Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

... og sáir þar niður korninu

Ekki hafa Sunnlendingar ávallt verið sáttir á kornökrum:

Gunnar hafði farið heiman einn samtaf bæ sínum og hafði kornkippu í annarri hendi en handöxi í annarri. Hann gengur á sáðland sitt og sáir þar niður korninu og lagði guðvefjarskikkju sína niður hjá sér og öxina og sáir nú korninu um hríð.

Nú er að segja frá Otkatli að hann ríður meira en hann vildi. Hann hefir spora á fótum og hleypir neðan um sáðlandið og sér hvorgi þeirra Gunnars annan. Og í því er Gunnar stendur upp ríður Otkell á hann ofan og rekur sporann við eyra Gunnari og rístur hann mikla ristu og blæðir þegar mjög. Þar riðu þá félagar Otkels.

„Allir megið þér sjá,“ segir Gunnar, „að þú hefir blóðgað mig og er slíkt ósæmilega farið. Hefir þú stefnt mér fyrst en nú treður þú mig undir fótum og ríður á mig.“
 
Skammkell mælti: „Vel er viðorðið bóndi en hvergi varst þú óreiðulegri á þinginu þá er þú tókst sjálf dæmið og þú hélst á atgeirinum.“ 
 
Gunnar mælti: „Þá er við finnumst næst skalt þú sjá atgeirinn.“ 
 
Síðan skilja þeir að því.        

 Úr Njálssögu.


mbl.is Kornskurður hafinn hjá sunnlenskum bændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir kjafta?

Af hverju eru menn svona vitlausir? Rafmagnsnotkun á nær öllum sveitabæjum er fasti, sveiflast kannski eitthvað til á milli mánaða eða missera. Skyndilega hefur notkunin aukist margfalt.

Hverjir kjafta eða hafa hinir ágætu lögreglumenn á Blönduósi frjálsan aðgang að tækjum RARIK eða Orkusölunnar?


mbl.is Kannabisræktun upprætt í nágrenni Blönduóss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnuföst og gagnrýnin

Eftir því sem þessi kona, Eva Joly, kynnist ríkisstjórninni betur virðist hún verða æ gagnrýnni á störf hennar. Og ég sem hélt að það væri lítill fengur að henni. Mín mistök.

Ég hélt líka að ekkert væri spunnið í Norðmanninn í Seðlabankanum. Mín mistök. Hann virtist hafa haldið sömu stefnu og mótuð var í tíð fyrri Seðlabankastjóra. Hafði greinilega fátt út á hana að setja.

Ég spáði því í vetur að Már Guðmundsson yrði ráðinn Seðlabankastjóri á pólitískum forsendum. Að minnsta kosti er hann orðinn Seðlabankastjóri. Nú er það spurningin hvort hann haldi áfram þeirri stefnu sem forverar hans í starfi mótuðu. Held frekar að hann reyni að hliðra til fræðunum og koma pólitík í stefnu Seðlabankans. Sjáum til hvort þessi spá rætist.

Best er þó að fá fólk í stjórnsýsluna sem er eins og Eva Joly, stefnuföst og gagnrýnin. 


mbl.is Telur nýjan starfshóp pólitískt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur

Þetta er svartur dagur í sögu þjóðarinnar. Það fer samt vel á því að frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave samningunum sé samþykkt af stjórnarflokkunum. Þeir bera ábyrgð á þeim. Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá og það var rétt mat.

Vonandi kemur þessi endemis samningur ekki í bakið á þjóðinni. Eina vonin er sú að eignir Landsbankans í Hollandi og Bretlandi standi undir kröfunum. 


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vantar pólitíska forystu á þingi

Þeir eru margir komnir á þing og jafnvel í stjórnarráðið þessir hugumprýddu riddarar búsáhaldabyltingarinnar. Um leið orðnir kerfiskallar og kellingar.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur ekkert pólitískt bakland. Hann vinnur bara vinnuna sína. Hefði hann ekki afnot af þessu fína hægindi væri hann að skrifa greinar og flytja ræður um ómögulega ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Allur vindur er úr ríkisstjórninni eftir ESB umræðuna og Icesave. Hana skortir pólitíska forystu. Hún hefur hvorki vilja né getu til að taka á vanda skuldara. Vandi þeirra lá ljós fyrir strax eftir hrun og hann hefur ekki horfið þrátt fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. 

Vandinn er ekki aðeins þeirra skuldara sem þegar eru komnir í þrot heldur líka hins stóra fjölda sem enn hefur vinnu og reynir og reynir að standa í skilum. Með áframhaldandi stefnu verður vandi skuldaranna sá klafi sem gerir út af við ríkisstjórnina.


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýður, ekki tjá þig í fjölmiðlum, það borgar sig ekki!

Lýður Guðmundsson kom nokkuð vel út úr Kastljósviðtalinu. Hann er skýr, skilmerkilegur og ákveðinn. Því miður virðist hann ekki hafa góða ráðgjafa og það segi ég vegna þess að þegar upp er staðið nægja þessi hæfileikar ekki til að breyta áliti almennings á honum, Existu, Kaupþingi og ástæðum fyrir efnahagshruninu. Allt er fyrirfram tapað, sannleikurinn skiptir minnst máli.

Þetta verður aldrei nógu mikið brýnt fyrir svokölluðum „útrásarvíkingum“, „auðmönnum“, bankastjórum, bankaráðsmönnum eða fyrrum stjórnmálamönnum. Þeir eiga ekki að fara í viðtöl eða tjá sig á einn eða annan hátt á þessu stigi málsins. 

Allt er eftir og þá er betra að hafa þagað. Enn er sérstakur saksóknari að störfum, rannsóknir embættis hans eiga eftir að breyta miklu. Þann 1. nóvember verður upplýst um niðurstöður rannsóknanefndar um ástæður efnahagshrunsins. Enn eiga skilanefndir bankanna eftir að ganga frá sínum málum. Fjármálaeftirlitið á eftir að senda fjölda mála til rannsóknar. Og svo framvegis

Síðast en ekki síst þá eiga tugþúsundir Íslendinga í miklum vandræðum vegna hrunsins. Atvinnuleysi herjar á þjóðina, skuldir heimilanna hafa hraðvaxið, laun eru kerfisbundið lækkuð, húsnæðismarkaðurinn er hruninn, bílamarkaðurinn er ekki til, fjöldi fólks á eftir að hrekjast úr landi. Við hlustum ekki, við leitum að blórabögglum og við sjáum þá í mönnum eins og Lýð, þó hann hafi fullkomlega rétt fyrir sér.

Væri ég blaðafulltrúi eða almannatengill Lýðs Guðmundssonar eða annarra manna af hans „tagi“ þá myndi ég ráðleggja þeim að tjá sig ekki í fjölmiðlum. Af hverju? Vegna þess að það skiptir engu máli hvað þeir segja núna, allt annað verður uppi á teningnum eftir 1. nóvember, eftir áramót eða 1. september á næsta ári. Þá fyrst byrja menn að ganga í gegnum hreinsunareld rökræðna og réttlætingar og víst er að margir munu sitja eftir í þeim eldi.


mbl.is Vissi ekki um lán til Al-Thani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af náð og miskun banka ... Eru þeir ekki aðili?

Af náð og miskun ætla bankarnir að skoða leiðir ... Einlægt eru bankarnir í hlutverki stjórnvalds, skipa viðskiptavinum sínum til og frá. Þeim er hreinlega fyrirmunað að skilja að þeir eru aðili máls.

Hugmyndir um breytingar koma frá bönkunum verða einungis til vegna þrýstings frá skuldurum og stjórnmálamönnum. Í öllum tilvikum verður niðurstaðan einhvers konar viðsnúningum þar sem skuldarinn heldur áfram að greiða af sama höfuðstól en ef til vill um örskamman tíma lækka afborganirnar.

Bankarnir gæta fyrst og fremst eigin hagsmuna. Skuldarar blæða vegna aðstæðna sem þeir áttu engan þátt í að búa til og fyrr frýs í víti en að bankarnir bjóða almenna eða sértæka lækknun á skuldum.

Þar af leiðir að kominn er tími til að ríkisvaldið taki af skarið og reyni að gera eitthvað. Það eina sem komið hefur frá ríkisvaldinu er að gera skuldara að annars flokks borgurum t.d. með svokallaðri greiðsluaðlögun sem er glæpur í framkvæmd. Til viðbótar þarf að tukta til innheimtumenn ríkissjóðs, t.d. Tollstjóraembættið sem gengur fram af hörku sem þekkist aðeins hjá mafíunni.


mbl.is Bankarnir skoða leiðir til að skuldbreyta íbúðalánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þór enn með puttana í eyrunum?

Ekki veit ég hvert Borgarahreyfing stefnir. Að minnsta kosti virðast þingmenn hennar vera með endemum ráðlausir.

Einn þeirra, Þór Saari, sem þekktastur var fyrir að troða vísifingrum í eyrun í beinni útsendingu í kosningaþætti í sjónvarpinu, hefur skrifað upp á breytingatillögur meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp um Icesave ábyrgð - en þó með fyrirvara.

Hafi Þór ekki náð að gera upp hug sinn á þeim tíma sem frumvarpið var til meðferðar hjá fjárlaganefnd þá mun hann ekki geta gert það hér eftir.

Menn sem haldnir eru ákvarðanafælni eiga ekki að sitja á löggjafarsamkundunni. Kannski er ráð að taka fingurna úr eyrunum og fara að hlusta, jafnvel á þjóðina sem óttast þennan alræmda samning.


mbl.is „Tær snilld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarhaldsfélag eða „skúffufyrirtæki“?

Hvað er að því þótt einkahlutafélag sé með enga starfsemi? Ekkert, alls ekkert. Hins vegar eru fjöldi fyrirtækja eignarhaldsfélög, eru skráð fyrir ýmis konar eignum, bílum, íbúðum, atvinnuhúsnæði, skipum og bátum. Ástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag á eignarhaldi er notað getur verið margvíslegt. Nefna má að eigendur geta verið fleiri en einn.

Eignarhaldsfélög eru líka verið afleiðing af miskunarlausri gjaldþrotastefnu ríkisvaldsins og íslenskra banka á undanförnum áratugum. Þessir aðilar iðkuðu í skjóli laga þann ljóta leik að stefna þúsundum landsmanna í gjaldþrot fyrir sáralitlar skuldir. Einkahlutafélög hafa lengi verið eina leiðin fyrir þetta fólk til að eignast íbúðir, bíla eða atvinnuhúsnæði.

Vissulega getur verið að fjöldi fyrirtækja sé svokölluðu „skúffufyrirtæki“. Vandinn er sá að sé þetta orðskrípi yfirfært á öll fyrirtæki og löggjöf endurskoðuð og hert getur skapast mikill vandi.

Hvort skyldi nú vera skynsamlegra að loka glæpamenn inni til að tryggja öryggi almennra borgara eða loka borgaranna inni í sama tilgangi?  


mbl.is Skulduðu yfir þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðar Már hefði ekki átt að mæta í Kastljósið

Ástæða til að hlusta á þá menn sem bornir eru þyngstu sökunum vegna bankahrunsins

Hreiðar Már Sigurðsson þurfti ekki að koma í viðtal í Kastljósinu og hann átti ekki að gera það. Fátt sem hann sagði, hversu rétt sem það var, breytir skoðun þorra þjóðarinnar. 

Oft er þögnin besta vörnin þegar að manni er sótt. Margir „útrásarvíkinga“ og hafa látið freistast en enginn þeirra hefur haft erindi sem erfiði í viðtölum eða Kastljósþáttum.

Í þeirra sporum er margt annað hægt að gera og skýra mál sín á öðrum vettvangi betur en í stuttum þætti þar sem spyrillinn er ekki að leita eftir rökum heldur ætlar að slátra viðkomandi. Heiðar Már var óstyrkur og ekki bætti úr skák að spyrillinn iðkaði þann leik að grípa frammí fyrir honum með orðmargri messu.

Niðurstaðan er sú að ég fékk fátt nýtt út úr þessu nautaati. 


mbl.is Annarra að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband