Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
Pólitískur halli á fréttamennsku um Amtsbókasafn
27.3.2015 | 15:17
Illt er að skilja frétt sem ekki byggir á öllum málavöxtum. Í fréttatíma Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag var frétt um sölu á húsnæði Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi. Greint var frá því að á bæjarstjórnarfund í gær hefðu fimmtíu íbúar lagt leið sína sem sé algjört met!
Samkvæmt mati endurskoðunarfyrirtækisins KPMG er talið að eitt af tilboðunum í húsið hafi verið best og samþykkti meirihluti bæjarstjórnar það. Minnihlutinn var hins vegar á móti. Hvorir tveggju hafa ábyggilega nokkuð til síns máls en um það fengu við hlustendur ekkert að vita.
Í frétt Ríkisútvarpsins var aðeins sagt frá málavöxtum eins og minnihluti bæjarstjórnar Stykkishólms sá þá. Viðtal var við fyrrum bæjarstjóra, pólitískan andstæðing núverandi meirihluta og einn úr minnihlutanum. Ekki var leitað eftir áliti meirihlutans eða bæjarstjóra Stykkishólms.
Þetta finnast mér dálítið slök vinnubrögð af hálfu fréttastofu Ríkisútvarpsins, svona hlutdræg fréttamennska, ef nota má orðið fréttamennska yfir svona lagað.
Svo gerist það að visir.is segir frá sama máli og byggir frétt sína á álíka einhliða frásögn.
Skil ekkert í svona verklagi nema því aðeins að meirihluti bæjarstjórnar Stykkishólms sé svo hrikalega vondur að mati fréttamanna. Sé það raunin skal fullyrt að það er ekki fréttamanna að hafa skoðun á slíku.
Fæðuöryggi landsmanna og ESB aðild
27.3.2015 | 13:30
Mér þykja þessi orð dr. Ólafs Dýrmundssonar, fyrrum ráðunauts Bændasamtaka Íslands, í Bændablaðinu, afar áhugaverð. Evrópuvaktin vakti athygli mína á viðtalinu við hann.
Það þarf því ekki náttúruhamfarir, hryðjuverk eða stríð til að við getum lent í miklum vandræðum á stuttum tíma. Því þarf að ræða fæðuöryggismálin af miklu meiri alvöru en nú er gert. Það er líf heillar þjóðar í húfi. Þetta snertir Evrópusambandið og mögulega aðild okkar að því. Með frjálsu vöruflæði milli landa stenst íslenskur landbúnaður ekki samkeppni við niðurgreidda stórframleiðslu annarra landa. Því myndi íslenskur landbúnaður leggjast af að mestu og Íslendingar hefðu þá litla möguleika á að bjarga sér sjálfir með landbúnaðarafurðir ef landið lokaðist fyrir innflutningi.
Um leið og við sköðuðum fæðuöryggið gerist annað varðandi innflutning. Um leið og innlend samkeppni er úr sögunni lendum við mjög fljótt í fákeppni á markaði. Reynslan sýnir að þá mun verð á innflutningi hækka. Þá verður vandinn sá að þegar búið er að leggja af einhverjar greinar í landbúnaði, þá endurreisa menn þær ekki svo auðveldlega. Landbúnaður er langtímaferli og mjög auðvelt að eyðileggja hann með innflutningi.
Ég hef séð sjálfur hvernig slíkt gerist, m.a. á Nýfundalandi, í Alaska og víðar. Öll slík jaðarsvæði eiga alltaf í vök að verjast, líkt og Ísland yrði sem jaðarríki í Evrópusambandinu. Innan núverandi stefnu Evrópusambandsins og þeirra samninga sem þeir miða við í landbúnaðarmálum, þá eru engar líkur á að við nytum þar einhverra sérkjara. Við yrðum því jaðarsvæði og háð öðrum að mestu leyti um innflutning á landbúnaðarvörum. Þótt talað sé um að hægt sé að lækka verð á landbúnaðarvörum með óheftum innflutningi, þá áttar fólk sig ekki á að svokölluð frjáls samkeppni hefur aldrei virkað vel á Íslandi. Það getur þó verið að verðið lækki tímabundið meðan innflutningsaðilar eru að ná tökum á markaðinum. Það gerðist t.d. í Finnlandi, en þegar búið er að drepa samkeppnina frá innlendu framleiðslunni með tilheyrandi fækkun starfa, þá hækkar vöruverðið. Við yrðum því verr stödd innan fimm til tíu ára hvað verðlag á landbúnaðarvörum varðar.
Meðan allt leikur í lyndi eru svona vangaveltur um fæðuöryggi huga margra afar óraunhæfar. Flestir minnast þó gossins í Eyjafjallajökli sem hafði þær afleiðingar að flugumferð til og frá Evrópu lagðist af um tíma. Samtstundis varð skortur á ýmis konar landbúnaðarafurðum sem Evrópubúar treysta á að koma daglega frá öðrum heimsálfum. Enginn getur með neinni vissu fullyrðt að sambærilegir atburði geti ekki gerst í náinni framtíð.
Svo er það hitt, eins og Ólafur nefnir, að verðlagning á landbúnaðarafurðum í Evrópu er önnur en hér á landi og svo ákaflega áhugavert að geta snúið öllu upp í kæruleysi og heimtað að geta bara keypt evrópskan kjúkling, nautakjöt, grænmeti og annað. Innlend framleiðsla er dýr, sú útlenda ódýr, buddan ræður. Hver er þó staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar ef við getum ekki brauðfætt landsmenn þegar eitthvað bjátar á í samgöngukerfi heimsins? Á íslensk þjóð að vera að öllu leyti háð innflutningi matvæla? Skilyrði fyrir aðild að ESB er auðvitað að opna fyrir óheftan innflutning landbúnaðarafurða frá Evrópu og ekki síður veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu.
Þetta er spurningin um fæðuöryggi og er brýnt að þeir rökræði sem geta og vilja.
Samfylkingin á bágt, ekki berja á henni ...
26.3.2015 | 09:45
Samfylkingin á í vandræðum. Slíkt gerist af og til með stjórnmálaflokka.
Allir vita að Samfylking var rasskellt í síðustu Alþingiskosningum. Forystumenn flokksins hafa lítið gert með það og þess í stað barið á núverandi ríkisstjórn enda á hún í vandræðum vegna ESB málsins. Ríkisútvarpið hefur dyggilega aðstoðað Samfylkinguna í þessum vandræðum hennar og reynt að finna frekar snöggu blettina á nokkrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem töluðu um þjóðaratkvæði um ESB þvert á samþykktir landsfundar.
Þetta er nú svo sem allt í lagi. Auðvitað má berja á Sjálfstæðisflokknum gefi hann höggstað á sér.
Svo gerist það á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar að allt fer í handaskolum. Rafræn kosning klikkar, gerð er tilraun til valdaráns, þeir sem mega kjósa fá það ekki, þeir sem ekki mega kjósa fá leyfi til þess, formaðurinn er kjörinn með einu atkvæði og forysta flokksins breytir um stefnu varðandi Drekasvæðið.
Auðvitað má ekki berja á Samfylkingunni jafnvel þó hún gefi höggstað á sér.
Ríkisútvarpið sérvorkenndi flokknum og fór mjúkum höndum um nýkjörinn formann sem var óvenju litlaus eftir atburði landsfundarins, láir honum það enginn. Þingflokksformaður flokksins mætti í beina útsendingu Ríkissjónvarpsins og þar fékk hann allverulegar gælur og í bónus mátti hann vera með áróður um ágæti Samfylkingarinnar án athugasemdar fréttamannsins. Mulningsvélin í Kastljósi ákvað að það svaraði ekki kostnaði að taka Samfylkinguna og formann hennar fyrir því hann á svo bágt.
Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins barðist fyrir nokkrum árum um embættið við annan flokksmann og hafði sigur. Munurinn var talsvert meiri en eitt atkvæði auk þess sem á annað þúsund manns tóku þátt í kjörinu á landsfundi. Þá ærðist Ríkisútvarpið og grillaði formanninn og flokkinn í mörgum fréttatímum og fréttaskýringaþáttum. Um leið voru andstæðingar flokksins kallaðir til álitsgjafar og það sem þeir sögðu kyngdu spyrlar.
Svo kemur það í ljós, eftir að einhver lagði á sig að lesa samþykktir landsfundarins, að hann samþykkti ályktun gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þrátt fyrir þetta hafði fyrrum utanríkisráðherra kallað sig olíumálaráðherra í barnslegu stolti vegna afreka í olíunni. Eru þó ekki nema tveir mánuðir síðan hann og aðrir forystumenn flokksins samþykktu lög um þátttöku ríkisins í kolvetnisstarfsemi.
Auðvitað er þetta allt í lagi enda ekki saman að jafna Sjálfstæðisflokkum og Samfylkingunni.
Á öðrum fréttamiðlum en Ríkisútvarpinu þykir klúður Samfylkingarinnar frétt til næsta bæjar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lögfræðingurinn sem skilur ekki aðlögunarviðræður við ESB
23.3.2015 | 08:46
Það er kristaltært, að meirihluti þjóðarinnar vill fá að kjósa um framhald viðræðna til að fá fram, hverjir verða kostir og gallar þess ef aðild yrði samþykkt. Í framhaldinu fengi þjóðin að kjósa um það, hvort sækja eigi um aðild eða ekki. Það hlýtur að vera hægt að treysta almenningi til þess í stað þess að láta fámenna sérhagsmunahópa ráða því alfarið, eins og þeir hinir sömu vilja gera og hafa vit fyrir hinum hvað sé þjóðinni fyrir bestu.
Nær óskiljanlegt er hversu margir mætir menn skilji ekki í hverju aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið eru fólgnar. Jónas Haraldsson lögfræðingur er einn þeirra og skrifar grein í Morgunblað dagsins um misskilning sinn. Hann heldur að viðræðurnar séu samningaviðræður en því fer nú fjarri.
Jónas Haraldsson og aðrir ESB sinnar ættu að lesa sér til riti ESB sem nefnist Understanding Enlargement - The European Unions enlargement policy. Það hefur hann ekki gert en giskar bara á að um sé að ræða samninga þar sem íslenska viðræðunefndin geti heimtað eitthvað sem ESB sé í lófa lagið að útvega. Þetta er nú eitthvað annað.
Í ofangreindu riti segir eftirfarandi:
- First, it is important to underline that the term negotiation can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates odoption, implimentation and application of EU rules some 90,000 pages of them.
- And these rules (also known as acquis, French for that which has been agreed) are not negotiable.
- For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.
- For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidates implementation of the rules.
Skýrara getur þetta varla verið. Accession negotiations heita viðræðurnar en ekki negotiations. Þetta er ekki hægt að þýða öðru vísi en sem aðlögunarviðræður. Eftirfarandi setur enn frekari stoðir undir þá skýringu og þetta eru hluti af skilyrðum stjórnenda ESB:
Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a countrys political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country.
Ofangreint þýðir einfaldlega það að umsóknarríkið á að aðlaga stjórnsýslu, lög og reglur sínar að því sem gildir hjá Evrópusambandinu.
Af ofangreindu leiðir að það er ekkert til sem heitir að finna út ...hverjir verða kostir og gallar þess ef aðild yrði samþykkt eins og Jónas Haraldsson orðar það.
Kostirnir og gallarnir við aðild að ESB liggja fyrir, samningurinn er klár. Hann gengur undir nafninu Lissabon-sáttmálinn. Undir hann er Íslandi ætlað að ganga. Engar undanþágur eru veittar frá honum nema til skamms tíma.
Undarlegt að lögfræðingurinn Jónas Haraldsson, fyrrum starfsmaður LÍÚ, skuli ekki vita þetta. Þá hefði hann getað sparað stóru orðin í Morgunblaðsgreininni.
Hugi Einarsson
21.3.2015 | 12:56
Frá því ég bjó á Höfn i Hornafirði í nokkur ár um síðustu aldamót eru mér þar enn nokkrir einstaklingar minnisstæðir. Ég rak þá Jöklaferðir, fyrirtæki sem bauð upp á vélsleða- og snjóbílaferðir á Vatnajökul ásamt veitingasölu og gistingu. Fyrirtækið var einnig ferðaskrifstofa og skipulagði ferðir um suðausturhornið.
Einn þeirra sem ég kynntist var Hugi Einarsson, þrekvaxinn, hraustur og úrræðagóður jeppakall sem kunni allt og gat eiginlega allt. Af og til réðum við hann í jeppaferðir og þá kynntist ég þá þessum ágæta manni nokkuð.
Svo gerðist það að hann hitti Sigrúnu Kapítólu Guðrúnardóttur sem ég hafði ráðið til starfa og það endaði með því að þau tóku saman og stofnuðu fjölskyldu. Þau voru hörkudugleg bæði tvö og eftir að Jöklaferðir hættu starfsemi tóku þau við rekstri tjaldsvæðisins á Höfn og efldu það og styrktu.
Svona er nú galdur lífsins, Sigrún og Hugi, urðu eitt, mörgum sem til þekktu voru þetta stórfréttir. Þetta bara gerðist eins og sólin sem brýst fram úr skýjunum og geislar hennar baða þá sem eru á réttum stað og stund.
Svo berast mér þær fréttir að Hugi sé dáinn. Hann sem í minningunni var ímynd hreysti og lífsgleði. Maður verður höggdofa, skilningurinn hverfur. Hann var jarðaður í dag og í Morgunblaði dagsins eru nokkrar minningargreinar um þennan góða dreng.
Þó ég hafi ekkert samband haft við þau Huga og Sigrúnu síðan ég flutti frá Hornafirði eru þau mér enn afar minnisstæð, ekki síst fyrir þá sök að ég hef af og til frétt af þeim og alltaf af góðu einu.
Vilji svo til að þessar línur rati til Sigrúnar sendi ég henni og fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Meðfyglandi mynd af Huga tók ég í byrjun september árið 2000 er Paramount kvikmyndaverið kom hingað til að taka upp hluta af kvikmyndinni um Laura Croft. Þar sáum við aðalaleikarann Angelinu Jolie leika lausum hala og þóttum það ekkert stórmerkilegt.
Útsmoginn ríkistjórn og önnur seinheppin
20.3.2015 | 09:15
Forvitnilegt er að skoða verk tveggja ríkisstjórna og þar af leiðandi tveggja utanríkisráðherra vegna aðildarumsóknar að ESB.
Aðdragandinn er þessi samkvæmt viðtali við Ágúst Þór Árnason, aðjunkt við lagadeild Háskólans á Akureyri:
Ágúst Þór rifjar upp að það hafi verið ESB sem stoppaði viðræðurnar, með því að skila ekki rýniskýrslu, eftir seinni rýnifundinn um sjávarútvegskaflann, sem haldinn var í mars 2011. Slík rýniskýrsla er nauðsynleg til þess að Ísland geti komið fram með sín samningsmarkmið. Ef við getum það ekki þá er málið stopp, eins og raunin hefur verið síðan í mars 2011.
Ágúst Þór var spurður, í þessu samhengi, hvort það hefði eitthvað upp á sig að setja ákvörðun um það hvort viðræðum við ESB væri haldið áfram, í hendur þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu: Ég tel að ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að spyrja þjóðina hvernig hún ætlaði að komast í viðræður, við einhvern sem er ekki að svara í ferlinu. Það var sett upp ákveðið ferli og samkvæmt því á að skila rýniskýrslu eftir seinni rýnifundinn umsóknarlands og Evrópusambandsins. Hvað gerir umsóknarlandið, ef þessari skýrslu er ekki skilað? Þeirri spurningu verður að svara,
Vinstri stjórnin hafði vit á að þegja þessa stöðu en í raun faldi hún hana fyrir þjóðinni. Össur Skarphéðinsson hefur ábyggilega hugsað sem svo að nú væri illt í efni og betra að framsenda vandann á nýja ríkisstjórn heldur en að renna á rassinn með mikilvægasta mál Samfylkingarinnar.
Og það gekk eftir. Málið lognaðist smám saman út af og almenningur gerði sér enga rellu út af þessu þó svo að þáverandi stjórnarandstaða rembdist eins og rjúpan við staur.
Svo gerist það að við sem erum andstæðir aðildinni að ESB höfum skrifað og þrýst á ríkisstjórnina að hætta við umsóknina. Hvernig stendur ríkisstjórnin að málum? Jú, hún kolklúðrar þeim. Leggur fyrst fram þingsályktunartillögu sem hún hefur ekki kjark til að fylgja til enda. Síðan kemur hið óskiljanlega bréf utanríkisráðherra til ESB, sem raunar er ekkert annað pólitísks yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þess efnis að hún ætli sér ekkert að gera frekar í umsóknarmálum.
Og þá verður allt vitlaust. Stjórnarandstaðan, og þar með taldir stuðningsmenn og ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar, setja af stað vel heppnað leikrit. Mótmælafundir eru að auki haldnir, daglegt líf fer úr skorðum og illa gefið fólk missir svefn. Ríkisútvarpið tekur þátt í leiknum sem og aðrir fjölmiðlar og Össur hlær sem og aðrir fyrrum ráðherrar.
Þetta dæmi sýnir hversu útsmogin fyrrum ríkisstjórn er og hversu óskaplega seinheppin og óskilvirk núverandi ríkisstjórn virðist vera. Hún hafði ekki einu sinni ekki samband við þingmenn sína við undirbúning að þessu dæmalausa bréfi sem þó er greinilegt að hentar eingöngu til heimabrúks. Maður hreinlega veltir því fyrir sér hvort ráðherrar í ríkisstjórninni valdi verkefnum sínum.
Ágúst Þór Árnason veit þó hvernig staða ESB málsins er. Hann segir í áðurnefndu viðtali við Moggann og í því liggur kjarni málsins (feitletranir eru mínar):
Meginniðurstaða hans [Ágústs] var sú að ljóst væri að það yrði ekki um neinar sérlausnir eða undanþágur að ræða fyrir Ísland, nema þá tímabundnar og klárlega engar sem yrðu hluti af löggjöf Evrópusambandsins.
Það liggur fyrir að það var Evrópusambandið sem stoppaði viðræðurnar, og í þeim efnum skiptir ekki máli hvort rætt er um aðlögunarferli eða samningaviðræður. Þeir sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og samningum verði lokið, verða að gera grein fyrir því hvernig þeir ætla að ljúka samningum við ESB, sem vill ekki semja við Ísland.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Of latir til að berjast og of feitir til að flýja
19.3.2015 | 11:28
Af hverju ná Píratar miklum árangri í skoðanakönnunum? Ég held að skýringarnar séu þessar:
- Þeir virðast vera borgaralegir en róttækir
- Þeir taka afstöðu gegn bákninu
- Eru gagnrýnir á stjórnvöld
- Taka afstöðu með einstaklingnum
- Eru á móti stóra bróður tilburðum stjórnvalda, gæta að litla manninum í þjóðfélaginu
- Kjósandinn getur auðveldlega samsamað sig við stefnu þeirra
- Talsmenn þeirra eru venulegt fólk með kostum og göllum
Sagt var einu sinni að sjálfstæðismenn væru og latir til að berjast og of feitir til að flýja.
Má vera að tími Sjálfstæðisflokksins sé liðinn. Að minnsta kost virðist flokkurinn eiga afar auðvelt með að fá fólk upp á móti sér, rétt eins og nýjustu atburði vegna ESB vitna um. Samband ungra sjálfstæðismanna virðist lífvana og Heimdallur er heillum horfinn en þessi samtök hafa löngum verið talin orkumestu hlutar flokksins.
Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er í lægð má hugsanlega rekja til eftirfarandi:
- Flokkurinn er almennt þunglyndur og illsýnilegur
- Talsmenn flokksins hrökkva stöðugt í vörn
- Stefna landsfundar og stefna einstakra frambjóðenda fer ekki alltaf saman, sbr. ESB samþykktir landsfundarins.
- Flokkurinn er ósjálfrátt verjandi kerfisins
- Flokkurinn ver báknið
- Forystumenn flokksins eru kenndir við annarlega hagsmuni sem erfitt er að hrekja
- Litli maðurinn í þjóðfélaginu hefur ekki skjól af Sjálfstæðisflokkum
- Umhverfismál og náttúruvernd mæta afgangi hjá kjörnum fulltrúm á Alþingi
Svona mætti auðvitað lengi telja. Hitt er alveg kristalskýrt í mínum huga, kjósendur telja sig ekki lengur bundna við einn flokk. Þeir leita þess sem best býður í þeim málum sem þeim er hugstæðust. Rétt eins og neytandinn verslar í Bónus þegar honum sýnist eða Krónunni eða í Melabúðinni, þá flakkar kjósandinn um á sama hátt. Þeim fyrrnefnda stýrir buddan, þeim síðarnefnda stýra hagsmunirnir.
Það er hreinasta hörmung fyrir sjálfstæðismann eins og mig að fylgjast með fylgishruni flokksins og getuleysi forystumanna hans. Hugmyndafræðilega ætti flokkurinn að standa vel að vígi en málin þvælast út í allt annað og forystan stendur brókarlaus hjá stamandi einhverjar óskiljanlegar skýringar. Eftir þá hörmulega vilpu sem vinstri stjórnin viltist út í hélt maður að Sjálfstæðisflokkurinn kynni nú aldeilis fótum sínum forræði. En nei, hann er kominn út í álíka foræði.
Það er því ekki furða þó fólk eins og ég sé farið að líta með enn meiri áhuga til Pírata. Sem ætti nú að vera saga til næsta bæjar.
Píratar stærstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eru með eða á móti aðild Íslands að ESB?
18.3.2015 | 14:28
Það er innan þess ramma sem gert er ráð fyrir. Þá ætti að vera nægur tími til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna, segir Róbert. Hann segir að í tillögunni sé lagt til að þjóðin yrði spurð: Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar.
Svo segir Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, í viðtali við mbl.is vegna fyrirhugaðrar tillögu stjórnarandstöðuflokkanna á þingi um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Róbert talar um að taka upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið. Svona spyr aðeins Samfylkingarmaður sem vill reyna að plata þjóðina. Í spurningunni felst einfaldlega skrök og tilbúningur.
Samkvæmt reglum ESB eru þetta ekki viðræður heldur aðlögunarviðræður.
Á ESB ensku er notað Accession Negotiations, ekki Negotiations. Hvernig skyldi nú standa á því?
Á árunum þegar rætt var um aðild Noregs, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar var farið í viðræður við þessi lönd, þá hét það negotiations. Það er ekki lengur gert, ESB hefur breytt reglunum. Nú er krafan sú að umsóknarríki samþykki Lissabon-sáttmálann, stjórnarskrá ESB og fari í aðlögun, skref fyrir skref, samþykki sáttmálann í litlum bitum.
Í aðlögunarviðræðunum þarf íslenska ríkið að taka upp lög og reglur ESB í 35 köflum. Þegar lokið er aðlögun hvers kafla þýðir það einfaldlega að aðlögunin hefur tekist. ESB er sátt við framgöngu umsóknarríkisins.
Undantekningarnar geta verið frá Lissabon-sáttmálanum, en aðeins um takmarkaðan tíma. Ekki um aldur og æfi. Ekki frekar en Vestfirði geti fengið undanþágu frá stjórnarskrá Íslands.
Af ofangreindu leiðir að aðildarsamningur er eiginlega enginn. Þegar hverjum kafla er lokað er Ísland búið að samþykkja efni hans og setja í lög eða reglur, að minnsta kosti heita því að það verði gert.
Dettur einhverjum í hug að hægt sé að bera gerðan hlut á borð við þennan undir þjóðaratkvæði? Sjávarauðlind Íslands verður sett undir stjórn ESB að loknum kaflanum um sjávarútvegsmál. Samþykki Alþingi það sem lög og ESB sömuleiðis á þá að bera málið undir þjóðina? Það væri nú meiri heimskan.
Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem ætlunin er að bjóða upp á að loknum aðlögunarviðræðunum er sýndarmennska ekkert annað, í besta falli formlegheit.
Eftir aðlögunarviðræðurnar er allt komið í lög og undanþágurnar líka.
Þjóðaratkvæðagreiðsla átti auðvitað að fara fram hér á landi áður en Alþingi samþykkti dæmalausu þingsályktunina um aðild að ESB þann 16. júlí 2009. Heiftin í garð Sjálfstæðisflokkinn var svo mikil að Samfylkingin og Vinstri grænir gátu ekki hugsað sér samþykki sjálfsagða tillögu. Þeir sömu og nú gala hæst um ólög og landráð en þögðu hins vegar þunnu hljóði þegar aðildarumsóknin var samþykkt.
Ég sé hins vegar enga meinbugi á því að halda þjóðaratkvæðagreiðslum ESB. Spurningin á hins vegar að vera þessi:
Eru með eða á móti aðild Íslands að ESB?
Kjósendur svari einfaldlega já eða nei. Ég hef hins vegar enga trú á því að þjóðin samþykki aðildina heldur hafni henni með miklum meirihluta.
Vilja að þjóðin fái að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óþol gegn Evrópusambandinu
7.3.2015 | 00:09
Ég er algjörlega sannfærður um að það sé ógæfa að setja mikið vald í hendur fólks sem valið er af öðrum en þeim sem búa á Íslandi eða hafa sterk tengsl við íslenskt samfélag. Það fólk sem velur þá sem ráða í sambandinu er valið af fólki sem er kosið af öðru fólki sem nærri allt á það sameiginlegt að búa ekki á Íslandi og hafa engin tengsl hingað. Flest það fólk lætur sér í léttu rúmi liggja hvort Ísland sekkur eða flýtur.
Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, um Evrópusambandið. Viðtal í DV eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur.