Ákvarðanatökuvettvangur, innangengnar rútur og víða og víða

Orðlof

Galmaströnd

Nokkur örnefni með stofninum gálm- (upphaflega galm-) eru til á landinu eða við það. 

Fyrst er að nefna örnefnið Gálmur sem er blindsker út frá landi Hafnar í Borgarfirði eystra í N-Múl. 

Þekktast er nafnið Gálmaströnd sem er a.m.k. á tveimur stöðum á landinu: 

    1. Í landi Þorpa við sunnanverðan Steingrímsfjörð í Strand. 
    2. Vesturströnd Eyjafjarðar milli Hörgár og Arnarnesvíkur, upphaflega Galmaströnd en Árni Magnússon og Páll Vídalín kalla hana Galmansströnd eða Kalemansströnd (Jarðabók X:113). 

Gálmatunga er grunn tungulaga lægð í landi Hafnar í Þingeyrarhr. í V-Ís. 

Í nöfnunum Galmagerði og Gálmastaðir, sem voru forn eyðiból undir Kambhóli í Eyjafirði, er orðið að finna, en í jarðabókinni eru þeir einnig nefndir Kalemansstaðir (X:116). 

Bærinn Kalmanstjörn í Höfnum í Gull. hefur líka borið nafnið Gálmatjörn eða Galmatjörn. 

Ekki er ljóst hvernig ber að túlka Kalman eða Kaleman í þessum nöfnum og er líklegt að átt sé við mannsnafnið Kalman sem síðari tíma aflögun gamla stofnsins galm-.

Merking nafnliðarins er ekki fullljós, en orðið gálm eða gálma kv. eða gálmi, gálmur kk. er til í merk. ’snurða á þræði, ójafna, bugða, geifla’,hóll á vef eða þvílíkt, og merking nafnsins Gálmaströnd þá e.t.v. óregluleg, bugðótt strönd. Orðið er e.t.v. skylt gelmir í hellisnafninu Víðgelmir sem merkti þá hinn víði með afkimum og útskotum’.

Árnastofnun, nafnfræðipistlar. Svavar Sigmundsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ákvarðanafælni

Bakþankar í Fréttablaðinu.                                   

Athugasemd: Hann talar um ákvarðanafælni, sá ritfæri maður sem skrifar pistilinn. Athygli verkur að hann talar ekki um „ákvarðanatökufælni“ sem er auðvitað orðleysa, ef svo má segja. 

Fjöldi fólks, meðal annars forsætisráðherra og fleiri úr ríkisstjórninni, tala sínkt og heilagt um „ákvarðanatöku“. Orðið er umbreyting á orðalaginu að taka ákvörðun.

Ákvörðun er nafnorð og sögnin er að ákveða. Engu að síður eru ráðherrar með fjölda aðstoðarmanna sem halda að „ákvarðanataka“ sé bara hið besta orð.

Stundum finnst manni það með ólíkindum að hnoðarar í skrifum og ræðum skuli ekki hafa fundið upp rassböguna „ákvarðanatökufælni“ sem væri líklega eftir öllu.

Stjórnmálafræðingur nefndi í fjölmiðlum fyrir rúmu ári að Evrópuþing ESB væri „ákvarðanatökuvettvangur“ og þar lægi „ákvarðanatökuvaldið“.

Þeir sem ekki hafa þjálfast í skrifum finnst svo fínt að skrifa svokallað stofnanamál. Þeir halda að með tíðri notkun nafnorða liggi galdurinn. Þannig fólk er hrifið af þessum orðum.

  • „ákvarðanataka“
  • „ákvarðanatökufælni“
  • „ákvarðanatökuvettvangur“
  • „ákvarðanatökuvald“

Við hin þurfum að gæta okkar á nafnorðabullinu. Það síast inn hjá manni.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Ferðamenn streyma til landsins eins og rigningin sem féll í stríðum straumum á þessa ágætu ferðamenn.“

Myndatexti á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 5.8.20.                                   

Athugasemd: Þetta er þokkaleg tilraun til að vera skáldlegur ef ekki væri fyrir nástöðuna. Reynum samt að forðast nástöðu og þá er reglan er þessi: Ekki endurtaka sama orðið tvisvar í einni málsgrein. 

Getur verið að rigningin hafi „fallið í stríðum straumum“? Vatn rennur í stríðum straumum, það vitum við.

Loks má íhuga hvort alltaf þurfi að setja myndatexta með öllum myndum. Ber enginn á ritstjórninni skynbragð á góðan texta og lélegan? 

TillagaEngin tillaga.

3.

„Verslunin er samsett af fjórum innangengum skólarútum.“

Myndatexti á baksíðu Morgunblaðsins 5.8.20.                                   

Athugasemd: Hvers konar rúta er „innangengin“? Er átt við að hægt sé að ganga inn í hana eða ganga inni í henni? Hvort tveggja mun vera hægt en orðið „innangenginn“ skilst samt ekki og ég held að það sé ekki til. 

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Þjálfarinn Hendrik Vieth og knattspyrnumaðurinn Arne Maier voru kampakátir á æfingu hjá þýska liðinu Hertha Berlín í sólinni gær.“

Myndatexti á „Sport“ síðu Fréttablaðsins.                                  

Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir kampakátur að vera glaður og hreykinn í senn. Af myndinni að dæma eru mennirnir tveir bara glaðlegir, líklega kátir. Varla kampakátir því ekkert tilefni er til þess.

Tillaga: Þjálfarinn Hendrik Vieth og knattspyrnumaðurinn Arne Maier voru glaðlegir á æfingu hjá þýska liðinu Hertha Berlín í sólinni gær.

5.

„Það er áhuga­vert að sjá að þessi sama und­ir­teg­und af veirunni hafi náð að dreifa sér mjög víða og skýt­ur upp koll­in­um víða …“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Blaðamaðurinn byrjar að skrifa en veit ekkert hvernig. Í fyrirsögninni segir:

Sama und­ir­teg­und náð að dreifa sér víða.

Í upphafi fréttarinnar segir:

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir seg­ir aðspurður að það sé áhyggju­efni að kór­ónu­veir­an hafi ná nýj­an leik náð að dreifa sér til allra landsfjórðunga.

Eftir millifyrirsögn segir í fréttinni:

Þórólf­ur seg­ir skýr­ing­ar á því að und­ir­teg­und­in hafi náð að dreifa sér mjög víða … 

Og í lok fréttarinnar segir:

Mér finnst það ekki vera stóra málið í þessu en það er vissu­lega rétt að hún er dreifð um landið.

Þetta er víðáttuvitlaus frétt. Blaðamaðurinn tönglast á sama atriðinu með mismunandi orðalagi. „Veran hefur dreifst víða“ og „veiran hefur dreifst um landið“.

Svona „frétt“ stendur ekki undir nafni. Ég velti því fyrir mér hvort enginn lesi yfir fréttir blaðamanna. Til hvers eru vaktstjórar, ritstjórnarfulltrúar og ritstjórar?

Tillaga: Athyglisvert er að sama und­ir­teg­und af veirunni hefur dreifst mjög víða


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband