Eiga samtal, silfurskeið í heimanmund og kviss
15.11.2020 | 11:00
Orðlof
Appelsínugulur
Nú vita líklega allir hvaða lit er átt við þegar sagt er að eitthvað sé appelsínugult.
Þetta orð er þó ekki gamalt í málinu, og virðist ekki fara að breiðast út fyrr en eftir 1960 þegar appelsínur fóru að verða algengari sjón hér á landi.
Liturinn var þó vitaskuld þekktur áður, en var þá kallaður rauðgulur.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Herra forseti, ég hlakka til að eiga samtal við þig.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Stundum er málinu skrýtilega beitt. Þarna hefði til dæmis farið betur á því að nota sögnin að ræða frekar en nafnorðið samtal.
Í fréttinni er sagt frá verðandi forseta Bandaríkjanna sem vill ræða við núverandi forseta en sá síðarnefndi gefur ekki færi á því.
Orðalagið að eiga samtal ber er dálítið enskt, eiga fund, eiga samræður, eiga tal. Svo fletti ég upp í enskum fjölmiðlum. Á Sky er haft eftir Biden:
Mr President, I look forward to speaking with you.
Blaðamaðurinn þarf að vera smitaður af nafnorðasýki til að þýða þetta á annan veg en segir í tillögunni.
Í íslensku máli er megináhersla lögð að notkun sagnorða. Enskan er nafnorðamál. Fyrir alla muni ekki vera svo mikið á kafi í ensku að gæta ekki að einkennum íslenskunnar í þýðingum.
Tillaga: Herra forseti, ég hlakka til að ræða við þig.
2.
Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund.
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 13.11.20.
Athugasemd: Heimanmundur er samkvæmt orðabókinni:
meðgjöf sem brúður fær með sér að heiman þegar hún gengur í hjónaband
Óljóst er hvað átt er við með orðalaginu. Einna helst má ráða að fjölskylda hans hafi verið fátæk. Sé svo hefði verið gráupplagt að orða það þannig.
Svo er það þetta með silfurskeiðina. Yfirleitt er talað um að fæðast með silfurskeið í munni, ekki að henni sé troðið upp í börn síðar á lífsleiðinni.
Í bókinni Mergur málsins segir um orðalagið.
Hljóta gott atlæti (allt) frá fæðingu; eiga vel stæða foreldra. [ ] Líkingin dregin af því er börnum (vel stæðra foreldra) er gefin silfurskeið í fæðingargjöf.
Hér hefur greinilega eitthvað misskilist hjá blaðamanninum.
Tillaga: Vincent Tan er fæddur árið 1952, fjölskyld hans var fátæk.
3.
Hann kljáðist einnig við fjölda annarra heilsubresta.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sögnin að kljást við merkir að berjast við. Þó orðið komi svolítið ankannalega fyrir sjónir í þessu samhengi er ekkert að því. Einfaldara er samt að segja að maðurinn hefði barist við, átt við að etja og svo framvegis.
Allt annað er með nafnorðið heilsubrestur sem er eintökuorð og því ekki til í fleirtölu. Hins vegar er nafnorðið brestur til bæði í eintölu og fleirtölu.
Tillaga: Hann átti einnig við margvíslegan annan heilsubrest að etja.
4.
Að auki ber Björn ábyrgð á tveimur gríðarvinsælum spilum sem landsmenn hafa slegist um en þetta eru að sjálfsögðu Pöbbkviss og Krakkakviss
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ólíkt hafast menn að. Þeir eru til sem halda að allt sem á rót sína að rekja í enskt mál sé best í öllum heimi. Virðingin fyrir íslenskunni er engin og um að gera að eiga þátt í því að geta út af við hana.
Hugmyndaflugið takmarkast við kviss en ekki gátur, getraunir, spurningaleiki, ágiskun, þrautir og svo framvegis. Nei, kviss skal það vera. Aðþíbara.
Fyrir þá sem ekki vita getur forvitinn á ensku verið inquisitive. Af því er leitt orðið quiz sem meðal annars þýðir spurningakeppni og er mikið notað í enskumælandi löndum. Eftir að orðinu hefur verið nauðgað inn í íslensku er það skrifað kviss sem er álíka íslenskt eins og sjitt.
Svo eru það hinir sem nota tungumálið af list og næmleika sem er raunar einkenni þeirra sem víða hafa ratað en kjósa að tala íslensku við viðskiptavini sína.
Um þetta fólk segir í frettabladid.is:
Það hefur verið mikil umræða um slaka stöðu íslenskunnar og minnkandi lestrarfærni. Orðagull er einmitt ætlað til að efla bæði málþroska og læsi.
Já, ólík er nálgunin.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.