Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021
Er markmiðið í stjórnmálum að ófrægja andstæðinginn?
31.1.2021 | 17:33
Sé ætlunin að berja á andstæðingi í stjórnmálum, niðurlægja hann eða ófrægja er aðferðafræðin þessi:
- Vitna í orð andstæðinganna
- Fara rangt með tilvitnunina
- Leggja út af hinni röngu tilvitnun
- Fá fleiri til að gera hið sama
Þetta kann Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar flestum betur og fer nákvæmlega eftir þessum fræðum. Hún skrifar grein í Morgunblaðið 30. janúar 2021, sjá hér.
Og svona gerir hún:
Vitnar í orð andstæðinganna:
Það kom líka berlega í ljós á Alþingi í vikunni þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, út í afstöðu hans til sífellt verri stöðu Íslands í þessum málum. Því miður báru svör formanns Sjálfstæðisflokksins með sér að hann telur skýrslur sem þessar, sem og niðurstöður GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, ekkert til að hafa áhyggjur af.
Fer rangt með tilvitnunina:
Svo virðist sem formaður Sjálfstæðisflokksins telji það engin áhrif hafa á íslenskt atvinnulíf og efnahag þjóðar að hér aukist spilling jafnt og þétt á valdatíma hans, en þá er rétt að benda honum á að við ákvörðun um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi er einmitt horft til stöðu ríkja er varðar spillingu.
Leggur út af hinni röngu tilvitnun:
Allt samfélagið tapar trúverðugleika á altari sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins. Rannsóknir sýna að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarmannréttindum og lífsgæðum almennings.
Fá fleiri til að gera hið sama
Þessu gleymdi þingmaðurinn en veit svo sem að upphlaupslið Samfylkingarinnar tekur undir orð hennar í athugasemdadálkum fjölmiðla. Og auðvitað gerist það.
DV segir frá Moggagrein Helgu Völu Helgadóttur, alþingismanns. Og í athugasemdadálkinum vantar ekki skítlegar athugasemdir.
Jón Hreggviður Helgason segir:
Leggja þennan Sjálfstæðis NASISTA FLOKK NIÐUR hann byggist á spillingu auðvaldsins
Jóna Ástríður segir:
Djöfuls hroki og spilling í þessu bláa liði,nú er það ekki bláa hendin,það er bláar eiturtúngur.
Æsingurinn er slíkur að fólk sem svona talar er til alls víst komi það höndum yfir heykvíslar, hafnaboltakylfur, snæri og ... eitthvað enn hættulegra.
Þetta er skrifað á þeim dögum sem flestir stjórnmálamenn og gott fólk hvetja til hófsemi í orðræðu og fordæma skotárásir á stjórnmálaflokka, árás á bíl borgarstjóra og svo framvegis. Þá segist Helga Vala Helgadóttir alþingismaður vera góða fólkið. Lesendur taka eflaust undir það eftir að hafa lesið ofangreint.
Orð Bjarna
Og hvað sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í tveggja mínútna svari í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Í frétt á mbl.is segir:
Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við getum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari, og það sama á við um GRECO-úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum, heldur tilfinningin fyrir því að einhvers staðar grasseri spilling, einhver svona óljós tilfinning. Oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu, að hún versnar, sagði Bjarni.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar er hún fullyrðir að Bjarni segi að skýrslan sé ekkert til að hafa áhyggjur af.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar og segir að Bjarni hafi engar áhyggjur af spillingu.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, leyfir sér að draga rangar ályktanir af upploginni tilvitnun sinni er hún talar um sérhagsmuni Sjálfstæðisflokksins.
Markmið Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns, virðist ekki vera að vinna fyrir samfélagið heldur að ófrægja aðra. Hún gerir það af mikilli list.
Basic kúbein, ennþá og tímapunktur
29.1.2021 | 10:52
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.
Er ekki þörf á að mála skrattann á vegginn?
24.1.2021 | 12:26
Góður vinur minn heldur því fram að draga mun úr Covid-19 veirunni á næstu sex mánuðum en þá komi önnur bylgja sem kemur frá Afríku eða Suður Ameríku og orsökin er stökkbreyttur vírus.
Þetta skrifaði ég í pistli sem birtist hér 6. mars 2020, fyrir tæpu ári. Þá birti ég meðfylgjandi kort frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Ekki hafði ég neina trú á að vinur minn myndi reynast neitt sannspár en fannst að athyglisvert orðalagið stökkbreyttur vírus.
Svo hjaðnaði faraldurinn í byrjun sumars, allt virtist ganga svo vel og fólk slakaði á vörninni. Í ágúst fór allt á fleygiferð. Þá kom franska afbrigðið, í haust það breska og nú óttast sérfræðingarnir brasilísku útgáfuna og jafnvel eitthvað annað. Dreg þó í efa að þetta séu stökkbreytt afbrigði covid-19.
Síðustu fréttir frá sóttvarnarlækni herma að til sé breytt covid-19 veira sem nýju bóluefnin ráða ekki að fullu við. Frést hefur um suður-Afrískt afbrigði covid-19 sem sé hættulegra en öll önnur.
Þó svo að ég sé nú yfirleitt frekar jákvæður og bjartsýnn ber ég ugg í brjósti. Nú hafa komið þrjá bylgjur farangursins og sú síðasta er langverst. Ástæðan kann að vera kæruleysi fólks um allan heim og veiran smitist hraðar og greiðar en áður. Mannkyndið kann að vera varnarlaust vegna þess að það vill ekki verjast.
Hvað gerðist veturinn 2020?
Athygli vakti að á kortinu frá 6. mars 2020 eru skráningar faraldursins ærið misjafnar. Ég hafði og hef enn þá trú að hér á landi hafi skráningar tilfella verið réttar, miklu betri en í flestum löndum. Sé það rétt er forvitnilegt að skoða kóvítið annars staðar með hliðsjón af hlutfallslegri útbreiðslu á Íslandi.
Andavaraleysi margra ríkja var greinilegt í mars. Þegar við lítum núna til baka var þetta hrópandi rugl, jafnvel glæpsamlegt. Svo virðist sem að þá hafi það meðvituð ákvörðun fjölmargra ríkja að gera sem minnst úr útbreiðslu covid-19? Margt bendir til að í upphafi hafi í mörgum löndum ekki verið rétt frá sagt um útbreiðsluna og ástandið.
Á þessum tíma höfðu þrjátíu og sex Íslendingar veikst sem er 0,01% íbúafjöldans. Ég gekk út frá því að það væri eðlileg staða í dreifbýlu eyríki. Með hliðsjón af hlutfallstölunni tók ég saman nokkrar staðreyndir.
- Þýskaland; 545 veikir, ættu að vera 8100
- Pólland; einn veikur, ættu að vera 3.800
- Frakkland; 423 veikir, ættu að vera 6.300
- Bretland; 116 veikir, ættu að vera 6.000
- Bandaríkin; 233 veikir, ættu að vera 35.000
- Ítalía 3.858 veikir, ættu að vera 6.000
- Austurríki 43 veikir
- Rússland; fjórir veikir
- Ungverjaland, einn veikur
- Tyrkland enginn veikur
Trúir því einhver að tölur um útbreiðsluna í þessum löndum hafi verið réttar? Nei, auðvitað ekki. Annað hvort voru þær kolrangar eða vanhæfnin var svona óskapleg að stjórnvöld í þessum löndum vissu ekkert hvað var að gerast.
Nokkru síðar kom í ljós í fjölmörgum löndum létust mun fleiri en í meðalári. Heilbrigðisfólk og sérfræðingar bentu á að þó margir hafi látist úr covid-19 skýri það ekki fjölda dauðsfalla umfram meðaltalið. Ljóst er að fjöldi fólks hafi látist heima hjá sér vegna veirunnar en fullyrt að það hafi dáið vegna flensu vegna þess að engar rannsóknir voru gerðar.
Afleiðingin af andvarleysi stjórnvalda varð sú að faraldurinn magnaðist svo ekkert var við ráðið. Þrautalendingin var að takmarka frelsi borgaranna. Gripið var víðast til fjölmargra ráða en ekkert gekk og því endað á útgöngubanni. Róttækustu aðgerð sem hugsast getur gegn útbreiðslu sjúkdóms.
Hræðileg staða kom upp á Ítalíu og Spáni. Af hroka sínum virtust stjórnvöld norðar í álfunni halda að útbreiðslan í þessum löndum væri vegna vanhæfni heilbrigðiskerfisins og stjórnvalda og í þessum löndum. Þetta átti fljótt eftir að breytast.
Þegar kom fram á haust var ljóst að stjórnvöld í norður hluta Evrópu réðu ekki heldur við neitt og brugðu þá á sama ráð og Suður-Evrópuríkin.
Útgöngubann var sett á. Fyrirtækjum var fyrirskipað að hætta starfsemi, fólk varð atvinnulaust og tekjulaust og lenti á framfæri hins opinbera. Og pestin breiddist út um allan heim eins og glögglega má sjá á næsta korti sem fengið var af John Hopkins háskólanum 21. janúar 2021.
Á kortinu sést að bæði Norður- og Suður-Ameríka eru undirlögð faraldrinum. Afleiðingin er mannlegur harmleikur sem varla kemst í fréttirnar. Fólk hefur misst atvinnu sína, er rekið út úr húsnæði sínu vegna vanskila og lifir á götunni. Sveltur. Þannig er þetta víða í Suður-Ameríku og einnig í Evrópu. Hvað hefur til dæmis orðið um flóttamenn sem flust hafa til Evrópu?
Ástandið í Afríku á aðeins eftir að versna. Margir velta því fyrir sér hvort smitin séu útbreiddari en tölurnar gefa til kynna. Sagt er að þar geti veira stökkbreyst. Aðeins 79.000 manns hafa hingað til látist í Afríku sem er afar fátt miðað við aðrar heimsálfur.
Samanburður
Þann 11. mars bar ég saman á einfaldan hátt upplýsingar frá John Hopkins háskólanum við tölur frá 21. janúar 2021.
Meðfylgjandi tafla er ekki flókin. Hún sýnir hversu furðuleg staðan faraldursins var víða um heim í mars. Takið eftir hlutfallstölunum.
Ekki hefur staðan mikið skánað en ljóst má þó vera að stjórnvöld í mörgum Evrópulöndum hafa nú skilið að faraldurinn er afar hættulegur. Í Bandaríkjunum er loksins kominn forseti sem tekur stöðuna alvarlega.
Hlutfallslegur fjöldi smita miðað við íbúafjölda er hér lykilatriði. Svo virðist sem að í kringum 2% þeirra sem smitast deyi. Sé talan lægri (appelsínugult) má gera ráð fyrir eftirfarandi:
- Heilbrigðiskerfið er gott og hefur getað annað þeim sem veikjast.
- Íbúar fara eftir reglum og varast smit.
- Tölulegar upplýsingar eru vafasamar, hugsanlega rangar jafnvel falsaðar.
Ofangreint á við Bahrein, Singapore, Malasíu, Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin (UA Em í töflunni).
Sé talan hærri en 2% (gullitað) má ætla að eftirfarandi sé staðreynd:
- Heilbrigðiskerfið er ekki gott og getur illa sinnt þeim sem veikjast.
- Íbúar fara ekki eftir reglum og trúa því ekki að þeir geti smitast.
- Tölulega upplýsingar standast ekki, smit reiknast of fá og því er hlutfall látinna ekki rétt.
Þetta á við Kína, Ítalíu, Íran, Bretland, Belgíu, Ástralíu, Grikkland og Egyptaland.
Vandmálið er tvíþætt:
- Fjölmörg ríki gefa upp rangar tölur um útbreiðslu veirunnar, viljandi eða geta ekki betur.
- Almenningur víða afar kærulaus og gefur covid-19 lítinn gaum.
Afleiðingin er einfaldlega sú að faraldurinn er enn í miklum uppgangi, fleiri eiga eftir að smitast og deyja.
Bóluefni
En hvað með bóluefnið? Já, það er einmitt þetta með bóluefnið sem veldur mörgum hvað mestum áhyggjum. Því má líkja við kjarnorkuvopnabúr stórveldanna í kalda stríðinu. Þá var fullyrt; þeim mun fleiri kjarnorkuvopn þeim mun meira öryggi. Var eða er eitthvað öryggi í því fólgið að hægt sé að sprengja jörðina upp margfalt?
Erum við eitthvað betur sett með bóluefni sem gefur falskt öryggi? Veiran kann að vera að breytast og alls óvíst er hvort nýju bóluefnin geta unnið á öllum afbrigðum veirunnar hvað þá ef hún stökkbreytist. Er eitthvað öryggi í því fólgið að bóluefnið gagnist aðeins gegn covid-19 en ekki öðrum jafnhættulegum eða hættulegri veirum?
Auðvitað er ég að mála skrattann á vegginn. En þurfum við ekki að skoða málin í stóru samhengi? Það þótti mikil fórn að 400.000 Bandaríkjamenn létust í seinni heimstyrjöldinni og nú hefur sami fjöldi dáið vegna veirunnar. Og fólk yppir bara öxlum.
Í Evrópu hafa 662.000 manns dáið vegna hennar. Í Asíu hafa helmingi færri látist, aðeins 325.000 manns.
Takið eftir heimskortinu sem hér fylgir. Við skulum fylgjast með flestum þeirra landa sem lituð eru með gulu. Þar mun faraldurinn grassera næstu misseri og jafnvel mun veiran stökkbreytast þar.
Ágæti lesandi, þú mátt bóka það að langt er í að lífið í heiminum falli aftur í þær skorður sem það var árið 2019 og fyrr. Þó við getum vel við unað hér á Íslandi er víst að enginn er eyland þó á eylandi búi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hnífurinn keyrður í bak Ágústar krata
20.1.2021 | 22:03
Ég hef ekki alltaf verið sammála Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. En ég ber virðingu fyrir honum í pólitíkinni. Hann er dugandi þingmaður, harður í horn að taka og á stundum rökfastur. Dálítið pópúlískur en ekki til mikils skaða. Sé engan hans líka í þingliði flokksins.
Nú er bara tími Ágústar liðinn. Hann hlaut ekki náð fyrir augum uppstillingarnefndar sem er handhafi lýðræðisins í Samfylkingunni.
Ég er alveg sammála nefndinni. Burtu með Ágúst. Og við andstæðingar flokksins fögnum víginu.
Nei, ég held að handhöfum lýðræðisins í Samfylkingunni sé ekki sjálfrátt þegar þeir vísa Ágústi út í ystu myrkur.
Líkast til heldur flokkseigendafélagið að nýkjörinn þingmaður öðlist daginn eftir kosningar allan heimsins vísdóm og þekkingu. Reynsla og þekking skiptir varla neinu í þeirra augum.
Aðferðafræðin minnir á verklagið í ríkisstjórninni sem Samfylkingin og Vinstri grænir kölluðu skjaldborg heimilanna. Að henni kom sautján manns. Sumir voru kallaðir ráðherrar en voru bara í starfsþjálfun, fengu að máta ráðherrastólinn í skamman tíma.
Svo ör var skiptingin að enginn náði að setja sig inn í verkefnin enda ekki til þess ætlast. Prófa og fara svo. Nú er fullt af fólki í þessum flokkum sem kallar sig fyrrverandi ráðherra.
Ráðuneyti stjórna þeim sem eru í starfsþjálfun sem ráðherra, ekki öfugt. Það vantaði hins vegar ekki að daginn sem nýgræðingur tók við ráðherrastöðu byrjaði hann að tala eins og valdsmaður, vissi allt, gat allt og kunni allt.
Sama virðist eiga við núna hjá Samfylkingunni. Hún byggir á því að skipta út fólki. Sækja lið í starfsþjálfun, láta það að máta rassförin í þingstólnum í þeirri von að þeir endist þangað til þeir verða reknir.
Sagan segir kratar séu fljótir að draga upp hníf sjái þeir óvarið bak samherja. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir ganga með veggjum.
Lýðræðið Samfylkingarinnar byggist á því að velja þingmenn á lista í reykfylltum bakherbergjum því almenningi er ekki treystandi fyrir því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim
20.1.2021 | 14:25
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.
Svavar Gestsson
19.1.2021 | 12:01
Hann er dáinn hann Svavar Gestsson. Þingmaður, ráðherra og flokksformaður. Ótrúlegt. Einn harðasti byltingarsinninn í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum.
Ég var lítilsháttar málkunnugur honum. Er það enn í fersku minni er ég tók viðtal við hann í síma er ég var nýbyrjaður sem blaðamaður á Vísi og gerði hann mér mjög erfitt fyrir. Hann var þaulvanur blaðamaður og pólitíkus í þokkabót og kannaðist við mig. Átti ekki neitt í þaulæfðan þrætubókarmann sem þarna tugtaði mig til, líklega verðskuldað.
Ég kunni þó vel að meta hann, jafnvel þó hann væri pólitískur andstæðingur. Fór á kappræðufundi þar sem hann tvinnaði saman skammir um íhaldið, auðvaldið, kapítalistana og allt vonda fólkið en fékk svo drjúga yfirhalningu sjálfur fyrir málflutning sinn, sósíalistinn, kommúnistinn og byltingarmaðurinn.
Ég man sérstaklega eftir miklum kappræðufundinum sem, haldinn var í Sigtúni 17. janúar 1978. Húsið var troðfullt af Allaböllum og Heimdellingum. Við hinir síðarnefndu röðuðum okkur á fremstu bekki og létum óspart í okkur heyra. Svo pirraðir voru kommarnir á þátttöku okkar og frammíköllum að í Þjóðviljanum vorum við kallaðir öskurkór Heimdallar. Við höfðum ekkert á móti því.
Ræðumenn að okkar hálfu voru Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason. Á móti voru Svavar Gestsson, Sigurður Magnússon og Sigurður G. Tómasson.
Þess má geta að Þjóðviljinn sagði í fyrirsögn daginn eftir fundinn:
Málstaður sósíalismans er í sókn.
Og í Mogganum var fyrirsögnin:
Sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll.
Hrunadans byltingarmanna
Fylgi Alþýðubandalagsins frá árinu 1974 var nokkuð mikið meðan fáir flokkar buðu fram en fór samt dvínandi eftir því sem leið á.
Í kosningunum 1999 var skipt um nafn og númer og flokkurinn kallaðist eftir það Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þá var fylgið aðeins tæp 10% og hafði aldrei í sögu hinna byltingarsinnuðu baráttumanna verið lægra. Eftir það náðu þeir vopnum sínum og komust í 21,7% fylgi árið 2009 og nutu þess að vera gagnrýnendur hrunsins og handhafar allra lausna.
Fjórum árum síðar var allt hrunið, kjósendur refsuðu Vg sem fékk þá aðeins rétt tæp 11% fylgi. Lausnirnar gengu ekki upp, reyndust vera tálsýn. Vinstri sinnuðu hugsjónamennirnir misstu alla tiltrú kjósenda sem höfnuðu bæði Vg og Samfylkingunni.
Sósíaldemókratían
Með nýjum og hófsömum formanni rétti Vg úr kútnum og fékk aftur traust kjósenda og þá var mynduð ríkisstjórn með höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum. Sögulegar sættir mætti það kallast með tilvísun í pólitík fyrri ára. Þróunin var sem sagt frá byltingu til sósíaldemókratíunnar. Öll helstu baráttumálin hurfu og urðu að einhvers konar jafnaðarmennsku. Ísland er enn í Nató og tekur virkan þátt í starfinu, herinn var ekki rekinn úr landi. Rauða fánanum er flaggað á hátíðisdögum og Nallinn aðeins sunginn til skemmtunar.
Þannig tengist Svavar Gestsson þróun stjórnmálanna frá því hann steig þar á svið sem ritstjóri Þjóðviljans og varð svo þingmaður og ráðherra. Hrunadansinn endaði með því að hinir hófsömu tóku við af byltingarliðinu. Róttæku sósíalistarnir hurfu úr pólitíkinni og sósíaldemókratarnir tóku við. Þetta hefði aldrei getað gerst meðan naglar eins og Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósefsson og ... Svavar Gestsson voru við stýrið. Greinilegt er að innan Vg er sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll svo vitnað sé aftur í fyrirsögn Morgunblaðsins frá því 1978.
Ég minnist Svavars Gestssonar sem mikils vinstrimanns, baráttumanns og byltingarmanns. Þegar ég komst til vits og ára var hann orðinn ritstjóri Þjóðviljans, síðar þingmaður og svo ráðherra í nokkur ár. Hann var einn af þeim sem okkur Heimdellingum þótti vænst um að gera at í. Og víst var að fáir voru jafningjar hans í rökræðum.
Ró og friður
Svavar Gestsson var í föðurætt Dalmaður. Þangað á ég líka ættir að rekja en við vorum ekki mikið skyldir, í sjöunda lið samkvæmt Íslendingabók. Raunar báðir af svokallaðri Ormsætt (Ormur Sigurðsson 1748-1834).
Faðir Svavars, Gestur Zophanías Sveinsson (1920-1981) var fæddur í Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Hann var skírður nafni ömmubróður míns sem hét Gestur Zophanías, sonur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli. Þann 2. október 1920 drukknaði Gestur Zophanías Magnússon ásamt þremur öðrum við Hjalleyjar á Fellsströnd. Daginn eftir fæddist faðir Svavars.
Móðir hans hét Guðrún Valdimarsdóttir og var frá Guðnabakka í Stafholtstungum í Borgarfirði og þar fæddist Svavar.
Stundum hittumst við á förnum vegi. Nei, við erum ekki mikið skyldir, sagði hann, og sagði sögur úr Dölum.
Á efri árum flutti Svavar í Dalina, bjó á Króksfjarðarnesi. Þaðan sér vítt. Útsýnið er fagurt, yfir Króksfjörð til Háuborgar, yfir Berufjörð til Reykhóla og Reykjanesfjalls. Og út um allar hinar fjölmörgu eyjar þar fyrir utan og Dalina og ef til vill sést til Snæfellsjökuls í góðu skyggni. Hann skrifaði mikið, var ritstjóri Breiðfirðings og vildi veg Dalanna sem mestan. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki kynnst fræðimanninum Svavari Gestsyni. Held að við hefðum átt ágætt skap saman.
Myndina sem hér fylgir tók ég í um miðjan október 2017 skammt norðan Króksfjarðarness. Þá var orðið kvöldsett, skýjafarið drungalegt en geislar sólarinnar náðu í gegn af og til. Þetta var fögur sjón.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu
14.1.2021 | 13:06
Er horfinn og missa vinnur
10.1.2021 | 15:13
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.
Athugasemdir um málfar fluttar um set
7.1.2021 | 14:38
Pistlarnir sem nefnast athugasemdir um málfar í fjöllmiðlum verða framvegis á https://malfar.blog.is/blog/malfar/. Fyrsti pistillinn hefur þegar birst þar
Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil gera greinarmun á umfjöllun um íslenskt mál og pistla um önnur efni, til dæmis pólitík og ýmis konar dægurmál.
Brenna fer fram, sólin fer niður og hverfi 220
2.1.2021 | 19:54
Orðlof
Fús
Eðlunarfús kýr er yxna, læða er breima, gylta gengur, er að ganga eða er ræða, tík er lóða, kindur og geitur eru blæsma og hryssur ála, álægja eða í látum.
Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Fór niður um vök í Hornafirði.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er ófullnægjandi. Í orðabókinni minni segir að vök sé gat á íshellu á vatni. Ekki kemur fram hvort bílnum hafi verið ekið í vök eða ísinn hreinlega brotnað undan þunga hans. Hvort heldur sem var þurfti að draga bílinn upp úr vök.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Árlegt áramótabrenna í Snæfellsbæ fór fram í dag venju samkvæmt
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Með hvaða rökum er hægt að segja að brenna fari fram? Þetta er bara vitleysa. Brennur fara ekki fram, þær fara ekkert.
Fyrirsögn fréttarinnar er svona:
Kveiktu brennu á Snæfellsnesi.
Frekar flatt, svona svipað og segja að flugeldi hafi verið skotið upp á Suðurlandi. Menn hlaða brennu og kveikja í brennu. Og Snæfellsnes er stórt og mikið, hálent og skorið. Skárra er svona:
Kveiktu í brennu í Snæfellsbæ.
Í fréttinni segir:
og fengu gestir þau tilmæli um að vera í bílum sínum á meðan brennu stóð til þess að gæta að sóttvörnum.
Skilur einhver þetta hnoð. Auðvitað gat blaðamaðurinn ekki geta skrifað svona:
vegna sóttvarna fengu gestir þau tilmæli að horfa á brennuna úr bílum sínum.
Varla er heil brú í fréttinni allri.
Tillaga: Samkvæmt hefð var kveikt í áramótabrennu í Sæfellsbæ.
3.
Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp, sólina fara niður.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað gerist þegar dagur er að kvöldi kominn. Jú, sólin sest.
Tillaga: Ég hef séð stjörnuhrap, sólina koma upp og setjast.
4.
árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári. Brotaþoli hafði flúið að vettvangi
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Í afspyrnu illa skrifaðri frétt er löggumálið, stofnanamálið, í hámarki gleði sinnar. Sá sem ráðist er á er kallaður brotaþoli. Enginn talar svona nema löggan þegar hún reynir af erfiðismunum að hefja sig upp yfir almenning. Og lögfræðingar orða þetta þannig í formlegri ákæru.
Ofangreint er tvær málsgreinar. Sú fyrri er svona:
Tilkynnt var um stórfellda líkamsárás í gærkvöldi þar sem árásarmaður hafði veist að brotaþola með hníf og valdið stungusári.
Þetta er tómt bull, skrifarinn hefði fengið falleinkunn í öllum skólum. Eftirfarandi hefði verið skárra:
Maður stunginn með hnífi.
Hvað er stórfelld líkamsárás? Má vera að löggan hafi skrifað þennan texta og blaðamaðurinn birt hann óbreyttan (kópí-peist eins og það er kallað í slangrinu). Slæm vinnubrögð. Þar fyrir utan á blaðamanninum að vera fullkunnugt um að löggan er ekki skrifandi og því ber að lagfæra allt sem frá henni kemur.
Seinni málsgreinin er svona:
Brotaþoli hafði flúið að vettvangi þegar lögregla kom á vettvang, en árásarmaður var handtekinn.
Þarna er nástaða sem ætíð er slæm. Skondið að árásarmaðurinn hafi dvalið á vettvangi eftir sá slasaði flúði. Hvort flúði hann eða fór? Yfirleitt er þetta öfugt. Og hversu stórfelld var líkamsárásinn þegar hann gat hlaupið í burtu. Flúði hann að vettvangi en ekki af vettvangi? Hver kærði, brotabrotaþolinn eða gerandismaðurinn?
Málsgreinin hefði verið skárri á þessa leið:
Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.
Fleira bull er í fréttinni. Blaðamaðurinn leyfir sér að byrja setningu á tölustöfum. Það er óvíða gert nema á Mogganum.
Í fréttinni eru næstum allir lögbrjótar kallaðir aðilar. Hverjir eru aðilar?
Í fréttinni segir:
Þá varð bifreið á vegum tollgæslunnar að kalla eftir aðstoð lögreglu, en þeir veittu bifreið eftirför sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum tollgæslunnar inni á svæði tollgæslunnar í hverfi 220.
Ýmislegt er við þessa málsgrein að athuga. Varla telst það alvarleg villa að segja að bifreiðin kallaði á lögguna er þeir eltu bíl. Ekkert samhengi í þessu. Hverjir eru þeir.
Hvernig eru stöðvunarmerki tollgæslunnar Spyr fyrir vin sem vill ekki lenda upp á kannt við embættið. Líklegast veifa tollararnir flöggum í fánalitunum þegar þeir vilja að bíll stoppi. Eða senda þeir fax? Og þvílíkt og annað eins að stoppa ekki inni á svæði tollgæslunnar. Stoppa ekki allir þar?
Svo væri fróðlegt að vita hvar hverfi 220 er og hvar svæði tollgæslunnar er. Líklega er hvort tveggja nýtt.
Nei. Þetta eru óboðleg skrif. Löggunni, blaðamanninum og Mogganum til skammar. Við lesendur eigum ekki skilið að þurfa að lesa svona bjálfaleg skrif. Þau standa ekki undir nafni sem fréttir.
Tillaga: Maður stakk annan með hnífi. Sá særði var farinn þegar lögreglan kom en árásarmaðurinn var handtekinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)