Fellur á Silfur Egils
12.10.2008 | 14:20
Silfur Egils er stundum afar áhugaverður þáttur. Í hann koma margir góðir menn og segja ýmislegt spakt. Vandi þáttarins er hins vegar stjórnandinn. Hann virðist vera mjög óskipulagður, grípur oft frammí fyrir viðmælendum sínum og slítur stundum í sundur áhugaverðar pælingar með óáhugaverðum innskotum sínum.
Oft koma í þáttinn til hans frábærir gestir eins og til dæmis Jón Ásgeir Jóhannesson sem taldi ekki eftir sér að mæta til Egils í dag. Hann hefur áreiðanlega séð eftir því og mun eflaust hugsa sér tvisvar um áður en hann mætir aftur.
Yfirleitt er það kostur ef blaðamenn, fréttamenn eða þáttastjórnendur halda hlutleysi sínu gagnvart viðmælendum sínum. Það er kostur og er til styktrar. Egill tók í þættinum klára afstöðu gegn Jóni Ásgeiri. Tilfinningarnar báru hann ofurliði og hann lét sé sæma að vaða úr einu í annað og kasta fram margvíslegum og ógrunduðum ákærum en Jón Áseir fékk fá tækifæri til að tjá sig.
Í stað þess hefði Egill átt að undirbúa þáttinn. Lista upp spurningar í ákveðinni röð og halda sig við þær. Einnig hefði hann átt að hafa skynsemi til að hlusta á það sem Jón Ásgeir segði en ekki láta upplögð tækifæri framhjá sér fara og spyrja nánar.
Það sem hefði getað orðið gott viðtal fór í dag í súginn vegna þess að stjórnandinn missti stjórn á sér, hann ætlaði sér einfaldlega að taka Jón Ásgeir af lífi fyrir meintar sakir. Fyrir mitt leyti varð ég fyrir vonbrigðum með þáttinn eins og svo oft áður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér, Sigurður, að Egil setti verulega niður í þessum þætti, en sérstaklega í lokin gegn Jóni Ásgeiri. Sama hvað álit fólk hefur á Jóni Ásgeiri, þá getur það varla talið Egil hafa sýnt sanngjarna fréttamennsku þess sem hefur vinsælasta samræðuþáttinn í sjónvarpi, heldur veifaði hann snörunni og heimtaði tafarlausa hengingu. Þar með kallaði hann fram það sem maður kann síst að meta við fréttamennsku, dóm götunnar.
Ívar Pálsson, 12.10.2008 kl. 14:55
Takk Ívar.
Auðvitað er dómur götunar alltaf illa ígrundaður. Vandaður þáttastjórnandi á hinsvegar að halda hlutleysi sínu, en jafnframt vera harður, ýtinn og sanngjarn.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.10.2008 kl. 15:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.