Húsnæðiskreppan er gömlu bönkunum að kenna
5.1.2009 | 21:29
Bankakreppan hér á landi stafar ekki af því að eigendur og starfsmenn bankanna fengu of háar greiðslur í arð, laun eða bónus. Slíkt virðist hafa verið gert með fullkomlega löglegum gerningum. Hitt er annað mál að þessar greiðslur voru svo háar að ofbauð og ofbýður hverjum skynsömum manni.
Þar af leiðandi ber Bjarna Ármannsyni ekki að endurgreiða eitt eða neitt. Hann hefur þó kosið að líta fram hjá þessu í ljósi aðstæðna, telur sig bera einhverja ábyrgð, og endurgreiðir hluta af því fé sem hann fékk samkvæmt starfslokasamningi. Það er svo sem gott og blessað.
Með þessu hefur Bjarni kannski sett fordæmi og gott væri nú ef aðrir sem telja sig bera ábyrgð greiddu eitthvað til baka þó ekki væri nema hlutfallslega svipað. Ekki veit ég hvernig á að reikna það út og hverjar forsendurnar eigi að vera. Það hins vegar ekki aðalatriðið á þessari stundu þegar markmiðið er að komast út úr kreppu verðbólgu og atvinnuleysis. Vilji menn endilega dvelja í einhvers konar friðþægingarástandi þar sem þeir sem mest græddu greiða til baka þá er það líklegast í góðu lagi. Hins vegar má ekki gleyma kreppunni. Bankamenn og útrásarvíkingar munu eflaust lítt koma að baráttunni við hana.
Bankarnir voru að stórum hluta fjármagnaðir með erlendu lánsfé og skortur á því varð þeim að lokum að falli. Þetta ótakmarkaða lánsfé varð til þess að bankarnir fundu upp á húsnæðislánum. Niðurstaðan var offramboð af lánum, fasteignamarkaðurinn brást við og íbúðaverð hækkaði. Fundnar voru upp lúxusíbúðir af því tagi sem enginn hafði þekkt hér á landi áður, byggt var meira en þörf var á.
Hækkun lána Íbúðalánasjóðs upp í 90% voru einungis til að vera með í leiknum, án þeirra hefði hann líklega endað inni í bönkunum eins og bankamenn kröfðust með hávaða og látum. Hækkunin skipti í raun litlu, skaðinn var þegar orðinn og hann var bönkunum að kenna.
Endurgreiddi 370 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.