Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023
Aldrei gottkvöldar reiði strákurinn á svölunum
30.5.2023 | 10:06
Snjallt orðalag er alltaf eftirminnilegt, en ekki mér. Ég gleymi öllu óðar en man það eitt að ég hafði heyrt eða lesið eitthvað sem ég dáðist að. Rétt eins og maðurinn sem mundi ekki annað um brandarann en að hann hefði hlegið sig máttlausan.
Í Mogga dagsins er ýmislegt forvitnilegt og til að gleyma ekki er ráð að skrifa niður.
Ágætur penni nefnir sig sunnlending. Ég dreg þá ályktun að hann sé þar búsettur eða ættaður því það vill svo til að margir kjósa að kenna sig við uppruna sinn. Í spjalli á blaðsíðu sautján segir hann:
Þegar komið er í flugrútuna til Reykjavíkur líta fáir upp þegar reynt er að gottkvölda og þeir sem lyfta höfði eru steinhissa yfir svona furðulegheitum.
Þetta er ansi skemmtilegt og gott nýyrði. Verð þó að viðurkenna að ég gottkvölda sjaldan aðra en þá sem ég kannast við og það sem verra er tek sjaldnast undir þegar svona lagað hrekkur upp úr ókunnugum.
Strákurinn á svölunum
Ég tek eftir því að stjórnmálamenn gera næstum hvaðeina til að vekja athygli. Sérstaklega er þetta algengt meðal stjórnarandstöðunnar á þingi. Sumir hafa tileinkað sér reiði, hrópa og skammast í ræðustól eins og þeir hafi orðið fyrir meiðslum í sandkassaleiknum.
Ég man ekki hvað hann heitir, Kastljósþingmaðurinn, sem áður fyrr var svo geðugur, dagfarsprúður, vel klæddur og málefnalegur í sjónvarpinu, uppáhald allra mæðra sem áttu ógefnar dætur. Nú er hann eins og krakkaófétið sem dæmdist óhæft í leikskólanum. Hrópar ókvæðisorð af svölunum heima hjá sér að öllum börnunum sem eiga leið framhjá, jafnvel þeim stóru enda í öruggri fjarlægð.
Evrópusambandið
Lítill flokkur á Alþingi hefur sér í stað guðshjálpar að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þingmenn hans hrópa af svölum án þess að ná athygli kjósenda. Enginn hlustar enda stækkar hann ekkert. Þetta finnst þingmönnum flokksins miður og hafa komið sér saman um prýðilega samsæriskenningu, að einhver hafi sko bannað alla umræðu um ESB.
Ekki er hægt að kenna ríkisstjórn um rigningartíð og sólarleysi. Á sama hátt er varla hægt að kenna kjósendum um heyrnarleysi eða áhugaleysi um Evrópusambandið.
Enginn ræðst á kjósendur, það telja allir of dýru verði keypt. Engu að síður er allt þeim að kenna. Þeir kjósa meirihlutann sem svo myndar ríkisstjórn. Og það er þessi ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir allri rigningunni svo ekki sé talað um árangursleysi stjórnmálaflokka sem vilja ganga í ESB. Kjósendur koma aðeins illu til leiðar því þeir vita ekki hvað þeim er fyrir bestu.
Árangursleysið
Þannig er þetta með fyrirbrigðið Viðreisn sem er einsmálsflokkur og nýtur afar lítils stuðnings jafnvel þó alltaf sé sól í Evrópu en rigning hér. Sér enginn samhengið, vill fólk ekki sól og blíðu? Jú, en það má bara ekki tala um Evrópusambandið. Hvað er eiginlega að þessari ríkistjórn?
Jæja, þetta leiðir hugann að sagnfræðingnum með meiru, honum Hirti J. Guðmundssyni. Hann segir á blaðsíðu fimmtán í Mogga dagsins:
Mér vitanlega hefur enginn bannað umræður um Evrópusambandið. Þó umræðan skili ekki þeim niðurstöðum sem forystumenn Viðreisnar vilja sjá þýðir það ekki að hún hafi verið bönnuð.
Þó aðrir flokkar séu ekki reiðubúnir að framkvæma stefnu Viðreisnar þýðir það ekki að bannað sé að ræða um Evrópusambandið. Það er, sem fyrr segir, vitanlega á ábyrgð Viðreisnar og ekki annarra að vinna að stefnumálum flokksins og afla honum fylgis út á þau. Þeirri ábyrgð verður ekki varpað yfir á aðra flokka með aðrar áherzlur.
Auðvitað er þetta rétt hjá manninum og ágæt aðfararorð fyrir þessu:
Forystumenn Viðreisnar vilja meina að hávær krafa sé um inngöngu í Evrópusambandið og vísa í niðurstöður skoðanakannana. Að vísu er innan við helmingur hlynntur inngöngu samkvæmt þeim og þar af einungis um 20% mjög hlynnt miðað við nýjustu könnunina sem framkvæmd var af Maskínu. Fleiri eru mjög andvígir.
En telji forystumennirnir þetta engu að síður rétt stendur vitanlega upp á þá að útskýra hvers vegna það hafi ekki skilað sér í stórauknum stuðningi við eina flokkinn með áherzlu á málið? Hvað sé þá að honum?
Þetta er vel sagt en mun varla gera annað en að espa þingmenn Viðreisnar til andsvara. Nú má búast við því að Kastljósþingmaðurinn ryðjist reiður fram án þess að gottkvölda eða góðdaga. Fleirum en Sunnlendingnum kann þá að mislíka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hringsól Kristrúnar Frostadóttur í Mogganum
20.5.2023 | 11:06
Ef stefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið undanfarin ár og áratugi verður óbreytt eftir næstu kosningar þá mun það hamla framförum í svo að segja öllum okkar stóru málaflokkum svo mjög að afar erfitt verður að fara í ríkisstjórn með þeim.
Þetta segir formaður Samfylkingarinnar í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21.5.23. Viðtalið er rýrt, byggist einkum á að hnýta í Sjálfstæðisflokkinn en getur þess ekki hvað hann hafi gert rangt.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar vill verða fjármálráðherra og jafnvel forsætisráðherra en hvergi kemur fram hvernig hún myndi stýra þessum ráðuneytum á annan hátt en formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Vinstri grænna. Ef til vill er það bara aukaatriði sem kjósendur taki ekki eftir.
Ekki er nóg að tala hringsóla í viðtali án þess að taka á einu eða neinu nema pælingum sem litlu skipta.
Staðreyndin er einfaldlega sú að sumir eiga ekki erindi í annað en stjórnarandstöðu. Auðvelt er að segja frá því sem mætti ganga betur, erfiðara er að gera betur. Staðreyndin er einfaldlega sú að fjármunir ríkisins eru takmarkaðir. Fjárveiting sem tekið er frá einum málaflokki kann að valda miklum vanda, jafnvel þó vel sé meint.
Allir þekkja stefnu Samfylkingarinnar í fjármálum. Hún kemur glögglega fram í laugardagsblaði Morgunblaðsins 20.2.23. Hún byggist einfaldlega á því að taka lán, safna skuldum. Skuldir Reykjavíkurborgar hafa tvöfaldast á átta árum. Þarf að hafa fleiri orð um fjármálastefnu undir forystu Samfylkingarinnar?
Líklega er besta áróðursbragðið fyrir Samfylkinguna að koma vel fyrir, tala fjálglega, ekki stuða neinn, lofa öllu fögru. Þannig talar formaðurinn Kristrún Frostadóttir í viðtalinu í Mogganum.
Eflaust eru margir hrifnir að geðugri konu sem lofar því einu að komist hún ekki í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili þá hætti hún í stjórnmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)