Déskotinn
17.12.2021 | 13:54
Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan föstudag þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari. Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, með einari eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til. En ég bakkaði fyrst og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti. Útafakstur bannaður, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott. Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir löggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.
Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningu minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.
Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.
Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.
Það kemur í ljós, sagði löggan, og brosti feimnislega. Blástu.
Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.
Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.
Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.
Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.
Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum. Mér misheppnaðist.
Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.
Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var eiginlega ekki spurning.
Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.
Löggan horfði á mig, gleðilaust.
Ég gaf í, rúllaði upp öllum gluggum og saug upp í nefið, gerði þetta allt þrennt án vandræða. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.
Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.
Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta! ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.
Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.
Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...
Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór með einari, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli.
Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.
... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.
Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?
Þá vaknaði ég. Sá að sængurverið var rifið, lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.
Déskotinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.2.2022 kl. 22:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.