Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022
Vanmáttur feitu og lötu Vesturlanda gegn Rússum
25.2.2022 | 11:11
Hvernig eiga Vesturlönd að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu? Þetta er stóra spurning dagsins og alla daga meðan Rússar eru þar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur á kjarna málsins eins og svo oft áður. Hann segir í blaði dagsins:
Margir hafa spurt sig hversu haldgóð tæki efnahagslegar refsiaðgerðir hafi reynst í gegnum tíðina. Margfalt þungbærari refsiaðgerðir, eins og í dæmum Norður-Kóreu og Íran, hafa reynst hægfara aðgerðir, svo ekki sé meira sagt.
Átta ára refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna gripdeildar í Úkraínu hafa engu skilað og virðast aðeins í gildi fyrir sum ríki eftir hentugleikum þeirra og Rússa, og það ríkir löngum mikil samstaða um túlkun þeirra hentugleika.
Staðreyndin er einfaldlega sú að Nató virðist ekkert geta gert eða vilja gera. Leiðtogar þess standa hjá eftir að hafa gengið bónleið til búðar Kremlarbóndans. Þetta eru slíkar gufur að aldrei hafa slíkar sést.
Margt bendir til að leyniþjónustur í Evrópu og Norður-Ameríku hafi vitað um fyrirætlanir Rússa með margra mánaða fyrirvara ef ekki ára. Þeir vissu líka að ekkert fengi stöðvað þá, ætlunin var að ráðast inn í Úkraínu. Þegar við, almenningur, lítum til baka, sjáum að Rússar hafa leynt og ljós búið sig undir þessa atburði og refsiaðgerðir Vesturlanda. Þeir eru fáum háðir og sambandið við Kínverja er svo gott að við þá er mun betra að eiga viðskipti.
Ríki Vesturlanda bjuggu sig ekki undir stríðið. Heimavinnan var vanrækt, ekki var unnið að undirbúningi efnahagslegra refsiaðgerða fyrr en allra síðustu daga.
Nató setur Rússum engin skilyrði. Svo virðist sem hersveitir þeirra megi taka sér stöðu við landamæri Póllands, ekki er gerð krafa um að þeir haldi sig í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Nató lyppast niður vegna þess að bandalagið er svo hrætt um stigmögnun átakanna.
Næst taka Rússar ábyggilega Eistland og halda þaðan út á Eystrasalt og hernema Gotland með öllum sömu rökunum og þeir notuðu fyrir hernaði gegn Úkraínu.
Vesturlönd kjósa að sitja hjá. Ekki má loka fyrir alþjóðlega Swift kerfið sem myndi lama utanríkisviðskipti Rússa. Ástæðan er sú að Þjóðverjar hafa svo mikla hagsmuni af viðskiptum við þá.
Þannig standa nú málin. Ekkert má gera gegn útþenslu Rússa því hagsmunir Vesturlandabúa byggjast á viðskiptum við þá. Skítt með Úkraínu. Líklega eru Vesturlandabúar of feitir og latir til að taka á málum.
Jú, við ætlum að láta þá aldeilis finna fyrir krafti Vesturlanda ... En leiðtogarnir tala og tala og tala. Minna fer fyrir verkunum.
Þetta minnir á manninn sem sagði við elskuna sína: Ég mun vaða eld og brennistein fyrir þig, ástin mín. Og ég kem í kvöld ef ekki rignir.
Meðfylgjandi mynd eru úr Fréttablaðinu í dag og sýnir tímalínu frá því í nóvember á síðasta ár, langur aðdragandi að innrásinni og raunar er hann enn lengri en þarna kemur fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einfaldur og aðlaðandi ritstíll Jóns Steinars
17.2.2022 | 10:52
Ég dáist að ritfærum og málsnjöllum mönnum, ekki endilega vegna málstaðarins heldur hvernig þeir segja frá og beita rökum sínum. Einn þeirra er Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, og fyrrum dómari við Hæstarétt. Hann ritar grein í Morgunblað dagsins og svarar þar Jónasi Haraldssyni, lögmanni sem ritað hafði grein í sama blað um Jón Steinar.
Jón Steinar á auðvelt með skrif. Stíllinn er yfirleitt léttur og auðlesin, málsgreinar hóflega langar, röksemdafærslan einföld og aðlaðandi. Jafnvel svo að lesandinn hallast yfirleitt að málstað höfundarins sé hann á annað borð opin fyrir rökum annarra en ekki samansúrraður beturvitrungur eða með fyrirframgefnar skoðanir sem ekkert bítur á. Erindi Jóns Steinars er oft að kynna önnur sjónarmið sem eru ekki síður mikilvæg en þau sem meirihlutinn virðist aðhyllast. Lífið er ekki einföld stærðfræði með óumbreytanlegum gildum né er allt annað hvort svart eða hvítt. Því er ágæt regla að hlusta á fleiri en þá háværu því þeir eru sjaldnast handhafar sannleikans.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Jón Steinar:
Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.
Svona skrif eru snjöll og mættu aðrir taka sér þau sér til fyrirmyndar. Jón Steinar lemur ekki á gagnrýnanda sínum með fruntaskap eða persónulegum ávirðingum. Enginn fésbókarstíll er á svarinu. Hann ber virðingu fyrir gagnrýni Jónasar þó svo að hún sé frekar meiðandi.
Þegar öllu er á botninn hvolft er ákaflega léttvægt líki einhverjum ekki við annan mann. Þýðir það að allt sem hinn leiðinlegi eða vondi hefur til málanna að leggja sé algjör óhæfa eða bull? Auðvitað ekki. Rök má ekki að skoða sem framhald af persónu þess sem þau leggur fram. Á þau ber að líta algjörlega sjálfstætt og samþykkja og hafna eftir atvikum.
Afar fróðlegt er að lesa grein Jóns Steinars og læra af henni hvernig best er að rökræða. Það ætti aldrei að gerast með skítkasti eins og svo algengt er í ritdeilum hér á landi, því miður. Ein mesta forarvilpan er á fésbókinni og sulla þar margir án annarra sýnilegra erinda en að niðurlægja aðra. Vera má að mannlegt eðli sé einfaldlega þannig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.2.2022 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nú á að fjarlægja Litla-Sandfell og á eftir raka yfir með hrífu
1.2.2022 | 15:00
Við efnistökuna mun ásýnd fellsins óhjákvæmilega breytast og að lokum mun fjallið hverfa.
Fjallið er ekkert sérstaklega fallegt. Mörgum finnst það ljótt. Flatmagar á hraunsléttu rétt eins og kúadella, aðeins um eitt hundrað metra hátt yfir umhverfinu. Hverjum er ekki sama?
Okkur ber skylda til lagfæra landslag. Bæta sköpunarverkið sem drottni allsherjar mistókst. Fjarlægja ljót og ónýt fjöll, drekkja óþarfa landi, og leggja víra sem víðast svo fólk komist nú leiðar sinnar og geti hlaðið bíla sína.
Gaman er að aka Þrengslin og enn meira fjör er að ganga úr þeim á almennileg fjöll eins og Meitlana, Stóra og Litla. Skoðum Lambafell sem áður var ansi gallað og lítil fyrir augað. Nú eru fjallasnyrtifyrirtæki í óða önn að laga það og gengur bara vel. Ljótu agnúarnir á fellinu eru horfnir og aðeins er eftir að fjarlægja Lambafellshnúk.
Nei, nei, það er rangt sem þessi umhverfisnáttúruverndarvitleysingar segja. Enginn er að eyðileggja fjöllin, bara snyrta þau, líkt og rakarar snyrta hár. Samt dálítið fyndið að líkja fjallasnyrtifyrirtækjum við rakara sem snyrta hár fólks en eiga það jafnvel til að taka af annað eða bæði eyrun í fegurðarskyni.
Einu sinni var reynt að lagfæra lítinn og ljótan gíg vestan við Þrengsli. Hann hefur ekkert almennilegt nafn kallast bara Nyrðri-Eldborg. Gígurinn gaus árið 1000 en frá gosinu segir í Kristnisögu. Skafið var utan af honum en hætt í miðjum klíðum og nú er þar bara ljótt sár. Enginn sæi neitt ef fjallasnyrtifyrirækið hefði fengið að halda áfram.
Tvö fjöll eru í hrauninu sunnan Þrengsla, Geitafell og Litla-Sandfell. Bæði forljót og er brýn nauðsyn á að þau verði fjarlægð. Fyrirtækið með útlenska nafninu Eden Mining ehf er öflugt fjallasnyrtifyrirtæki og hefur lengi snyrt Lambafell í Þrengslum. Það ætlar nú taka að sér það þjóðþrifaverk að fjarlægja fjallið með íslenska nafninu, Litla-Sandfell. Geitafell bíður betri tíma enda stærra.
Ásýnd Litla-Sandfells mun breytast, rétt eins og segir í upphafi og er fengið úr skýrslu Eflu. Sko, já, eiginlega mun það mun hverfa. Þetta er svona svipað eins og rakarinn sem ætlar að snyrta hár en verður það á, viljandi eða óviljandi, að fjarlægja höfuðið. Slíkt er nú ekkert stórmál því margir munu fríkka til muna væru þeir höfuðlausir.
Svo segir í skýrslu Eflu að framkvæmdin verið afar umhverfisvæn því úr Litla-Sandfelli verður unnin svokölluð flugaska sem notuð er í sementframleiðslu. Sem sagt jákvæð hnattræn áhrif. Húrra. Unnið er þó í fellinu með dísilvélum og dísilrafmótorum. Kosturinn er þó sá að þegar Litla-Sandfell er horfið verður strax slökkt á díselvélunum. Húrra.
Þegar fjarlægðir hafa verið 15.000 rúmmetra úr Sandfelli, það er fellið allt, verður rakað yfir með hrífu og sáð grasi, melgresi, lúpínu eða birki, jafnvel öllu þessu. Og allir sáttir. Er þaki?
Næst fjarlægjum við Helgafell í Mosfellsbæ. Það er líka ljótt og gagnslaust. Miklu betra að moka því í landfyllingar í Kollafirði. Svo fjarlægjum við Þorbjörn við Grindavík því alltaf eru jarðskjálftar í kringum hann og sláum þá tvær flugur í einu höggi. Losum okkur við ljótt fjall og alla þessa jarðskjálfta. Seljum síðan Kirkjufell í Grundarfirði fyrir offjár til útlanda. Útlendingar vilja ólmir kaupa myndir af fjallinu en rosalega myndu þeir gleðjast ef þeir fengju nú að kaupa það allt.
Sko, við getum allt. Tæknin er orðin svo fullkomin að hægt er að fegra landið með minniháttar snyrtingum. Og allir saman nú: Ekki láta staðar numið með Litla-Sandfell. Fleiri hrúgur bíða.
Myndirnar af Litla-Sandfelli skýra sig sjálfar.
Hér er linkur á skýrslu Eflu á vef Skipulagsstofnunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2022 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)