Hefndin og apaviskan

Hefndin er merkilegt hugtak, oft afar svalt en um leið ofboðslega heimskt. Fyrir hugskotsjónum bregður fyrir hetju úr amrískum biómyndum. Vegur hefndarinnar fyrir dána eiginkonum og barn er varðaður líkum vondukallanna, sprengjum er dúndrað sitt á hvað og skothylkin rjúka á malbikinu. Og hetjan gengur inn í sólarlagið. Á sér svo áreiðanlega góða æfi með nýja fegurðardís upp á arminn og getur henni lítil hetjubörn í úthverfinu.

Í alvörunni er framkvæmd hefndarinnar fjarri þessi. Hún er án efa tilfallandi, óskipulögð og oftar en ekki verða saklausir fyrir barðinu á „hetjunni“. Af þessum ástæðum og áreiðanlega fjölda annarrar hefur ríkisvaldið í nútímaþjóðfélagi einkarétt á hefnd. Þar heitir hún ekki hefnd heldur lög og réttur og er meðal annars byggð á dómi, sektarfé og kannski líka fangelsisvist. Um leið er reynt að vanda svo til hefndarinnar að saklausir verði ekki fyrir skaða. Allt þarf að vera afturkræft og þegar mistök verða er skaðinn bættur.

Já, hefnd frummannsins er sæt en hún er því miður stundarfyrirbrigði. Og hvað svo? Gengur lífiðsinn vana gang á eftir? Hvernig líður þeim sem harmanna hefndi vikunna á eftir?

„Ég gaf honum á kjaftinn en hef síðan séð eftir því,“ sagði maðurinn. Ástæðan er einfaldlega sú að hefnd er oftar en ekki úr öllu samræmi við tilefnið.

„Veistu hvað hann bróðir þinn gerði alltaf þegar einhverjir ætluðu að slást?“ spurði faðir minn oftar en ekki í æsku minni. „Hann hljóp í burtu,“ sagði pabbi, og horfði á mig. Ég vissi ekki hvaða speki þetta var nú. Var bróðir minn sú gunga að hann hljóp í burtu frá óvinum sínum?

„Nei, sagði pabbi. „Hann vissi það bara að það borgar sig ekki að hefna. Það gengur allt miklu betur ef maður gerir óvini sína að vinum sínum,“ sagði hann.

Auðvitað var það rétt sem pabbi sagði og raunar bróðir minn líka. Það er betra að forðast ólætin, gera óvinina að vinum. En hverjir eru óvinir manns. Þeim fækkaði snarlega eftir því sem maður varð eldri. Í dag á maður fyrst og fremst vini. Fæstir bera kala til eins eða neins.

Þetta allt saman datt mér í hug er ég las grein Þórunnar Valdimarsdóttur í hinu fjölskrúðuga veftímariti sem nefnist „Nei, dagblað í ríki sjoppunnar“ (http://this.is/nei/). Þetta er víst nýtt vinstri sinnað rit, en ekki verra fyrir því þó svo að ég aðhyllist ekki hugmyndafræðina. 

Þórunn er á þeirri skoðun að menn eigi að fyrirgefa þeim sem ábyrgð bera á efnahagsvandanum. Hún segir:

Aftökurnar hér heima felast í vítum, níði, bölbænum og hefndarhug. Eins og til forna á að drepa konunginn þegar uppskeran bregst. Söguleg framþróun er því lítil í raun, í mesta lagi í dularklæðum. Gerum frekar eins og Suður-Afríka, reisum fyrirgefningar dómstól í stað þess að senda hatur á menn sem kerfið þáði af hagvöxt þegar allt gekk vel.

 Og hún segir ennfremur:

Hefðum við verið komin í EB væri gjaldmiðillinn tryggur, baklandið stærra og skelfingin minni. Svona apaviska hjálpar ekki þegar skaðinn er skeður, við erum eftir sem áður með allt niðrum okkur. Eina leiðin er því að reyna að fíla nektina og húðleysið. Leysa skömmina upp með skilningi og hamast við að skilja á milli einstaklingsins í sér og þess að tilheyra þjóð eða mengi landsmanna.      

 Í blálok greinarinnar stendur þetta:

Böl sitt má bæta með öðru verra og um allan þriðja heim er af nógu að taka. Njótum þess með öðrum þriðja heims löndum að vera íbúar lands sem er lasið vegna sögu sinnar. Betra er að vera vanmetinn en ofmetinn. Við einangruðumst menningarsnauð og vorum tekin í nefið og rassinn um aldir ... allt sjúkt á sér skýringar. Skortur á menningu um aldir skapar heimsku til lengri tíma. Sjúkt sprettur af sjúku, líknin liggur í lofti sögunnar og víddum lista og lífheims.     

 Hér er skrifað af skemmtilegum innblæstri en ekki eru allir sammála Þórunni. Á vefritinu Eyjunni segir frá séra Torfa Stefánssyni sem segir á póstlista fræðimanna, Gammabrekku:

Hýðum þá sem eiga smánina skilið, hýðum þá púka sem hafa fitnað á okurvöxtum til handa almenningi, meðan þeir fengu hverja þá fyrirgreiðslu sem þeir þurftu án þess að þurfa nokkru sinni að borga fyrir hana. Boðskapur minn er: Gapastokka á hvert torg borgarinnar!

Þarna mælir Torfi án efa fyrir munn svo fjölmargra sem þyrstir í blóð, kannski er hann að grínast, kannski talar hann í líkingum. Hann mælir þó áreiðanlega fyrir hönd lýðisins sem heimtar sökudólga og lýðurinn hefur ekki tíma til að bíða því þá rennur af honum móðurinn. Allt skal gert samstundis, skítt með sektina og sakleysið, til andskotans með réttarmorðið, gefðu okkur bara einhvern, sama hvað hann heitir. Ef þú tímir ekki að gefa okkur Björgúlf, gefðu okkur son hans, Jón Ásgeir, Hannes eða bara einhvern ... Plís, tíminn er að renna út, það er komið að kvöldmat og allir eru að fara heim. Ekki nenni ég einna að troða bankafíflinu í gapastokkinn á Lækjartorgi. .

Og hvað svo. Hvað með daginn eftir Lækjartorg ...? Ekkert, ekkert ... Bara grár hversdagsleikinn, engin sigurtilfinning. Vakna, vinna, fara í hádegismat, vinna, kaupa inn í Bónusinu, Hagkaupinu, Nettóinu eða Nótatúninu og svo heim, skammast í krökkunum, éta, horfa á imbann og fara að sofa. Enginn sigurtilfinning. 

Úbbs, var þetta ekki réttur Hannes/Sigurður/HeiðarMár/Sigurjón sem ég tróð í gapastokkinn? Ansans. Einhver hlýtur að sleppa honum. Gengur betur næst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband