Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
Vatn sem klára þig, verkjastilltur og estimeita
7.8.2019 | 20:15
Orðlof
Stórra högga á milli
Hjón eignuðust börn þétt. Einhver sagði þar vera skammt stórra högga á milli en annar taldi orðtakið rangnotað.
Víst er það úr fornu vígamáli - en fyrir löngu orðið nothæft um það að ráðast í mörg stórræði með stuttu millibili; mikilvægir atburðir eiga sér stað með skömmu millibili (Mergur málsins).
Málið á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 1.8.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Vatn sem klárar þig á fimm mínútum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Lake that finish you in five minutes. Þannig taka enskumælandi til orða.
Íslenskan er oft gjörólík enskunni. Þegar svo illa vill til að maður falli í ískalt stöðuvatn er hætta á ferðum. Hann kólnar hratt og innan nokkurra mínútna getur hann varla neina björg sér veitt. Til að lýsa þessu er sagt að vatnið geti gert út af við hvern mann á nokkrum mínútum.
Persónufornafnið þú er you á ensku. Það getur hins vegar haft víðtækari merkingu en sá sem er ávarpaður, þú enda segir í Málfarsbankanum:
Ekki er talið vandað málfar að nota orðið þú sem svokallað óákveðið fornafn þegar átt er við fólk almennt en ekki er verið að ávarpa einn tiltekinn viðmælanda.
Það er t.a.m. ekki talið gott mál að segja: þegar þú kaupir í matinn áttu margra kosta völ.
Af þessum fáu orðum um má draga þá ályktun að fyrirsögnin er ekki góð. Á íslensku notum við þú þegar við ræðum við ákveðinn einstakling. Eins og fram kemur í Málfarsbankanum getur þú ekki komið í staðinn fyrir óákveðin fornöfn, til dæmis einhver, allir, hver, nokkur.
Þetta eiga blaðamenn að vita og lagfæra orð viðmælenda sinna svo þau falli að réttum máli. Verkefni blaðamanna er ekki að dreifa villum og ambögum jafnvel þó sá sem við er rætt sé hafi hafi ekki getu til að tjá sig eðlilega. Svo má bæta því við að talmál er dálítið öðru vísi en ritmál. Það sem við segjum virðist oft ankannalegt á blaði og því ættum við að umorða frásögnina.
Tillaga: Ískalt vatnið gerir út af við hvern sem er á fimm mínútum.
2.
Hún var mikið verkjuð en þegar læknir kom á staðinn var hægt að verkjastilla hana og
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Í fréttinni kennir kona til, hún er sögð mikið verkjuð. Hún fær lyf og er sögð verkjastillt. Manni verður nú bara illt við svona lestur og fátt linar.
Verkjaður er skrýtið orð og sá sem er með verkjum er talinn verkjaður og ekki er það skárra. Til eru betri orð sem lýsa ástandinu. Hann getur til dæmis verið þjáður, með þrautum, verið illt, kennt til, sárkennt til
Óþarfi er að búa til sögnina að verkjastilla þegar til eru góð íslensk orð eins og að lina, sem merkir að draga úr og á hér vel við. Bókastaflega merkir sögnin að lina að gera lint. Blaðamaðurinn þarf að endurstilla sig ef svo má segja.
Tillaga: Hún var sárþjáð en læknir gat með lyfjum linað þjáningar hennar
3.
Drengurinn hlaut líkamstjón
Frétt á Bylgjunni 7.8.2019 kl. 12.
Athugasemd: Þetta er nú meiri vitleysan. Hvers vegna er það ekki orðað þannig að drengurinn hafi meiðst, slasast eða jafnvel særst. Nei, hann hlaut líkamstjón. Svona orðalag skorar hátt á vitleysiskvarðanum.
Enska nafnorðaáráttan hefur greinilega gert út af við íslenskuþekkingu fréttamannsins.
Tillaga: Drengurinn slasaðist
4.
tónleikarnir nýtt level fyrir Ísland.
Frétt í Ríkisútvarpinu-Sjónvarpi, 7.8.2019, kl. 19.
Athugasemd: Ekki er við fréttamanninn að sakast þegar viðmælandi slettir enskunni líkt og hann vilji koma því fram að hann sé heimsmaður, geti talað útlensku. Sé útsendingin ekki bein má benda viðmælandanum á yfirsjónina og byrja aftur. Slíkt væri vinalega gert og enn betra fyrir þá sem á horfa.
Víst er að fjöldi fólks veit ekkert hvað maðurinn á við og þar á meðal sá sem þetta skrifar.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir viðræður við Breta um samning á milli ríkjanna í kjölfar Brexit hafa varað í nokkurn tíma.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er klaufalegt orðalag, gjörsamlega stíllaust og afar auðvelt að gera skár.
Tillaga: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Íslendingar og Bretar hafi í nokkurn tíma unnið að samningi á milli ríkjanna í kjölfar Brexit.
6.
þar sem tveir tónleikar verða haldnir.
Fréttir í Ríkisútvarpinu-Sjónvarpi, 7.8.2019, kl. 19.
Athugasemd: Tónleikar er fleirtöluorð, ekki til í eintölu. Einir tónleikar, tvennir tónleikar, þrennir tónleikar, fernir tónleikar. Getur verið að til sé blaðamaður eða fréttamaður sem viti ekki hvað eru eintöluorð og hvað fleirtöluorð?
Rétt: þar sem tvennir tónleikar verða haldnir.
7.
Ég þarf að estimeita hvað ég þarf að skjóta langt.
Sumarið Ríkisútvarpinu-Sjónvarp 7.8.2019, kl. 19.35.
Athugasemd: Þetta segir viðmælandi í þætti sem ekki er í beinni útsendingu. Metnaðurinn er enginn, hvorki hjá þeim sem þetta sagði eða Sjónvarpinu.
Alltaf birtist einn og einn sem þarf að auglýsa þekkingu sína í ensku. Um leið er gert lítið úr íslensku máli. Flestir ættu að þekkja sagnirnar að áætla og meta. Samt er svo svakalega flott að segja estimeita, það er eitthvað svo útlenskt og intellektúal.
Rétt: Ég þarf að áætla hvað ég þarf að skjóta langt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hræ étur krabbadýr, endir á eldinum og Álafoss est 1896
1.8.2019 | 11:24
Orðlof
Stórra högga á milli
Hjón eignuðust börn þétt. Einhver sagði þar vera skammt stórra högga á milli en annar taldi orðtakið rangnotað.
Víst er það úr fornu vígamáli - en fyrir löngu orðið nothæft um það að ráðast í mörg stórræði með stuttu millibili; mikilvægir atburðir eiga sér stað með skömmu millibili (Mergur málsins).
Málið á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 1.8.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Krabbadýr líklega étið af hræinu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvort skyldi krabbadýr hafa étið hræið eða hræið étið krabbadýr? Fyrirsögnin er í germynd en gæti líka verið í þolmynd og því hægt að misskilja hana.
Misskilningurinn felst í orðalaginu éta af. Þarna gæti verið um að ræða þolmynd, dýrið étið af hræinu.
Setjum annað orð í stað hræsins, til dæmis hvalur: Krabbadýr líklega étið af hvalnum. Ómögulegt að skilja setninguna. Í ljósi samhengisins skilst þó að í fyrirsögninni voru krabbadýr sem nærðust á hræinu.
Svona er nú gaman að leika sér með málið. Vandinn er hins vegar sá að skrifa með hugsun, ekki láta allt vaða. Engu að síður er fréttin ágætlega skrifuð.
Tillaga: Krabbadýr líklega lagst á hræið.
2.
Farnir að sjá fyrir endann á eldinum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvar skyldi vera endinn á eldinum? Líklega hvergi. Alþekkt er orðalagið að sjá fyrir endann á einhverju og merkir að eitthvað sé að klárast, lokin séu skammt undan. Þegar band eða kaðall er hringaður upp er verkinu nær lokið þegar endinn sést.
Fyrirsögnin er hrikalega slök en átt er við að slökkviliðsmenn hafi verið nálægt því að slökkva eldinn.
Hér hefur oft verið bent á að mikilvægt er að nota orðalag sem hæfir efni fréttarinnar. Annars er hætt við að niðurstaðan verði eins og þruma úr heiðskírum læk ...
Tillaga: Farnir að sjá fyrir endann á slökkvistarfinu.
3.
Það eru liðin átta ár síðan og átta sinnum hafa nýir tyrkneskir meistarar verið krýndir.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fréttin er illa samin. Í fyrri hluta fréttarinnar kemur ekki fram í hvað íþrótt meistarar hafi verið krýndir. Tilvitnunin hér að ofan er óskiljanleg og ómögulegt að átta sig á því hvort átta lið hafi fengið titilinn fyrir umrætt ár (2011) eða þá að liðin séu átta ár og jafnmörg lið unnið hann.
Í fréttinni segir:
Forráðamönnum Trabzonspor tókst þannig ekki að koma með upplýsingar um lög hjá FIFA eða tyrkneska knattspyrnusambandinu sem myndu rökstyðja slíka ákvörðun.
Hvaða tilgangi þjónar þetta þannig? Eftir að hafa lesið málsgreinina nokkrum sinnum er líklegast dettur mér í hug að blaðamaðurinn eigi við þetta:
Forráðamenn Trabzonspor gátu hvorki vitnað í lagaheimildir hjá tyrkneska knattspyrnusambandinu né FIFA sem heimila að svipta megi Fenerbahce titlinum og færa Trabzonspor.
Svo segir:
Trabzonspor kemur frá norður Tyrklandi en borgin er við Svartahaf.
Blaðamaðurinn hefur ábyggilega viljað orða þetta svona:
Trabzonspor er borg í Norður-Tyrklandi, við Svartahaf.
Í fréttinni er líka þetta:
Trabzonspor hefur orðið sex sinnum tyrkneskur meistari en síðasti titill félagsins kom í hús árið 1984.
Má vera að blaðamaðurinn hafi átt að orða málsgreinina svona:
Trabzonspor hefur orðið sex sinnum tyrkneskur meistari, síðast árið 1984.
Fréttin er skemmd og ekki bjóðandi neytendum.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Álafoss. Est. 1896.
Auglýsing á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 1.8.2019.
Athugasemd: Smáatriði munu eiga stóran þátt í að eyðileggja íslenskuna. Est. er skammstöfun á ensku og á við established, sem þýðir stofnað. Í Bretlandi og Bandaríkjunum þykir hár aldur fyrirtækja eða vöru merki um dugnað og úthald og þess vegna stendur oft á vörutegundum, húsum eða auglýsingum est eða beinlínis established.
Að sjálfsögðu má Álafoss guma sig af löngum ferli. Hins vegar gat ég aðeins fundið eitt fyrirtæki sem ber nafnið Álafoss og það er einkahlutafélag með kennitölu frá 2018. Álafoss frá síðustu öld er líklega ekki sama fyrirtækið og auglýsing í Mogganum gefur til kynna enda er á heimasíðu alafoss.is gefin upp kennitala frá 1995 og hana á fyrirtækið Áll24 ehf.
Tillaga: Álafoss. Stofnað 1896.
Smælki
Tölustafir í upphafi setningar
1818 eldingar voru skráðar á meðan þrumuveðrið gekk yfir en þær voru flestar á Suður- og Suðausturlandi. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Eindregið er ráðið frá því að byrja setningar á tölustöfum. Það er hvergi gert.
Betra: Alls voru skráðar 1818 eldingar meðan þrumuveðrið gekk yfir, flestar á Suður- og Suðausturlandi.
Draga úr eða fækka
Vilja draga úr dauðaslysum. Fyrirsögn á visir.is.
Betra: Vilja fækka dauðaslysum.
Villa
Eftir 0-3 tap fyrir Blikum var þolinmæðin á þrotum Frétt á visir.is.
Rétt: Eftir 0-3 tap gegn Blikum var þolinmæðin á þrotum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)