Er markmiðið í stjórnmálum að ófrægja andstæðinginn?
31.1.2021 | 17:33
Sé ætlunin að berja á andstæðingi í stjórnmálum, niðurlægja hann eða ófrægja er aðferðafræðin þessi:
- Vitna í orð andstæðinganna
- Fara rangt með tilvitnunina
- Leggja út af hinni röngu tilvitnun
- Fá fleiri til að gera hið sama
Þetta kann Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar flestum betur og fer nákvæmlega eftir þessum fræðum. Hún skrifar grein í Morgunblaðið 30. janúar 2021, sjá hér.
Og svona gerir hún:
Vitnar í orð andstæðinganna:
Það kom líka berlega í ljós á Alþingi í vikunni þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, út í afstöðu hans til sífellt verri stöðu Íslands í þessum málum. Því miður báru svör formanns Sjálfstæðisflokksins með sér að hann telur skýrslur sem þessar, sem og niðurstöður GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, ekkert til að hafa áhyggjur af.
Fer rangt með tilvitnunina:
Svo virðist sem formaður Sjálfstæðisflokksins telji það engin áhrif hafa á íslenskt atvinnulíf og efnahag þjóðar að hér aukist spilling jafnt og þétt á valdatíma hans, en þá er rétt að benda honum á að við ákvörðun um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi er einmitt horft til stöðu ríkja er varðar spillingu.
Leggur út af hinni röngu tilvitnun:
Allt samfélagið tapar trúverðugleika á altari sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins. Rannsóknir sýna að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarmannréttindum og lífsgæðum almennings.
Fá fleiri til að gera hið sama
Þessu gleymdi þingmaðurinn en veit svo sem að upphlaupslið Samfylkingarinnar tekur undir orð hennar í athugasemdadálkum fjölmiðla. Og auðvitað gerist það.
DV segir frá Moggagrein Helgu Völu Helgadóttur, alþingismanns. Og í athugasemdadálkinum vantar ekki skítlegar athugasemdir.
Jón Hreggviður Helgason segir:
Leggja þennan Sjálfstæðis NASISTA FLOKK NIÐUR hann byggist á spillingu auðvaldsins
Jóna Ástríður segir:
Djöfuls hroki og spilling í þessu bláa liði,nú er það ekki bláa hendin,það er bláar eiturtúngur.
Æsingurinn er slíkur að fólk sem svona talar er til alls víst komi það höndum yfir heykvíslar, hafnaboltakylfur, snæri og ... eitthvað enn hættulegra.
Þetta er skrifað á þeim dögum sem flestir stjórnmálamenn og gott fólk hvetja til hófsemi í orðræðu og fordæma skotárásir á stjórnmálaflokka, árás á bíl borgarstjóra og svo framvegis. Þá segist Helga Vala Helgadóttir alþingismaður vera góða fólkið. Lesendur taka eflaust undir það eftir að hafa lesið ofangreint.
Orð Bjarna
Og hvað sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í tveggja mínútna svari í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Í frétt á mbl.is segir:
Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við getum gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áberandi í skýrslu sem þessari, og það sama á við um GRECO-úttektir, er að það eru ekki endilega dæmin um spillingarmál sem menn hafa í höndunum, heldur tilfinningin fyrir því að einhvers staðar grasseri spilling, einhver svona óljós tilfinning. Oft gerist það nú þegar formenn í stjórnmálaflokkum koma upp og tala einmitt inn í þá tilfinningu, að hún versnar,“ sagði Bjarni.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar er hún fullyrðir að Bjarni segi að skýrslan sé ekkert til að hafa áhyggjur af.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar og segir að Bjarni hafi engar áhyggjur af spillingu.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, leyfir sér að draga rangar ályktanir af upploginni tilvitnun sinni er hún talar um sérhagsmuni Sjálfstæðisflokksins.
Markmið Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns, virðist ekki vera að vinna fyrir samfélagið heldur að ófrægja aðra. Hún gerir það af mikilli list.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.