Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hryðjuverkamenn á „krossurum“ í Innstadal

DSCN2184bSvokallaðir „krossarar“ eru vaxandi vandamál í náttúru landsins. Hér er um að ræða torfæruhjól, mest notuð af ungu mönnum sem þekkja lítið til landsins öðru vísi en af slíkum farartækjum og þeir telja sér allt leyfilegt.

Ef til vill er þeim allt leyfilegt.

Fyrir nokkrum árum var þessum köppum úthlutað æfingasvæði við Vífilsfell og þar hafa flestir haldið sig. Hins vegar hafa margir ekið þar upp og niður fell í nágrenninu, um Ólafsskarð og vestur undir Bláfjöllum er mótorhjólaslóði. Ég hef séð mótorhjólamenn fara frá æfingasvæðinu við Vífilsfell og aka upp undir Hengil og þar eru nú hjólaslóðir sem áður voru engar. Auk þess hafa menn reynt sig við móbergsklettaklifur á mótorhjólum og spólað þar talsvert mikið í Engidal og á leiðinni inn í Marardal.

Síðasta afrek „krossarana“ er svo Innstidalur og þar má sjá að komnar eru hjólabrautir í kringum dalinn. Ég tók meðfylgjandi mynd fyrir mánuði ofan af Skarðsmýrarfjalli og á henni má greinilega sjá einn kappann í krossferð sinni.

Jú þeim er víst allt leyfilegt. Ástæðan fyrir því að þessir menn eru ekki stöðvaðir er einfaldlega sú staða að þegar einu sinni er kominn vegarslóði þá er þeim sem á eftir koma heimilt að aka hann. Lögregluna skortir heimildir til aðgerða, sbr. yfirlýsingar frá sýslumanninum á Selfossi sem hefur árangurslítið reynt að koma lögum yfir þessa hryðjuverkamenn.

Auðvitað þarf að loka nýjum og gömlum vegaslóðum og hafa eftirlit með því að lokunin haldi. Þar að auki þarf að messa hressilega yfir mótorhjólafólki og gera þeim skiljanlegt hvað er í húfi.


mbl.is Apakettir á vélhjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skætingur í Viðskiptablaðinu í dag

Viðskiptablaðið er skemmtilegt blað en mér finnst það lélegt þegar fjölmiðill er með einhvern skæting. Þetta þurfti blaðið endilega að gera föstudaginn 14. september að Börkur Gunnarsson blaðamaður skrifaði grein sem nefnist „Úreltur hugsunarháttur“ og virðist vera einhvers konar forystugrein eða ígildi slíkrar.

Þannig var að skýr íbúi á landsbyggðinni sagði kvartaði undan því að í þvingunarsjónvarpi ríkisins skyggðu veðurfræðingar oftast á austurhluta af landinu. Þetta sjá allir og vita en varð blaðamanni Viðskiptablaðsins tilefni til að tuða um byggðamál. Niðurstaða hans var sú að veðurfréttir væru nátengdar íbúafjölda og veðurfræðingar ættu að sýna fjölmennari svæðum meiri áhuga en þeim fámennari.

Nú er það þannig að veðurkerfin fara ekki eftir mörkum sveitarfélaga og veðurlag á einum stað á landinu á það til að flytjast á annan aukinheldur er tengjast veðurkerfi landsins. Þar af leiðandi er það ekki endilega spurning um það hvort Höfn í Hornafirði sé „nafli alheimsins“ eins og blaðamaðurinn orðar það í hroka sínum, heldur þurfa og vilja margir fleiri en Hornfirðingar að fá veðurfréttir og spár af þeim slóðum. Blaðamaður á til dæmis ekki að fara eftir mannfjölda þegar hann skrifar fréttir sínar, frétt er bara frétt hvaðan svo sem hún varð til. Sé brugðið út af þessu er voðinn vís.

Þetta kemur mannfjölda ekkert við og algjör óþarfi fyrir blaðamann Viðskiptablaðsins að vera með einhvern skæting um byggðasjónarmið. Veðurfréttir er miðlun upplýsing, svo einfalt er málið. Austanáttin á Höfn í Hornafirði gæti fyrr eða síðar færst yfir á suðvesturhornið.

Blaðamenn ættu að temja sér víðsýni og umburðarlyndi, og miðla fréttum og upplýsingum án þess að blanda eigin skoðunum inn í þær. Svo er algjör óþarfi fyrir Börk Gunnarsson blaðamann að hrökkva í einhvern varnargír fyrir þann hluta þjóðarinnar sem býr á suðvesturhorninu þó svo að einhver aumingjans maður úti á landi tjáir sig. Það er nú einu sinni þannig að málfrelsið er ekki bundinn við einhver hreppamörk.


Hryðjuverk Orkuveitu Reykjavíkur gegn landinu

DSCN2210Orkuveita Reykjavíkur er dæmi um fyrirtæki sem sést ekki fyrir í aðgerðum sínum. Það hefur engan skilning á náttúruvernd eða umhverfismálum. Leynt og ljóst stendur fyrirtækið að hryðjuverkum gegn landinu. Það má best sjá á Hellisheiði, sem fyrirtækið er á góðri leið með að eyðileggja, hefur útborað Skarðsmýrarfjallog ætlar nú að vaða á skítugum skónum um Fremstadal og Innstadal í Hengli.

Það fór sem mann grunaði að öll þessi fína bortækni myndi ekki verða til þess að hlífa viðkvæmum og fallegum svæðum. Stoltir hafa bormenn sagst geta borað á ská hingað og þangað, séu ekki lengur bundnir við lóðrétta borun. Ekki græðir Innstidalur neitt á því.

Hvers vegna í ósköpunum má ekki hlífa Innstadal? Næst verður áreiðanlega vaðið vestur undir Hengil, í Engidal og DSCN2200Marardal og líklega endað með borholu á Skeggja, hæsta hluta Hengilsins. Svo verður manni án efa svarað með skætingi: Ertu kannski á móti rafmagni? Viltu ekki heitt vatn í húsið? Er starfsemi Orkuveitunnar ekki umhverfisvæn? Ertu kannski vinstri-grænn, kommúnisti eða þaðan af verra ...?

Hryðjuverkum Orkuveitunnar gagnvart landinu verður að linna. Ef stjórnarmenn fyrirtækisins skilja ekki sinn vitjunartíma þá verður að skipta um þá.

Ef í hart fer þá verðum við bara að loka Innstadal og öðrum náttúruperlum, standa í báða fætur á vettvangi á móti vélaliðinu. Bjóða föntunum birginn.


mbl.is Boranir tilkynntar allar í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamannaiðnaðurinn misskilur Turist Industry

Rétt orðanotkun er grundvöllur sameiginlegs skilnings. Eitthvað þætti lesendum óþægilegt ef talað væri og skrifað um menntamálaiðnaðinn eða skólaiðnaðinn. Engum dettur í hug að sú menntun sem fæst í skólum landsins eigi eitthvað skylt við iðnað.

Sama á við um orðskrípið „ferðamannaiðnað“. Þjónusta við ferðamenn er ekki iðnaður og þess vegna er alltaf fjallað um ferðaþjónustu. Iðnaður er allt annar handleggur. Á enskri tungu er iðulega talað um „The turist industry“ enda er orðið „industry“ ekki einskorðað við framleiðslu úr einhvers konar hráefnum heldur getur átt við ýmis konar starf eða tímafreka starfsemi.

Þannig er útilokað er að nota þýða orðið „Industry“ með „iðnaður“ nema því aðeins að gæta að samhenginu. Þar af leiðandi er fer best á því að nota þetta prýðilega orð „ferðaþjónusta“ og ástæða til að hvetja „blaðamannaiðnaðinn“ til að tileinka sér það.


mbl.is Danskur ferðamannaiðnaður að dragast aftur úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband