Standa á herðum þeirra, alvarleiki áverka og sigra væntingar
11.11.2020 | 01:09
Orðlof
Ástaraldin
Núorðið má sjá í verslunum ýmsa torkennilega ávexti sem heita margvíslegum nöfnum. Einn þessara ávaxta ber heitið passion fruit á ensku og rómantískir verslunareigendur gáfu honum hið fallega nafn ástaraldin.
Þessi þýðing mun þó ekki vera kórrétt, því passion í enska heitinu vísar í píslarsöguna, um dauða og upprisu Jesú Krists (sbr. Passíusálmana).
Ástaraldinið ætti því með réttu að heita píslarpera eða eitthvað í þá áttina.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ég stend á herðum þeirra, sagði hún.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ómöguleg þýðing á orðum Kamila Harris sem er nýkjörinn varaforseti Bandaríkjanna. Hún er ekki að tala um fimleika heldur þá arfleifð sem hún byggir á í hinni nýju stöðu.
Á ensku er sagt: stand on their shoulders. Þetta þýðir enska orðabókin sem svo:
benefit from the previous experience of (a predecessor in your field).
Þetta útleggst þannig að njóta reynslu og þekkingar forvera sinna, þeirra sem rutt hafa brautina eða genginna kynslóða.
Blaðamenn verða að varast beinar þýðingar. Það er hreinlega ótrúlegt þegar þeir þýða eins og Google Translate. Beinni þýðingu fylgir svo hræðileg uppgjöf fyrir utan þann skaða þegar sum orð eða orðalag festast í málinu. Ótal dæmi eru um slíkt; kalla eftir er eitt þeirra.
Tillaga: Ég nýt reynslu þeirra sem ruddu brautina.
2.
Alvarleiki áverka fólksins liggur ekki fyrir að svo stöddu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þarna hefði verið betra að orða þetta eins og segir í tillögunni. Engin ástæða er að klæða frétt í einhvern kansellístíl. Einfalt orðalag er best.
Tillaga: Ekki er vitað hversu mikið fólkið er slasað
3.
50 milljónir smita á heimsvísu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Er skýrara og betra að tala um heimsvísu eða heiminn? Blaðamenn ofnota orð og orðatiltæki. Einfaldleikinn er bestur. Berum saman fyrirsögnin og tillöguna hér fyrir neðan. Hvort er eðlilegra?
Tillaga: 50 milljónir smita í heiminum.
4.
Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Blaðamenn tala oft um að einhver sigri keppi, sigri mót, sigri kosningar og það nýjasta er að sigra væntingar. Þetta er varla tilviljun. Hver getur ástæðan verið? Er fólk ekki betur að sér? Vonlaust er að sigra keppni. Hægt er að sigra í keppni, móti og kosningum.
Í fréttinni segir:
Það breytir þó engu um úrslitin, enda Biden að gjörsigra bæði ríkin.
Í hverju sigraði frambjóðandinn þessi ríki. Ekki í kosningum því þau voru ekki í framboði. Blaðamaðurinn gleymdi forsetningunni í eða taldi hann sig ekki þurfa á henni að halda, lesendur áttu bara að giska á hvað hann átti við. Maðurinn sigraði í kosningunum í báðum ríkjunum.
Í fréttinni segir:
Þá eru úrslit óljós í Georgíu, þó þar stefni vissulega í Biden sigur.
Hann á væntanlega við sigur Bidens sem er eðlilegra orðalag.
Ennfremur segir í fréttinni:
Líklegast þykir að Biden taki Georgíu og Arizona af þeim ríkjum hvers úrslit eru enn óljós.
Er ekki betra að segja en í þeim eru úrslitin ekki að full kunn?
Nástaðan er hryggileg í fréttinni:
Það er stærri sigur en Trump sigraði með árið 2016 og stærri en báðir sigrar George W. Bush. Reyndar má benda á að engin forseti sem sigraði með milli 300 og 309 kjörmönnum sat tvö full kjörtímabil.
Þarna er orðið sigur óþarflega oft endurtekinn. Annar staðar er sögnin að vinna álíka oft notuð að þarflausu. Ritstjórar lesa aldrei fréttir yfir fyrir birtingu en hefðu átt að gera það og biðja blaðamanninn um að endurskrifa hana, vanda sig betur.
Og loks segir blaðamaðurinn og heita má að hann höggvi enn í sama knérunn:
Kosið verður á ný um tvö sæti Georgíu í öldungadeildinni í janúar. Sigri Demókratar hana
Sigri kosninguna? Svona skrif eru alls ekki góð.
Tillaga: Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði staðið sig betur en búist var við
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.