Eru líkur á eldgosi við Fagradalsfjall innan tveggja vikna?

Þriðja lota elda á Reykjanesi er hafin með mikilli jarðskjálftahrinu norðvestan við Faradalsfjall. Skjálftarnir eru án efa vegna kvikugangs sem liggur suðaustur frá Keili og í áttina að gossvæðinu frá árunum 2021 og 2022.

Samkvæmt lauslegri athugun á jarðskjálftunum á vefum Veðurstofnunnar og map.is virðast upptök skjálftanna vera dýpri rétt suðvestan við Keili, á að giska fimm km, og þar eru þeir snarpastir. Nær gosstöðvunum í Meradal veru þeir færri en grynnri, upptökin nær fjórum km á dýpt.

Þetta er svipað og fyrir gosið við Fagradalsfjall árið 2021. Færðust þá upptökin æ nær svokölluðum Geldingadal þar sem loksins gaus. Jarðskjálftahrinan árið 2021 náði til sjávar og undir hafsbotninn.

Í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Hins vegar geta jarðskjálftar verið undanfari eldgosa. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En fáir gefa þeim gaum nema jarðfræðingar sem skoða þá vandlega, og að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira sem getur bent til að gos sé að hefjast.

Jarðfræðingar hafa í fréttamiðlum sagt að skjálftavirknin milli Fagradalsfjalls og Keilis sé svo ofsafenginn að miklar líkur séu til þess að jörð sé að bresta og eldur komi upp á yfirborðið. Miðað við reynsluna af síðustu gosum er ekki ólíklegt að nú gjósi innan tveggja vikna. Möttulkvikan virðist hafa fundið kvikuganginn sinn og þrýstingur frá henni sé nægur til að hreyfa við jarðskorpunni, valda skjálftum.

IMGL0997_IMGL0999 Aur

Hvað gerist næst? Miðað við það sem gerðist árið 2021 er hægt að ímynda sér að kvikugangurinn lengist í suðvestur, og aftur gjósi á sömu slóðum. Þá fullyrtu jarðvísindamenn að hann væri undir Nátthagdal og jafnvel undir gönguleið A. Fjölmargir skjálftar mældust undir sjávarbotni og  veltu margir því fyrir sér hvort gjósa myndi í sjó. Það getur allt eins gerst núna.

IMGL0996 NeoEfri myndin hér fyrir ofan er tekin norðan við Meradalshnúk. Þar er talsverð slétta allt að fjalli sem nefnist Kistufell og er Keilir í hvarfi við það. Á miðri myndinni má greina jarðfall eða sprungu sem sést betur á þeirri neðri.  

Jarðvísindamenn hafa lengi haft mikinn áhuga á sprungunni og sett einhver mælitæki við hana. Ástæðan er sú að sprungan virðist vera í beinu framhaldi af kvikuganginum sem olli gosinu í Geldingadal og Meradal. Ef til vill er hún núna að gliðna. Hver veit.

Þarna gæti gæti gosið og það er hinn besti staður Hraun myndi fyrst og fremst renna í Meradal og fylla hann. Flæddi út úr honum rynni hraun í Skolahraun og suður til sjávar.

KortHér er kort af skjálftum síðustu dægra tekið af map.is sem er afskaplega góður vefur fyrir þá sem áhuga hafa á landafræði og ekki síður jarðskjálftum.

Ágætt er að tvísmella á myndir og kort til að stækka.

Neðsta myndin er tekin ófrjálsri hendi af vef Veðurstofunnar og sýnir upphaf eldgossins í Meradal. Eldsprungan teygir sig þarna upp í hlíð Merarfells. Sprungan sem nefnd var hér fyrir ofan og örin bendir á, er í beinu framhaldi af eldinum.

Af hverju var sprungan í Meradal svona stutt, komst ekki upp á sléttuna fyrir ofan. Skýringin er einföld, gosið var frekar kraftlítið, ekki nógur þrýstingur í kvikuganginum.

 

Screenshot 2023-03-25 at 10.36.06

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þegar ég vaknaði við skjálftann kl 4:20 í nótt var það fyrsta sem ég hugsaði að þetta var alveg eins og síðast þegar gaus. Þá hafði verið mikil smáskjálftavirkni í aðdragandanum og svo kom einn svona stór skjálfti um miðja nótt með nokkrum álíka eða aðeins minni eftirskjálftum og áframhaldandi smáskjálftavirkni í kjölfarið. Örfáum dögum seinna fór að gjósa.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.7.2023 kl. 13:54

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þetta er mjög líkt. Smáskjálftavirknin segir mikið.

Ég hef aðeins orðið var við tvo stóra skjálfta. Bý í Vatnsendahverfi. Báða skjálftana gat ég rakið innan 1 km SSV af Keili. Jafnstóra og stærri skjálfta á svipuðu svæði berast ekki hingað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.7.2023 kl. 14:51

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hérna í grennd við miðbæ Reykjavíkur hef ég fundið vel fyrir öllum skjálftunum sem hafa verið yfir 4 og núna fyrir rúmum hálftíma fann ég ágætlega fyrir einum sem er sagður hafa verið 3,7.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.7.2023 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband