Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Hún lést sjálf, Keikó jarðsettur og börn send heim af skóla

Orðlof

Harri

Orðið harri merkti að fornu: konungur, höfðingi, herra, sbr. fornensku hearra, fornháþýsku herre. Einnig kemur það fyrir í Laxdælu sem heiti á uxa. 

Mannsnafnið Harri gæti verið skylt norska nafnorðinu harre (andúð), lýsingarorðinu harren (harður, stífur). 

Einnig gæti það verið stytting af Haraldur, sbr. danska nafnið Harre frá því á 14. öld sem talið er stytting af nöfnum sem hefjast á Har- (Nöfn Íslendinga).

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Titanic var 270 metra langt, fór í gegnum 825 tonn af kolum á dag og yfir tíu þúsund ljósaperur voru um borð.“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Fréttin virðist vera áhugaverð en strax kemur í ljós að viðvaningur hefur skrifað hana og í þokkabót verið að flýta sér. Barn gæti ábyggilega skrifað betur.

Hvernig getur skip farið „í gegnum 825 tonn af kolum“? Og hvað er merkilegt við tíu þúsund ljósaperur? Voru þær geymdar á lagernum, voru þær í sambandi eða voru fleiri eða færri en algengt var í skipum?

Í fréttinni segir: 

John Jacob Astor IV var um borð í skipinu þegar það sökk en hann var þá ríkasti maður heims. Astor fórst í slysinu en eiginkona hans lifði af.

Hefði ekki mátt orða þetta svona:

Ríkasti maður heims, John Jacob Astor IV, fórst í slysinu en eiginkona hans lifði af.  

Einnig segir í fréttinni:

Hjúkrunarfræðingurinn Violet Jessop var um borð í Titanic þegar skipið sökk. Hún lifði aftur á móti af. Jessop var aftur á móti einnig um borð í systurskipi Titanic, Britannic fjórum árum síðar þegar það skip sökk. Hún lifði bæði slysin af. 

Þetta er þvílík della að ótrúlegt er að Vísir skuli bjóða lesendum sínum upp á fréttir skrifað af algjörum viðvaningi. Greinilegt er að útgáfunni er sama um lesendur. Markmiðið virðist ekki vera að segja fréttir og upplýsa.

Það kostaði meira að framleiða kvikmyndina Titanic en skipið sjálft kostaði. Á núvirði kostaði kvikmyndin 360 milljónir dollara og skipið sjálft kostaði 190 milljónir dollara. Kvikmyndin malaði aftur á móti gull þegar hún kom út.

Kostaði, kostaði, kostaði, kostaði. Orðfæðin er átakanleg og enn þetta „aftur á móti“.

Loks er það þetta sem er aldeilis ótrúleg samsetning:

Yngsti farþeginn var aðeins tveggja mánaða og lifðu stúlkan af. Eliza Gladys Dean lést sjálf árið 2009, þá 97 ára.

Er yngsti farþeginn og stúlkan sami maðurinn? Hverjir „lifðu“ af? Öldruð kona „lést sjálf“. Þetta er skelfilegt. Er hægt að afsaka svona bull?

Í fréttinni er aftur og aftur sagt að einhver hafi „lifað af“, rétt eins og blaðamaðurinn þekki ekki ekki sögnina að bjargast.

Nei, þetta er óboðlegt og blaðamanninum og útgáfunni til háborinnar skammar.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Ég held að ef þú hefðir spurt mig fyrir viku þá hefði ég ekkifyrir að þetta yrði niðurstaðan.“

Frétt á dv.is.                

Athugasemd: Öllum getur orðið það á að skrifa rangt. Þegar sama villan kemur tvisvar fyrir í fréttinni bendir það til fljótfærni eða jafnvel kunnáttuleysis. Blaðamaðurinn stendur sig illa, er fljótfær.

Tillaga: Fyrir viku hefði ég ekki trúað að niðurstaðan yrði þessi.

3.

„Boltinn er svo­lítið hjá borginni.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Deilt er um kjaramál og viðmælandi Vísis telur að Reykjavíkurborg eigi næsta leik. Í talmáli heyrist stundum svona orðalaga að einhver eigi að gera eitthvað „svolítið“ … eða álíka. 

Hlutverk blaðamanns er öðrum þræði að lagfæra orðalag þess sem hann talar við, koma talmáli yfir á ritmál. Boltinn getur þó aldrei orðið „svolítið“ hjá borginni því þá hefur myndlíkingin misst marks. 

Í handbolta, fótbolta eða körfubolta getur boltinn aldrei verið „svolítið“ hjá öðru liðinu. Annað hvort liðið er með boltann, að öllu leyti.

Eigi viðmælandinn við að báðir aðilar geti haft frumkvæði þá þarf bara að orða það þannig.

Tillaga: Borgin á frumkvæðið.

4.

„Vill jarða orð­róminn um að Keikó sé ekki grafinn í fjörunni í Norður­mæri.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Þetta er frekar viðvaningslegt. Ætlunin er að jarða orðróm með því að grafa upp. Væri ekki eðlilegra að orða það þannig að með uppgreftrinum sé ætlunin að eyða honum, afsanna hann?

Stílleysið er algjört en viðvaningar vita ekkert um stíl.

Í fréttinni segir:

Free Willy/Keiko- stofnunin stóð fyrir jarðsetningunni. 

Keikó var ekki jarðsettur, hræið var grafið. Maður deyr og líkið er jarðsett. Dýr drepst og hræið er grafið eða huslað. Svo má eflaust segja að fallegi hundurinn hafi dáið og hann grafinn með viðhöfn. 

Litlu börnunum er sagt að Snati hafi verið jarðaður og þau muna orðið. Síðar verða jafnvel lítil börn fullorðin og sum leggja fyrir sig blaðamennsku.

Tillaga: Vill sanna að Keikó sé grafinn í fjöru á Mæri í Noregi.

5.

„Þurfa að senda tugi barna heim af hverjum skóla.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Furðulegt orðalag. Getur verið að börnin séu uppi á þaki skóla og nú þurfi að senda þau „af skólanum“? Get ekki ímyndað mér gáfulegri skýringu á orðalaginu.

Máltilfinningin segir að börnin séu send úr skóla, alls ekki af.

Tillaga: Þurfa að senda tugi barna heim úr hverjum skóla.

 


Langt frá landrisinu brestur jarðskorpan

Aðal­atriðið í mál­inu er þetta landris. Skjálft­arn­ir eru af­leiðing af því. Landrisið er ástæðan fyr­ir því að hlut­ir eru á óvissu­stigi, ekki jarðskjálft­arn­ir. Þeir eru al­geng­ir á þessu svæði.

200202 jarðskjálftar, GrindavíkÞetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, á fundi í Grindavík, samkvæmt frétt á mbl.is. Í örfáum orðum felst mikill sannleikur. Landrisið teygir á jarðskorpunni og þá brestur einhvers staðar, hún rifnar eða heldur áfram að rifna, rétt eins og þegar teygt er á flík.

Afar fáir jarðskjálftar eru við landrisið vestan við Þorbjarnarfell. Vísindamenn hafa mælt þar fjögurra sentímetra hækkun á landi á tíu dögum. Undir er kvika sem skýtur sér inn á milli berglaga, ekki þannig að kvikuhólf sé undir eins og víða annars staðar, til dæmis Heklu eða Öskju.

Hvað er kvikuhólf? Það er staður í jarðskorpunni þar sem bergkvika safnast sama. Sífellt bætist í hólfið en á móti þrýstir hún sér upp á við, inn í sprungur, stundum langar leiðir og stöðvast þar, storknar. Af og til kemst kvikan upp á yfirborð og þá verður eldgos, hraun rennur. Við eldgos rís tæmist kvikuhólfið að öllu leiti eða hluta.

Annað hvort leitar kvikan frekar fljótlega upp á yfirborð og gýs, oftast sem sprungugos af basalt kviku. Eða þá að kvikan treðst inn á milli jarðlaga í efri hluta skorpunnar og myndar innskot, án þess að gos verði, en myndar bólu eða landris á yfirborði.

Þetta segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, í viðtali við visir.is. Og það er einmitt það sem er að gerast norðan við Grindavík. Eiginlegt kvikuhólf er ekkert heldur treður kvikan sér upp á við. Vera má að þetta hafi ótal sinnum gerst á Reykjanesi án þess að neinn hafi tekið eftir því. Núna er tækjabúnaður jarðvísindamanna svo mikill og fullkominn að fátt fer framhjá þeim.

Vísindamenn hjá ÍSOR hafa reiknað út að kvikan við Þorbjarnarfell sé aðeins um 0,001 rúmkílómetri, varla að það dugi í almennilegt eldgos, nái það upp á yfirborðið. Hér er dálítill samanburður:

  1. Gosið í Holuhrauni var stórt gos. Á tveimur fyrstu vikunum kom þar upp 0,5 rúmkílómetri af hrauni.
  2. Hraunið í Heimaeyjargosinu var 0,25 rúmkílómetrar.
  3. Margir hafa komið að Vikrahrauni í Öskjuopi, séð gíganna og jafnvel gert sér grein fyrir stærð hraunsins sem þarna rann í október 1961. Það er 0,1 rúmkílómetri.

Af þessu má ráða að ekki er mikil kvika í jarðskorpunni við Þorbjarnarfell.

200202 Jarðskjálftar þróunOkkur leikmönnum finnst skrýtið að jarðskorpan láti undan einhvers staðar fjarri landrisinu. Þegar litið er á þróunina síðustu mánuði má sjá að gríðarleg skjálftavirki hefur verið austan við Fagradalsfjall. Hún hefur á nokkrum mánuðum færst til vestur og er nú norðan við Grindavík.

Hér er kort sem fengið er frá Loftmyndum, rétt eins og hitt kortið (gott er að smella á kortin, þá stækka þau). 

Á því sést hvernig þróunin hefur verið síðustu sex mánuði eða svo. Fyrst var nokkur skjálftavirkni í Kleifarvatni og þar vestan við. Síðan urðu miklir skjálftar austan við Fagradalsfjall sem færðust smám saman austur fyrir fjallið. Loks verður mikil skjálftahrina norðan við Grindavík.

Hvort skjálftahrinurnar tengist eitthvað veit ég ekki. Ekki hefur orðið landris fyrr en hrinan byrjaði norðan við Grindavík. Þá má spyrja hvort hafi komið fyrr, eggið eða hænan, jarðskjálftarnir eða landrisið.

Eftir þessar vangaveltur stendur sú staðreynd ein eftir að það sem virðist vera „lítilsháttar“ landris veldur gríðarlegum skjálftum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband