Dirgurbarkaleg ummæli hálaunamanns
8.1.2009 | 15:13
Hugmyndin er ábyggilega góð. Hver ætlar að vera fyrstur? Hver ætlar að hætta að borga skattana sína, afborgarnirnar af húsnæðisláninu, bílaláninu og námsláninu? Ég er ansi hræddur um að gamanið fer að kárna þegar húsnæðið er hirt af manni, bíllinn líka og maður verði loks gjaldþrota og á götunni. Þess vegna er þetta arfaslakt ráð hjá bæjarstjóranum og honum til skammar.
Margir tala svona digurbarkalega eins og bæjarstjórinn en það er ábyrgðarhluti. Húsnæðisvandinn er ekkert gamanmál, og ekki heldur gjaldþrotið. Miklu betra er að semja og reynda halda í sitt, að minnsta kosti meðan einhverja vinnu er að fá. Ólafur H. Sigurðsson bæjarstjóri býr án efa í eigin húsnæði á Seyðisfirði, með 800 þúsund krónur í mánaðarlaun, tryggða vinnu að minnsta kosti til næstu kosninga, með bílapeninga og dagpeninga og fleira og fleira. Hann er ekki góður ráðgjafi í fjármálum almennings ef hann getur ekki komið með betri lausnir en þær að hætta að greiða. Með því að fara að ráðum bæjarstjórans er stefnt á kaf í ófærur.
Það sem er miklu betra er að setja þrýsting á stjórnvöld um að þau komi með lausn á vandanum. Hún kann að vera sú að myntkörfulánin verði einfaldlega gerð upp og þau stillt eins og gengið var einhvern tímann á síðasta ári. Síðan verði lánin endurnýjuð miðað við aðrar aðrar viðmiðanir.
Þetta er eiginlega eins og pennastrikið fræga sem Albert Guðmundsson talaði um í gamla daga. Guð veit að hafi einhvern tímann verið þörf fyrir pennastrik þá er það núna.
Ekki borga skuldir bankahrunsins segir bæjarstjórinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.