Einfaldur og aðlaðandi ritstíll Jóns Steinars

Ég dáist að ritfærum og málsnjöllum mönnum, ekki endilega vegna málstaðarins heldur hvernig þeir segja frá og beita rökum sínum. Einn þeirra er Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, og fyrrum dómari við Hæstarétt. Hann ritar grein í Morgunblað dagsins og svarar þar Jónasi Haraldssyni, lögmanni sem ritað hafði grein í sama blað um Jón Steinar.

Jón Steinar á auðvelt með skrif. Stíllinn er yfirleitt léttur og auðlesin, málsgreinar hóflega langar, röksemdafærslan einföld og aðlaðandi. Jafnvel svo að lesandinn hallast yfirleitt að málstað höfundarins sé hann á annað borð opin fyrir rökum annarra en ekki samansúrraður „beturvitrungur“ eða með fyrirframgefnar skoðanir sem ekkert bítur á. Erindi Jóns Steinars er oft að kynna önnur sjónarmið sem eru ekki síður mikilvæg en þau sem meirihlutinn virðist aðhyllast. Lífið er ekki einföld stærðfræði með óumbreytanlegum gildum né er allt annað hvort svart eða hvítt. Því er ágæt regla að hlusta á fleiri en þá háværu því þeir eru sjaldnast handhafar sannleikans.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Jón Steinar:

Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

Svona skrif eru snjöll og mættu aðrir taka sér þau sér til fyrirmyndar. Jón Steinar lemur ekki á gagnrýnanda sínum með fruntaskap eða persónulegum ávirðingum. Enginn „fésbókarstíll“ er á svarinu. Hann ber virðingu fyrir gagnrýni Jónasar þó svo að hún sé frekar meiðandi.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ákaflega léttvægt líki einhverjum ekki við annan mann. Þýðir það að allt sem hinn leiðinlegi eða vondi hefur til málanna að leggja sé algjör óhæfa eða bull? Auðvitað ekki. Rök má ekki að skoða sem framhald af persónu þess sem þau leggur fram. Á þau ber að líta algjörlega sjálfstætt og samþykkja og hafna eftir atvikum.

Afar fróðlegt er að lesa grein Jóns Steinars og læra af henni hvernig best er að rökræða. Það ætti aldrei að gerast með skítkasti eins og svo algengt er í ritdeilum hér á landi, því miður. Ein mesta forarvilpan er á „fésbókinni“ og sulla þar margir án annarra sýnilegra erinda en að niðurlægja aðra. Vera má að mannlegt eðli sé einfaldlega þannig.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Vel athugað.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.2.2022 kl. 15:54

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Tek undir hvert orð síðuhafa nema eitt, í efstu línu pistilsins. Það er orðið málstaðsins. Mér kann að skjátlast um þetta, en teldi málstaðarins hljóma betur.    

 Afsakaðu smámunasemina Sigurður.

 Góðar atundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 17.2.2022 kl. 23:32

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góðar stundir, með kveðju að sunnan átti þetta að vera. Ég er tíþumlaður, er kemur að plokki á þessi tækniundur.

Halldór Egill Guðnason, 17.2.2022 kl. 23:34

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir að benda mér á villuna, Halldór. Var margbúinn að lesa yfir en sá hana aldrei.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.2.2022 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband