Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2023

Reykjarvegur löggunnar og almannavarna að gosstöðvunum

Litli-Hrútur leiðirFullyrða má að það sé með ólíkindum að lögreglan og almannavarnir tryggi ekki betur öryggi fólks í ferðalögum. Algjörlega eftirlitslaust flækist lýðurinn um öll fjöll, óbyggðir og jökla í alls kyns veðrum. Auðvitað á að loka landinu þegar hvessir, rignir, snjóar eða þegar sófaliðið í löggunni og almannavörnum finnur þreytu sækja á sig.

Fólk þvingað í 20 km göngu

Í alvöru. Frá því að eldgos hófust við Fagradalsfjall hafa yfirvöld orðið sér margsinnis til skammar fyrir fálmkenndar aðgerðir sínar. Í mars 2021 gaus í fyrsta sinn. Þá var Suðurstrandarvegi lokað milli Krýsuvíkurvegar og Grindavíkur og því borið við að hann væri skemmdur. Það var rangt. Göngufólki var ráðlagt að leggja bílum sínum í Grindavík og ganga þaðan að eldgosinu. Meira en tuttugu km leið. Hinn kosturinn var ekki skárri, að ganga frá Bláa lóninu, jafnlanga leið ef ekki lengri. Þetta var ekki boðlegt. Löggan og almannavarnir þekktu ekki landið, kunnu ekki að lesa á landakort og leituðu ekki til þeirra sem þekkingu og reynslu hafa.

Kaðalbrekkan

Allir vita hvernig gönguleiðirnar voru hannaðar að gosstöðvunum. Kaðalbrekkan var fræg að endemum. Ákveðið var að láta fólk ganga upp mjög bratta og langa brekku. Þegar ljóst var að fólki sóttist leiðin seint var settur  langur kaðall í brekkuna svo fólk gæti nú handstyrkt sig upp og niður. Og þetta var á tímum smitfaraldurs. Þá var löggan ekki að gæta öryggis almennings.

Nátthagadalur

Aldrei flögraði að snjallmennunum í löggunni á Suðurnesjum eða Almannavörnum að gera gönguleið um dalinn sem kenndur er við Nátthaga. Var hann þó auðveldastur fyrir göngufólk. Því var borið við í upphafi að kvikugangurinn væri undir honum en það var nokkru síðar dregið til baka. Raunar virtist kvikugangurinn vera beint undir lögguleiðinni, leið A.

Fólk sat á kvikuganginum

Ekki flögraði að löggunni að huga að öryggi göngufólks sem settist oftar en ekki í brekkuna norðan við gígana tvo, snæddi nesti og hafði það gott. Stuttu síðar brast jörðin og eldsprunga myndaðist nákvæmlega þar sem fólk hafði setið þúsundum saman. Ekki var löggan þá að gæta öryggis almennings. Þarna varð til stóri gígurinn sem sendi frá sér gríðarlegt hraun. Hann er orðinn hærri en sjálft Gónfell sem var vinsæll útsýnisstaður.

Bannað börnum

Þegar gaus í dalverpi við Merardal tók löggan til þess ráðs að banna börnum innan tólf ára að ganga að gosinu. Hún var gerð afturreka með bannið, hafði engar heimildir til þess.

Þriðja gosið

Nú þegar gýs við Litla-Hrút hefur löggan og almannavarnir enn og aftur orðið sér til skammar fyrir einkennileg valdboð sem minna frekar á sérviskulegar tilskipanir einvaldskonunga fyrr á tímum: „Ég einn veit, valdið er mitt“. Svo virðist sem yfirvöld haldi að fólk sé fífl og hlaupi umsvifalaus ofan í næsta gíg eða leggist á fjórar fætur á glóandi hraunið. Allt í einu dettur löggunni í hug að skipuleggja hinn eina og sanna ríkisveg, svona í anda Marteins Mosdals í Spaugstofunni.

Reykjarvegur

Hann fékk með viðhöfn nafnið „Meradalavegur“. Fólki var ætlað að ganga tíu km leið á móti norðanátt, reyk frá mosabruna og mekki úr eldgosi. Þúsundir gengu að gosstöðvunum og nefndu veginn sín á milli Reykjarveg og er það réttnefni.

Skyndilega fékk löggan bakþanka og veginum og var lokað. Hvers vegna? Tja, sko, við erum að tryggja sko öryggi ferðamanna og sko „veðbragðsaðila“. En hvað með öryggislausa ferðamenn Esju, á Hornströndum, á Laugaveginum, á jöklum? Enginn tryggir öryggi þeirra.

Móhálsadalur

Ekki nóg með að Reykjarvegi væri lokað heldur ákváðu yfirvöld að loka veginum um Móhálsadal, þeim sem stundum er kenndur við Vigdísarvelli og ber númerið 428. Það var nú einkennileg ráðstöfun, þó er hann ekki lokaður nema á korti.

Ég spurðist því fyrir um lokunina hjá löggunni á Suðurnesjum, Almannavörnum og Vegagerðinni. Fékk aðeins svar frá þeirri síðastnefndu. Hún segir:

Þessi lokun er í samstarfi Vegagerðarinnar og Almannavarna svo að fólk sé ekki að keyra í grennd við gosstöðvar þar sem margir slóðar liggja út af Vigdísarvallarvegi 428.

Þetta bendir einungis til þess að yfirvöld vilji gera fólki eins erfitt fyrir að komast að gosstöðvunum og hægt er. Almannavarnir ríkislögreglustjóra ættu að heita Almannatálmanir. Það væri réttnefni.

Krókamýri

Besta leiðin að gosstöðvunum við Stóra-Hrút er frá Krókamýri í Móhálsadal. Þaðan eru aðeins um sex km að Hraunsels-Vatnsfelli.

Þokkalegur malarvegur er um Móhálsadal, nokkuð grófur en fær flestum bílum nema þeim allra minnstu. Nóg er af bílastæði við Krókamýri en leggja verður af skynsemi svo ekki hljótist af gróðurskemmdir.

Gangan upp á Vesturháls er auðveld sem og niður að Skolahrauni hinum megin. Sunna við Krókamýri er Vesturháls afar brattur að vestan þó grasi vaxinn sé.

Borgaraleg óhlýðni

Að öllum líkindum mun löggan nú setja sérsveitina á vegamót Krýsuvíkurvegar og Móhálsadals og þeir settir í járn sem leyfi sér að njóta gönguferða á brunareyks og gosmakkar. Engu að síður óska ég fólki góðrar ferðar og hvet almenning til að reyna að sniðganga bjánabönn yfirvalda í anda borgaralegrar óhlýðni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. júlí 2023.


Ólafur Jóhann Ólafsson er einn besti rithöfundur þjóðarinnar

Um daginn hlustaði ég á afar vel skrifaða bók og varð svo hrifinn að ég hef varla náð mér ennþá. Þetta var Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hann er tvímælalaust einn af mestu rithöfundum samtímans. Það get ég fullyrt eftir að hafa hlustað á fleiri eftir hann.

Oftast geri ég tvennt í einu, geng langar leiðir og hlusta um leið á sögur. Gerðist áskrifandi að „Storytell“ fyrir rúmu ári og hef á þeim tíma lokið við að hlusta á meira en eitt hundrað bækur samkvæmt talningu vefsíðunnar. Einn og hálfur til tveir og hálfur tími á dag í göngu og hlustun.

Bækur hafa veitt mér mikla ánægju. Stundum get ég verið æði fordómafullur, treysti ekki íslenskum rithöfundum, hræddur um að verða fyrir vonbrigðum. Hins vegar hef ég gaman af öllu, sagnfræði, spennusögum, glæpasögum og svo framvegis.

Á tímabili fannst mér ég vera kominn í þrot, fann ég engar bækur sem mig langaði til að hlusta á. Horfði á bækurnar hans Ólafs Jóhanns á skjánum og ákvað að láta slag standa. Hafði aðeins lesið eina bók eftir hann áður en það var Endurkoman en var ekkert sérstaklega hrifinn. Nú veit ég að sökin er mín en ekki sögunnar. Ég las hana ekki rétt. Þorvaldur Davíð les hana einstaklega vel á Storytell.

