Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Á að gefa jólagjafir sem eru dýrari en 1.000 krónur?

Sem betur fer eru ekki miklar líkur til þess að jólin verði minna hátíðleg í Bretlandi þó jólaverslun dragist saman.

Því miður tengjasta jólin verslun nær órjúfanlegum böndum. Hún hvetur til hátíðarhalda og trúin skiptir engu máli. Í raun á ekki að vera hægt að halda jól nema með verulegu óhófi í mat, drykk og gjafakaupum. Þannig hefur þetta þróast um langan aldur. Allt annað hverfur í skuggann. Jólasveinninn er fulltrúi verslunar, greiðslukorta, banka, skuldsetningar og fjármálaþrenga. Þegar hann hrópar hó, hó og gleðileg jól þá á hann við; kaupið, kaupið, í því er fólgin hin sanna gleði.

Má ekki rjúfa þessi bönd þó ekki væri fyrir annað en að tengja hátíðarnar við eitthvað annað en krónur og aura, kaup og stress?

Satt að segja er maður orðinn hundleiður á frekju og yfirgangi verslunarinnar sem hefur yfirtekið jólin. Hvað myndi nú gerast ef ...

  • við versluðum ekki lengur en til klukkan sex á virkum dögum í desember?
  • við myndum ekki versla á laugardögum og sunnudögum?
  • Við gæfum ekki jólagjafir sem eru dýrari en 1.000 krónur?
  • aðeins börn og unglingar fengju jólagjafir sem kosta allt að 5.000 krónur?

Flestir foreldrar hafa tekið eftir þeirri fallegu heiðríkju sem breiðist yfir andlit lítils barns þegar það fær litla gjöf. Verð gjafarinnar skiptir barnið auðvitað engu máli. Hin ódýrasta og ómerkilegasta gjöf grípur huga þess, jafnvel umbúðirnar eru stórkostlegar.

Höfum við gleymt þessari barnslegu einlægni? Látum við auglýsingar verslunarinnar og framleiðenda villa okkur sýn? Teljum við okkur skuldbundin til að gefa jólagjöf? Getur ekkert annað komið í stað jólagjafar sem kostar þúsundir króna, jafnvel tugþúsunda?

Sé svarið eitthvað á þá leið að það sem svo gaman að gefa, gjafir eru fallegur siður, þá hefur sá sem þannig svarað raunverulega gleymt tilganginum með þessu öllu saman.

Jæja, ég má ekki vera að þessum pælingum þarf að fara út að kaupa jólagjafir ...

 


mbl.is Minnsta jólaverslunin í 25 ár?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Kreditkort er verkfæri djöfulsins“

Um daginn sat ég á fyrirlestri sem Lára Ómarsdóttir flutti á Skagaströnd og kallaði Kreppuráð. Mér fannst Lára flytja fyrirlesturinn mjög vel, hún var einlæg, skemmtileg og gefandi.

 Ég skrifaði um hann á vefsíðuna skagastrond.is en vil gjarnan birta hann hérna í því skyni að gefa hinum örfáu lesendum mínum kost á að kynnast hugarheimi afar hugrakkrar konu.

„Ef mér gengur illa að sofna af áhyggjum segi ég bara gafall, gaffall, gaffall, gaffall í huganum. Gaffall hefur aldrei valdið mér neinum vandamálum. Þannig reyni ég að ýta burtu úr huga mér þunglyndislegum hugsunum sem gera mér ekkert gott," sagði Lára Ómarsdóttir á afar fróðlegum og ekki síður skemmtilegum fyrirlestri í Bjarmanesi í gærkvöldi.

Fundurinn var haldinn af Vinnumálastofnun og Farskóla Norðurlands vestra. Lára var eini fyrirlesarinn og tilgangurinn var að hún segði frá þeim ráðum sem hún og eignmaður hennar hefðu gripið til þegar erfiðleikar steðjuðu að fjölskyldu hennar.

Við höfum það ágætt núna sagði Lára sem kynntist miklum fjárhagserfiðleikum fyrir nokkrum árum. Hún og maður hennar eiga fimm börn og það var ekkert grín að finna ráð til að fæða og klæða svona stóra fjölskyldu þegar lausafé var naumt og reikningarnir hrúguðust inn. Eflaust hefðu einhverjir látið hugfallast, en ekki Lára. Hún segir að það geti verið erfiðir tímar framundan en finnst ekki ástæða til að kvíða því sérstaklega.

Fjölskyldan setti sér ákveðna heimspeki sem byggði á skipulagi í naumum fjárhag og ekki síður að sjá alltaf vonarglætu í tilverunni. „Greiddu fyrst af öllu reikninganna," segir Lára ákveðin. Svo bætir hún við: „Þó maður eigi ekki mikla peninga þýðir ekkert að leggjast í þunglyndi. Við höfum bara áhyggjur af fjármálunum þrjá daga í mánuði, síðasta dag mánaðarins og tvo fyrstu dagana.
Síðasta dag mánaðarins vorum við oft ansi fátæk og þá var akkúrat tími til að hafa áhyggjur af því hvort maður eigi mat fyrir fjölskylduna. Daginn eftir er útborgunardagur og þá skipulegg ég fjármál mánaðarins."

Lára segist gera plan til eins árs. Hún ákveður fyrirfram að greiða reikninga á réttum gjalddögum, standa í skilum með allt. Ef hún sér fram á að geta það ekki þá leitar hún til lánardrottna og biður um lagfæringu á láni, því ekki má láta lánin fara í vanskil, það er einfaldlega alltof dýrt. Þegar hún hefur gengið frá greiðslum á lánum þá sér hún hvaða peninga hún á til annarra hluta. „Og þeir hafa oft ekki verið miklir," segir Lára.

Fjölskyldan sest niður og gerir þá áætlun fyrir heilan mánuð. Býr til töflu og skráir hvað eigi að vera í morgunmat, hádegismat, miðdegiskaffi og kvöldmat. „Oftast er ekkert kvöldkaffi enda bara óhollt að borða fyrir svefninn," segir Lára og hlær hlátri sem ekki er ólíkur þeim hrossahlátri sem einkennir karl föður hennar, Ómar Ragnarsson, fréttamann, stjórnmálamann og grínara. Lára deilir síðan handbærum peningum niður á hverja viku og þá kemur í ljós hvað má eyða á hverjum degi.

„Kreditkort er verkfæri djöfulsins, það á maður aldrei að nota," segir Lára. „Því fylgir bara kostnaður og ofneysla," og orðum hennar fylgir mikil sannfæring. Hún segist ekki heldur nota debetkort vegna þess að það hvetur aðeins til meiri eyðslu.

"Best er að hafa seðlana í höndunum, nákvæmlega þá fjárhæð sem maður þarf að nota hverju sinni." Og það gerir Lára þegar hún verslar í matinn. Hún fer út í Bónus með innkaupalista og kaupir ekkert nema það sem á honum stendur og skrifar verðið hjá sér og reiknar út heildarfjárhæðina áður en hún fer á kassann.

„Stundum stemmir ekki hjá mér vegna þess að verslanir eru stundum með annað verð í hillum en á kassa. Þeir sem nota kort þeir taka ekkert eftir þessu og á því græðir verslunin. Hugsið ykkur ef vara er einni krónu dýrari á kassanum, þá græðir verslunin rosalega."

En lífið er ekki bara fjármál hjá Láru. Hún sagðist hafa lært það í erfiðleikum sínum að ekki væri allt tómt svartnætti. „Alltaf er eitthvað gott, eitthvað til að þakka fyrir," segir hún. „Ég hef það fyrir venju að þakka fyrir smá og stór atriði sem gefa lífinu gildi. Ég þakka fyrir að vakna á morgnanna, þakka fyrir að sjá börnin mín, þakka fyrir gott veður. Ég þakka meira segja fyrir þegar einhver heimiliskötturinn strýkst við fótlegginn á mér. Það er svo ákaflega margt sem er gott og ástæða til að þakka fyrir það. Með þessu móti sér maður lífið í öðru ljósi og allt verður skemmilegra."

Og fjölskyldan naut lífsins þrátt fyrir naum efni. Raunar var það þannig hjá Láru að skipulagið átti vel við börnin: „Þau vilja hafa allt i föstum skorðum. Þegar við höfum hætt að gera svona áætlun þá hafa börnin kvartað. Þau vilja líka halda sig við hana, kvarta ef ekki er réttur matur á borðum. Hins vegar vita þau að lífið er ekkert endilega sanngjarn. Við þurfum ekki öll að borða jafn mikið, og stundum borðar einhver meira en hann mátti. Þannig er það bara." Fjölskyldan skemmtir sér og reynir að njóta lífsins.

„Við fíflumst að minnsta kosti eitt kvöld í viku," segir Lára og fundargestir skilja ekki. Hún skýrir mál sitt: „Til dæmis á föstudagskvöldi tökum við okkur til og klæðum við okkur upp í asnalega búninga og við fíflumst einfaldlega eins og við getum, syngjum og látum eins og við eigum ekki að gera. Þetta eru ákaflega skemmtileg kvöld, við fáum útrás og á eftir líður öllum svo óskaplega vel." Hér er ekki pláss til að endursegja allan fyrirlestur Láru.

Um tuttugu manns komu og hlýddu á fyrirlesturinn og er óhætt að segja að allir hafi haft bæði gagn og gaman af. Allir hrifust af þessari hugrökku konu sem var svo hreinskilin, sagði frá lífi sínu, mistökum sínum og endurreisn. Nú þegar mikið rætt um kreppu og ýmis konar óáran er tilvalið að taka Láru sér til fyrirmyndar.

Lífið heldur áfram og það er kostur að geta sveigt það eftir aðstæðum sem stundum virst geta verið grimmar en þegar nánar er að gáð eru möguleikarnir óteljandi. Allt er það spurning um hugarfar.


Við meðaljónarnir erum tvístígandi ...

Ekki við öðru að búast en að þessir tveir formenn nefndarinnar vinni skipulega að málinu. Þeir eru ekki þekktir fyrir annað. Ég er einn þeirra Sjálfstæðismanna sem veit ekki í hvora löppina á að stíga í Evrópumálinu.

Fyrir það fyrsta er ljóst að bæði kostir og gallar fylgja inngöngu í ESB. Gallarnir eru auðvitað þeir að við fáum litlu um ráðið undir hvaða lög og reglur við erum sett. Það getur valdið gríðalegum vandamálum, t.d. svipuðum og aðrar Evrópuþjóðir hafa staðið frammi fyrir, s.s. atvinnuleysi. Svo er ekki ljóst hvað bíður sjávarútvegsins,v erður hann til dæmis settur undir sameiginlega stjórn eða fær hann að vera innanríkismál okkar?

Í annan stað hafa margir Sjálfstæðismenn sem ég tek mark á hvatt til þess að við göngum inn í Evrópusambandið og tökum upp Evruna. Menn eins og Þór Sigfússon og Vilhjálmur Egilsson. Aðrir hafa lagst þversum gegn inngöngu og fært fyrir því góð rök.

Þetta er nú ástæðan fyrir því að við meðaljónarnir erum tvístígandi. Hitt vitum við mætavel að inngangan mun ekki leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Ég ætla að halda áfram að fylgjast með og sanka að mér upplýsingum og einn góðan veðurdag kemur kannski að því að ég geti gert upp hug minn.


mbl.is Fundaferð um Evrópumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík andskotans tíð ...

Þetta eru undarlegir tímar fyrir okkur, almenning. Margir hafa vanið sig á að kaupa hitt og þetta frá útlöndunum, tölvuforrit, bækur, tímarit og fleira smálegt.

Nú bregður svo við að kreditkortið dugar ekki lengur, Visa neitar millifærslunni. Og forritið er þannig ófáanlegt nema það kunni að fást rándýrt í Applebúðinni, útlenda bókin kemur kannski ekki fyrr en eftir áramót í Eymundsson.

Konu nokkurri í hárri stöðu á Bretlandi varð það að orði er hún leit yfir liðið ár að það væri Annus terribilis og brá fyrir sig latnesku af mikilli list.

Hvað má svo alþýða Íslands segja þegar hún er aftur orðin ofurseld álagningu íslenskra kaupmanna? Þvílíkt andskotans tíð.

Jú, eflaust sparar maður við sig, lætur eins og maður þurfi ekki á tölvuforritinu að halda og kannski maður grípi í einhverja aðra bók og noti þá bókasafnið, sleppi að kaupa.

Ég var á fundi um kreppuráð um daginn. þar talaði Lára Ómarsdóttir. Henni mæltist vel en eitt af því sem er minnisstæðast af fundinum er það ráð hennar að sinna jólainnkaupunum sem fyrst. Allt hækkar eftir því sem nær dregur jólum, verslanir hika ekki við að hækka daglega. En nú má búast við því að gengi krónunnar haldi áfram að hrapa fram yfir áramót og því mun innkaupsverðið hækka og ofan á það kemur svo frjálsleg álagning kaupamanna.


mbl.is Nýjar gjaldeyrisreglur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þaulsetnir atvinnumenn í verkalýðsrekstri

Þegar er komin fram krafa um að ASÍ leggi sitt lóð í efnahagasvanda þjóðarinnar með samtökin setji á stefnuskrá sína að vísitöluverðtrygging lána verði aflögð. Nýkjörinn forseti ASÍ hefur neitað að verða við þeirri kröfu. Svona stuttu eftir þing samtakanna er komin gjá á milli samtakanna og almennra launþega.

Á sama tíma og ASÍ krefst afsagna ráðherra er auðveldlega hægt að benda á máttleysi þessarar verkalýðsforystu sem hefur verið hin sama í áratug með örlitlum breytingum á embættum. Ekkert nýtt blóð fær að komast inn í þessa nomenklaturu atvinnumanna í verkalýðsrekstri.

Er ekki kominn tími á breytingar meðal hinna þaulsetnu á þeim bæ?


mbl.is Ríkisstjórnin stokki upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar gatan ætlar að framfylgja réttlætinu

Þetta gerist alltaf þegar einstaklingar taka málin í sínar hendur og ætla að fullnægja „réttlætinu“. Ótal dæmi er um að saklausir hafa fengið að kenna á svona krossförum. Hamgagangurinn og óþreyjan er svo mikil að meira skiptir að gera eitthvað en að fara rétt að hlutunum.

Hugsum um þetta núna þegar kreppir að í þjóðfélaginu og alþingi götunnar krefst réttlætis gagnvart hinum og þessum bankamönnum og útrásarvíkingum. Látum dómskerfið um málin en látum ekki refsingu bitna á saklausum.

Hversu skammt er ekki frá svona „réttlæti“ í algjört stjórnleysi?


mbl.is Grímuklæddir menn sitja um heimili hjá saklausum pilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjúk lending, hörð lending, fárviðri ...

Í fyrra vetur var mikið talað um lendingar. Den Danske Bank sagði að hér yrði hörð lending efnahagslífsins. Stjórnvöld og fjölmiðlar stöguðust á mjúkri lendingu.

Það sannast nú sem mætir menn hafa löngum sagt að engum stafar hætta af því að hlaupa fram af bjargbrún, það er lendingin sem getur verið banvæn.

Menn þurfa nú að hætta þessum eilífum myndlíkingum. Allir gera sér grein fyrir því að kreppan er skollin á með öllum sínum þunga. Ég hef þó mestar áhyggjur af meintum sparnaði ríkis og sveitarfélaga. Held að hann verði til þess að viðhalda hringrás atvinnuleysis og verðbólgu.


mbl.is Hið fullkomna fárviðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að kolfella lánadrottna með því að neita að borga af lánum

Ég er Sjálfstæðismaður vegna þess að ég aðhyllist stefnu þess flokks. Ég get ekki séð að stefnan hafi brugðist en hins vegar tel ég að forystumenn flokksins hafi ekki staðið sig og látið bankana hrynja yfir þjóðina án þess nokkrar varnir hafi verið reistar sem vit er í.

Í sjónvarpinu fylgdist ég með þessum stóra fundi. Mér fannst hann málefnalegur og góður. Ég er sammála mörgu sem þarna kom fram og ósammála öðru. Ég er til dæmis á þeirri skoðun að ríkisstjórnin sé að vinna að heilindum og helst vil ég gefa henni vinnufrið, er þar með ekki hlyntur kosningum. Komi hins vegar til þeirra í vor mun ég örugglega beita mér gegn flestum sitjandi þingmönnum flokksins, þar með töldum ráðherrum. Ég mun einnig hvetja góða og heiðarlega menn sem styðja sjálfstæðisstefnun til að gefa kost á sér í prófkjörum. Við þurfum að skipta út fjölda fólks. Það veldur engum vanda. Nóg er mannvalið í Sjálstæðisflokknum. Grundvallaratriði er hins vegar það að án verulegrar endurnýjunar fær flokkurinn 10 til 20% fylgi og það er ekki ásættanlegt.

Þau vandamál sem brenna á almenningi vegna alheimskreppu og heimatilbúna bankakreppu eru gríðarleg.

Mikilvægast er að tryggja öllum atvinnu.

Næst er að taka á skuldamálum fólks og fyrirtækja. Það gengur ekki að höfuðstóll lána fái að vaxa stjórnlaust í skjóli verðtryggingar eða myntkörfulána. Það er hreinn glæpur er höfuðstóll lána er kominn langt framyfir markaðsverð íbúða eða lausafjár eins og bifreiða. Ef ekki verður tekið á því þá er sá fjöldi sem ber skaða af þessu fyrirkomulagi svo mikill að hann getur auðveldlega kolfellt lánadrottna sína með því að neita einfaldlega að greiða afborganir sínar. Þannig verður til hljóðlát og sanngjörn bylting.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta þeir þá við að lána okkur?

Þá færi nú í verra ef þessar áhyggjur „frænda“ vorra og vina yrðu til þess að þeir hættu við að lána okkur þessa skildinga sem þeir höfðu þó ætlað sér.
mbl.is Norðmenn óttast kreppuáhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælin teygja sig inn í Sjálfstæðisflokkinn

Fólk á að mótmæla. Fólk á að mæta á mótmælafundi. Fólk á að rífa kjaft gegn valdsstjórninni eins og það lifandi getur. Fólk á að grýta Alþingishúsið. Ég hef ekkert út á það að setja.

Reiði fólks er skiljanleg.

Staða þjóðarinnar er fullkomlega óásættanleg. Þingmenn hafa allir sofið á verðinum, ríkisstjórnin hefur ekki gætt hagsmuna okkar. Þess vegna á fólk að mótmæla.

Ég er Sjálfstæðismaður og ég er reiður. Ég hef hingað til gert ákveðnar kröfur til þingmanna flokksins og ráðherra. Þeir hafa klúðrað málum og þess vegna er komin tími á breytingar. Þeir sem áttu að standa vaktina fyrir okkar hönd sáu ekki hvað var að gerast.

Þess vegna krefst ég uppgjörs, en ég geri ekki kröfu til kosninga. Nú er ekki tími til annars en að sinna björgunaraðgerðum. En þegar kemur til prófkjörs þá skulu sitjandi flestir þingmenn muna það að þeirra tími er liðinn. Sjálfstæðisflokkurinn er mannmargur flokkur og enginn er ómissandi. Maður kemur í manns stað.


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband