Frábær dugnaður þriggja kvenna
20.4.2009 | 18:00
Þetta eru hörkuduglegar konur sem hafa gengið frá Jökulheimum, líklega í Grímsvötn og þaðan á Öræfajökul. Nokkuð algeng leið en getur verið erfið, sérstaklega sá síðarnefndi.
Þeir sem ekki þekkja til í jöklaferðum eða fjallaferðum að vetrarlagi þá segja myndirnar með fréttinni ekkert nýtt. Svo mikið getur snjóað eða skafið að tjöld fara á kaf á nokkrum klukkustundum. Að morgni þarf einfaldlega að moka tjöldin upp og það þykir svo sem ekkert merkilegt.
Það vekur samt athygli að ekki virðast hafa verið hlaðnir skjólgarðar vindmegin við tjöldin. Slíkir garðar, séu þeir rétt gerðir, drepa vindinn og skafsnjórinn safnast saman hlémegin við garðinn. Þá er mikilvægt að tjaldið sé í hæfilegri fjarlægð frá garðinum. Þetta þekkja flestir fjallafarar.
Þegar svona skjólgarð vantar dettur manni fyrst í hug að veðrið hafi verið svo ferlegt að ekki hafi verið hægt að athafna sig utan tjaldsins. Næst kemur upp í hugann að konurnar hefi einfaldlega verið orðnar örmagna þegar þær ákváðu að tjalda.
Nú kann einhver að halda því fram að svona jöklaferðir á gönguskíðum séu tóm vitleysa. Ómari Ragnarsson hefur áreiðanlega dottið í hug að skrifa um fyrirhyggjulausa ferðamenn sem kynna sér ekki veðurspár og ana út í óvissuna með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og björgunarsveitirnar. Það hefur hann oftsinnis gert.
Ég tek hins vegar undir með Guðmundi Einarssyni frá Miðdal brautryðjanda í fjallamennsku á Íslandi sem sagði fyrir meira en hálfri öld:
Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.
Moka þurfti tjöld kvennanna upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Facebook
Athugasemdir
Hvernig í ósköpunum datt þeim í hug að fara þetta karlmannslausar?
Baldur Hermannsson, 20.4.2009 kl. 18:18
Sannast sagna finnst mér skemmtilegra í fjallaferð með konum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.4.2009 kl. 18:21
Flott innslag.
Annars varðandi myndirnar sem þú varst að vísa í þá hef ég marg rekið mig á frjálslega notkun á myndum við fréttir. Það er ekkert víst að þær séu einu sinni frá þessum leiðangri.
Anna Svavarsdóttir, 20.4.2009 kl. 20:31
Það er engin spurning í mínum huga: Þetta eru algjörir Naglar!
Flosi Kristjánsson, 20.4.2009 kl. 20:52
Baldur hefur alveg rosalega gaman af því að ganga fram af fólki. Held að athugsemdin endurspegli ekki skoðun hans.
Anna, myndirnar eru án efa úr ferðinni, a.m.k. samkvæmt myndatextanum.
Hins vegar er rétt að halda því til haga að konur eru í Björgunarsveit Hornafjarðar rétt eins og í öðrum björgunarsveitum. Sá tími er löngu liðinn að björgunarstörf eru aðeins fyrir karla, sem betur fer.
Auðvitað gengur fólki mismunandi vel í fjallaferðum en sá munir er ekki kynbundinn.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.4.2009 kl. 20:54
Sigurður, hvaða dugnaður er það að ana út í óvissuna í brjáluðu veðri og láta tug manna ná í sig með ærnum kostnaði ? þær ættu frekar að skammast sín fyrir glannaskapinn.
Skarfurinn, 20.4.2009 kl. 21:52
Þú ert nú meiri skarfurinn, Skarfur!
Þær eru búnar að vera í 5-7 daga á jöklinum, eiga án efa aðeins sólarhring eftir og þá gerir þetta veður. Stóðu sig með prýði. Nenni ekki að ergja mig á þessu viðhorfi þínu.
Ég ætla að láta nægja að vísa hérna í umfjöllun um svipað efni sem ég skrifaði fyrir mörgum árum, http://web.mac.com/sigurdursig/sigurdursig/Reynslusögur/Entries/2007/12/31_Þegar_ég_kem_dauður_heim.html
Ef þetta skilst ekki þá er þetta á heimasíðu minni, undir „Reynslusögur“ og greinin heitir „Þegar ég kem dauður heim“.
Til annarrar greinar hér vísa til. Hana er að finna undir sömu „Reynslusögum“ og nefnist „Grobbsögur úr vetrarferðum á 5VH“ og þar er millikafli sem heitir „Þegar Reynir týndist“.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.4.2009 kl. 22:34
Skarfurinn: Ærnum kostnaði. Þú greiðir hann allavega ekki, á meðan þyrlan er í Rvík. Í þessu tilviki ber björgunarsveitin á Hornafirði allan kostnað af þessu.
Það er nú bara þannig að fólk í björgunarsveitum þarf að æfa sig og fara í svona ferðir - það er bara partur af því að vera í svona sveitum.
Guðmundur Björn, 21.4.2009 kl. 00:09
Þetta er góður punktur hjá Guðmundi. Svo er nú líka skemmtilegra fyrir þessa töffara að bjarga þrem flottum stelpum heldur en til dæmis þrem fúlskeggjuðum gaurum.
Baldur Hermannsson, 21.4.2009 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.