Höll minninganna er stórkostleg bók. Hógvær upplestur og túlkun Sigurðar Skúlasonar leikara á sögunni eykur á áhrifin. Í bókarlok er maður því sem næst agndofa yfir örlögum aðalsöguhetjunnar og annarra í lífi hennar. Svo slyngur rithöfundur er Ólafur Jóhann að honum tekst auðveldlega að tvinna saman nokkrum sögum í eina heild að engin missmíð sést og lesandinn á mjög auðvelt með að fylgja söguþræðinum. Höfundurinn hefur mikinn og góðan orðaforða og beitir honum á lesandann sem kemst ekki undan ægivaldi sögunnar.

Aðrar sögur Ólafs Jóhanns eru með sömu skáldlegu einkennum. Skiptir engu hvort hann segi sögu karls eða konu í fyrstu persónu eða þriðju. Allt leikur í höndunum á honum. Vissulega sprettur  engin saga alsköpuð út úr höfði neins manns, vinnan er gríðarleg.

Ég ákvað að hlusta á fleiri sögur eftir Ólaf Jóhann og þær ollu ekki vonbrigðum, Snerting, Sakramentið, Endurkoman og ekki síst Aldingarðurinn, safn smásagna. 

Miklu skiptir hver les. Þorvaldur Davíð Kristjánsson les Sakramentið og Endurkomuna. Það tók mig nokkrar mínútur að venjast honum en verð að segja að lestur hans er afskaplega góður, tekur ekkert frá höfundinum en ljær sögunni vængi svo báðar sögurnar eru í seinn heillandi og angurværar.

Að sjálfsögðu er hægt að finna að stöku orðavali Ólafs Jóhanns og gagnrýna hann fyrir ýmislegt sem þó skiptir engu máli þegar upp er staðið. Sagan er allt og svo óskaplega fátt truflar hana þó margbrotin sé.

BókStundum er hlaðborð matar girnilegt. Maður á það til að gleypa allt í sig, gleyma að njóta og upplifa. Bækur eru allt annað, þær þurfa sinn tíma. Góð bók gerir kröfur til lesandans sem þarf einbeitingu og næði. Þannig man ég eftir barnæsku minni rétt eins og svo margir af minni kynslóð. Á kafi í bókum og ótal ferðum á bókasafninu. Lífið er margbrotið en bókin eru besti uppalandi sem til er og ævilangur vinur.

Þó er eitt sem svo margir hafa sagt vera það versta og það er að ljúka við að lesa góða bók. Hana má þó lesa aftur og aftur og aftur.


Þrjár gönguleiðir að gosstöðvunum við Litla-Hrút

IMGL0081_IMGL0083 Neo

Þegar byrjaði að gjósa við Litla-Hrút missti löggan og almannavarnir alla skynsemi. Halda að fólk muni bruna á staðinn og hlaupa beint í glóandi kvikuna eða jafnvel ofan í eldsprungu. Langflestir fara varlega og kunn fótum sínum forráð hvort sem um er að ræða eld eða gasmengun.

Löggan og almannavarnir virðast ekki vita margt um útiveru og gönguferðir. Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi gekk fólk upp og niður á einum degi, meira en þrjátíu km. Önnur leið var ekki í boði. Uppi á Hálsinum strengdi löggan gula borða hér og þar, þóttist vera að vara við einhverri hættu. Þeir fuku auðvita og margir fundust löngu síðar samankuðlaðir í hrauninu. 

Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall lokaði löggan beinlínis öllum stystu leiðunum og hvatti fólk til að ganga frá Grindavík eða Bláa lóninu. Ástæðan var einföld, löggan vissi ekkert hvað skyldi taka til bragðs. Atti fólki út í ófærur.

Nú gýs við Litla-Hrút og þá lokar löggan leiðinni að Höskuldarvöllum og veginum um Móhálsadal, lokar aðgengi að Vesturhálsi en af honum er engu að síður besta útsýnið til gosstöðvanna. Margir þurfa ekki að fara lengra. Þar er engin hætta á gasmengun, eiturgufum af neinu tagi. En auðvitað veit löggan ekkert um það.

Löggan vill frekar að fólk gangi enn lengri leið en þörf er á en gerir sér ekki grein fyrir hættunni. Allur almenningur veit að þegar vindurinn er í bakið er engin hætta á gasmengun, löggan áttar sig ekki á því.

Fólk er ekki fífl jafnvel þó löggan haldi það.

Litli-Hrútur leiðirÁ meðfylgjandi korti eru teiknaðar þrjár skástu leiðirnar að gosstöðvunum.

Ég mæli með þeirri sem er blálituð, að minnsta kosti meðan vindur er ekki vestlægur. Gallinn við þessa leið er að fara þarf um Móhálsadal en þar er vegurinn talsvert grófur, þó er fjórhjóladrif ekki nauðsynlegt. Gengið er frá Krókamýri og upp á Vesturháls. Gömlum jeppavegi er fylgt til að byrja með en snúið af honum og haldið vestur yfir Hálsinn. Sjá nánar ljósmyndina. 

Screenshot 2023-07-11 at 13.23.39Litla myndin sýnir gróflega ómerkta gönguleið frá Krókamýri og yfir Vesturháls að Skolahrauni.

Í Skolahrauni eru víða troðningar yfir hraunið. Gott er að skoða landkort á netinu áður en lagt er í gönguna.

Síðast gekk ég yfir Vesturháls daginn áður en gaus. Sunnan við Krókamýri er Hálsinn mjög brattur vestan megin og getur þar verið mörgum erfiður. Frá Krókamýri og upp á Hraunsels-Vatnsfell eru um fimm km gangur.

Næst besti kosturinn er að ganga eftir jeppaveginum (gul punktalína á kortinu) sem liggur austan við „gömlu“ eldstöðvarnar. Hann er ágætur fyrir gangandi og hjólandi. Ég hef nokkrum sinnum farið þessa leið á rafhjóli sem er frábært. Leiðin er um átt km löng, en mjög auðveld, frekar slétt alla leiðina.

Lakasti kosturinn er A leið löggunnar, jarðýtuleiðin frá bílastæðunum og upp á Fagradalsfjall (merkt með grænum lit). Leiðin er um tíu km löng, tuttugu alls. Munurinn á þessari leið og jeppaveginum er að sá síðari er mun sléttari, enginn bratti. Kosturinn við leiðina er að hún er mjög greinileg og varla möguleiki á að villast. Hægt er að ganga jeppaveginn til baka.


Handarbaksvinnubrögð löggunnar og Almannavarna

Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall varð Suðurnesjalöggan og Almannavarnir sér til skammar vegna handarbaksvinnubragða og þekkingarleysis. Bæta má Vegagerðinni við sem lét hafa sig í að ganga erinda löggunnar. Suðurstrandavegur frá vegamótunum við Kleifarvatnsveg og allt vestur að Grindavík var lokaður um heila helgi og því borið við að skemmdir væru á veginum vegna jarðskjálfta. Það var fyrirsláttur.

Þúsundir manna vildu sjá eldgosið en löggan og Almannavarnir létu það að ganga frá Grindavík eða jafnvel Bláa lóninu. Mörgum reyndist það erfitt, meira en 20 km báðar leiðir yfir ógreiðfært hraun.

Í upphafi var með öllum ráðum reynt að tálma för fólks að gosstöðvunum. Allt fór í flækju þangað til einhverjum datt í hug að búa til bílastæði svo ekki þyrfti að skilja bíla eftir á vegkanti. 

Fullyrt var að eldgosið væri öllum hættulegt. Það var rangt. Jarðfræðingar og allir þeir sem eitthvað þekkja til jarðfræði vissu frá upphafi að engin hætta var á ferðum. Þetta var sprungugos með stefnuna suðvestur-norðaustur eins og flest önnur eldgos hafa verið á Reykjanesi. 

Aðeins ein eldsprunga opnast úr hverjum kvikugangi, ekki tvær og aldrei samsíða. Hins vegar getur sprungan verið slitrótt, ekki löng og samfelld.

Jarðeðlisfræðingur sagði gosið vera ræfil sem reyndist rétt þó svo að fjölmiðlar og fleiri reyndu að gera grín að honum fyrir vikið.

Löggan á Suðurnesjum og Almannavarnir ákváðu seint og um síðir að ryðja ekki gönguleið um Nátthagadal sem þó var einfaldasta og besta leiðin að gosstöðvunum. Fullyrt var að kvikugangur  væri undir dalnum. Það var síðar dregið til baka.

Gönguleið A reyndist torsótt fyrir flesta. Hún var löng og ógreiðfær. Versti farartálminn var löng og brött brekka sem var afar erfið fyrir flesta. Þá var brugðið á það ráð að setja langan kaðal í brekkuna til að göngufólk gæti handstyrkt sig upp. Enginn fjallamaður hefði mælt með því. Skynsamlegra hefði verið að setja upp nokkra styttri kaðla. Margir misstu takið á kaðlinum er hann sveiflaðist til og frá.

Svo datt löggunni og Almannavörnum það snjallræði í hug að sneiða framhjá kaðalbrekkunni og fara upp gil skammt austan við hana. Vissu þeir ekki af gilinu, fóru þeir aldrei á staðinn, lásu þeir ekki landakort? Uppferðin reyndist þar aðeins skárri, engan kaðal þurfti. Loks datt sófaköllum í huga að nota jarðýtu til að ryðja leiðina, gera sneiðing framhjá þessum tveimur áðurnefndu bröttu brekkum. Það var skynsamlegt.

IMGL7154Aldrei flögraði að þeim í löggunni og Almannavörum að gera gönguleið um Nátthagadal. Þess í stað var fólk þvingað um leiðir sem nefndar voru A, B og C. Svo voru sett skilti hingað og þangað sem áttu að vara fólk við því að slasa sig. Hvergi var neitt gagn af þessum skiltum og óskiljanlegt hvernig þeim var valinn staður.

Varla hefur nokkur maður í löggunni eða Almannavörnum neina reynslu af fjallamennsku. Einfaldast hefði verið að tala við Ferðafélag Íslands og biðja félaga þar um að marka bestu leiðir að gosstöðvunum. Í því er mikil reynsla af ferðalögum og gerð gönguleiða. Auðvitað datt engum í hug að tala við þá sem hafa þekkingu eða reynslu. Þess í stað remmdust þeir sófaliðinu í löggunni og Almannavörnum að finna upp hjólið. Það tókst illa.  

Tvær gönguleiðir á gosstöðvum reyndust bestar. Ókunnugir þurftu aðeins að skoða landakort og þá sást að Nátthagadalur og Langihryggur hentuðu best. Löggan og Almannavarnir virtust ekki kunna á landakort.

Um síðir rann hraun yfir allar gönguleiðir löggunnar og einnig í Nátthagadal. Aðeins Langihryggur hefur enst. Leiðin þar upp var unnin með jarðýtu og var skynsamlega að verki staðið.

Önnur gönguleið varð óvart til. Með jarðýtu voru gerðir sneiðingar upp kaðalbrekkuna sem nefnd var hér á undan. Ástæðan var sú að gera þurfti ryðja leiðigarða þar fyrir ofan. Dugðu þeir vel, stýrðu hrauni ofan í Nátthagadal.

IMGL7288Löggan þurfti samt að setja gula plastborða fyrir leiðina svo fólk færi sér ekki að voða. Fæstir létu þá trufla ferðir sínar. Um síðir fuku þeir út í veður og vind. Sprækir göngumenn gengu upp á Fagradalsfjall og fengu þaðan frábært útsýni að gosstöðvunum. Þegar gaus í Meradal fóru margir þessa leið. Löngu síðar kom löggan á eftir með jarðýtuna sína og ruddi leiðina. Það var þakkarvert þó stutt væri í goslok. Sem sagt, fólk markaði leiðina og löggan elti.

Svo ákveðin var löggan og Almannavarnir í því að bjarga fólki frá heimsku sinni að bannað var fyrir börn innan tólf ára að fara að gosstöðvunum í Meradal. Ekki reyndist lagastoð fyrir þeirri ákvörðun. Þegar kveðið var upp úr með það var gosið löngu búið en fjöldi barna hafði engu að síður farið með sínu fólki til að sjá það. Fólk virðir bjánalegar skipanir að vettugi.

Nú virðist sem að aftur muni gjósa við Fagradalsfjall. Vera má að sófakallarnir í Suðurnesjalöggunni og Almannavörum hafi lesið sér til í fjallamennsku. Það dugar hins vegar ekki. Menn læra af reynslunni. 

Sófakallarnir ættu að hringja í Ferðafélagið og biðja þá sem þar stjórna um að skipuleggja leiðir að nýjustu gosstöðvum. Vit er í að fá aðstoð, vitleysa að ana áfram. 

 


Eru líkur á eldgosi við Fagradalsfjall innan tveggja vikna?

Þriðja lota elda á Reykjanesi er hafin með mikilli jarðskjálftahrinu norðvestan við Faradalsfjall. Skjálftarnir eru án efa vegna kvikugangs sem liggur suðaustur frá Keili og í áttina að gossvæðinu frá árunum 2021 og 2022.

Samkvæmt lauslegri athugun á jarðskjálftunum á vefum Veðurstofnunnar og map.is virðast upptök skjálftanna vera dýpri rétt suðvestan við Keili, á að giska fimm km, og þar eru þeir snarpastir. Nær gosstöðvunum í Meradal veru þeir færri en grynnri, upptökin nær fjórum km á dýpt.

Þetta er svipað og fyrir gosið við Fagradalsfjall árið 2021. Færðust þá upptökin æ nær svokölluðum Geldingadal þar sem loksins gaus. Jarðskjálftahrinan árið 2021 náði til sjávar og undir hafsbotninn.

Í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Hins vegar geta jarðskjálftar verið undanfari eldgosa. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En fáir gefa þeim gaum nema jarðfræðingar sem skoða þá vandlega, og að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira sem getur bent til að gos sé að hefjast.

Jarðfræðingar hafa í fréttamiðlum sagt að skjálftavirknin milli Fagradalsfjalls og Keilis sé svo ofsafenginn að miklar líkur séu til þess að jörð sé að bresta og eldur komi upp á yfirborðið. Miðað við reynsluna af síðustu gosum er ekki ólíklegt að nú gjósi innan tveggja vikna. Möttulkvikan virðist hafa fundið kvikuganginn sinn og þrýstingur frá henni sé nægur til að hreyfa við jarðskorpunni, valda skjálftum.

IMGL0997_IMGL0999 Aur

Hvað gerist næst? Miðað við það sem gerðist árið 2021 er hægt að ímynda sér að kvikugangurinn lengist í suðvestur, og aftur gjósi á sömu slóðum. Þá fullyrtu jarðvísindamenn að hann væri undir Nátthagdal og jafnvel undir gönguleið A. Fjölmargir skjálftar mældust undir sjávarbotni og  veltu margir því fyrir sér hvort gjósa myndi í sjó. Það getur allt eins gerst núna.

IMGL0996 NeoEfri myndin hér fyrir ofan er tekin norðan við Meradalshnúk. Þar er talsverð slétta allt að fjalli sem nefnist Kistufell og er Keilir í hvarfi við það. Á miðri myndinni má greina jarðfall eða sprungu sem sést betur á þeirri neðri.  

Jarðvísindamenn hafa lengi haft mikinn áhuga á sprungunni og sett einhver mælitæki við hana. Ástæðan er sú að sprungan virðist vera í beinu framhaldi af kvikuganginum sem olli gosinu í Geldingadal og Meradal. Ef til vill er hún núna að gliðna. Hver veit.

Þarna gæti gæti gosið og það er hinn besti staður Hraun myndi fyrst og fremst renna í Meradal og fylla hann. Flæddi út úr honum rynni hraun í Skolahraun og suður til sjávar.

KortHér er kort af skjálftum síðustu dægra tekið af map.is sem er afskaplega góður vefur fyrir þá sem áhuga hafa á landafræði og ekki síður jarðskjálftum.

Ágætt er að tvísmella á myndir og kort til að stækka.

Neðsta myndin er tekin ófrjálsri hendi af vef Veðurstofunnar og sýnir upphaf eldgossins í Meradal. Eldsprungan teygir sig þarna upp í hlíð Merarfells. Sprungan sem nefnd var hér fyrir ofan og örin bendir á, er í beinu framhaldi af eldinum.

Af hverju var sprungan í Meradal svona stutt, komst ekki upp á sléttuna fyrir ofan. Skýringin er einföld, gosið var frekar kraftlítið, ekki nógur þrýstingur í kvikuganginum.

 

Screenshot 2023-03-25 at 10.36.06

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband