Yessss, gott hjá Gnarr og ekki gleyma kjarnorkuvopum

Jón Gnarr vill lýsa því formlega yfir að Reykjavík sé herlaus borg. Það er einfalt mál, bara að leggja fram tillögu í borgarstjórn og yfirlýsingin er kominn. Hann gæti líka gefið út tilskipun frá skrifstofu sinni um sama efni. Hún hefði sama lögformlega gildið.

Burt með hermenn og vígtól 

Ég styð borgarstjórann fyllilega í þessu máli, sko grínlaust. Við þurfum nauðsynlega að losna við alla hermenn úr Reykjavík. Það er grundvallaratriði. Einnig að öllum hertólum verði útrýmt úr Reykjavík. Hversu fögur og góð verður ekki borgin þegar hermenn og hergögn eru horfin. Látum ekki neinn koma í veg fyrir þetta. Skil raunar ekki hvers vegna Jón Gnarr hefur ekki útrýmingu kjarnorkuvopna í tillögu sinni.

Kjarnorkuvopnalaust Breiðholt 

Rifja má upp að í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar kom sú tillaga fram að gera Reykjavík að kjarnorkuvopnalausri borg. Davíð var afar hlynntur tillögunni en vildi þó friðlýsa borgina undan kjarnorkuvopnum í áföngum. Hann lagði því fram tillögu um að í fyrstu yrðu Breiðholtshverfin lýst kjarnorkuvopnalaus. Ef það tækist vel væri leikur einn að bæta fleiri hverfum við. Einhvern veginn gufaði þessi tillaga upp.

Atvinnuskapandi yfirlýsing.

Þetta getur Gnarr með góðu móti gert. Byrjað á Breiðholtinu í janúar, Fossvogur og Háaleitið yrði herlaus í febrúar, Grafarvogurinn og Grafarholti í mars og svo koll af kolli. Auðvitað þarf að kanna vel og vandlega hvernig til tókst í öllum hverfum og líklega verða ritaðar lærðar skýrslur um málið og þær lagðar til grundavallar fyrir önnur herlaus hverfi. Þetta er svona sannarlega atvinnuskapandi verkefni. Í lokin gætum við verið komin með tíu eða tólf lærðar skýrslur.

Bryggjuhverfið úr Nató 

Þessu væri hægt að fylgja á eftir með því að lýsa því yfir að Reykjavík væri hætt í Nató, fyrst Bryggjuhverfið í Grafarvogi. Það væri svona táknrænt vegna þess að hingað koma reglulega herskip á vegum Nató.

Fullyrða má að með svona tillögum sinnir Jón Gnarr störfum sínum best sem borgarstjóri, hann er verður launa sinna. Svo má borgarstjórinn huga að fleiri þjóðþrifamálum eins og að Reykjavík verði geimverulaus borg ... Verst er að þá myndi eflaust núverandi borgarfulltrúum fækka.


mbl.is Reykjavík verði herlaus borg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Eini herinn í Reykjavík sem ég veit um er Hjálpræðisherinn.

Ágúst H Bjarnason, 2.1.2014 kl. 12:15

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta er stórmerkilegt mál. Í áætlun borgarstjórans að Reykjavík sé lýst herlaus borg, liggur beinlínis fullyrðing þess efnis að Ísland sé ekki herlaust land.

Núna skil ég flugvallarmaníu borgarstjórnarmeirihlutans aðeins betur. Flugvöllurinn er augljóslega herflugvöllur í þeirra augum og því ögn skiljanlegra að þeir vilji hann burt, gegn allri skynsemi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.1.2014 kl. 12:20

3 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Það eina sem að Jón Gunnar "græðir" er að ekki verður lengur hægt að þjónusta herskip í Reykjavík og verða slík þá þar með að treysta á Hafnarfjörð.

Óskar Guðmundsson, 2.1.2014 kl. 13:06

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Líkt og Jóhanna þá ætlar Jón Gnarr að valda tjóni sem nær að lifa hann í embætti. Þjónusta við NATO- skip og önnur herskip sem fylgjast með norðurhöfum er bráðnauðsynleg í Reykjavík og hana ber að bæta. Íslendingar eru flestir sammála um það við eigum að teljast miðstöð eftirlitsathafna á þessu hafsvæði, þmt. í björgunarmálum, sem herskip stunda einnig. Flugvöllurinn er þar líka mikilvægur, enn eina ferðina.

Tekjur borgarinnar af komu og vistun þessara skipa og flugvéla eru töluverðar og geta borgað þó nokkra latte- bolla fyrir Jón Gnarr og herlausu listavini hans í 101 Reykjavík.

Ívar Pálsson, 2.1.2014 kl. 16:49

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

„Úbbs, eru tekjur af höfninni?“ kann einhver að spyrja.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.1.2014 kl. 17:12

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Gnarrinn sagði í fréttum í kvöld að tekjur af NATO skipum héldust innanlands því þær færðust bara yfir á aðrar hafnir. Hermang í öðrum höfnum er greinilega í lagi að hans mati, markmiðið er þá greinilega bara það að losa Reykjavík við tekjurnar.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.1.2014 kl. 21:19

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Hvílíkur tvískinnungur! Herlaus Kópavogur eða Seltjarnarnes kemur Gnarr þá ekki við, en Reykjavík teygir sitt tekjulausa svæði upp með Esjunni. Nóg er að missa stóru útsvars- greiðendurna í nágranna- sveitarfélögin, en tekjur af höfninni og flugvellinum líka er fullmikið af hinu slæma.

Ívar Pálsson, 2.1.2014 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband