Enginn barlómur í Bolungarvík!
10.7.2007 | 15:47
Ber nú eitthvað nýrra við á Vestfjörðum. Bæjarráð Bolungarvíkur kemur með málefnalega og skynsama ályktun um niðurskurð á aflaheimildum fyrir næsta fiskveiðiár.
Síðan ríkisstjórnin ákvað niðurskurðinn hafa fjölmargir Vestfirðingar komið fram í fjölmiðlum bölvandi og ragnandi og margir gengið svo langt að hafa í hótunum við sjávarútvegsráðherra og jafnvel hvatt til þess að lög og reglur verði brotnar. Þó mönnum sé heitt í hamsi er svona framkoma engum til sóma.
Vandi Vestfjarða er margvíslegur og vart neitt eitt sem lagar stöðu þeirra í þjóðfélaginu. Nú er brýnt að þeir skoði sinn gang og láti af stöðugum barlómi og harmagráti. Í sannleika sagt hafa eilífar vandamálafréttir af Vestfjörðum eyðilagt meira fyrir landshlutanum en flest annað.
Hvaða skilaboð eru það til þjóðarinnar að allt sé í kaldakoli á Vestfjörðum? Jú, nákvæmlega það að fólk mun hugsa sig tvisvar um áður en hugar að því að flytjast þangað búferlum.
Og hvað hugsa þeir sem hafa áhuga á að stofnsetja fyrirtæki? Þeir hugsa sig án efa tvisvar um - ef ekki oftar. Til hvers að stofna til atvinnurekstrar þar sem allir eru síkveinandi og kvartandi, íbúarnir á harðahlaupum í burtu, atvinnureksturinn í stökustu vandræðum og ekkert ljós í svartnættinu?
Má þá eiginlega ekkert segja? kann einhver Vestfirðingurinn að hrópa. Að sjálfsögðu er ég ekki að mælast til þess að málfrelsið sé takmarkað. Hins vegar er vert að huga svolítið að þeirri mynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér í augum annarra landsmanna síðustu misserin, huga að almannatengslum og markaðsmálum.
Ég met Vestfirði og íbúa landshlutans mikils og vona að þessi orð mín verði ekki misskilin enda er sá vinur sem til vamms segir. Það er uppbyggilegt að fara að ráðum bæjarstjórnar Bolungarvíkur, ræða málin af skynsemi og framar öllu óska eftir samráði við ríkisstjórn um viðbrögð til að minnka eða koma í veg fyrir áföll vegna skerðingar á þorskkvóta. Hávaði og læti leysa engan vanda.Bæjarráð Bolungarvíkur virðir ákvörðun sjávarútvegsráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.