Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
Funda olíufélögin í Öskjuhlíðinni?
1.7.2010 | 08:36
Hvernig gengur bransinn? mætti spyrja forsvarsmenn olífufélaganna. Og þeir munu áreiðanlega barma sér og kvarta stórum yfir háu innkaupsverði, skattlagningu og einhverri óáran sem þeir hafa ekkert um að segja.
Hvað finnst þér um bensínverðið? mætti á móti spyrja neytendur. Þeir munu líklega allir með tölu kvarta yfir of háu verði á bensíni og diesel.
Því kemur sér vel fyrir neytendur og forráðamenn olíufélagana að geta litið á vefsíðuna www.gsmbensin.is. Þar má finna samanburð á eldsneytiskostnaði milli fyrirtækja út um allt land.
Ég leit inn á síðuna í morgun og sá að á nokkurra mínútna fresti eru upplýsingarnar uppfærðar. Það finnst mér auðvitað mjög áhugavert en athygli mín varð þó skyndilega glaðvakandi þegar ég sá að nákvæmlega sama verðið er á eldsneyti hjá öllum olíufélögunum.
Hið fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefðu þau tekið upp Öskjuhlíðarferðir. Það var nefnilega svo fyrir nokkrum árum að olíufélögin urðu sek um verðsamráð. Forsvarsmenn þeirra höfðu rúntað um bæinn, meðal annars um Öskjuhlíðina, og ákveðið verðin. Auðvitað neituðu þeir öllu en engu að síður komst allt upp.
Nú eru nýir eigendur að öllum Olíufélögunum. Einhverjir kunna þó að freistast til að halda að gamlir siðir hafi verið teknir upp af nýju fólki.