Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014
Tveir stórir skjálftar á botni Kleifarvatns
9.3.2014 | 12:30
Jarðskjálftahrina hefur verið í og við Kleifarvatn í hálfan sólarhring. Hún byrjað með nokkuð stóru höggi, skjálfta upp á 2,8 stig rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Síðan varð nokkurt hlé, þó með örfáum litlum skjálftum.
Seinni skjálftinn varð um kl. 7:30 í morgun og er líka um 2,8 stig.
Báðir skjálftarnir eru í suðurhluta Kleifarvatns eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Skjálftarnir eru að öðru leyti flestir í og við suðurhluta vatnsins. Raunar nokkuð fjarri Krýsuvík og því rangt að kenna þá við þann stað. Þetta eru skjálftar við og í Kleifarvatni, svo öllu sé nú til haga haldið.
Jarðskjálfti við Krýsuvík í morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fornaldarviðhorf þingmanns Framsóknar
7.3.2014 | 15:32
Viðbyggingin var ekki komin, starfsfólk þingsins ávarpaði ekki þingmenn. Og það fylgdi því mikil virðing að vera alþingismaður. Síðan hefur þetta breyst mikið og andrúmsloftið og öll umgjörðin finnst mér orðin allt öðruvísi. Eftir að fjölmiðlar byrjuðu að sparka meira í þingmenn þá finnst mér viðhorf starfsmannanna líka breytast. Það þykir mér óskaplega leiðinlegt og það er eins og þessi gömlu góðu hefðir þingsins hafi ekki skilað sér nógu vel inn í nútímann. Starfsmenn þingsins eiga að sjá til þess að allar hefðir séu í heiðri hafðar en nú er þetta orðið alltof frjálslegt fyrir minn smekk.
Þetta er haft eftir Vígdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins á mbl.is. Ef ég skil þessi fornaldarviðhorf rétt þá á starfsfólk þingsins ekki að ávarpa þingmenn að fyrra bragði. Og mórallinn á þinginu sé orðinn of frjálslegur fyrir Vígdísi.
Hún á þá aðeins tveggja kosta völ. Sætta sig við breyttan tíðaranda eða ...
Svo gæti hún auðvitað tekið þriðja kostinn sem er að hugsa áður en hún talar. Þeir mættu margir grípa þann kost, þingmenn í stjórn og stjórnarandstöðu.
Ósáttur við ummæli Vigdísar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jarðskjálfti á lóð Járnblendiverksmiðjunnar
7.3.2014 | 09:52
Hvernig stendur á því að á miðri lóð Járnblendisverksmiðjunnar á Hvalfjarðarströnd verður jarðskjálfti í gær, 6. mars kl. 13:21? Skjálftinn var 0,8 stig og eru upptök hans sögð samkvæmt upplýsingum frá vefsíðu Veðurstofunnar á 0,1 km dýpi.
Er jarðskjálftinn af mannavöldum? Var eitthvað að gerast á svæðinu sem valdið geti jarðskjálfta? Eða er Járnblendiverksmiðjan á þekktu eða óþekktu sprungusvæði? Má ef til vill búast við fleirum og getur verksmiðjan verið í hættu eða valdið hættu ef stór skjálfti verður. Svona spurningar hrannast upp hjá leikmanni sem ekki þekkir til. Ástæða er til að fjölmiðlar kanni málið.
Vissulega er þetta vægur skjálfti en ábyggilega nægilega stór til að starfsfólk hafi hugsanlega getað fundið hann.
Staðsetning skjálftans sést á loftmyndina hér hægra megin en hún er frá Samsýn. Miðað er við hnitin 64° 21,300'N, 21° 47,100'W.
Valkostur ein sannkölluð rassbaga
7.3.2014 | 08:59
Gaman væri ef sú venja lifði að segja frekar: Hann hefur unnið hug og hjarta allra en hugi og hjörtu, svo og: Þau hristu höfuðið en hristu höfuðin. Og af tvennu illu er betra að við séum með hjartað í buxunum en hjörtun í buxunum.
Hin þriggja lína ábending í dálki sem nefnist Málið í Morgunblaðinu kemur er lærdómsrík og oft afar skemmtileg eins og ofangreint ber með sér.
Mogginn mætti skikka blaðamenn sína til að lesa þennan dálk. Sá frétt með þessari fyrirsögn Valkostir verða kynntir í mars. Þar er viðtal við Rögnu Árnadóttur, formann nefndar um framtíðarlegu flugvallar á höfuðborgarsvæðinu.
Orðskrípið valkostur er það sem sagt var í mínu ungdæmi, fyrir örfáum árum, rassbaga, og þótti ekki fínt. Það er samsett úr tveimur orðum sem bæði þýða nokkurn veginn hið sama. Einhvern veginn er svo mörgum fyrirmunað að segja einfaldlega Kostirnir verða kynntir í mars, ... eða tillögur eða hugmyndir eða bara eitthvað annað sem er ekki baga út úr rassi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.3.2014 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýi formaðurinn heldur að Ísland eigi í samningum við ESB
6.3.2014 | 18:37
Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, tapaði ekkert á því að fara með rangt mál í kosningabaráttunni. Raunar hefur hún örugglega haft af því hag. Hún og gjörvöll Samtök iðnaðarins halda því fram að Ísland hafi stundað samningaviðræður við ESB í kjölfar þar sem keppikefli hvors aðila um sig hafi verið að fá það besta frá hvoru öðru, rétt eins og tveir menn séu að prútta á tyrknesku markaðstorgi.
Það sem hún Guðrún veit ekki eða kýs að leiða hjá sér er að aungvar samningaviðræður hafa verið á milli Íslands og Evrópusambandsins. Þetta eru aðlögunarviðræður og þær eru einhliða, nokkurs konar yfirheyrsla, rétt eins og hér segir í reglum ESB:
First, it is important to underline that the term negotiation can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates odoption, implimentation and application of EU rules some 90,000 pages of them. And these rules (also known as acquis, French for that which has been agreed) are not negotiable.
Áður en nýi formaðurinn í Samtökum iðnaðarins tjáir sig er hollara að hafa unnið heimavinnuna sína.
Hún hefði til dæmis átt að lesa þetta í reglunum:
Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a countrys political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country.
Þetta má finna á eftirfarandi slóð: Understanding Enlargement - The European Unions enlargement policy.
Svo er ekki úr vegi að hún hlusti á stækkunarstjóra ESB sem sat við hlið Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, er hann sagði að undanþágur séu ekki veittar frá þessum reglum. Guðrún Hafsteinsdóttir getur hlustað á upptöku af ummælunum hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.
Svo er það mér auðvitað að meinalausu að Guðrún Hafsteinsdóttir taki áfram mark á Össuri Skarphéðinssyni sem greinilega veit sáralítið um Evrópusambandið en það takmarkar síst af öllu að hann tjái sig um það.
Guðrún nýr formaður Samtaka iðnaðarins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.3.2014 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á staða skóla í Pisa könnuninni að vera leyndarmál?
6.3.2014 | 07:47
Eva leggur áherslu á það að ekki aðeins hafi fulltrúi VG í ráðinu tekið undir með meirihlutanum, heldur hafi fulltrúar grunnskólakennara og skólastjórnenda í Reykjavík einnig stutt bókun meirihlutans. Við viljum bara vinna þetta mál vel í sameiningu, og það er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um sína skóla og hvetji til góðrar skólaþróunar.
Þetta segir Eva Einarsdóttir, fulltrúi Besta flokksins í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, í viðtali við Morgunblað dagsins. Hún er að bregðast við skoðun Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem vill að niðurstöður Pisa könnunarinnar verði opinberaðar og frammistaða hvers skóla í Reykjavík.
Nei, svo lagt gengur ekki stefna vinstri meirihlutans í borgarstjórn um gegnsæi í stjórnsýslunni. Þessu vill meirihlutinn endilega halda leyndu og ekki kemur á óvart að fulltrúar kennara og skólastjóra taki undir það sjónarmið. Þessar stéttir hafa aldrei viljað standa fyrir máli sínu og bregðast opinberlega við slökum árangri nemenda en eru alltaf fyrst til að hreykja sér af góðum árangri.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það vantar samkeppni í skólastarfið. Foreldrar þurfa að geta brugðist við lélegum árangri í skólum og geta sent börn sín í betri skóla. Einfaldara getur það ekki verið. Flækjan byggist á því að gera foreldrum ókleyft að gera þetta og þess vegna á að þegja niðurstöður Pisa könnunarinnar í hel. Þetta er svona svipað eins og að halda verðbólustiginu leyndu svo ríkisstjórnin þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Eða að halda vaxtastigi banka leyndu til að verja bankanna og koma í veg fyrir að viðskiptavinir þeirra fari þangað sem betra er boðið.
Auðvitað er þetta hið mesta og versta afturhald enda ekki við öðru að búast frá Bestaflokknum og Samfylkingunni.
Hverjum skal trúa, Össuri eða Evrópusambandinu?
5.3.2014 | 09:16
Þetta var frábær fundur með þessum tveimur sérfræðingum sem komu í dag, sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, í gærkvöldi. Að mínu viti er öllum efasemdum eytt hvað varðar það að sérlausn er fær samkvæmt Evrópuréttinum, svo fremi sem hún er vel skilgreind og útfærð.
Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra í ríkisstjórninni sem sótti um aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina. Maðurinn sem vill bera það undir þjóðina hvort draga eigi umsóknina til baka. Tilvitnunin er úr viðtali á mbl.is í dag.
- Viðræður við ESB nefnast aðlögunarviðræður, þær eru ekki samningaviðræður, heldur nær því að vera yfirheyrsla sambandsins yfir umsóknarríkinu um hvernig það hefur unnið að því að taka upp lög og reglur ESB í löggjöf sína.
- Reglur Evrópusambandsins kveða svo á að ekki sé hægt að gefa umsóknarríki varanlegar undanþágur í aðlögunarviðræðum.
- Stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Fühle, hefur látið svo ummælt að engar undanþágur séu veittar frá hinum 35 köflum og 100.000 blaðsíðna lögum og reglum ESB.
- Síðan ESB breytti reglum um umsókn hefur ekkert ríki fengið aðild og varanlega undanþágu af neinu því tagi sem máli skiptir í aðlögunarviðræðum.
- Sérlausnir er hugtak sem ekki er notað í aðlögunarviðræðum.
- Löggjafarþing allra 27 aðildarríkja ESB þurfa að samþykkja inngöngu ríkis í sambandið. Nærri má geta að þau munu aldrei samþykkja eitthvað sem þeim hefur ekki sjálfum staðið til boða, í aðlögunarferli eða síðar.
Þrátt fyrir þetta er Össur ofurbjartsýnn og heldur að Ísland fái undanþágur frá stjórnarskrá ESB. Og enn þann dag í dag heldur hann því fram að viðræður umsóknarríkis og ESB séu samningaviðræður. Enginn hefur borið það upp á Össur að hann skrökvi, jafnvel þó hann geri það blygðunarlaust.
Hverjum skal nú trúa, Össuri eða ummælum embættismanna ESB og reglum sambandsins?
Stríðsyfirlýsing Gunnars Braga á hendur fjölmiðlum
4.3.2014 | 09:38
Og af því að ég þekki þessa heima báða; langar mig að gefa Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra ókeypis ráð þegar kemur að samskiptum við fjölmiðla: Ekki líta á fjölmiðlana eða fjölmiðlamenn sem andstæðinga heldur samstarfsmenn. Svaraðu spurningum, færðu rök fyrir þínu máli. Líka spurningunum sem þér finnast ósanngjarnar og vitlausar. Mundu að áhorfendur eða lesendur á hinum endanum þyrstir í skýringar, vilja fá svör.Ekki setja skilyrði fyrir því að koma í viðtöl. Ekki fara í stríð við einstaka fjölmiðla. Sá slagur er fyrirfram tapaður.Nýttu fjölmiðlana, öll þau óteljandi tækifæri sem felast í fjölmiðlun nútímans. Taktu slaginn, svaraðu samkvæmt bestu samvisku og útskýrðu þín sjónarmið. Ef málstaðurinn er góður hlýtur hann að ná í gegn á endanum.Það er eina leiðin.
Tíu ára til altaris hjá síra Arngrími
4.3.2014 | 09:18
Líklega vorum við félagarnir tíu ára, ég og Gaui æskufélagi minn, Guðjón Eiríksson. Við bjuggum í Barmahlíðinni og stóðu húsin okkar hlið við hlið. Hann í númer fjörtíu og fjögur og ég númer fjörtíu og sex. Við vorum vinir frá því við hittumst fyrst, ég var fjögurra ára og hann fimm ára. Mér er það enn í björtu barnsminni að hafa aldrei heyrt þetta nafn fyrr og það böðlaðist fyrir mér að muna það og bera fram. Þess í stað kallaði ég hann Þorgeir, fannst það mun léttara í framburði ... Pabbi sagði alltaf Guji, kannski það hafi verið breiðfirskur framburður.
Eina sögu kann ég af síra Arngrími. Ég held að við Gaui höfum verið í kringum tíu ára aldurinn. Þá var Háteigskirkja nýbyggð og tveir prestar höfðu verið vígðir þangað og orðspor þeirra mikið. Þetta voru þeir síra Jón Þorvarðarson og síra Arngrímur Jónsson. Sá fyrrnefndi fermdi mig og ég sé það í Morgunblaðinu að síra Arngrímur er borinn til grafar í dag.
Við Gaui ákváðum að fara í kirkju einn sunnudaginn. Það var nú ekki venja ungra stráka á þeim árum að fara í kirkju, ekki frekar en í dag. Hins vegar höfðum við klifrað upp á þak Háteigskirkju meðan hún var í byggingu og því ekki nema eðlilegt að skoða hana að innan. Að auki höfðum við farið á hverjum sunnudegi í mörg ár í sunnudagsskóla KFUM á Amtmannsstíg og ekki haft nema gott af.
Jæja, við örkuðum inn í kirkjuna og settumst dálítið framarlega. Líklega hefur þetta verið eitthvað fyrir páska eða um páska, því þegar liðið er nokkuð á messuna og við búnir að geispa mikið, standa skyndilega allir upp en og ganga upp að altarinu og við sitjum einir eftir á bekknum Við lítum á hvorn annan, ræðum málin í flýti, og sjáum okkur ekki annað fært en að gera það sem allir aðrir voru að gera, vildum ekki skera okkur úr. Við hröðuðum okkur upp að altari og komum okkur fyrir í röð sem lá til einhvers sem okkur var ókunnugt um hvað væri.
Og röðin þokast nær einhverju og allt í einu erum við komnir á hnén eins og allir hinir og fyrir framan okkur stendur síra Arngrímur Jónsson, prestur, brúnaþungur mjög, og spyr með djúpri röddu.
Hvað eru þið gamlir, drengir mínir?.
Við svörum auðvitað sannleikanum samkvæmt, dálítið skömmustulegir án þess að vita hvers vegna.
Þá segir presturinn: Jæja, það getur varla skaðað neitt. Og við þáðum þarna hið heilaga sakramenti í fyrsta sinn á ævinni, vín og brauð, líkama og blóð Krists.
Þegar ég sagði foreldrum mínum frá þessu hlógu þó mikið og sögðu að enginn ætti eiginlega að fara til altaris fyrr en hann væri fermdur. Og hvað sagði presturinn ... og hvernig var svipurinn á honum. Út á þetta gengu samræðurnar við kvöldverðarborðið þennan sunnudag.
Síðan hef ég ekki rætt neitt við síra Arngrím og nú er hann dáinn, rúmlega níræður.
Pólitískur ómöguleik Gnarss og sýndarveruleiki Blöndals
4.3.2014 | 08:54
Ef ómögulegt reynist að ná í annaðhvort borgarstjórann eða aðstoðarborgarstjórann þá hafa blaðamenn val um að hringja í einhvern þeirra þrettán starfsmanna sem í dag starfa hjá upplýsinga- og vefdeild Reykjavíkurborgar. Til að gæta sanngirni er rétt að taka það fram að einungis fjórir af starfsmönnum deildarinnar, auk deildarstjórans sem titlaður er upplýsingastjóri, gegna hlutverki upplýsingafulltrúa.
Þetta segir Skúli Hansen, framkvæmdastjóri og blaðamaður í Morgunblaði dagsins, og upplýsir um leið eitt stærsta pólitíska leyndarmál Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Þetta hefur eiginlega ekki mátt segja opinberlega af því að Jón Gnarr er svo góður gæi og skemmtilegur.
Hitt vita þeir sem vilja að þekking Jóns Gnarrs á rekstri, borgarmálum og stjórnsýslu borgarinnar er svo til engin. Þess vegna hafa fjölmiðlar haldið hlífiskildi yfir honum að beiðni Besta/Bjartrar.
Í upphafi kjörtímabilsins varð borgarstjór sér iðulega til skammar í viðtölum, hann þekkti ekkert, svaraði út í bláinn, flissaði og mælti tóma steypu. Þó var titlaður borgarstjóri og með afar há laun sem slíkur.
Niðurstaðan varð því sú að skrifstofu stjóri borgarstjórnar var hækkuð í tign og annaðist þau störf borgarstjóra sem Jón Gnarr kunni ekki, sem sagt allt en án titils og launa. Jón Gnarr fékk hins vegar að leika sér með það sem hann kunni, til dæmis að gera heimildarmynd um sjálfan sig, opna sýningar, hitta börn, taka þátt í ýmiss konar útisamkomum og þess háttar. Þetta hefur gert það að verkum að margir telja hinn sýnilega borgarstjóra þann besta sem Reykjavíkurborg hefur átt. Skammt virðist þó á milli þess sýnileika og starfslegs ómöguleika svo gripið sé til orðs sem deilt er mun meira um en hæfileika borgarstjórans í rekstri og stjórnsýslu.
Skúli Hansen er afar undrandi á því að Reykjavíkurborg þurfi ...margfalt stærri upplýsingadeild að halda en stærstu stofnanir og fyrirtæki landsins?. Um leið beindir hann á að kostnaður við báknið sem Besti/Björt framtíð og Samfylkingin hafa komið upp er 93,5 milljónir króna á þessu ári. Skýringin er einföld og ég efa það ekki að Skúli viti hana, þeir vita sem vilja. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að Jón Gnarr þurfi að standa fyrir máli sínu hjá almenningi og fjölmiðlum - kostnaður við varnarmúrinn.
Hugmyndasmiðurinn og sá sem ber ábyrgð á þessu er svokallaður aðstoðarborgarstjóri sem í raun hefur gegnt embætti borgarstjóra de facto síðan skrifstofustjórinn, sem áður er nefnd, hrökklaðist í burtu með gallið í kokinu eftir rúmt ár með Besta/Bjartri framtíð.
Enginn kaus Sigurð Björn Blöndal sem borgarstjóra en líklega hefur hann gengt starfinu þokkalega miðað við aðstæður - og ábyggilega á góðum launum en án titilsins.
Þetta er hins vegar dýrt fyrirkomulag. Hann kom reynslulaus í starfið, hann eyddi peningum í varnarmúrinn í kringum Jón Gnarr og gætti ekki að almannatengslum, hélt ekki hverfafundi, passaði upp á að Besti/björt framtíð mætti ekki almenningi á neinum vettvangi.
Hann hefur pólitískt nef enda ætlar hann sér borgarstjóratitilinn, launin og hefðina, kominn í fyrsta stæi hjá Bjartri framtíð. Hann skynjaði að fólk út um alla borg er reitt og óánægt eftir störf Besta/Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Það verður þungur baggi fyrir Blöndal að bera í aðdraganda nýrra kosninga. Nú kemur að því sem hann hingað til forðaðist, það sem Jón Gnarr þorði ekki, ... að mæta Reykvíkingum á kosningafundum. Það verður án efa skáldsaga eða sýndarveruleiki ómöguleikans.