„Laxveiðar í Jemen“ - frábær bók.

9979329521

Ég las fína bók um daginn. Hún ber hið þversagnakennda nafn Laxveiðar í Jemen eftir Paul Torday og er þetta fyrsta skáldsagan hans.

Mæli hiklaust með henni.

Bókin er furðuleg - veit ekki hvort ég heillaðist meira af stílnum eða frásögninni. Höfundurinn er afar góður, sagan er sprellandi fjörug og kemur lesandanum stöðugt á óvart.

Hugsjónamaður frá Jemen, forríkur fursti, fær þá hugmynd að koma upp laxveiðiá í heimalandi sínu. Sjálfur hafði hann heillast af íþróttinni og telur hana vel fallna til að stuðla að samlyndi og friði. Aðal söguhetjan er fiskifræðingur, þurrprumpulegur náungi, gifur bankastarfsmanni sem er jafnvel enn undarlegri en undarlegast er hjónabandið. Jæja, en það sem bjargar fiskifræðingnum er að hann er stangveiðimaður, rétt eins og fursti og þeir ná vel saman.

Inní söguna blandast vilji, viljaleysi og aftur vilji breskra stjórnvalda eða öllu heldur stjórnmálamanna til að koma sjálfum sér á framfæri og nýta áhuga furstans til að búa til laxveiðiá í Jemen sér til framdráttar. Stórkostleg lýsing á hégómagirni stjórnmálamanna og raunar heimsku.

Frásögnin fer fram í dagbókrabrotum, viðtölum yfirheyrslum og síðast en ekki síst tölvusamskiptum. Eins og skrattinn úr sauðleggnum kemur þessi tölvupóstur til bróður Essad, Al-Qeada félaga í Jemen:

Abu Abdulla fyrirskipar ykkur að hefja aðgerð gegn Muhammad ibn Zaidi fursta. Þið þurfið að leita til eins að bræðrum okkar í Finchley í London. Hann þarf þegar í stað að hrinda í framkvæmd aðgerð gegn furstanum til að útrýma honum og stöðva komu laxanna til Jemens. Við höfum millifært það fé sem er til ráðstöfunnar, 27.805 dollara á venjubundinn reikning. Við biðjum guð að leiða ykkur rétta vegu bæði í þessu lífi og framhaldslífinu.
Friður sé með ykkur og miskun Guðs og blessun,
Tariq Anwar. 

En Essad al-Queda félaginn er ekki til í að drepa furstann því sá er vinsæll og ekki síður vegna þess að upphæðin er of lítil. Þeir prútta sem sagt og málið endar með því að bróðir Essad tekur verkefnið að sér var fjárhæðin til verkefnisins hækkuð upp í 31.725 dollara. Og bróðir Essad segir:

Bróðir Anwar, friður sé með þér.
Við höfum fundi bróður hér í Hadramawr sem talar dálitla ensku. Geiturnar hans þrjátíu drápust allar nýlega úr gin- og klaufaveiki. Nú á hann engan mat, enga penginga og engar geitur. Hann gerir þetta. Vinsamlegast sendu peningana og þá hefjum við aðgerðina.
Í Guðs nafni,
Essad.

Þetta er alveg stórkostlegt innlegg í söguna og færir hana í nýja vídd.

Fleira mætti nefna eins og hinn hégómlega og grunnhyggna Meter Maxwell fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherra Bretlands, David Sugden, framkvæmdastjóra Þjóðarmiðstöðvar um fiskveiðihlunnindi, sem er ekki skárri persóna.

Varla er skynsamlegt að rekja nánar söguþráðinn. Ég vona bara að þeir sem rekast á þessi skrif mín taki mig trúarlega og verði sér út um bókina. Hún kom út síðasta haust hjá Máli og Menningu. Þýðandi er Sölvi Björn Sigurðsson og skilar textanum með mikilli prýði á íslensku. 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband