Honestly með samvisku og ný andlit spreyta sig í fótbolta

Orðlof

Sakir rigningu

Það er orðið algengt að Íslendingar noti þágufallsmynd kvenkynsorða sem enda á –ing þar sem eignarfall er viðeigandi. Ég hef þegar nöldrað yfir tilhneigingunni til að spyrja spurningu í stað spurningar. Það er hreint ekki eina útbreidda dæmið um notkun þágufalls í stað eignarfalls. Sumir fresta öðrum framkvæmdum vegna byggingu hússins og fara snemma heim af útihátíð sakir rigningu.

Ég hélt að fólk væri þarna að slá saman út af því og vegna þess, þar til kona nokkur sagði mér að dóttir hennar ætlaði að safna hári fram til fermingu. Þetta er ljótt og rangt. Stúlkur ættu að safna hári fram að fermingu, eða bíða með það til fermingar að láta klippa sig ef þær vilja hafa sítt hár á fermingardaginn. Sömuleiðis ættum við að fresta ferðalagi vegna rigningar.

Kvennablaðið. Eva Hauksdóttir.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég er kominn með nóg af FIFA og öllum hinum tölvuleikjunum. Ég er líka hættur að hlusta á podköst. Núna er ég einungis tilbúinn að horfa á kvikmyndir.“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Blaðamaður fór í sóttkví. Honum leiddist eftir að hafa spilað tölvuleiki, hlustað á podköst og horft á kvikmyndir í tíu daga.

Honum hefði örugglega ekki leiðst hefði hann haft hjá sér góðar bækur. Lestur bóka er eitt hið stórkostlegasta fyrirbrigði sem til er. Og þá líður tíminn.

Verst að margt ungt fólk les ótilneytt fátt annað en textaskilaboð eða tölvupósta. Sorglegt.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Honestly með allri minni samvisku …“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Nú skal segja, nú skal segja: hvernig ungar stúlkur  tala. Nokkrar íslenskar stúlkur gerðu sér dælt við unga fótboltamenn í landsliði Englendinga. 

Þær sjá eftir öllu saman og ein þeirra skýrir mál sitt á vefnum Instagram. Hún virðist tala það sem sumir efna „ísl-ensku“, blöndu af íslensku og ensku:

  1. Honestly með allri minni samvisku …
  2. Ég þurfti að læra það the hard way að …
  3. Ég setti þetta í private storie á …

Að öðru leyti er lítið að frásögninni. Hún er svo til villulaus og snyrtileg að slettunum undanskildum. Stúlkan á örugglega framtíð fyrir sér í skrifum ef hún léti fylgdarþjónustuna lönd og leið - og sletturnar.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi.“

Frétt kl. 12.20 Ríkisútvarpinu 9.9.20.                                  

Athugasemd: Hvernig spreyta andlit sig? Íþróttafréttamenn tala stundum skrýtilega og orðavalið er ekki alltaf í samræmi við efni fréttar, stundum út í hött. 

Hér var verið að tala um frammistöðu landsliðsmanna í fótboltaleik. Vegna forfalla fengu margir að spreyta sem ekki höfðu hingað til fengið mikið að spila.

Leikurinn gengur út á að leika bolta með fótunum, ekki andlitinu. 

Tillaga: Margir nýir leikmenn fengu að spreyta sig í gærkvöldi.

4.

Viðbragðsaðilar leituðu í fjóra daga og …“

Frétt á frettabladid.is.                                   

Athugasemd: Orðið „viðbragðsaðilar“ er einkar illa samið orð því algjörlega óljóst er hverjir tilheyri þessum hópi. Þar að auki er orðið „aðilar“ ofnotað. 

Á vef CNN sem er heimild fréttarinnar segir:

Police, the Royal Air Force (RAF) and mountain rescue workers spent four days searching for the experienced hiker and a press conference was planned for Wednesday at The Tan Hill Inn, situated within the national park.

Þarna er ekki talað um „viðbragðsaðila“ aðeins lögreglu, flugherinn og björgunarsveitarmenn. 

Andlausir blaðamenn vita skrifa illa, eru hvorki gagnrýnir á eigin skrif né sinna þýðingum úr erlendum málum af þeirri kostgæfni sem nauðsynleg er. Sannast sagna er fréttin á CNN miklu fróðlegri og betri en sú íslenska. 

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni eða öðru sem það ber. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn. Ég hef komið að slysi og gerði það sem ég gat til að hjálpa. Var ég ekki „viðbragðsaðili“? Eða þarf að gefa öllum sem að slysi eða óhappi koma eitthvert samheiti? Sé ekki þörfina á því.

Tillaga: Lögreglan, flugherinn og björgunarsveitarmenn leituðu í fjóra daga og …

5.

Hvað gerðist fyrir skrifstofuna þína, maður?“

Skopmyndaserían Pondus í Fréttablaðinu 102.2.20.                                 

Athugasemd: Þarna hefur þýðandanum orðið á. Miklu betra er að nota sögnin að koma í stað gerast.

Í gamla daga voru nýliðar í blaðamennsku þvingaðir til að þýða það sem þá var kalla „skrípómyndir“. Verkefnið þótti það aumasta af öllum aumum en það var mikill misskilningur. Hvorki þarna né annars staðar í útgáfu dagblaðs má kasta til höndunum. Vera má að það sem vel er skrifað fái ekki sanngjarna viðurkenningu lesenda. Hitt gerist iðulega að lesendur gagnrýna ótæpilega þegar ekki er vandað til verka.

Svo er það hitt: Teiknimyndir í fjölmiðlum eru ekki aðeins fyrir börn. Pondus er gott dæmi um „skrípó“ fyrir fullorðna, bráðfyndinn. Börn skilja hann ekki.

Höfundur teiknimyndaseríunnar Pondus er Norðmaðurinn Frode Øverli.

Tillaga: Hvað kom fyrir skrifstofuna þína, maður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband