Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Gamaldags leiðindapólitík Bjarkeyjar og Brynhildar

Ég er búin að redda þrem­ur millj­ón­um kall­inn minn," seg­ir hún [Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður] lágri röddu áður en hún skipt­ir aft­ur í sína eig­in, án þess að draga úr þung­an­um. „Þetta er þessi póli­tík.“

Sú gamaldags leiðindapólitík er enn iðkuð hjá ýmsum stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi að halda einhverju ávirðingum fram án röksemda til að gera lítið úr andstæðingnum. Afleiðing er tvenns konar. Annars vegar að almenningur skilur lítið sem ekkert í umræðunum og hins vegar að hvorki gengur né rekur á Alþingi. Sleggjudómar verða því áfram algildur umræðumáti sem hingað til.

Þetta endurspeglast svo skýrt í ummælum á mbl.is sem höfð eru eftir Bryn­hild­i Pét­urs­dótt­ur þingmanni Bjartrar framtíðar, og Bjarkey Gunn­ars­dótt­ur þingmanni Vinstri grænna í fjár­laga­nefnd sem leggja ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum fram breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Þingmennirnir nálgast ekki kjarna málsins með yfirvegun og rökum heldur ráðast með miklum ávirðingum og skömmum að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum þeirra. 

Fyrir nokkrum árum  var mikið rætt um að breyta þyrfti umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum, taka málefnalega á hlutum, hætta persónulegum árásum og illdeilum. Vel má vera að þær stöllur séu ekki meðal þeirra sem vilja breyta umræðuhefðinni. Það breytir hins vegar litlu. Þessi pólitík gengur ekki.

Allir vita að útilokað er að komast að sameiginlegri niðurstöðu án yfirvegaðra rökræðna þar sem kurteisi og virðing er í hávegum höfð. 

Mikið óskaplega er pólitík Brynhildar og Bjarkeyjar leiðinleg sem er miður því tillögurnar þeirra og annarra um breytingu á fjárlögunum eru þess virði að velta þeim fyrir sér.


mbl.is Vinahygli í fjárlaganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna æsku muna elstu menn ekki verra veður

„Skell­ur á af þunga í borg­inni,“ sagði fyrirsögn á mbl.is í gærkvöldi. Mér var litið út um stofugluggann og sýndist að veðrið væri hið sama í Kópavogi og hér í Reykjavík. Líklega átti blaðamaðurinn við höfuðborgarsvæðið enda var stormurinn álíka mikill um alla þá byggð, þó hugsanlega mestur á Kjalarnesi.

Í morgun hef ég spjallað við fólk víða um höfuðborgarsvæðið og flestir voru á þeirri skoðun að óveðrið hefði verið minna en búist var við. Vissulega er það gott enda tóku allir mikið mark á viðvörunum yfirvalda.

Þó skín í gegn vonbrigði fjölmiðlunga. Þeir bjuggust við miklu meiri látum og skaða. Ég var þó ekki var við að sjónvarpsmenn færu út í veðrið til að tala til áhorfenda eins og svo oft tíðkaðist til að sýna hetjudáð og stormstyrk.

Verra var þó að talsvert tjón var víða um land, rafmangslínur slitnuðu og fjarskipti féllu niður hér og þar. Þannig er nú bara staðan á Íslandi og hefur svo verið frá landnámi. Þó man ég ekki svo langt aftur.

Vart er þó að treysta á minni „elstu“ manna. Sumir þeirra eru svo ungir að þeir hafa ekkert merkilegt upplifað, segja má að vegna æsku hfi þeir ekkert markvert upplifað í veðri. Aðrir eru svo gamlir að þeir hafa gleymt öllu því sem máli skiptir. 

Hérna fylgja tvær nærri tuttugu og fimm ára gamlar myndir. Báðar voru teknar á Fimmvörðuhálsi eftir óveðrið mikla veturinn 1991. Fimmvörðuskáli er klakabrynjaður, svo kyrfilega að útilokað var að opna dyr. Tókum við félagar þá til þess ráðs að höggva ísinn í kringum lítinn gaflglugga og þar komumst við inn eins og síðari myndin sýnir. Fyrir neðan gaflgluggan eru tveir stórir gluggar en ekkert sést í þá frekar en annað á skálanum. 

Klakabrynjan er einstaklega falleg, hefur líklega byrjað sem slydda og hún hlaðist á þakskegg og síðan frosið.

5vs

5vs2


Fjölmiðlungar ráða sér ekki fyrir veðurkæti

Brátt skellur óveðrið á hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeir munu ekki ráða sér fyrir kæti, fréttamenn sjónvarpsmiðla. Við megum búast við nokkrum hetjum sem fara í svokallað „stand-up“ þar sem hvassast verður - einhvers staðar úti á víðavangi. Þeir munu áreiðanlega reyna að herma eftir Ómari Ragnarssyni sem oftast tókst vel upp við slíkar aðstæður, aldrei fauk hann. Munurinn verður samt orðalagið því þeir munu tala um mikinn vind, ofsalega vind ... Ómar talaði oftast um rok, hvassviðri, storm eða ofsaveður enda vel máli farinn.

Hið versta sem fyrir fjölmiðlunga getur komið er ef veðrið verður ekki eins mikið eins og búist er við. Það væri hrikalegur óleikur og líklega allt veðurfræðingunum að kenna sem kunna ekki að búa til almennilegt verður, eins og allir vita.

„Við skiptum nú yfir til Gunnu sem er í Árbænum en þar er gríðarlegur vind og varla stætt ...“

 


Vindgangur veðurfræðinga er oft til baga

Talsmátinn er oft merkilega skrýtinn. Núorðið tíðkast æ oftar að tala um mikinn eða lítinn vind. Sumir tala meira að segja um vondan vind: „Versti vindur sem hefur komið hérna í 20 - 25 ár“, segir verkefnisstjóri hjá Landsbjörg í viðtali við visir.is. Ég velti því fyrir mér hvernig „besti“ vindurinn sé. Í þokkabót var maðurinn að lýsa veðri sem var ókomið með sömu vissu og það væri afstaðið.

Þegar fólki verður á að tala einhverja rassbögu við blaðamenn er það hlutverk þeirra að lagfæra orðalag. Því miður taka fáir það að sér oft vegna þess að fjölmiðlungar eru ekkert skárri í íslensku máli en viðmælendurnir. Ekki kann það góðri lukku að stýra.

Oft eru veðurfræðingar í fjölmiðlum lakari en þeir ættu að vera. Margir þeirra sem kynna veðurspár í Ríkisútvarpinu tala jafnan um mikinn eða lítinn vind. Þeim virðast ekki þekkja nein heiti yfir vindstyrk. Kunna ekki eða vilja ekki taka sér orð í munn eins og storm, hvassvirði, rok eða andvara. Logni er yfirleitt lýst sem engum vindi ...

Í sannleika sagt gerast ábyggilega fleiri en ég þreyttir á þessum vindgangi, og ég er ekki að reyna að vera fyndinn.

Svona hnignar nú málinu, margir þjást af orðfátækt en bjarga sér með „mikið“ og „lítið“, ekki aðeins þegar um vind er rætt heldur líka úrkomu af ýmsu tagi og hitastig. Nú líður ábyggilega að því að hitastig fyrir ofan frostmark verði kallað litlar eða miklar rauðar tölur og þegar er frost verður talað um bláar tölur.

Oftar en ekki bæta veðurfræðingar ákveðnum greini við sérnöfn. Þeim er tamt að tala um mikinn vind undir Eyjafjöllunum, Kjalarnesinu, Snæfellsnesinu, Hafnarfjallinu, Norðvesturlandinu og jafnvel Ísafirðinum. Er það nú ekki alltof langt gengið? 


Veður slakur smiður betri mæli hann í tommum?

Raunveruleikinn er sá að hagstjórnin lagast ekki við það að skipta um gjaldmiðil. Ekki frekar en að aksturshæfileikar ökumanns batni við það eitt að skipta um bifreið. Það er fyrst og fremst hagstjórnin sem er málið og sé hún í lagi skiptir í raun engu máli hvað gjaldmiðillinn heitir sem notaður er. hjortur@mbl.is

Hann komst ansi vel að orði í greinarpistli sínum í Morgunblaði dagsins, hann Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður. Í greininni fjallar hann um íslensku krónuna sem sem svo margir nota fyrir blóraböggul. Halda að allt breytist ef þjóðin hendi henni og taki upp annan gjaldmiðil, til dæmis Evru.

Hjörtur skýrir út í stuttu máli og vísar til orða dr. Ólafs Margeirssonar hagfræðings, að rangar fullyrðingar um að krónan sá ástæða fyrir öllu því sem aflaga hafi farið í efnahagsmálum síðustu áratugina.

Hann segir að veðurfarið á landinu breytist ekki þó við færum að mæla hitann á Fahrenheit hitamæla í stað Celsíus. Allir skilja líkinguna.

Því hefur verið haldið fram að oft á tíðum háir vextir hér á landi séu afleiðing smæðar hagkerfisins og þar með lítillar spurnar eftir krónunni. Ólafur hefur bent á að ef þessi staðhæfing stæðist ætti það sama að gilda um önnur lítil hagkerfi. Þar á milli sé hins vegar í bezta falli afskaplega veik fylgni. Það sem hafi þar miklu fremur áhrif sé til að mynda uppbygging lífeyrissjóðakerfisins þar sem ávöxtunarviðmiðið sé 3,5% sem aftur hafi vafalítið umtalsverð áhrif á langtimavexti.

Eins hefur verið fullyrt að mikil verðbólga sé fylgifiskur íslenzku krónunnar. Þannig hafi krónan misst mest allt verðgildi sitt frá því að henni var komið á laggirnar. Ólafur hefur bent á í því sambandi að frá árinu 1886 hafi peningamagn í umferð hér á landi aukizt rúmlega 211.000.000-falt. Þó hagkerfið hafi vissulega stækkað töluvert síðan hafi sú stækkun alls ekki verið svo mikil. Virðisrýrnun krónunnar sé einkum afleiðing þess að of mikið hafi verið búið til af henni í gegnum tíðina. Í seinni tíða aðallega af bönkunum. Krónan ráði hins vegar litlu um það hversu mikið sé búið til af henni.

Þetta er nokkuð merkileg niðurstaða, að minnsta kosti fyrir þá sem krefjast þess að við tökum upp nýja mynt. Ljóst má þó vera að mælieiningin ræður litlu um útkomuna. Léleg efnahagsstjórn með krónu er hin sama með Evru. Slakur smiður verður ekki betri þó hann mæli efnivið sinn í tommum.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband