Svo kom vökunótt

Staðarfell gamlaÞau voru fjögur á ferð, réru frá Hjallanesi þennan stutta spöl út í Hjalleyjar. Tilgangurinn var að taka saman hey sem þar hafði verið slegið. Óþurrkar höfðu verið um sumarið, heyskapur gengið treglega og jafnvel þó komið væri fram í október var talið mikilvægt að hirða sem mest fyrir veturinn þó svo að það sem næðist væri sett í vothey. 

Undirlendi er lítið frá Staðarfelli í vestur. Um tíu km langur fjallgarður 200 m hár rís upp frá ströndinni og nær út að bænum Ytrafelli.

SlysstaðurÞann 2. september 1920 hafði verið hvasst af austan og í þeirri átt gat verið misvindasamt undir fellunum. Hugsanlega hafa fjórmenningarnir álitið að veðrið væri að ganga niður og því óhætt að fara út í eyjarnar. Aftur hvessti að austan og jafnvel hefur hann snúist í norðaustan og um leið kólnað. Eðlisfræðin segir að kalt loft sé eðlisþyngra en hlýrra. Það veldur því að hvass vindurinn þyngist og hraði hans verður meiri en ella er hann hrapar niður að sjó.

Fjórmenningarnir gengu frá Staðarfelli um hádegi og að Hjallanesi þar sem báturinn var í nausti. Þaðan er aðeins tæpur einn km að austasta hólmanum í Hjalleyjum.

Enginn veit hvað gerðist en atburðarásin gæti hafa verið á þessa leið:

Báturinn er sjósettur. Einn situr í skut og stýrir, tveir róa og konan situr í stefni. Vindur er í bakið en byrjað er að fjara. Skyndilega hvessir. Austan stormurinn snýst í norðaustanátt og það brimar við eyjarnar. Bátinn ber hratt meðfram þeim og bátsverjar ráða lítið við hann. Straumurinn eykst vegna útfallsins. Hætta er á að hann strandi á skerjunum í kringum eyjarnar og brotni, þá yrði öllu lokið. Einn bindur bátsfestina um mitt sér, stekkur út á skeri sem eru við vestustu eyjuna og reynir að stoppa rekið. Ræðararnir eru báðir komnir á sama borð og nota árarnar til að stjaka bátum frá skerjunum. Báturinn tekur niðri, alda fyllir hann.

Gestur Z MagnússonHjalleyjar eru undan bænum Harastöðum, aðeins einn km frá bæjarhúsunum að slysstaðnum. Húsfreyjan sér til ferða bátsins en líklega áður en fór að hvessa aftur og allt stefndi í óefni. Hún heldur áfram við heimilisverkin því ekkert sem benti til að slys sé yfirvofandi. Líklega liðu tvær klukkustundir þangað til að hún áttaði sig á því að eitthvað alvarlegt hefði gerst og gerir öðrum viðvart. Þá hafði lægt mikið.

Þau sem létust þennan dag fyrir 100 árum voru Gestur Zophonías Magnússon 31 árs, Magnús Zophonías Guðfinnsson 22 ára, Þorleifur Aðalsteinn Guðmundsson 37 ára, vinnumaður, og Arndís Sigríður Guðbrandsdóttir 28 ára vinnukona. Öll voru þau ógift og barnlaus og bjuggu á Staðarfelli.

Árið 1903 keyptu hjónin Magnús Friðriksson (1896-1949) og Soffía Gestsdóttir (1866-1946) Staðarfell, bættu jörðina og byggðu þar reisulegt steinhús. Þau áttu þrjú börn; Björgu (1980-1985), Gest Zophonías (1989-1920) og Þuríði (1891-1964). Þegar þarna var komið sögu höfðu dæturnar gifst og flutt að heiman. Gesti var án efa ætlað að taka við búinu enda hafði hann stundað búnaðarnám við Hólaskóla. Magnús bóndi hafði sjálfur stundað búnaðarnám hjá Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal.

Magnús Zophonías GuðfinnssonMagnús Zophonías Guðfinnsson var náskyldur Gesti. Mæður þeirra voru systradætur. Magnús ólst upp á Staðarfelli og skírður í höfuð þeirra hjóna (Zophanías er sagt dregið af Soffía). 

Í minningarbók Magnúsar Friðrikssonar segir um slysið:

Húsfreyja á Harrastöðum hafði séð til ferða fólksins fram í eyjarnar um hádegið. Þegar leið á daginn, undraðist hún, að það skyldi ekki sjást í eyjunum. Bað hún þá mann sinn og son að ganga fram í nesin og vita hvort þeir sæju fólkið eða bátinn. Þá er feðgarnir komu þangað, sáu þeir, að báturinn lá í fjörunni við enda vestustu eyjunnar. En með því að á Harastöðum var enginn bátur og þeim feðgunum var kunnugt um, að ég var ekki heima, fóru þeir út að Ytrafelli, sem er næsti bær fyrir utan Harastaði. Sögðu þeir bóndanum þar, Valgeiri Björnssyni, hvernig komið væri. Valgeiri var þegar ljóst, að óhugsandi var að komast frá Ytrafelli inn í Hjalleyjar á báti, þar sem norðaustan rok var á móti. Hann vissi, að ég átti bát inni í Hjallanesi og tók því það ráð að ganga þangað, og réri síðan þaðan fram í eyjarnar. Var þá veðrinu farið að slota.

Magnús Z GuðfinnssonGestur lá í fjörunni fyrir framan bátinn. Bátsfestin var bundin um hann og hefur hann auðsjáanlega reynt að bjarga sér og félögum sínum með því að draga bátinn á sundi að eyjunni, en það hefur orðið honum ofraun, enda mikill stormur og straumur í sundinu. Auðsætt var, að hann hafði andast, eftir að kann kom úr sjónum. Andlit hans var storkið blóði og bar glögglega vitni um það. Mikill sjór var í bátnum, og lá lík Magnúsar á grúfu yfir öftustu þóttunni, hefur hann líklega liðið þar út af, er hann með einhverjum ráðum hefur verið að hjálpa fóstbróður sínum að koma bátnum að eyjunni. Þorleifi og Sigríði fundu þeir Valgeir ekki, en lík sona minna voru flutt að Harastöðum og lögð þar í stofuhús.

Þegar ég hafði hlustað á frásögnina, sté ég á bak hesti mínum og reið ofurhægt heimleiðis. Ég tók hnakkinn af hestinum og gekk svo inn til Soffíu minnar og sagði henni hvað hafði gjörst. Varð henni mjög bilt við fréttina.

Svo kom vökunótt.

Hjalleyjar eru fjórar og nefnist miðeyjan Þórishólmi en hinar eru nafnlausar á landakortum. Þær eru mjög nálægt landi, aðeins um 207 m frá Suðurnesi í vestasta hólmann. Útfiri er mikið í kringum eyjarnar og við liggur að eyjarnar tvöfaldist á fjöru. Sama er með fjörusvæðið við land.

Greinileg renna er milli lands og eyja, jafnvel á fjöru, og virðist állinn þar frekar djúpur. Rennan stefnir frá austnorðaustri í vestsuðvestur. Hjalleyjar sjást ekki frá Staðarfelli.

Þess ber að geta að á þessum tíma var ekki gerð lögregluskýrsla eða opinber skýrsla um slys utan þéttbýlis og þannig hefur það líklega verið í þessu tilviki. Frásögn Magnúsar Friðrikssonar er líklega það eina sem til er á prenti um slysið. Þó kann að vera að einhver hafi eigi skráðar minningar frá þessum degi eða bréf um atburðinn og færi fróðlegt að fá að upplýsingar um slíkt.

Magnús og Soffía á Staðarfelli áttu þrjú börn eins og áður sagði. Eldri dóttirin, Björg, átti tvö börn en þau eignuðust enga afkomendur. Yngri dóttirin, Þuríður, giftist Sigfinni Sigtryggssyni og áttu þau eina dóttur. Hún átti níu börn og eru nú afkomendur hennar orðnir um eitt hundrað og er ég einn þeirra.

Myndir

  1. Mynd af Staðarfelli og er hún líklega tekin fyrir um eitt hundrað árum.
  2. Hjalleyjar, myndin er tekin af korti Loftmynda.is.
  3. Gestur Zophonías Magnússon 
  4. Magnús Zophonías Guðfinnsson 
  5. Þorleifur Guðmundsson.
  6. Ekki hefur fundist mynd af Arndísi Sigríði.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband