Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Hlunnfer ríkið okkur með krónunni?

Reynsla El Salvador af einhliða upptöku annarrar myntar er því góð, þótt hún hafi ekki leyst öll þjóðfélagsvandamál, en fátt ætti að vera fjær íhaldsmönnum en að gera slíkar kröfur til stofnana samfélagsins.  

Fólk skiptist í tvö horn hvað varðar upptöku á nýjum gjaldmiðli. Raunar eru  þau þrjú. Ég hygg að meirihluti landsmanna vilji halda í krónuna, þó erfið sé. Lítill minnihluti vill taka upp Evru, ýmist með því að ganga í Evrópusambandið eða gera það einhliða. Og svo er það þriðji hópurinn sem horfir til bandaríkjadollars, kanadadollars eða annarra gjaldmiðla.

Í Morgunblaðinu í morgun ritar Heiðar Guðjónsson grein undir fyrirsögninni „El Salvador og einhliða upptaka annarrar myntar“. Í henni, sem er andsvar við grein eftir Gunnlaug Snæ Ólafsson, formanns Félags íhaldsmanna, rekur Heiðar í stuttu máli hvernig staðið var að upptöku bandaríkjadollrs í landinu. Tilvitnunin hér í upphafi er úr þessari grein.

Í raun held ég að ástæðu þess að Heiðar vill að Íslendingar taki upp aðra mynt kristallist í lokaorðum hans. Eiginlega er hægt að samþykkja það sem hann segir og það er síðan hvers og eins að meta hvort þetta séu næg rök til að fallast á upptöku annarrar myntar fyrir Ísland (leturbreytingar eru mínar).

Það getur varla verið markmið íhaldsmanna að ríkið gefi út gjaldmiðil sem það notar til að hlunnfara þegna sína með verðbólgu og gengisfellingum. Það getur varla verið markmið að ríkið neyði þegnana til að nota mynt sem torveldar viðskipti þeirra þar sem hún heldur ekki verðmæti sínu og útilokar þegna ríkisins frá alþjóðaviðskiptum. Almenningur á að stýra sínum eignum sjálfur, en ekki láta miðstýra verði þeirra af opinberum embættismönnum. Eina leiðin til að njóta alþjóðlegra lífskjara er með því að hafa aðgang að alþjóðlegum mörkuðum. Íslenska krónan er valdatæki ríkisins yfir þegnunum og dugar vel sem slík en illa í viðskiptum. Hvað er það sem íhaldsmenn vilja halda í? Arfleifð haftanna á Íslandi eða sögulega arfleifð hagsældar og frjálsra viðskipta? 


Hvaða þingmenn skrópa á fundi í kvöld?

Þingmenn hafa samþykkt kvöldfund á Alþingi sem er nokkurs konar mótspyrna ríkisstjórnarmeirihlutans við meintu málþófi stjórnarandstöðunnar. Hann gerir eins og veiðimaðurinn, reynir að þreyta laxinn. 

Ég hef fylgst með umræðum á Alþingi í beinni útsendingu marga þá daga sem þetta umtalaða málþóf átti að hafa verið stundað. Skoðun mín er hins vegar sú að umræðurnar hafi verið afskaplega málefnalegar. Ekki hef ég getað fundið að umræðunum, hvorki hvar svo sem í flokki semþeir þingmenn standa sem þátt tóku. Mjög fróðlegt og án efa mikilvægt er að geta spurt þingmenn nánar út í skoðanir þeirra með svokölluðum andsvörum og viðbrögðum við þeim.

Þeir sem gagnrýna stjórnarandstöðuna verða að líta til þess hversu seint frumvörp meirihlutans hafa komið fram og ekki síður hversu illa þau eru úr garði gerð. 

Þingmenn geta þó haft sína skoðun á þessu en ég geri tvær athugasemdir. Sú fyrri er um margumtalað sjálfstæði löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Vinstri menn gagnrýndu þetta mikið meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn en nú heyrist ekkert í sama fólki þegar velferðarstjórnin ætlast til þess að lagafrumvörp og ályktanir á hennar vegum séu afgreidd rétt eins og þorskar á færibandi.

Svo er það stóra spurningin um þessa 27 þingmenn sem samþykktu að halda kvöldfund. Munu þeir mæta eða ætla þeir að skokka heim í grillið og sófann rétt eins og þeir gerðu flestir þegar síðast var haldinn kvöldfundur? Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti svo eftirminnilega athygli á skrópinu í umræðum í síðustu viku. Þá voru þrír þingmenn meirihlutans viðstaddir umræðurnar.

Eiga þingmenn ekki að mæta á þingfundi, jafnvel á kvöldin, eða er þeim í sjálfsvald sett hvort þeir sinni vinnu sinni?


mbl.is Kvöldfundur samþykktur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætis kranablaðamennska

Almannatengslin hjá Wow Air senda inn skemmtilega grein um hversu frjálslyndur og léttur forstjórinn er. Greinin er alveg eins og frétt sem Morgunblaðið hefur unnið, textinn er glettilega vel skrifaður og atvinnuljósmyndari tekur myndirnar.

Er eitthvað að svona fréttamennsku? Nei, alls ekki. Hins vegar er þetta ekki fréttamennska heldur kranablaðamennska eins og Jónas Kristjánsson myndi nefna það. Hvað sem því líður er þetta ágætis efni.


mbl.is „Þykist þú vera einhver framkvæmdastjóri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf að aka á hægri akrein ...

Umferð bíla á höfuðborgarsvæðinu er ekki ein greið og hún gæti verið. Veldur þar mestu hugsunarleysi og þekkingarleysi nær helmings ökumanna. 

Setjum sem svo að ökumaður ætli að aka á Miklubraut og upp í Háaleitishverfi. Ég held, svei mér þá, að meirihluti ökumanna muni aka á vinstri akrein alla leið vegna þess að einhvern tímann ætlar hann að beygja til vinstri á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar.

Ætli einhver að fara úr miðbæ Reykjavíkur og í miðbæ Hafnarfjarðar, eða öfugt, mun hann ábyggilega velja vinstri akrein af því að hann ætlar einhvern tímann að beygja til vinstri.

Þetta er auðvitað klikkun nema fyrir þá sem hugsa ekki og hafa enga tilfinningu fyrir umhverfinu. á móti kemur að þessu fólki finnst dálítið þægilegt að hafa einhvern eitthvað vinstra megin við sig, sem það getur séð, svo ekki sé nú verið að aka utan vegarins. Þetta fólk á auðvitað að fá sér bíl með stýrinu hægra megin.

Það eru eiginlega bara tvær grundvallarreglur til að fara eftir.

 

  1. Aka skal alltaf á hægri akrein nema þegar tekið er framúr
  2. Aldrei skal ekið á vinstri akrein nema þegar tekið er framúr eða ætlunin sé að beygja til vinstri á næstu tvö til þrjú hundruð metrunum. 

 

Sé farið eftir þessum reglum, að minnsta kosti í flestum tilvikum, mun umferðin verða miklu greiðari og minni líkur á töfum.

Hins vegar hef ég þann grun að ökukennarar séu hættir að leggja áherslu á hægri akgreinina vegna þess að sívaxandi fjöldi ungra ökumanna heldur sig á þeirri vinstri.  


Veghljóð, vélahljóð og umferðadynur

Ánægja mín í lífinu felst meðal annars í því að ganga á fjöll. Víða eru fjölfarnir þjóðvegir undir fjöllum og þannig er það með Esjuna. Ótrúlegt er að heyra umferðardyninn allt upp á Þverfellshorn eða Kerhólakamb. Þannig er það líka með fjöllin í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, en þar hef ég gengið á nokkur.

Ég hef lengi verið viss um að það eru ekki vélahljóð ökutækja sem berast lengst heldur veghljóðið, það sem heyrist er bifreið er ekið hratt á vegi með varanlegu slitlagi. Vélarhljóðið er síðan allt annað, heyrist varla nema þegar verulega stór tæki eiga í hlut eða mótorhjól.

Í nærumhverfinu heyrist vélarhljóðið miklu betur, t.d. þar sem ég sit á fjórðu hæði í húsi við Skúlagötu. Að neðan heyri ég vélahljóð en af Sæbrautinni, sem er fjær, heyri ég umferðardyninn og þar er vélarhljóðið minna. Væru allir bílar rafknúnir held ég að lítið myndi breytast annað en að úr vélahljóði drægi.

Af þessu dreg ég þá ályktun að væri hægt að hanna vegi þannig að umferðardynurinn minnkaði væri mikið fengið. 


mbl.is Hljóðlátari vegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankastjóri bætir ekki úr skák

Landsbankinn gefur ekki út yfirlýsingu vegna atburða á Fáskrúðsfirði og víðar. Hann harmar ekki né lýsir yfir neinni eftirsjá er hann horfir á eftir viðskiptavinum sínum.

Banakastjórinn segir í blaðaviðtali viðbrögð viðskiptavinanna skiljaleg, nokkrum reikningum hafi verið lokað, öðrum ekki. Og svo klykkir hann út með því að segja að útteknar fjárhæðirnar hafi ekki verið háar. Sem sagt, þetta reddaðist.

Blint anar Landsbankinn áfram. Hann sinnir ekki almannatengslum, markaðsdeildin er greinilega ekki með í ráðum, því ekki með nokkrum hætti er reynt að milda áhrifin af samdrættinum. Þess í stað stendur bankastjórinn upp og tjáir sig á þann hátt sem hann kann best. Hann bætir ekki neitt.

Stórt fyrirtæki, svo ekki sé talað um fjármálafyrirtæki, á að stíga varlega til jarðar. Hafi Landsbankinn rök fyrir samdrættinum á hann að vinna í útfærslunni og tilkynna hana á mildilegri hátt en hann gerði.

Það er bara ekki svo að almenningur láti fjármálafyrirtæki bjóða sér allt, tortryggni út í þau er gríðarleg. Síðan er vandamálið það sem lýtur að byggðum landsins, atvinnulífi á hverjum stað. Lokun á útibúi á Fáskrúðsfirði hefur miklu meiri áhrif á nærsamfélagið en lokun útibús í Reykjavík. Það hef ég rakið áður.


mbl.is Óánægja viðskiptavina skiljanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngirnin

Já, fullt tillit hefur verið tekið til allra umsagna sem bárust vegna vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnun. Allar umsagnirnar áttatíu voru neikvæðar, engin jákvæð umsögn barst. 

Björn Valur Gíslason, þingsflokksformaður vinstri grænna heldur því fram „að stjórnarmeirihlutinn taki tillit til þess sem sanngjarnt sé að gera.

Lykilorðið hér er sanngjarnt. 

Húsbóndinn hlýtur að vera afar ánægður með vinnumanninn.


mbl.is Fullt tillit tekið til umsagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fallegur en frábær á flugi

Múkki

Múkkinn eða fýllinn er afskaplega flugfimur fugl, ef þannig má komast að orði. Hann er ekki beinlínis fallegur en vinnur á. Stundum hef ég tekið myndir af honum en aldrei þó fleiri en um daginn.

Þessa mynd setti ég saman af mörgum myndum af múkkum sem iðkuðu listir sínar einhvers staða lengst uppi í fjalli þar sem uppstreymi var gott.  Sjá má hvernig hann ber sig í svifinu, sveigir og beygir fjaðrir og gott ef ekki dúkka upp flapsar á einum fuglinum. Ef til vill hafa einhverjir fleiri en ég gaman af þessu.

Vísindavefurinn segir svo um múkkann:

Fýlsunginn kemur mjög feitur úr hreiðrinu og vegna þyngdar sinnar nær hann ekki að hefja sig til flugs þegar hann lendir á þurru landi. Sama gildir þegar hann lendir á sjó, nema að hreyfing sjávarins, vindur og löng flugbraut (sjórinn sjálfur) gera honum auðveldara að ná vindi undir vængina. 

Fullorðinn fýll getur einnig átt erfitt með að hefja sig til flugs á landi þar sem hann nær sér ekki á flug úr kyrrstöðu heldur þarf tilhlaup. Það má því segja að fýllinn sé aðlagaður sjónum á þann hátt að hann notar yfirborð sjávar sem hlaupabraut þar til hann nær nógu miklum hraða eða góðri vindhviðu til að hefja sig á loft. 

Fýlar geta þó gert sér hreiður í hömrum langt inni í landi. Því er ekki ólíklegt að einn og einn ungi rati ekki til sjávar þegar hann yfirgefur hreiðrið en lendi þess í stað inni í landi þar sem hann á lítinn sem engan möguleika á að ná sér á flug aftur. Sterkur mótvindur veitir honum þó stundum byr undir báða vængi og gæti þannig komið honum til bjargar frá kjafti tófunnar eða fjárhundsins á næsta sveitabýli. 

Undir sumarlok lenda oft margir fýlsungar á götum og í húsagörðum íslenskra sjávarþorpa. Þessir ungar ná sér heldur ekki á flug en þá eru það börnin í þorpinu sem koma þeim til bjargar.

 


Örþjóðin þarf að halda vöku sinni

„Hefur þú efni á krónunni?“ spyr Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna sem berjast fyrir því að Ísland gangi í Evrópussambandið. 

Hann ritar grein í Morgunblaðið í morgun og í heinni leikur hann á þá strengi tilfinninga sem Íslendingar eru eflaust viðkvæmastir fyrir um þessar mundir og það eru íbúðakaup og afborganir af lánum vegna þeirra. Hann fullyrðir að herkostnaðurinn vegna krónunnar kosti íslensk heimili 16 milljónum krónum meira en hafi lánið verið tekið í evrum.

Ég ætla ekki að deila við manninn um staðreyndir verðtryggingarinnar sem hafa farið illa með heimilin né heldur ætla ég að deila við hann um krónuna þó ég sé staðfastur stuðningsmaður hennar meðan kostnaðurinn við að taka upp Evruna er sá að þurfa að ganga inn í ESB. Hitt vil ég frekar ræða og það er sú vanmáttakennd sem birtist í málflutningi Já-manna vegna þess að við berjumst fyrir því að vera sjálfstæð þjóð.

Við erum örþjóð og eflaust undrast það margir og jafnvel finnst það broslegt að rúmlega þrjú hundruð þúsund manns skuli telja sig hólpna utan ESB. Staðreyndirnar tala þó sínu máli:

 

  • Eigið land
  • Eigið tungumál 
  • Lýðræðislega kosið þing
  • Þingbundin ríkisstjórn
  • Seðlabanki 
  • Sérstakur gjaldmiðill 
  • og fleira.

 

Séu rök já-sinna skoðuð er auðvitað tóm vitleysa að búa hér ein á þessu skeri, nota íslensku þegar við getum svo auðveldlega teki upp ensku eða frönsku, þingið gæti vissulega haldið áfram sem hverfisstjórn innan ESB, Seðlabankinn er óþarfur og gjaldmiðillinn líka.

Barátta forferðra okkar fyrir sjálfstæði, fyrir tungumálinu og réttinum yfir landi okkar var löng og ströng. Við skulum skoða vandlega hvert einasta skref, allt sem telja má afsal þeirri réttinda sem þjóðin hefur notið hingað til. 

Gætum að því, að fámennið gerir okkur svo óskaplega erfitt fyrir og uppgjöf á einu sviði getur haft hrikalega afleiðingar á öðrum. Við þurfum að halda vöku okkar annars er sjálfstæðið tapað.


Moka, breyta, sökkva, selja ...

Með því að beisla flóð og leysingavatnið úr þessum ám og veita þeim um Hálsalón til Fjótsdals, en halda eðlilegu sumarrennsli í Dettifossi, má koma í veg fyrir það að fossinn rífi sig niður í flúðir, sem hann er nú þegar byrjaður á.  [...]

Með því að veita flóðvatninu úr Skaftá yfir í Langasjó væri komið í veg fyrir mikið sandfok og öll uppgræðsla yrði auðveldari og ýmsar sérstakar hraunmynanir myndu ekki hverfa í sandinn. [...]

Stærsta umhverfisverndarmálið er þó að nýta vatnið í Grímsvötnum til raforkuframleiðslu, en með nútímatækni má bora frá Hamrinum um 20 km að Grímsvötnum og veita vatninu um Hágöngulón. [...]

Ísland hefur lengi átt duglega og drífandi menn sem sjá engin vandamál heldur ótal verkefni. Þeir segja jafnan: „Það sem þarf að gera, verður að gera“. Á móti kemur að margir dugnaðarforkar sjást ekki fyrir, þeir ráðast á hvert verkið á fætur öðru, mokum, mokum, strákar. Verkákefð þeirra er slík að ekkert annað kemst að og þeir sem horfa á segja stundum í undrun: „Hægan nú, betur vinnur vit en strit.“

Ég játa það að ég varð dálítið hugsi við að lesa grein Ragnars Önundarsonar, viðskiptafræðings og fyrrverandi bankamanns, í Morgunblaðinu í morgun. Hann ritar um virkjunarkosti á Suðurlandi og gyllir þá allasvakalega. Í grein sinni vitnar hann í mann sem heitir Elías Kristjánsson, sem skrifaði grein í Morgunblaðið 2002. Tilvitnunin hér að framan er úr þeirri grein (leturbreytingar eru mínar).

Ekki man ég eftir þessari grein Elíasar, líklega vegna þess að hann er einn af þessum mönnum sem ég nefndi hér á undan og sést ekki fyrir, telur óþarft að velta málunum frekar fyrir sér, einhenda sér bara í moksturinn. Tæknilega er allt hægt, við getum breytt landinu. Niður með fjöllin, upp með dalina, eins og segir í sögunni.

Elías vill vernda Dettifoss fyrir sjálfum sér, nokkuð sem fæstir geta mögulega tekið undir. Auðvitað eru verk nátturunnar hálfónýt, allt að hrynja, fjöll og hamrar, en það er hægt að laga með slatta af steypu, lími og teipi. Hversu mikils virði eru þá náttúruminjar eftir að maðurinn hefur „lagfært“ þær?

Tæknilega séð ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að láta vatnið úr Skaftá renna upp í móti, en eins og allir vita liggur Langisjór hærra. En viljum við það? Viljum gjörbreyta þessu einstæða vatni, gera það að miðlunarlóni?

Fær nú ekkert að vera í friði, dettur manni í hug, varðandi hugmyndina um að bora til Grímsvatna. Varla þarf mikið að ræða um þessa hugmynd, tæknilega séð er hún án efa stórhættuleg auk þess að vera illframkvæmanleg.

Ragnar Önundarson slær á svipaða strengi í grein sinni í Mogganum. Hann mærir hugmyndir Elíasar og bætir um betur, vill veita Hvíta í 30 kílómetra göngum yfir í Þjórsá, helst upp í móti, og virkja þar. Manni verður eiginlega orðfall frekar en að hugarflugið fari af stað.

Við skulum endilega virkja á Íslandi, halda áfram því starfi um ókomin ár. Gerum það hins vegar af ígrunduðu máli, hlaupum ekki til með þá glýju í augunum að hver einasta virkjun sé stórkostleg peningamaskína og verði ekki af henni séu það tapað fé.

Sá ofnotaði frasi að náttúran sé ekki tekin í arf frá forfeðrunum heldur fengin að láni frá afkomendum okkar er að mörgu leiti réttur. Það sem knýr mig áfram er sú einfalda staðreynd að ég vil geta ratað um það land sem forfeður mínir gengu um og það sem meira er ég vil líka geta sýnt barnabörnum mínum þær slóðir. Eða viljum við lesa um það á skilti að þar sem nú er tvítugt dýpi hafi afi og amma búið allan sinn aldur? 

Jú, mikil ósköp, betur vinnur vit en strit. Hugsum málið þó ekki sé fyrir aðra en afkomendur okkar. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband