Stjórnarandstaða í sárum
1.8.2007 | 09:16
Ekki er undarlegt þó ríkisstjórnin njóti mikils stuðnings. Flokkarnir sem að henni standa eru gríðarlega stórir og miðað við skoðanakönnunina styðja mun fleiri ríkisstjórnina en flokkana. Það bendir einfaldlega til þess að stjórnarandstaðan þjáist enn af strengjum og harðsperrum eftir kosningarnar.
Ég hefði nú haldið að fleiri en ég væru svolítið tortryggnir yfir ríkisstjórn með Samfylkingu í samstarfi við Sjálfstæðisflokk. Maður óttaðist að allt færi nú í sama farveg og gerðist þegar Alþýðuflokkurinn sálugi átti í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og allur ágreiningur lak út, ráðherrar börmuðu sér og tjáðu sig um allt og ekkert við fjölmiðla. Með með nýju fólki koma þó nýir siðir. Ríkisstjórn verður aðeins sterk af gjörðum sínum ekki stærð meirihlutans.
Stjórnarandstaðan er í sárum, grætur það eðlilega að hafa ekki komist í ríkisstjórn en kennir öllum öðrum um en sjálfri sér. Frá henni heyrist ekkert nema tuð og barlómur en eflaust nær hún fullum fjallagrasavexti um það leyti er Alþingi kemur saman í haust. Hins vegar verður fróðlegt að heyra hvort nýjir og væntanlega ferskir þingmenn hennar hafa annað fram að færa en að kvarta undan háum tekjum og miklum skattgreiðslum fólks í atvinnulífinu.
Mestu skiptir að ríkisstjórnin haldi áfram að skapa hér skilyrði fyrir atvinnuvegina, þeir geti blómstrað út um allt land. Verðmætasköpunin skiptir öllu. Sterkt atvinnulíf skapar grundvöll fyrir allt annað, menntun, menningu og þróttmikið mannlíf.
Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.