Brjóta jólahefð, Covid test og Víðir afkvíaði sig
26.11.2020 | 13:45
Orðlof
Bratti
Að eiga á brattann að sækja þýðir að mæta mótstöðu; eiga erfitt uppdráttar; lenda í þrengingum.
Þarna er trúlega, segja fróðir menn, nafnorðið bratti, og líkingin dregin af fjallgöngu, ekki lýsingarorðið brattur, og því eru n-in tvö. Þetta áréttast hér, því enn sækja sumir á brattan.
Málið, blaðsíða 19 í Morgunblaðinu 25.11.20.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Breytt nafn hugsanlegt.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Mikill munur er á því að breyta nafni og breyta um nafn. Fréttin er um hið síðarnefnda og því er fyrirsögnin röng.
Umræðuefnið er tungubrjóturinn Iceland air connect, flugfélag sem hét lengi því laglega nafni Flugfélag Íslands. Svo ákváðu gáfumenn að breyta um nafn og síðan þá hefur leiðin legið fjárhagslega niður á við því aðeins örfáir af alþýðukyni gátu borið það fram og enn færri munað það. Færa má rök fyrir því að nafnbreytingin hafi verið gerð til að þóknast fólki sem ekki talar íslensku sem segir allt um viðhorfið til heimamanna.
Eigandi flugfélagsins er flugfélagið sem einu sinni hét því ágæta nafni Flugleiðir. Síðar ákváðu afar klárir gáfumenn að breyta nafninu í Icelandair. Þar sem enginn hörgull er á gáfumönnum á Íslandi tóku þeir sig til og bættu við einhverju um group á ensku og þótti flott að tengja við ensk fyrirtækjanöfn. Og nú á Icelandair group flugfélagið Icelandair sem á Iceland air connect.
Samkvæmt fréttinni er ætlunin að setja innanlandsflugfélagið beint undir utanlandsflugfélagið. Ekki er að efa að hinir alþjóðlega þenkjandi stjórnendur Íslandsflugs hljóti að geta komið með enskt nafn fyrir innanlandsflugið, nafn sem verulegt bragð er af fyrir útlendinga og við alþýða manna getum hvorki borið fram eða fest okkur í minni. Iceland air domestic most lovely connection, Iceland air clean eða eitthvað svoleiðis. Kætast þá gáfumenn út um alla móa.
Tillaga: Breyta hugsanlega um nafn.
2.
Ríflega tuttugu ára jólahefð brotin
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Líklegra er að hefði hafi verið rofin sem er auðvitað allt annað en að hún hafi verið brotin.
Stundum finnst mér að blaðmenn mættu hafa meiri orðaforða. Í fréttum segir stundum að eitthvað sé verra en áður. Auðvitað veltur það á umfjöllunarefninu en oft fer betur á því að segja að eitthvað sé lakara. Námsárangur barna getur verið verri en áður, en ef til vill er hann lakari. Nema hann sé betri og þó kann að vera að hann sé skárri.
Blæbrigð íslenskunnar geta verið stórkostleg sé orðaforðinn fyrir hendi og skrifarar kunni að beita honum.
Tillaga: Ríflega tuttugu ára jólahefð rofin.
3.
Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid test.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Aragrúi frétta fjalla um heimsfaraldurinn en afar sjaldgæft er að þríeykið eða aðrir sletti. Ávallt er tala um sóttkví, smit, sýnatöku, smitrakningar og svo framvegis og er það afskaplega gott og til eftirbreytni. Engin hörgull er á góðum íslenskum orðum sem túlka það sem skýra þarf.
Við þurfum þess vegna ekki Covid test, getum farið í sýnatöku á næstu heilsugæslu.
Tillaga: Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid sýnatöku.
4.
Annir kalla á aukna innviði.
Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 25.11.20.
Athugasemd: Innviðir eru samkvæmt orðabókinni máttarviðir í húsi eða skipi. Í yfirfærðri merkingu er í hagfræðinni sagt að þeir séu undirstöður efnahagslífs, nefna má fjarskipta- og samgöngumannvirki, skóla, sjúkrahús og álíka. Enskir tala hér um infrastructure.
Allur andskotinn er nú orðinn að innviðum og sífellt er tönglast á orðinu rétt eins og til að gefa skrifum gáfulegra yfirbragð. Samlíkingin er orðin að leiðigjarnri klisju. Þar að auki gengur hún ekki alltaf upp. Svo marga innviði má setja í eitt hús að ekki verði lengur komist inn í það.
Fréttin fjallar um málefni íslenska fyrirtækisins með furðunafnið Isavia og Keflavíkurflugvallar og þar er talað um innviðauppbyggingu. Lesandinn veltir óhjákvæmilega fyrir sér hvað séu innviðir Keflavíkurflugvallar. Líklega flugbraut, flugstöðin, flughlað og annað sem nauðsynlegt má teljast. Í lok fréttarinnar segir:
Öll okkar verkefni snúa að því að geta bætt við afkastagetu og hafa hana sem hagkvæmasta.
Er þetta ekki kjarni málsins? Í stað hinnar óljósu klisju innviðuppbygging gæti komið hagkvæmni eða afkastageta. Eða bara telja upp það sem teljast burðarásar í starfseminni. Allt annað eru afleidd verkefni og því hvorki burðarásar né innviðir.
Tillaga: Annir kalla á meiri uppbyggingu.
5.
Enginn annar í teyminu en Víðir þurfti að fara í sóttkví, því Víðir brást fljótt við og afkvíaði sig.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Beinast liggur við að skilja þetta svo að maðurinn hafi hætt í kvínni, sóttkvínni. Má vera að sagnorðið afkvía sé tilbúningur blaðamannsins, það finnst að minnsta kosti ekki í orðabókinni sem ég fletti upp í.
Af er þarna forskeyti og getur merkt breytingu sem dregur úr einhverju. Nefna má afboða, þegar hætt er við eitthvað sem boðið hefur verið í. Svipað er með orð eins og aflýsa, aftengja, afhýða, aflífa og fleiri. Allir vita hvað þau merkja og hvernig upp byggð. Í ljósi þessa hlýtur sá sem er afkvíaður að vera farinn úr kvínni, sóttkvínni. En varla getur sá afkvíað sig sem ekki hefur þegar farið í kví. Dauð kind verður ekki aflífuð og varla verður sama eplið aftur afhýtt.
Málsgreinin er illskiljanleg og ekki vel skrifuð.
Svona getur farið þegar blaðamenn láta ekki einhvern lesa yfir fyrir sig.
Tillaga: Í teyminu þurfti enginn nema Víðir að fara í sóttkví og var hann fljótur að því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2020 kl. 07:17 | Facebook
Athugasemdir
Sæll!
Mér er minnisstætt að þegar sagt var frá nafnabreytingunni á Flugfélagi Íslands í útlenska nafnið á sínum tíma, þá missti fréttamaður Ríkisútvarpsins út úr sér eftir lestur fréttatilkynningar: "Þess skal getið að í dag er dagur íslenskrar tungu".
Kv. Magnús
Magnús Axel Hansen (IP-tala skráð) 26.11.2020 kl. 14:32
Þakka, Magnús.
Ætli fréttamaðurinn hafi ekki sagt þetta af strákskap sínum einum saman.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.11.2020 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.