóngóður, stundum ræðinn en ávallt heiðarlegur í tali. Þess vegna svara ég á þá leið að mér finnist Davíð Oddsson vera drengur góður, ég hafi lesið mikið eftir hann og hlustað á fundum og kann fátt illt um manninn að segja.

Þarna var ég næst því staddur að lenda í álíka stöðu sem Eyjólfur Þórðarson var í er Auður Vésteinsdóttir barði hann á nasirnar með fésjóðnum eins og segir í Gísla sögu Súrssonar. Það er að segja að ég hélt að konan ætlaði að berja mig fyrir að láta ekki eitthvurt ill orð hrjóta um Davíð Oddsson. Félagi minn varð mér til bjargar og dró mig niður tröppurnar en konan argaði óyrði um mig og Davíð og heyrðist í henni löngu eftir að ég ók burtu úr bænum. 

Þarna hef ég líklega lent í mestri lífshættu á ævin minni. Hef þó hrapað í jökulsprungu, villst á Vatnajökli, lent í óviðri á Emstrum, vaðið Hvanná í leysingum og farið á fund hjá Steingrími J. Sigfússyni, svo einhverjar hrakningar séu nefndar.

Sigurður minn, sagði sá sem barg mér: Þú þarft ekki alltaf að svara með ræðu. Síðan hef ég passað mig.

DSC_7905 BJæja ...

Þetta var nú bara hamrað á lyklaborðið til að drepa tímann. Er að fara í matarboð til sonar míns og tengdadóttur þar sem fleira gott fólk bíður. Þar verður líklega horft á leik í enska boltanum sem hefst eftir nokkrar mínútur. Vonast til að Manchester City mali Liverpool, það árans montlið.

Enn og aftur óska ég lesanda mínum gleðilegst árs og að næsta ár verði miklu, miklu betra.

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.

Það er nebbnilega það ...

 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr spariskúffunni. Teknar á Vífilsfelli og nágrenni.

 


Áramótaávarp eins og þau gerast leiðinlegust

FlugeldarÁgætu landsmenn (borið fram með djúpri, tilgerðarlegri röddu),

Á þessum tímamótum er gott að gera upp fortíðina og líta til framtíðar. Má vera að ég hafi valdið einhverju efnahagshruni. Hugsanlega er ég ábyrgur fyrir tapi Landsbankans á sölu hlutabréfa í Borgun og svo getur vel verið að ég hafi ekið of hratt í á fagurri sólarnóttu frá Hólmavík til Reykjavíkur. Ég gæti nefnt fleira og alvarlegra.

Um þetta má endalaust deila, jafnvel karpa og hugsanlega rífast. Skynsamlegast er þó að láta þetta liggja í þagnargildi enda ég sé strax eftir þessari upplýsingu.

Lítum frekar til framtíðar enda eru litlar líkur á því að ég geti hjálparlaust valdið efnahagshruni enda stendur hugur minn til annarra ódæða. Ekki mun ég ábyrgjast sölu hlutabréfa fyrir einn eða neinn í náinni framtíð, hef öðrum afglapahnöppum að hneppa. Og síst af öllu er ég líklegur til brjóta hraðareglur umferðalaga frekar en fyrri daginn.

Um leið og ég varpa ofangreindu út í myrkvað algleymið er ekki úr vegi að minna á þjóðarleirskáldið sem kvað:

Hvað? spurði karlinn og kvað
kvæði og ég veit ekki hvað.
Það skrifaði hann með hrað,
hróðugur og svo er nú það.

Þetta er hrein snilld, svo ég segi sjálfur frá. Að lokum er ekki úr vegi að minnast á þá sem senda frá sér ómerkileg og leiðinleg áramótaávörp, draga jafnvel blessuð þjóðskáldin nauðug inn í hjal sitt og misnota hin fegurstu ljóð sem við það verða eins og hringmiginn fjallaskáli að vetrarlagi. Öllum til andstyggðar.

Þá er snöggtum skárra að hafa sem fæst orðin, óska einfaldlega gleðilegs árs og eftir þörfum að það komandi verði gæfuríkt. Eða bara sleppa því ef helv... ódámurinn á ekkert gott skilið.

Verst er þó af öllu að vera allsgáður og hripa svo niður þennan dómadags leiðinlegan texta.

Ég óska þeim sem álpast til að hafa lesið þetta óráðshjal fram að síðasta punkti, gleðilegs árs og vona að það næsta verði þeim miklu, miklu betra.

Ætíð er innistæða til bjartsýni. 

Þökk þeim sem hlýddu (þýðir að hlusta, ekki að fara að fyrirmælum (veit ekki hvort lesandinn aðhyllist íslensku eða ísl-ensku)).

Skál.


Píratinn McCarthy sem talar tungum tveim

SmáriNýkjörinn þingmaður Pírata, Smári McCarthy, gerði fyrir hönd Pírata tilraun til að mynda ríkisstjórn á Íslandi. Flokkurinn ætlar sér að breyta íslenskum stjórnmálum til betri vegar.

Ástæða er til að draga einlægni mannsins í efa og þar af leiðandi flokksins.

Götustrákar vaxa úr grasi og flestir breytast. Þeir læra nýja siði, þroskast og læra samskipti. Aðrir eru þó til sem ekkert nýtt læra og halda sig við það sem þeir best kunna og tileinkuðu sér á götunni. Þar gildir hávaðinn, lætin, eineltið, ofbeldið ...

Síst af öllu rökræður, yfirvegun kurteisi og gott viðmót.

Sá sem lætur hafa eftir sér formælingar á borð við þær sem birtast á meðfylgjandi mynd af Twitter getur varla verið vel innrættur.

Látum vera þó verðandi forseti Bandaríkjanna sé illa þokkaður og jafnvel vondur. Sá sem kann ekki að stilla orðum sínum í hóf á ekki að sitja á Alþingi Íslendinga. Og þar að auki bendir orðalag þingmannsins til þess eins að hann sé ekki vel að sér í enskri tungu, þrátt fyrir eftirnafnið. Mjög auðveldlega er hægt að tjá skoðanir sínar á ensku án þess að nota þetta heimskulega „f“ orð. Notkun þess sýnir bara innrætið.

Á vefritinu stundin.is skrifar Smári McCarthy, núverandi alþingismaður:

Hvers vegna þjóðarsálin er svo heiftug? Hvers vegna er svona erfitt fyrir fullorðið fólk að eiga samtal án þess að úr verði gífuryrtur leðjuslagur?

Síðar í sömu grein segir maðurinn:

En ég óttast að ef samfélagsumræðan bæði á Alþingi og í fjölmiðlum fer ekki að batna mun lítið duga til langs tíma að óska eftir skynsömum umræðum.

Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð.

Já, þetta er sami maðurinn og skrifaði textann sem birtist á myndinni hér fyrir ofan. Hann er skrifaður 28. desember 2015, aðeins rúmum hálfum mánuði eftir að hann formælti Donald Trump.

Er hægt að treysta svona manni? Er hægt að treysta Pírötum?

Einn daginn formælir hann frambjóðenda í forsetakjöri í útlöndum og annan daginn hvetur hann til hófstilltrar umræðu hér innanlands. 

Á hreinni íslensku er svona maður kallaður tvöfaldur, tali tungum tveim, sé óútreiknanlegur.

Slíkum er ekki treystandi, síst af öllu á löggjafarþinginu.

Myndina af Twitter er fengin af grein á vefritinu pressan.is þar sem fjallað er um þingmanninn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband