Hjálpaðu mér, fíflið þitt
8.8.2020 | 13:14
Ágæti lesandi. Ég skrifa pistla. Lesendur eiga ekki að senda mér skrif sín og ætlast til að ég birti þau, hvorki af góðmennskunni einni saman eða öðrum ástæðum. Ég rek ekki fjölmiðil. Sagan er samt dálítið skondin og kannski finnst fleirum það. En þetta mun ég aldrei gera aftur.
Óguð, óguð hrópaði konan upp í örvæntingu sinni og gróf hendurnar ofan í skriðuna og spyrnti við fótum en allt kom fyrir ekki. Hún seig neðar og neðar, fylgdi skriðunni sem elti þyngdaraflið. Hún kenndi til í höndunum, rispaðist á hnjánum sem hún þrýsti að grjótskriðunni sem færðist hægt nær og nær brúninni.
Óguð, óguð, hrópaði hún hærra en áður. Hún veinaði.
Já, svaraði Guð.
Röddin kom að ofan, úr regnþrungnum skýjunum. Þó var engin rigning en þegar Guð svaraði ýrði um leið úr þeim nákvæmlega þar sem konan barðist við að bjarga sér frá falli. Þegar litið er á atburðinn í samhengi gæti úðinn virst vera einhvers konar fruss. Rödd Guðs hægði þó ekki á skriðunni en nokkrir steinar duttu fram af.
Hjálpaðu mér, hrópaði konan því hún heyrði jáið, en gerði sér líklega ekki grein fyrir því við hvern hún var að tala því hún gat ekki litið upp. Það hefði þó lítið gagnast henni því Guð sást ekki. Þar af leiðandi var hann henni ósýnilegur rétt eins og röddin hefði komið frá manni af holdi og blóði. Svo er það allt annað mál hvort sá sem er í lífshættu sé einhver hjálp í því að sjá þann sem hugsanlega getur komið til bjargar.
Ég hjálpa þeim sem hjálpa sér sjálfir, svarað Guð rólega, og ekki var að finna á rödd hans að honum hefði brugðið við ákall konunnar eða þætti yfirvofandi lífsháski hennar sérstakrar athygli verður.
Hjálpaðu mér strax, æpti nú konan í örvæntingu sinni. Hjálpaðu mér, þú þarna fíflið þitt, bætti hún svo við, lítið eitt lægra. Hefðu fleiri verið viðstaddir þennan fund væri allflestir á þeirri skoðun að hún vissi alls ekki við hvern hún væri að tala. Hélt að einhver maður væri í þokunni í eða ofan við hamranna og talaði til hennar. Flestir myndu segja að svona tali maður ekki til Guðs og ekki heldur er viðeigandi að kalla verðandi bjargvætt fífl. Að minnsta kosti er það ekki hvetjandi en líklega setja fæstir það fyrir sig í æsingi augnabliksins.
Án efa hefur Guð verið kallaður verri nöfnum en fífl enda lét hann sér ekki bregða við uppnefnið. Horfði bara niður í gegnum skýin til konunnar sem hélt að nú væri næstum því öllu lokið.
Af hverju ætti ég að bjarga þér? spurði Guð. Milljónir manna eru í lífshættu víða um alheiminn, allir þarfnast hjálpar og sumir jafnvel meir en þú. Væri sjö þúsund átta hundruð og tólf manns bjargað myndi hver og einn þeirra leggja meira til mannkynsins en þú. Og raunar munu allir leggja meira til lífsins, samfélagsins og fjölskyldu sinnar en þú sem heimtar björgun og kallar björgunarmanninn fífl.
Steinn skrapp undan henni og hún æpti af skelfingu. Hægri fóturinn rann niður viðspyrnulaus á eftir steininum meðan sá vinstri var óstöðugur því skriðan hreyfðist. Langt var orðið á milli hægri og vinstri fótar og þótti henni teygjan óþægileg. Verra var að ekkert gagn var af handfestunum. Þegar hún kreisti höndum sínum saman festist aðeins sandur og grjót í greipar hennar sem gagnaðist henni jafn lítið eða mikið og hefði hún geymt hvort tveggja í vösum sínum.
Flýttu þér, veinaði konan, ég að falla.
Fallið er ekki það versta byrjaði guð, en konan greip fram í fyrir honum.
Hættu þessu hjálpaðu mér gerðu það og á eftir geturðu skotist um heiminn og hjálpa þessum þarna sjötíu þúsundum sem eru líka í hættu. Byrjaðu hérna, kjökraði hún, næstum útkulna vonar því þegar hér var komið sögu var hægri fóturinn kominn fram á bjargbrúnina. Hún fann það.
Guð horfði á örvæntingafulla konuna sem stöðugt færðist nær brúninni. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti að grípa inn í atburðarásina.
Nei. Ég velti því ekkert fyrir mér, segir Guð.
Skrifarinn hættir að hamra á lyklaborðið og lítur í kringum sig. Enginn var nærri, Bína sefur í sófanum, glugginn er lokaður.
Hann heyrði röddina aftur: Mér fannst bara konan vera frekar ókurteis og hrokafull miðað við aðstæður.
Halló, er einhvern þarna? sagði hann.
Um það má vissulega deila. Þú ert einn en samt ekki.
Þetta var sama röddin og í sögunni sem hann var að skrifa. Hann vissi það bara einhvern veginn, skildi ekki af hverju. Og röddin var í höfði hans. Hún glumdi ekki, var mild, þýð og raunar ljúf eins og koníaksglas á góðri stund, það er næsta glasið á eftir því fyrsta. Enginn nema einn gat átt hana. Nema hann væri að verða eitthvað skrýtinn. Hvort tveggja var vissulega mögulegt.
Þú hlýtur að hafa gert það annað væri ekki mannlegt, segir skrifarinn upphátt en hikandi.
Mundu, ég er ekki mannlegur, segir Guð. Bara guðlegur, bætir hann við. Skrifarinn veit að Guð brosir því brosið var bundið orðunum, fylgdi þeim. Hann fann það. Þetta var nú annars bara ágætlega skondinn orðaleikur þó ekki væri hann frumlegur.
Frumlegt eða ekki, segir Guð inni í höfði skrifarans. Vegir Guðs eru órannsakanlegir, segir ekki svo?
Jú, en ég veit ekkert um það, segir skrifarinn, hugsi. Má vera að þetta séu einhver biblíuleg orð sem virka gáfuleg en hafa ekkert innihald eða merkingu. Bara svo tal sem lætur manni líða þokkalega vel en hvetur ekki til neinnar hugsunar eða pælingar. Það er fullt af svona í vellíðunarbókum á öllum tungumálum.
Rétt hjá þér, segir Guð, og virðist dálítið hugsi. Að minnsta kosti finnst skrifaranum röddin gefa það til kynna, en hann sá engan.
Þetta var annars nokkuð gott hjá þér, segir Guð.
Skrifarinn grípur bók og fletti upp í henni. Ýtti henni frá sér og tók aðra og flettir upp á atriðaorðaskránni og fann tilvitnunina.
Aha segir skrifarinn, hróðugur. Ég vissi það. Þetta er algengur málsháttur í Biblíunni. Og þarna stendur líka að Guðs dómar séu leyndir. Allt er þetta til þess að mata okkur, koma í veg fyrir að við efumst, leitum sannleikans. Allt sem tengist Guði á að vera í felum. Bara útvaldir eiga að skilja og svo vita þeir ekkert frekar en við hinir. Þetta er bara tal, merkingarlaust tal.
Alveg rétt hjá þér, segir Guð aftur. Þú ert bara mannlegur, rétt eins og þeir sem skrifuðu þetta.
Hvað áttu við? spurði skrifarinn opinmynntur. Það varst þú sem sagðir að vegir Guðs væru órannsakanlegir.
Það gerði ég ekki, mótmælti Guð, nema þarna áður. Þá spurði ég þig. Ef þú manst það ekki getum við alltaf endurtekið þetta.
Skrifarinn hugsaði sig um. Hann horfði á bókina fyrir framan sig og síðan á skjáinn. Hvenær í ósköpunum hefur það gerst í gjörvallri tilverunni að Guð deili við mann, rökræði við hann. Þetta er alveg magnað, hugsaði hann.
Já, já, segir Guð. Spurðu bara.
Sko, Biblían
Já, hún er gömul. Margt gamalt er gott, annað ekki. Væri ég höfundurinn mynd ég vilja færa ýmislegt í nútímahorf.
Hverjum dettur til dæmis í hug að hafa marga guði? segir skrifarinn, og gúgglaði boðorðin tíu. Hann les upphátt: Eða taka sér frí á sunnudögum? Eða drýgja hór? Og svo er það þetta: Á maður þjón eða þernu. Ertu virkilega að mæla með þrælahaldi. Hver getur átt annan mann?
Allir menn eru frjálsir. Á dögum Móses var það ekki svoleiðis, segir Guð.
Sem sagt samfélagið var skipulagt og til að viðhalda því þurfti að búa til reglur sem
Hvað þá með konuna sem var að falli komin? Þú bjargaðir henni vegna þess að þú hafðir hugsað um það. Öll rök benda til þess. Hvers vegna að bjarga henni en ekki þessum Skrifarinn tók sér andartaks hlé á frammígripi sínu og reyndi að muna fjöldann sem Guð hafði nefnt nokkrum mínútum áður.
Sjö þúsund átta hundruð og tólf manns, skaut Guð að skrifaranum.
Já, ég var næstum kominn með töluna. Og hvað með alla hina sem dóu drottni sínum eins og sagt er? Deyr fólk virkilega þín vegna?
Allir þessir sjö þúsund átta hundruð og tólf mann lifa, þeim var líka bjargað frá dauða; eldsvoða, árás, náttúruhamförum, drukknun, umferðaslysum, eiturslöngum, matareitrun, ísbirni, voðaskoti og öðru álíka. Ég gæti talið upp allt þetta. Já, sagt er að fólk deyi mín vegna. Auðvitað er það tómur misskilningur. Fólk deyr sjálft, algjörlega án minnar hjálpar.
Sem sagt þú bjargar þessum sjö þúsund átta hundruð og tólf manns sem voru fremri henni Bínu af öllu gjörvileika og ábyggilega eru enn fleiri sem eru henni fremri sem þó munu deyja. Hvers vegna?
Skrifarinn snýr sér við í stólnum og horfir úr litlu kompunni sinn og inn í stofu þar sem Bína liggur endilöng í sófanum. Hún sefur. Örþreytt eftir fjallgönguna.
Þetta var bara einn af þessum dögum, segir Guð, og brosir inni í höfðinu á skrifaranum. Stundum gerir maður bara eitthvað óskiljanlegt sem skýrist bara af stundinni, því stuði sem maður er í hverju sinni. Þetta var einhvers konar viðbragð, rétt eins og þegar þú grípur bolta sem kastað er til þín eða berð fyrir þig hendurnar þegar þér er ógnað.
Já, segir skrifarinn, og veltir orðunum fyrir sér. Samt skil ég ekki. Vegir guðs eru órannsakanlegir, það sem er guðlegt er fjarri því að líkjast mannlegri hugsun. Bína rennur fram af brúninni, æpir af ótta, er viti sínu fjær og hún fellur, fellur og fellur niður í hlíðina fyrir neðan. Veistu hvaða áhrif þetta hefur á sálarlíf hennar? Fallið sjálft? Hún þarf að fara áfallastreitumeðferð, ganga til sálfræðings og heimilislífið hjá okkur verður lamað í langan tíma.
Nei, nei. Láttu ekki svona, segir Guð. Lendingin var mjúk og hún skaðaðist ekki
Nei, ekki líkamlega. Andlega er hún algjört flak, hrópaði skrifarinn. Það er ekkert grín að detta og halda að síðasta stundin sé upp runnin.
Bína bylti sér í sófanum og reisir sig hálfa leiðina upp en fell svo aftur niður án þess að opna augun.
Minn kæri, segir Guð. Hún mun ekki muna eftir þessu, allt er gleymt, allt er gott. Engin eftirköst.
En, en, en Hún sagði mér alla sólarsöguna rétt áðan, þegar hún kom heim. Ég var að skrifa hana niður þegar þú greipst fram í fyrir mér hérna áðan, þarna á blaðsíðu tvö.
Já, ég hefði líklega ekki átt að skipta mér af skrifunum þínum. En þetta er bara einn af þessum dögum, eins og ég sagði áðan. Óskiljanlegur, jafnvel mér. Stundum geri ég svona og sé sjaldnast eftir því. Þetta er eiginlega bara svolítið tómstundargaman. Hvernig heldurðu að það sé að vera önnum kafinn alla daga og eiga ekkert andartaks hlé, fá jafnvel ekki kaffipásu. Eitthvað verður maður að fá að gera svona fyrir utan skyldustörfin.
Skrifarinn velti fyrir hvernig hann ætti að orða hugsun sína án þess að móðga drottinn allsherjar
Þú ætlar að segja að eftir allt saman sé ég bara dálítið mannlegur. Ekki satt? Og Guð brosir aftur í höfði skrifarans.
Jú, líklega. En þú mættir nú oftar grípa inn í hjá okkur, þessum mannlegu.
Má vera. Passaðu þig þá á stiganum á leiðinni niður, segir Guð, og hverfur úr höfði mannsins.
Hvaða fjallgöngu? spurði Bína, og horfði rannsakandi í augun skrifaranum á spítalanum. Ég hef ekki lengi farið á fjöll. Bull er þetta í þér, asninn þinn.
Víst fórstu síðasta sunnudag, fullyrti skrifarinn. Þú sagði mér frá því. Lentir í skriðunni, rannst með henni fram af bjargbrúninni, hrapaðir en lifðir það af. Þú sagðist hafa lent mjúklega. Og Guð bjargaði þér, ég talaði við hann. Ég skrifaði þetta allt niður eftir þér og honum.
Þú hefur aldrei trúð á guð. Nú þarftu bara gifs á hausinn á þér, asni. Bína leit af skrifaranum og á hjúkrunarfræðinginn og sjúkraliðann sem settu hvert lagið af blautu gifsi á vinstri fót skrifarans. Þeir þóttust ekki hafa heyrt neitt
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.