Þrjár gönguleiðir að gosstöðvunum við Litla-Hrút

IMGL0081_IMGL0083 Neo

Þegar byrjaði að gjósa við Litla-Hrút missti löggan og almannavarnir alla skynsemi. Halda að fólk muni bruna á staðinn og hlaupa beint í glóandi kvikuna eða jafnvel ofan í eldsprungu. Langflestir fara varlega og kunn fótum sínum forráð hvort sem um er að ræða eld eða gasmengun.

Löggan og almannavarnir virðast ekki vita margt um útiveru og gönguferðir. Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi gekk fólk upp og niður á einum degi, meira en þrjátíu km. Önnur leið var ekki í boði. Uppi á Hálsinum strengdi löggan gula borða hér og þar, þóttist vera að vara við einhverri hættu. Þeir fuku auðvita og margir fundust löngu síðar samankuðlaðir í hrauninu. 

Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall lokaði löggan beinlínis öllum stystu leiðunum og hvatti fólk til að ganga frá Grindavík eða Bláa lóninu. Ástæðan var einföld, löggan vissi ekkert hvað skyldi taka til bragðs. Atti fólki út í ófærur.

Nú gýs við Litla-Hrút og þá lokar löggan leiðinni að Höskuldarvöllum og veginum um Móhálsadal, lokar aðgengi að Vesturhálsi en af honum er engu að síður besta útsýnið til gosstöðvanna. Margir þurfa ekki að fara lengra. Þar er engin hætta á gasmengun, eiturgufum af neinu tagi. En auðvitað veit löggan ekkert um það.

Löggan vill frekar að fólk gangi enn lengri leið en þörf er á en gerir sér ekki grein fyrir hættunni. Allur almenningur veit að þegar vindurinn er í bakið er engin hætta á gasmengun, löggan áttar sig ekki á því.

Fólk er ekki fífl jafnvel þó löggan haldi það.

Litli-Hrútur leiðirÁ meðfylgjandi korti eru teiknaðar þrjár skástu leiðirnar að gosstöðvunum.

Ég mæli með þeirri sem er blálituð, að minnsta kosti meðan vindur er ekki vestlægur. Gallinn við þessa leið er að fara þarf um Móhálsadal en þar er vegurinn talsvert grófur, þó er fjórhjóladrif ekki nauðsynlegt. Gengið er frá Krókamýri og upp á Vesturháls. Gömlum jeppavegi er fylgt til að byrja með en snúið af honum og haldið vestur yfir Hálsinn. Sjá nánar ljósmyndina. 

Screenshot 2023-07-11 at 13.23.39Litla myndin sýnir gróflega ómerkta gönguleið frá Krókamýri og yfir Vesturháls að Skolahrauni.

Í Skolahrauni eru víða troðningar yfir hraunið. Gott er að skoða landkort á netinu áður en lagt er í gönguna.

Síðast gekk ég yfir Vesturháls daginn áður en gaus. Sunnan við Krókamýri er Hálsinn mjög brattur vestan megin og getur þar verið mörgum erfiður. Frá Krókamýri og upp á Hraunsels-Vatnsfell eru um fimm km gangur.

Næst besti kosturinn er að ganga eftir jeppaveginum (gul punktalína á kortinu) sem liggur austan við „gömlu“ eldstöðvarnar. Hann er ágætur fyrir gangandi og hjólandi. Ég hef nokkrum sinnum farið þessa leið á rafhjóli sem er frábært. Leiðin er um átt km löng, en mjög auðveld, frekar slétt alla leiðina.

Lakasti kosturinn er A leið löggunnar, jarðýtuleiðin frá bílastæðunum og upp á Fagradalsfjall (merkt með grænum lit). Leiðin er um tíu km löng, tuttugu alls. Munurinn á þessari leið og jeppaveginum er að sá síðari er mun sléttari, enginn bratti. Kosturinn við leiðina er að hún er mjög greinileg og varla möguleiki á að villast. Hægt er að ganga jeppaveginn til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem lögregla, almannavarnir, viðbragðsaðilar og björgunarsveitir hafa lært af síðustu gosum, hafi þeim ekki verið það full ljóst fyrir, er að fólk er fífl. Og það gengur eins og rauður þráður gegnum sögu banvænna slysa á ferðamönnum, innlendum sem erlendum. Því sama hvort það eru gosstöðvar eða Reynisfjara þá fer fólk ekki eftir leiðbeiningum, passar sig ekki og, eins og maðurinn sem vildi ekki nota öryggisbelti en ætlaði að skella því á sig ef hann væri að lenda í árekstri, hafa enga hugmynd um hversu hratt veður og vindáttir geta gert fína útsýnisstaðinn banvænan. Og ekki er gáfulegri kórinn sem vill endilega teppa með göngufólki leið sem er frátekin leið þeirra sem sjá um að koma hjartveikum, örmagna eða slösuðum til aðstoðar.

Ef við gefum okkur það að flestir fari varlega og kunni fótum sínum forráð þá þarf bara að ákveða hversu mörg dauðsföll eru ásættanleg í hinum hópnum áður en farið er að loka, takmarka, stýra umferð og reikna með að allir séu mögulega alger fífl. Er það 1 á dag? 2? 10? Hver er töfra talan yfir ásættanleg dauðsföll?

Glúmm (IP-tala skráð) 11.7.2023 kl. 23:03

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er nú meiri dellan.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.7.2023 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband