Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Friðarins menn, þeir Don Corleone og Skúli Eggert ...

Don Corleone

Þeim hjá Mafían ehf. þótti það tíðindum sæta að 80% nýting var á skilum eftir að rukkararnir hættu að nota hnífa og hafnaboltakylfur og tóku að brúka Glock 17 skammbyssur. Og þeir hleyptu aldrei af skoti sem er svooo gleðilegt. Dan Corleone var gríðarlega ánægður og lýsti því yfir á blaðamannafundi að friðsöm innheimtustörf væru framtíðin ... en það væri auðvitað undir greiðendum komið hvort skoti yrði hleypt af.

Don Corleone var spurður að því hvort glæpur væri í eðli sínu friðsamur en fékk ekki svar enda fréttamannafundinum lokið. Útkastarinn beindi þeim orðum til blaðamannsins að hann ætti ekkert að velta þessu fyrir sér heldur birta fréttatilkynninguna orð fyrir orð ... „Þetta er ekki beiðni“, bætti hann vinsamlega við.

Þeir félagar hjá Ríkisskattstjóra ehf. hafa aldrei verið ánægðari með skil á ársreikningum. Eftir að hætt var að hóta nær endalaust og fjármálaráðherra lét setja í lög þetta um ábyrgð stjórnarmanna, fébætur og fangelsisdóma svo ekki sé talað um fjölgun útkastara hjá stofnuninni færðist allt á betri veg. Skúli Eggert Þórðarson, forstjóri Ríkisskattstjóra ehf. er núna hamingjusamur maður og lýsir því yfir í fjölmiðlum að friðsamar þvingnaraðferðir séu framtíðin ... en það byggist auðvita á viðskiptavinunum hvort friðurinn haldist.

Skúli Eggert Þórðarson var spurður að því hvers vegna fyrirtæki þyrftu að skila inn ársreikningum. Hann svaraði því til að það væri ekki hans mál, hann ræki bara erindi fyrir fjármálaráðherra. Blaðamaðurinn lagði ekki í að spyrja frekar út í málið, aldrei að vita nema hafnarboltakylfa væri geymd úti í horni. Hann langaði svo sem að spyrja hver vegna ekkert sé að marka ársreikninga sem sendir eru til Ársreikningaskrár.

Það skal tekið fram að maðurinn hægra megin á myndinni er ekki Skúli Eggert Þórðarson heldur sjálfur Don Corleone, glaður í bragði. Þeir eru þó ekkert ósvipaðir, takið til dæmis eftir vísifingrinum.


mbl.is Skil á ársreikningum aldrei betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yessss, gott hjá Gnarr og ekki gleyma kjarnorkuvopum

Jón Gnarr vill lýsa því formlega yfir að Reykjavík sé herlaus borg. Það er einfalt mál, bara að leggja fram tillögu í borgarstjórn og yfirlýsingin er kominn. Hann gæti líka gefið út tilskipun frá skrifstofu sinni um sama efni. Hún hefði sama lögformlega gildið.

Burt með hermenn og vígtól 

Ég styð borgarstjórann fyllilega í þessu máli, sko grínlaust. Við þurfum nauðsynlega að losna við alla hermenn úr Reykjavík. Það er grundvallaratriði. Einnig að öllum hertólum verði útrýmt úr Reykjavík. Hversu fögur og góð verður ekki borgin þegar hermenn og hergögn eru horfin. Látum ekki neinn koma í veg fyrir þetta. Skil raunar ekki hvers vegna Jón Gnarr hefur ekki útrýmingu kjarnorkuvopna í tillögu sinni.

Kjarnorkuvopnalaust Breiðholt 

Rifja má upp að í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar kom sú tillaga fram að gera Reykjavík að kjarnorkuvopnalausri borg. Davíð var afar hlynntur tillögunni en vildi þó friðlýsa borgina undan kjarnorkuvopnum í áföngum. Hann lagði því fram tillögu um að í fyrstu yrðu Breiðholtshverfin lýst kjarnorkuvopnalaus. Ef það tækist vel væri leikur einn að bæta fleiri hverfum við. Einhvern veginn gufaði þessi tillaga upp.

Atvinnuskapandi yfirlýsing.

Þetta getur Gnarr með góðu móti gert. Byrjað á Breiðholtinu í janúar, Fossvogur og Háaleitið yrði herlaus í febrúar, Grafarvogurinn og Grafarholti í mars og svo koll af kolli. Auðvitað þarf að kanna vel og vandlega hvernig til tókst í öllum hverfum og líklega verða ritaðar lærðar skýrslur um málið og þær lagðar til grundavallar fyrir önnur herlaus hverfi. Þetta er svona sannarlega atvinnuskapandi verkefni. Í lokin gætum við verið komin með tíu eða tólf lærðar skýrslur.

Bryggjuhverfið úr Nató 

Þessu væri hægt að fylgja á eftir með því að lýsa því yfir að Reykjavík væri hætt í Nató, fyrst Bryggjuhverfið í Grafarvogi. Það væri svona táknrænt vegna þess að hingað koma reglulega herskip á vegum Nató.

Fullyrða má að með svona tillögum sinnir Jón Gnarr störfum sínum best sem borgarstjóri, hann er verður launa sinna. Svo má borgarstjórinn huga að fleiri þjóðþrifamálum eins og að Reykjavík verði geimverulaus borg ... Verst er að þá myndi eflaust núverandi borgarfulltrúum fækka.


mbl.is Reykjavík verði herlaus borg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sko, Hafnfirðingar eru bara ekkert öðruvísi ...

Fullyrði að þetta sé besta fyrirsögnní íslenskum fjölmiðlum, að minnsta kosti það sem af er nýju ári. Raunar ágætt til þess að hugsa að Hafnfirðingar fylgi öðrum landsmönnum að þessu leyti.
mbl.is Hafnfirðingar fögnuðu nýju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband